8.6.2013 | 22:19
Art Deco - millistríðsárastíllinn
Tíska og stílbrögð endurspegla tíðaranda hvers tíma. Uppgangstímar einkennast að framfarasinnuðum og framtíðarlegum tíðaranda en þegar upp koma efasemdir um hvort gengið sé til góðs, sprettur rómantíkin fram og með henni ýmis fortíðarþrá og nostalgía. Þegar búið var að skakka leikinn með fyrri heimstyrjöldinni var kominn tími á að kveðja gömlu dagana með einhverju alveg nýju og flottu sem hæfði vel þeim vélvæddu uppgangstímum sem þá tóku við. Art Deco stíllinn féll vel að þessum nýja tíðaranda en upphaf hans er oftast rakið til heimsýningarinnar í París 1925 (Exposition internationale des arts décoratifs et industriels modernes) þar sem hinn nýi skreytistíll, Art Deco, var kynntur til sögunnar og náði hann til allra þátta hönnunar og þá sérstaklega til byggingarlistar og innréttinga allskonar.
Með Art Deco var horfið frá hinum lífrænu og skrautlegu formum Art Nouveau stílsins sem mjög var í tísku upp úr aldamótunum 1900. Það sem við tók var öllu formhreinna og umfram allt tignarlegra. Horn þurftu þó ekki endilega að vera hornrétt og rúnnuð horn gátu alveg gengið á réttum stöðum. Klassísk miðjusetning, eða symmetría, er líka eitt af einkennum Art Deco ásamt lóðréttum línum, enda er þetta upphafinn stíll, ekki ósvipað gömlu klassíkinni. Að þessu leyti er Art Deco ólíkur fúnkí-stílnum sem var mun strangari og bannaði allt skraut, og miðjusetta upphafningu.
Art Deco stílinn má alveg sérstaklega tengja við uppgangstímana í Bandaríkjunum enda urðu menn þar stöðugt ríkari og mikið þurfti að byggja, ekki síst upp í loftið. Chrysler byggingin sem reis á árunum 1928-1930 er fræg fyrir turnspíru sína í ekta Art Deco stíl. Styttan hennar Nínu Sæmundsdóttur fyrir utan Waldorf Astoria hótelið í New York er líka alveg í þessum anda, þannig að við eigum okkar fulltrúa. Tamara de Lempicka er ekki alþekkt nafn en málverk hennar sjást oft og víða og sýna þau á hálf-kúbískan, glamúrlegan hátt, velkjólaðar glæsikonur og menn í fínum frökkum. Við sjáum líka fyrir fyrir okkur fínheitin í Hollywood þar sem kvikmyndaiðnaðurinn blómstraði undir Art Deco stílnum og einnig villurnar og hótelin meðfram litríkum strandgötunum í Flórída. En eins og gengur þá fer tíska úr tísku og ný tíska tekur við. Art Deco fínheitin lifðu af nokkurn vegin kreppuárin en voru dálítið farin að blandast þjóðernisrómantíkum stefnum og ungmennafélagsandanum sem einkenndi árin fyrir seinna stríð, en að því stríði loknu var aftur kominn nýr heimur sem kallaði á nýtt framsækið lúkk.
Art Deco stíllinn barst auðvitað til Íslands og arkitektar, hönnuðir og listamenn urðu fyrir sínum áhrifum meðvitað og ómeðvitað. Innréttingarnar í Hótel Borg hafa nýlega verið endurnýjaðar og færðar til fyrra horfs í ekta Art Deco stíl. Eina húsið í Reykjavík sem algerlega er sagt vera í Art Deco stíl er stóra húsið við Hlemm sem meðal annars hýsti hér áður Útvegsbanka og Náttúrugripasafnið. Byggingin, sem annars hefur lítið fengið að njóta sín, er alveg symmetrísk með rúnnuðum hornum, marglitum glerskreytingum á svölum og lóðréttum stuðlum sem allt er mjög í anda Art Deco. Á ljósmynd sem ég tók af húsinu úr fjarlægð má einnig sjá turn Þjóðleikhússins og ekki annað að sjá en að talsverður útlitslegur skyldleiki sé þar á milli. Guðjón Samúelsson og stuðlabergsstíllinn hans er þannig greinilega undir áhrifum af þessum innflutta stíl. Þetta má einnig sjá af fleiri byggingum Guðjóns eins og Laugarneskirkju, Háskólanum og jafnvel Hallgrímskirkju. Þannig er það nú með alþjóðlegar tískusveiflur - þær eiga það til að smeygja sér víða.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Þetta var skemmtilegt, bíð eftir næsta stíl. Kveðja Sverrir
Sverrir Björnsson (IP-tala skráð) 13.6.2013 kl. 19:40
Að vísu er þetta stíll númer tvö því fyrir nokkrum mánuðum var Art Nouveau stíllinn tekinn fyrir.
Sjá hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1281879/
Fleir stílar eru væntanlegir síðar en ómögulegt er að segja hvenær.
Emil Hannes Valgeirsson, 13.6.2013 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.