Hamfaraheimskort

Þó að við hér á Íslandi búum við mikinn fjölbreytileika í náttúruhamförum þá eru þær hamfarir sem betur fer ekki mjög dramatískar á heimsmælivarða. Til að skoða það betur þá hef ég gert hér tilraun til að kortleggja náttúruhamfarir heimsins til að sjá við hverju má búast hér og þar. Útkoman er kortið hér að neðan sem gæti kallast hamfaraheimskort og er í stíl við hamfarkortið af Íslandi sem ég útbjó á sínum tíma. Greinilegt er að sum svæði verða fyrir meira aðkasti en önnur. Í Bandaríkjunum og Suðaustur-Asíu eru til dæmis varla pláss fyrir allar uppákomurnar á meðan önnur svæði eru nánast auð. Það má skipta flestum náttúruhamförum í tvo meginflokka: veðurfarslegar hamfarir og jarðfræðilegar. Fjölmennustu svæði jarðar eru auðvitað viðkvæmari fyrir duttlungum náttúrunnar en þau fámennari og svo skiptir ríkidæmi líka máli því mesta manntjónið verður iðulega í fátækari löndunum á meðan eignatjónið er mest í hinum ríkari löndum. Katastrófur kallast svo það þegar mikið manntjón auk eignatjóns verður í hinum ríkari og þróuðu löndum. En hér er kortið – nánari útlistun er svo fyrir neðan.

Hamfaraheimskort

Nánari útlistun: Eldgos geta valdið miklu tjóni í nánasta umhverfi en þau stærstu geta valdið gríðarlegum hamförum og jafnvel kælt loftslag á allri jörðinni tímabundið. Eldvirkustu svæðin eru flest bundin við flekaskil þar sem úthafsfleki fer undir meginland t.d. allt í kring um Kyrrahafið. Indónesía blandast þarna inn í en er alveg sér á parti þegar kemur að eldvirkni. Í Evrópu er gýs aðallega á Ítalíu auk Íslands. Nokkur eldvirkni er við sigdalinn í Afríku þar sem álfan er að byrja að klofna og svo eru einstaka heitur reitur inná meginflekunum. Við flekaskil þar sem tveir meginlandsflekar koma saman er oft bara um jarðskjálfta að ræða eins og Himalayjafjölllum. Gjörvallur Kyrrahafshringurinn framkallar einnig mikla jarðskjálfta og í þeim stærstu á Kyrrahafi og Indlandshafi er hætt við hamfaraflóðbylgjum í stíl við það sem íbúar Asíu hafa fengið að kynnast í tvígang á þessari öld. Slíkar skjálftaflóðbylgjur verða ekki á Atlantshafinu enda er botn Atlantshafsins að gliðna um hrygginn suður eftir öllu hafinu í frekar rólegu ferli, nema kannski hér á Íslandi þar sem hryggurinn liggur ofansjávar. Á fjöllóttum svæðum geta skriður gert mikinn usla í rigningartíð og þurrkað út heilu þorpin. Af veðurfarslegum fyrirbærum er annars af nógu að taka en þar fá fellibyljirnir í Ameríku mesta athygli, sérstaklega ef þeir nálgast Bandaríkin. Annað og kannski öllu meira fellibyljasvæði er vestast í Kyrrahafinu þar sem lætin skella á löndum Austur-Asíu. Minni hitabeltisstormar eru á víð og dreif sitt hvoru megin miðbaugs og svo þekkjum við vel styrk vetrarstormanna hér á norðanverðu Atlantshafi. Merkilegt er annars að sunnanvert Atlantshaf er alveg laust við fellibylji enda fréttum við ekki af fellibyljum í Argentínu og Brasilíu. Hafísinn merki ég inn hér norður af landi. Hann er þó kannski úr sögunni sem vandamál en þó er aldrei að vita. Hitabylgjur og kuldaköst verða helst á tempruðum svæðum þar sem stutt er bæði í kalt og hlýtt loft. Hinsvegar tekur fólk hitabylgjum fagnandi á kaldari norðlægum slóðum enda verða þær sjaldnast til vandræða þar. Kuldaköstin geta þó teygt sig nokkuð langt suður eftir Asíu að vetralagi og sama má segja um hitabylgjur að sumarlagi. Flóð geta einnig víða valdið usla eins og t.d. í Pakistan, Kína og víðar í Asíu. Bandaríkjamenn, Evrópubúar og Ástralir þurfa einnig að kljást við flóð þegar regnið fer úr böndunum en svo eru þurrkarnir oft öllu verri á sömu slóðum ekki síst þegar uppskeran er í húfi. Á því hafa íbúar austur Afríku oft fengið að kenna en þar er öll afkoma fólksins beinlínis háð hinu hárfína sambandi regns og þurrka. Önnur afleiðing þurrka utan eyðimarka eru svo skógareldarnir sem eiga það til að fara úr böndunum og nálgast íbúðabyggðir, jafnvel heimkynni fræga fólksins í Hollywood. Bandaríkinn eru einnig land skýstrókanna en lítið fréttist af þeim annarstaðar. Fyrir utan jarð- og veðurhamfarir má svo auðvitað nefna engisprettufaraldinn sem getur eyðilagt uppskeruna á stórum landsvæðum í heitu löndunum. Engisprettur falla sennilega í hamfarahópinn sem gæti kallast meindýr, plágur og óargadýr en ég fer ekki nánar út það hér. Ekki fer ég heldur út í þá tegund hamfara sem mannskepnan stendur fyrir sjálf í friði og ófriði. Það kallar á alveg sérstaka kortagerð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://hisz.rsoe.hu/alertmap/index2.php

svo er þetta hér í beinni. 

E (IP-tala skráð) 11.11.2012 kl. 09:20

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Jörðin er lifandi og það má máta þessa atburði við kortið mitt hér að ofan.

Erlent | 11.11.2012 | 19:48
Öflugur jarðskjálfti upp á 6,8 stig reið yfir Myanmar í dag með þeim afleiðingum að 13 létu lífið og tugir slösuðust. Mikil ótti skapaðist í borginni Mandalay samkvæmt frétt AFP.
Erlent | 11.11.2012 | 22:55:
Öflugur jarðskjálfti upp á 6,2 stig varð út af Kyrrahafsströnd Gvatemala í dag aðeins nokkrum dögum eftir að annar skjálfti olli dauða 42 manna á sama svæði.
mbl | 11.11.2012 | 17:26:
Varað er við óveðri í nótt og á morgun samkvæmt nýrri veðurspá Veðurstofu Íslands og hafa Almannavarnir sent sér tilkynningu þar sem íbúar landsins, einkum á Suður- og Vesturlandi, eru hvattir til þess að veita spánni athygli.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.11.2012 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband