6.9.2013 | 22:27
Pása í hlýnun jarðar
Eins og venjulega þegar ég skrifa eitthvað um hlýnun jarðar þá ætla ég að beina sjónum mínum aðallega að sjónum. Tilefnið að þessu sinni er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birtist í tímaritinu Nature þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að kaldari yfirborðssjór á austurhluta, miðbaugssvæðis Kyrrahafsins, sé aðallástæðan fyrir þeirri stöðnun sem orðið hefur á hlýnun jarðar það sem af þessari öld. Svæðið sem um ræðir er þar sem hinar svokölluðu ENSO sveiflur eiga sér stað en þær samanstanda af hinu hlýja El-Nino ástandi og kaldari La-Nina. Þessi kólnun yfirborðssjávar við miðbaugssvæði Kyrrahafsins einkennist af því að þá leitar kaldur djúpsjór upp til yfirborðs í auknum mæli, öfugt við það þegar El-Nino ræður ríkjum en þá snardregur úr þessu uppstreymi og yfirborð sjávar hlýnar. Þetta hefur síðan áhrif á hitastig jarðar í heild: La-Nina kælir, El-Nino vermir.
Umrædd grein nefnist Recent global-warming hiatus tied to equatorial Pacific surface cooling og segir þar meðal annars: "Our results show that the current hiatus is part of natural climate variability, tied specifically to a La-Niña-like decadal cooling. Although similar decadal hiatus events may occur in the future, the multi-decadal warming trend is very likely to continue with greenhouse gas increase." http://www.nature.com/nature/journal/vaop/ncurrent/full/nature12534.html
Það er varla umdeilt að lítið eða ekkert hefur hlýnað á jörðu síðastliðin 10-15 ár þrátt fyrir síaukið magn CO2 í andrúmslofti auk þess sem þessi stöðnun er ekki í samræmi við það sem spár gerðu ráð fyrir um síðustu aldamót. Með hverju ári sem líður án þess að hægt sé að sýna fram á að hlýnun sé í gangi, verður erfiðara að sannfæra fólk um hina margumtöluðu hlýnun jarðar af mannavöldum. Þó verður að hafa í huga að öll ár þessarar aldar hafa verið mjög hlý á jörðinni og ekkert sem bendir til kólnunar eins og er. Það er hinsvegar þessi vöntun á hlýnun frá aldamótum sem um er að ræða.
Kenningar um áratugafasa í Kyrrahafinu og eru ekki alveg nýjar af nálinni því ýmsir hafa haldið því fram að þetta sé ein af veigamestu ástæðum þess að hitastig jarðar sveiflast, ekki bara frá ári til árs heldur einmitt líka á áratugaskala. Til marks um það þá hafði einmitt hlýtt El-Nino ástand oftar yfirhöndina á Kyrrahafinu á árunum 1977-1998 á sama tíma og hlýnun jarðar tók mikinn kipp. Nokkra áratugi þar áður fór hiti jarðar heldur kólnandi, enda svipað Kyrrahafsástand uppi og nú er þar sem hinn kalda La-Nina hefur oftar yfirhöndina. Sjálfur skrifaði ég upphaflega um þetta atriði í maí 2008 og hef gert nokkrum sinnum síðar og ósjaldan minnst einnig á áratugafyrirbærið PDO (Pacific Degatal Oscilation) sem tengist þessu með einum eða öðrum hætti. Ég kippi mér því ekki upp við niðurstöður umræddrar rannsóknar og á jafnframt ekkert sérstaklega von á að meðalhitastig jarðar hækki fyrr en einhverntíma á næsta áratug eða jafnvel síðar þegar hlýi fasinn fer í gang á ný. Hlý ár geta þó alveg komin inn á milli og metár í hitafari jarðar er alls ekki útilokað á næstunni ef hið hlýja El Nino ástand nær sér almennilega á strik á milli á þess sem kaldi fasinn ræður annars ríkjum. Sjá t.d. hér: Er hlýnun jarðar komin í pásu? frá 6. maí 2008. http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/527773/
Það sem gæti hafa breyst nú, frá því sem áður var, er að í stað þess að loftslag kólni á jörðinni þau 20-30 á sem kaldi fasinn ríkir á Kyrrahafi, þá stendur hitinn í stað sem gæti þýtt að undirliggjandi hlýnun jarðar vegi kólnunina upp. Að sama skapi eykst hlýnunin þegar hlýi fasinn á Kyrrahafinu er ríkjandi eins og var á árunum 1977-1998. Sú mikla hlýnun sem þá átti sér stað hefur því allavega að hluta til verið náttúrulega uppsveifla en ekki eingöngu af mannavöldum eins og oft var haldið fram. Spádómar um framtíðarhlýnun gætu hinsvegar hafa smitast af þessari miklu hlýnun áranna 1976-1998 enda tóku menn þá Kyrrhafssveiflurnar ekki með í reikninginn. Að sama skapi töldu jafnvel einhverjir á áttunda áratugnum að ný ísöld væri yfirvofandi enda hafði þá lítillega kólnað á jörðinni frá stríðslokum á sama tíma og Kyrrahafið var í sínum kalda fasa - eins og í dag þegar ýmsir auglýsa eftir hinni meintu hlýnun jarðar.
Þrátt fyrir þessa kólnun í Kyrrahafinu er ekki svo að höfin í heild séu kaldari en venjulega um þessar mundir. Þetta sem hér um ræðir snýst eingöngu um yfirborðssjó á hluta Kyrrahafsins á svæði sem þekur einungis 8,2% af yfirborði jarðar. Með auknu uppstreymi kaldsjávar undan vesturströndum Mið-Ameríku, ætti niðurstreymi yfirborðssjávar nefnilega að aukast annarsstaðar. Mælingar hafa enda sýnt fram á að í takt við aukna lóðrétta blöndum sjávar eru undirdjúpin að hlýna í auknum mæli og þar gæti verið fundinn hin eftirlýsta hlýnun jarðar. Sbr. þetta hér: Oceans continue to warm, especially the deeps http://arstechnica.com/science/2013/04/oceans-continue-to-warm-especially-the-deeps/
Sé það í gangi, að hlýnun jarðar fari á áratugalöngum tímabilum aðallega í að verma hin köldu undirdjúp, má velta vöngum og efast um að hin margumtalaða hlýnun jarðar sé eins hröð og eins mikið bráðatilfelli og áður var talið. Hinsvegar gæti hlýnunin haldið áfram með hléum í langan tíma og að sama skapi gæti hitaflensan orðið langvinnari en ella og ganga seint til baka enda eru úthöfin íhaldssöm og lengi að bregðast við.- - - -
Í framhaldi af þessu er alltaf klassískt að minnast á það sem gæti verið á ferðinni á okkar sjávarslóðum sem einkennast af aðstreymi selturíks hlýsjávar sem kólnar og sekkur er hann mætir eðlisléttari og seltuminni kaldsjó að norðan. Í þessu gæti einnig verið um áratugasveiflu að ræða. Mjög hlýtt hefur verið hér á landi frá aldamótum, sjávarhiti hefur einnig verið mikill og jöklar og hafís á norðurslóðum talsvert látið á sjá. Ef þarna er á ferð áratugasveifla eins og í Kyrrahafinu gæti ástandið gengið til baka að hluta til. Við höfum einmitt dæmi um það frá síðustu öld. Uppsveiflan hér í Norður-Atlantshafi fylgir ekki stóru Kyrrahafssveiflunni en ómögulegt er að segja hvenær kalda ástandið leggst hér yfir - ef það þá gerist. Gerist það má búast við kólnun upp á svona 1 gráðu svo maður nefni eitthvað, einnig kaldari yfirborðssjó og auknum hafís hér við land og á Norður-Íshafi. Kannski gerist það einmitt þegar nýbúið verður að opna umskipunarhöfnina miklu í Finnaflóa. Menn þurfa þó ekki að örvænta alveg, svo maður haldi vangaveltum áfram, því það kuldatímabil verður væntanlega ekki eins slæmt og það síðasta enda vegur hlýnun jarðar á móti. Seinni hluta þessarar aldar tæki svo nýtt hlýindatímabil við hér á norðurslóðum og þá munu ísar og jöklar bráðna sem aldrei fyrr. Aftur má vitna í eldri eigin bloggfærslu: Er hlýnun á Íslandi hluti af náttúrulegri sveiflu? http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/818347
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:31 | Facebook
Athugasemdir
Sérlegur gestapenni loftslag.is fer hér á kostum:
"...sem gæti hafa breyst nú, frá því sem áður var, er að í stað þess að loftslag kólni á jörðinni þau 20-30 á sem kaldi fasinn ríkir á Kyrrahafi, þá stendur hitinn í stað sem gæti þýtt að undirliggjandi hlýnun jarðar vegi kólnunina upp. (vinsamlegast takið eftir þessu u n d i r l i g g j a n d i hlýnun!)
Mælingar hafa enda sýnt fram á að í takt við aukna lóðrétta blöndum sjávar eru undirdjúpin að hlýna í auknum mæli og þar gæti verið fundinn hin eftirlýsta hlýnun jarðar. (Eureka! Hnatthlýnun af manna völdum er vandlega falin í undirdjúpunum!)
Hinsvegar gæti hlýnunin haldið áfram með hléum í langan tíma og að sama skapi gæti hitaflensan orðið langvinnari en ella og ganga seint til baka enda eru úthöfin íhaldssöm og lengi að bregðast við. (Les: Við þurfum að vera sérlega þolinmóð og bíða áratugum saman eftir óðahlýnuninni!)
Menn þurfa þó ekki að örvænta alveg, svo maður haldi vangaveltum áfram, því það kuldatímabil verður væntanlega ekki eins slæmt og það síðasta enda vegur hlýnun jarðar á móti. Seinni hluta þessarar aldar tæki svo nýtt hlýindatímabil við hér á norðurslóðum og þá munu ísar og jöklar bráðna sem aldrei fyrr. (Les: Í fyllingu tímans munu spádómar kolefniskirkjunnar um hnatthlýnun af manna völdum rætast og þá verða sko voðalegar hamfarir á jörðu!)
Eins og höfundur getur um í upplýsingum um menntun og hæfileika sína á sviði loftslagsvísinda þá er hann sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur - reyndar má bæta við að höfundur er einnig einlægur fylgismaður kolefnistrúarbragðanna og predikar kenningar þeirra af undirliggjandi ástríðu.
Reyndar sýnir þetta pásublogg EHV fram á vanda kolefniskirkjunnar um þessar mundir. Fylgismenn bullvísindanna hafa hrakist úr einu víginu í annað undanfarin ár í örvæntingarfullri tilraun sinni til að sannfæra almenning um réttmæti þess að greiða skatta og ofurtolla á upplognum forsendum.
Fyrst voru jöklar Himalayafjalla að bráðna, sem reyndist auðvitað lygi. Svo var óðahlýnun í gangi í heiminum með meintum skelfilegum afleiðingum, sem reyndist auðvitað blekking. Meira að segja EHV viðurkennir að e n g i n hlýnun hafi átt sér stað sl. 15 ár - þvert á kenningar kolefniskirkjunnar.
Þá var komið að meintri skelfilegri bræðslu hafíss og jökla á Norður- og Suðurpól. Fyrst var það Grænland sem var að bráðna í frumeindir. Stóra bræðslan þar reyndist svo vera vísindalega þekkt 150 ára sveifla í náttúrunni. Þá var komið að Suðurpólnum og Al Gore bauð forseta vorum ORG í sérlega mörgæsaskoðunarferð til að upplifa alla bræðsluna. Auðvitað reyndist þetta enn ein blekkingin. Nýjustu fregnir herma að ísbúskapur í Suðurhöfum sé á stöðugri uppleið - þvert á boðskap kolefniskirkjunnar.
Þá var komið að Bræðslusumrunum miklu í norðurhöfum. Ógn og skelfing! Norðurpóllinn að verða íslaus - allur hafís horfinn í norðurhöfum! Framsæknustu fylgendur kolefnistrúarinnar spáðu því staðfastlega að norður-íshafið yrði íslaust í ár (http://www.sierraclub.ca/en/AdultDiscussionPlease) - og niðurstaðan? 62% aukning hafíss á norðurslóðum frá því í fyrra! (http://stevengoddard.wordpress.com/2013/08/24/62-increase-in-arctic-ice-since-last-year/).
Nú er komið að síðasta vígi kolefniskirkjunnar - meintri undirliggjandi hlýnun (þrátt fyrir kólnunina) vegna þess að undirdjúpin er að hlýna í auknum mæli (að sögn IPCC).
Það takið eftir því að trúboðinn EHV viðurkennir að úthöfin séu sannarlega og mælanlega að kólna, en hann slær varnagla. Þetta er sko bara efsta lag úthafanna. Langt-í-burtistan, djúpt niðri í undirdjúpunum eru höfin sko að hlýna! Þaðan mun svo koma - í fyllingu tímans - hin voðalega óðahlýnun sem bræða mun mann og annan :)
Og biðin getur varað þúsundir ára, eða þannig, allt samkvæmt boðskap kolefnistrúarbragðanna. En þeir sem borga kolefnisskattinn sinn munu auðvitað verða hólpnir :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 7.9.2013 kl. 10:58
Þá er Hilmar búinn að tjá sig :)
Emil Hannes Valgeirsson, 7.9.2013 kl. 11:42
Sæll Emil og takk fyrir mjög góðan og vandaðan pistil.
Ég sá fyrst minnst á þessa grein Recent global-warming hiatus tied to equatorial Pacific surface cooling eftir Shang-Ping Xie á spjallvef Dr Judith Curry fyrir nokkru. (Tveir pistlar um málið). Þessi grein hefur vakið allnokkra athygli og hægt að velta ýmsu fyrir sér...
Í bloggi mínu 1. mars s.l. „Hvað veldur þessu 10 ára hiki á hnatthlýnun? - Hvað svo...?„ varpaði ég fram nokkrum spurningum og leyfði mér síðan að skipta fyrirbærunum sem valda breytingu á hitafari í þrjá flokka:---
"...
Hér verður ekki gerð nein tilraun til að svara þessum spurningum, enda veit enginn svarið. Við getum lítið annað gert en beðið og dundað okkur við að fylgjast með þróuninni næsta áratug eða lengur.
Það er þó væntanlega í lagi að benda á að um geti verið að ræða þrenns konar fyrirbæri sem veldur breytingum á hitafari undanfarina áratugi og árhundruð:
Þetta er semsagt flókið samspil náttúrulegra fyrirbæra og áhrifa losunar manna á koltvísýringi. Hve mikið hver þessara þriggja þátta vegur er ómögulegt að segja. Við getum þess vegna til einföldunar og bráðabirgða sagt er hver þáttur valdi svo sem þriðjungi, en auðvitað er það bara órökstudd ágiskun þar til við vitum betur... "
---
Nú er það spurning hvort þessi grein í Nature hjálpi okkur til að fá svar við lið númer 2 Innri sveiflur.
Ef það er niðurstaða greinar Xie að breytingar í Kyrrahafinu valdi þessari stöðnun, þá er það greinilegt að þessi kælingaráhrif eru álíka mikil og áhrifin í lið 3, því þau vinna á móti hlýnun af völdum aukningar CO2, þannig að nettóáhrifin verða engin. Ferillinn verður flatur.
Ef svo er, má þá ekki einnig draga þá ályktun að áhrif númer 2 Innri sveiflur hafi getað haft jafn mikil áhrif og númer 3 stígandi á síðasta áratug nýliðinnar aldar?
Spurning: Þessi flatneskja í hitastigi er búin að standa yfir í meira en áratug, svo það fyrirbæri sem getur hafa haft það löng kælingaráhrif á þessari öld að geta unnið á móti hlýnunaráhrifum aukningar CO2, ætti að geta hafa haft jafn mikil og jafn löng hlýnunaráhrif á síðustu öld. Er það ekki rökrétt? Hvers vegna ekki? Ef ekki, hvers vegna gætu áhrifin bara unnið á annan vegin þ.e. til kælingar?
---
Reyndar finnst mér þú svara þessu vel í þínum ágæta pistli. (Fyrirgefðu að ég klippi út setningar, kannsli úr samhengi): „...Til marks um það þá hafði einmitt hlýtt El-Nino ástand oftar yfirhöndina á Kyrrahafinu á árunum 1977-1998 á sama tíma og hlýnun jarðar tók mikinn kipp. Nokkra áratugi þar áður fór hiti jarðar heldur kólnandi, enda svipað Kyrrahafsástand uppi og nú er þar sem hinn kalda La-Nina hefur oftar yfirhöndina..." ... „...Sú mikla hlýnun sem þá átti sér stað hefur því allavega að hluta til verið náttúrulega uppsveifla en ekki eingöngu af mannavöldum eins og oft var haldið fram...."
---
Hvað svo sem öðru líður, þá er þessi pása í hlýnun kjörið tækifæri til að átta sig á hverjir séu helstu áhrifaþættir í hlýnun, stöðnun og kólnun andrúmsloftsina, bæði nú og undanfarin árþúsund, og ekki síst, hve mikið þeir vega.
Hver er þáttur sólar (beinn eða óbeinn), hver er þáttur hafsins, hver er þáttur endurspeglunar hafíss, hver er þáttur breytinga í styrk CO2, hver er þáttur breyttrar nýtingar lands, o.s.frv.
Enn og aftur, takk fyrir góðan pistil Emil.
Ágúst H Bjarnason, 7.9.2013 kl. 12:24
Fróðlegur og skemmtilegur pistill og ólíkur "tónn" en í trúboði alarmistanna á loftslag.is. Mér finnst líka ágætt innleggið hjá Hilmari, en finnst að hann hefði mátt sleppa þessu með "heimilveðurfræðingin". Emil vitnar í gögn en er ekki að finna þetta upp hjá sjálfum sér, frekar en þú, Hilmar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.9.2013 kl. 13:53
Takk fyrir Gunnar og Ágúst. Ég hef sjálfur kallað mig heimilisveðurfræðing þannig að það er allt í lagi. Við skulum samt forðast skot á einhverja sem koma ekki hér við sögu.
Það sem Ágúst veltir fyrir sér er í takt við það sem ég kem inn á, sem er að ef núverandi stöðnun á hlýnun skrifast á náttúrlulega þætti, þá hljóta náttúrulegir þættir einnig að koma við sögu þegar hlýnun er óvenju mikil. Þess vegna verður að horfa til langs tíma þegar meta á vægi hinnar margumtöluðu hlýnunnar af mannavöldum aftur í tímann. Til þess eru 60 ár betri en 30 ár og 15 ár allt of skammur tími.
Annars vitum við lítið fyrir víst um framtíðina annað en að það er framtíð. Sennilega munu næstu kynslóðir samt upplifa heldur meiri hlýindi svona almennt séð en það er þó ekki öruggt.
Emil Hannes Valgeirsson, 7.9.2013 kl. 15:06
Takk fyrir áhugaverðan pistil að vanda Emil, alltaf gaman að lesa vangavelturnar þínar. Það hefði reyndar verið gott að hafa hækkun hitastigs sjávar með í þessum vangaveltum, því það er þangað sem mest öll hlýnun fer (yfir 90%) og það gerist þrátt fyrir þessa svokölluðu pásu í hlýnun jarðar (sem sést í hluta gagnanna - s.s. hitafari lofthjúpsins), sjá t.d. Media Overlooking 90% of Global Warming - þar sem eftirfarandi kemur m.a. fram:
Þannig að það má passa sig á því að fókusera ekki of mikið á þann hluta gagnanna sem fjallar aðeins um hlýnun andrúmsloftsins, þegar við í dag höfum fleiri máta til að mæla hlýnunina. Hnattræna hlýnun af manna völdum er enn í gangi og það er lítið hik á henni - því miður.
Það má einmitt sjá mjög frólegt myndband frá yaleclimateforum, sem finna má á YouTube - sjá hér, þar sem talað er um hlýnun sjávar og hvaða meiningu það hefur fyrir hnattræna hlýnun - ýmsir sérfræðingar koma fram í myndbandinu.
Það getur auðveldlega valdið misskilningi að tala um styttri tímabil og sérvalin part af gögnunum til að setja fram rök um meinta stöðnun í hnattrænni hlýnun (það virðist þó vera trend í þess háttar röksemdum um þessar mundir). Það er alltaf gott að skoða samhengið út frá öllum gögnunum í stað hluta gagnanna eins og þú gerir í þetta skiptið Emil - sérstaklega þegar það á að álykta um pásu í hlýnun jarðar. Það er svo sem í lagi að skoða hluta gagnanna, en þá er líka gott að taka þá fyrirvara á hlutunum og tóna niður ályktanir, svo það valdi síður misskilningi.
Takk fyrir - það er alltaf gott að ræða hlutina, hvort sem við erum sammála um allar nálganir eður ei og ég á von á að þessari gagnrýni verði vel tekið.
Sveinn Atli Gunnarsson, 7.9.2013 kl. 15:15
EHV er iðinn við kolann: "Annars vitum við lítið fyrir víst um framtíðina annað en að það er framtíð. Sennilega munu næstu kynslóðir samt upplifa heldur meiri hlýindi svona almennt séð en það er þó ekki öruggt."(sic)
Hvaðan hefur EHV þessa trú sína? Er skýringuna ekki að finna hér:
"Mælingar hafa enda sýnt fram á að í takt við aukna lóðrétta blöndum sjávar eru undirdjúpin að hlýna í auknum mæli og þar gæti verið fundinn hin eftirlýsta hlýnun jarðar."
Staðreyndin er að vísindin vita lítið sem ekkert um djúpsjávarhlýnun/kólnun. Þau eru á sama stað í þeim fræðum og bartskerar á miðöldum. Engin áreiðanleg gögn eru til fram á þennan dag og fyrstu ARGO flotduflin voru tekin í notkun 2003 og voru ekki klár á heimsvísu fyrr en 2007.
Þetta er því kjörinn vettvangur fyrir kolefnistrúboða til að draga sínar óvísindalegu ályktanir áður en aukin þekking sviptir hulunni af bullinu í þeim - enn einu sinni.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 7.9.2013 kl. 16:54
Það er nú þannig Sveinn Atli að hlýnun andrúmsloftsins er það sem er fókuserað á þegar hlýnun jarðar er metin þótt úthöfin séu auðvitað mikill hitabrúsi og teljast vissulega til jarðarinnar. Þessi bloggfærsla snýst reyndar um leit að skýringu á pásu í hlýnun andrúmsloftsins og þar beini ég sjónum mínum aðallega að sjónum eins og ég segi í upphafi.
Emil Hannes Valgeirsson, 7.9.2013 kl. 17:37
Afsakið að ég vilji aðeins gagnrýna þetta meira Emil, en þú ræðir um hlýnun jarðar bæði í yfirskrift og pistlinum og þú segir sem svo:
Og svo segir þú:
En samt sleppir þú að nefna það mikilvæga atriði að sjórinn er að hlýna og yfir 90% af hlýnun jarðar fer einmitt þangað.
Að orða það á þann hátt sem þú velur (um að jörðin sé ekki að hlýna) er umdeilt og gagnrýni vert í ljósi þess að jörðin er að hlýna (hvað sem segja má um andrúmsloftið eitt og sér til skemmri tíma). Reyndar er þessi "pása" í hlýnun andrúmslofts til skamms tíma ekkert sem ekki er í takti við módelin eða spár vísindamanna - enda má eiga von á svona tímabilum og þau eru hluti spánna.
En annars eru þetta áhugaverðar pælingar, þó það megi gera athugasemdir við orðalag. Það má eiga von á lengri og skemmri tímabilum þar sem hlýnun andrúmslofts sveiflast, nú sem áður - þar sem hlýnunin í andrúmsloftinu er ekki línuleg (ekki heldur hlýnun sjávar - þó hún sé á fullu núna). En það má samt ekki gleyma 90% hlýnunar jarðar - það er það sem ég er að segja.
Enn og aftur, takk fyrir umræðuna.
Sveinn Atli Gunnarsson, 7.9.2013 kl. 17:58
Merkilegt - það er ekki minnst einu orði á eldföll.
Einhversstaðar las ég að það gjósa aldrei færri en 20 eldföll í einu á þessari jörð og þegar eitt hættir þá tekur annað við.
Eldgos neðansjávar eru allann sólahringinn árin út og inn og í aldaraðir og þá að sjálfsögðu mis kröftug. Hafa þessi gos ekkert að segja?
Nýverið var verið að finna stærsta eldfall jarðar neðansjávar.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 7.9.2013 kl. 21:46
V.Jóhannsson - eldfjöll eru (þrátt fyrir tiltölulega stöðuga eldvirkni á ársgrundvelli) aðeins ábyrg fyrir tæplega 1% af því sem við mannfólkið losum af CO2 (við erum nokkuð öflug í þessu). Emil þarf að sjálf sögðu ekki að fjalla um eldfjöll í þetta skiptið (enda pistillinn ekki um það) - en þetta er nokkuð vel þekkt og hefur komið fram víða, það er því ljóst að aukning CO2 í andrúmsloftinu er af völdum manna, en ekki vegna náttúrulegra þátta. - sjá t.d. á loftslag.is http://www.loftslag.is/?page_id=1242.
Sveinn Atli Gunnarsson, 7.9.2013 kl. 23:13
Eins og Sveinn Atli segir þá skrifast aukning CO2 í andrúmslofti síðustu 100 ár varla á eldgos.
Stór eldgos eins og Pinatubo 1991 hafa hinsvegar kælandi áhrif á heimsvísu í 1-2 ár vegna brennisteinsmagns í lofti sem hindrar sólgeislun. Það má reyndar greina kælinguna þarna hægra megin á línuritinu sem fylgir bloggfærslunni yfir orðinu "hlýnun".
Emil Hannes Valgeirsson, 7.9.2013 kl. 23:25
Alveg er það dæmalaust að lesa þvæluna hjá loftslag.is- gemlingunum. Hér messar Svatli, eins og Guð almáttugur, um að eldfjöll losi brotabrot af losun manna á CO2 á ársgrundvelli!
Hvað með allar þær milljónir alda sem eldfjöll hafa verið að losa CO2 út í andrúmsloft jarðar áður en blessuð iðnbyltingin kom til sögunnar?
Ef minnsti fótur væri fyrir bullkenningu kolefniskirkjunnar um hlýnun jarðar af manna völdum (vegna losunar CO2) ætti þessi auma jarðarkúla að vera löngu steikt og grilluð!
En þetta skilur hérumbil skógfræðingurinn Svatli ekki - frekar en annað.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 7.9.2013 kl. 23:31
Emil, ég fann aðra fróðleg grein af loftslag.is um eldvirknina og losun CO2 af manna völdum - með tilvísunum í vísindi eins og vera ber, sjá Menn losa margfalt meira CO2 en losnar við eldvirkni - þar segir m.a.:
Það er lítil sem engin óvissa um hvaðan aukning CO2 í andrúmsloftinu kemur - hún er af manna völdum.
Sveinn Atli Gunnarsson, 8.9.2013 kl. 00:26
Furðuleg þessi síðasta athugasemd frá Hilmari. Því miður lýsir hún bara algerri vanþekkingu á kolefnishringrásinni.
Emil Hannes Valgeirsson, 8.9.2013 kl. 00:50
Veistu það Emil, hin svokallaða kolefniskirkja hefur líka sýnt mikla vanþekkingu á þessari hringrás, og þá sérstaklega hversu mikill tími líður á milli þess að breyting verður á kolefnismagni og svo breytingum á hita, ferli sem tekur tugi ára að hafa mælanleg áhrif og jafvel hundruði ára að koma að fullu fram.
Efasemdarmenn bentu líka strax á fyrir mörgum árum að öll IPCC alarmista módelin eru byggð á mikilli grundvallarvanþekkingu, því þótt viðurkennt sé að þáttur sjávar sé ráðandi faktor þá hefur hann alltaf vantað í þessi módel mest megnis, vegna þess einfaldlega að vísindamenn hafa ekki næga þekkingu. Slík "módel" eru að sjálfsögðu hlægileg og ógild.
IPCC er of pólitískt apparat til að passa upp á svona hluti, og aðdáendur þess á bloggum eins og loftslag.is hafa einfaldlega ekki nægan skilning til þess að sjá um það. Niðurstaðan er umræða sem lyktar illa af pólítík, óvönduðum vinnubrögðum og áróðri. IPCC er hluti af vandanum og nýlegar tilraunir til auka gagnsæið eru bara varalitur á svínið. Nýlegar tilraunir til að velja og týna til ákveðna þætti sjávar til að afsaka staðnaða hlýnun eru bara sorglegar.
Eina leiðin til að rétta af þessa umræðu er að færa hana aftur í alvöru vísindalegt form með því fella IPCC af þeim kirkjustalli sem það er á í dag, og það gerist ekki nema að grasrótin kippi fótunum undan kirkjunni, og þá meina ég grasrótin báðum megin borðsin, þ.e. bæði á meðal þeirra sem trúa IPCC og þeirra sem efast.
símon (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 01:43
Ég sé að "tónninn" er mættur
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2013 kl. 04:52
Emil, það virðast því miður dúkka upp margar athugasemdir sem byggja á vanþekkingu þegar þetta efni kemur upp á borðið - "efasemdamenn" sem tala um pólitík, kirkjustalla, kolefniskirkju og annað því um líkt eru yfirleitt ekki mjög greinagóðir varðanda raunveruleika eða vísindalega hlið mála.
Sumir telja líka að persónuleg skot í formi stuttra setninga sé málið - það er ekki mikið betri umræðumenning...enda skilur hún ekkert eftir sig.
Sveinn Atli Gunnarsson, 8.9.2013 kl. 08:24
Nú kannast ég við sérlegan gestapenna loftslag.is. Þegar bornar eru brigður á bullvísindi sjálfmenntuðu heimilisveðurfræðinganna þá er svarið gjarnan að þetta sé nú bara "misskilningur" eða "vanþekking" hjá viðkomandi . . .:)
Þessir sömu loftslagssnillingar hanga á heimatilbúnum excellíkönum sem eru jafn margbreytileg og gagnaruslið sem sett er inn í þau - eitt allsherjar garbage in - garbage out dæmi.
Engin líkön IPCC mafíunnar gerðu ráð fyrir stóra stoppinu í meintri "hnatthlýnun af manna völdum". Allar voru þær línulegir ferlar í hæstu hæðir hátindahöfðingja í tengslum við meinta skelfilega aukningu "spilliefnisins" CO2.
Það hefur tekið IPCC mafíuna langan tíma að viðurkenna opinberlega að engin hnatthlýnun hefur verið í heiminum sl. 15 ár og þá taka ofsatrúarmennirnir til við að ljúga sig út úr krísunni með því að það megi alltaf gera ráð fyrir "hiki" í hnatthlýnun af manna völdum(!)
Í annan stað ljúga menn svo til um að 90% af meintri hnatthlýnun hafi horfið niður í myrkustu afkima úthafanna - en staðreyndin er að þau fáu gögn sem til eru um djúpsjávarhita sýna að úthöfin hafa ekkert hitnað!
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 09:20
Emil, þetta er mjög góð grein hjá þér og góð samantekt! Emil greyið sýnir að vanda meiri ofsa en skilning.
Honum tókst þó að vekja athygli á athyglisverðu atriði: Hvað með allan koltvísýringinn sem eldfjöll hafa verið að losa í milljarðir ára?
Í jarðsögunni er það víst alveg ljóst að CO2 magn í andrómslofti jókst jafnt og þétt vegna eldvirkni. Það var lítið sem vóg upp á móti þessari uppsöfnun til að byrja með, ekki fyrr en ljóstillífun hófst.
Á kolatímabilinu var magn CO2 í andrúmslofti talsvert hærra en núna, vegna milljarða ára eldvirkni. Þá var enda mjög hlýtt. Mikil gróska var í jarðargróðri og gríðarlegt magn kolefnis grófst í jörðu, þ.e.a.s. kolalögin miklu. Bakteríur sem gátu unnið á kollageni voru ekki komnar til sögunnar þ.a. mjög lítil rotnun varð í þessum jarðlögum (rotnun losar CO2 aftur).
Á eftir kolatímabilinu kemur kalktímabilið þegar sjávardýr með kalkskeljar blómstra í miklum mæli. Kalk er myndað úr CO2 ásamt kalsíum, hin gríðarmiklu kalklög frá þessum tíma innihalda verulegt magn CO2 sem dregið er úr andrúmslofti og mun seint losna þaðan aftur.
Enn grófst talsvert af kolefni í jörðu við myndun olíubirgða heims, olía (og jarðgas) myndast fyrst og fremst þegar lífefnarík sjávarset lenda undir öðrum jarðlögum. Olía og gas lekur náttúrulega út aftur með tímanum, þótt það geti tekið mjög langan tíma.
Eftir hinar miklu kolefnabindingu kola- og krítartímans, ásamt olíumyndun, hafði CO2 magn í andrúmslofti minnkað verulega, enda kólnaði á jörðinni jafnt og þétt. Núverandi lífríki er að mestu í jafnvægi í kolabúskap, rotnun losar CO2 og eldfgos leggja alltaf til sinn skammt.
Það sem við mannfólkið erum að gera er að losa þessar miklu kolefnabirgðir úr jörðinni aftur.
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 10:10
Úbbs, ég geri víst sömu mistök og aðrir: Ég vildi þakka Emil og vorkenna Hilmari!
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 10:11
Það er eitt atriði hjá þér, Emil, sem ég vil gera athugasemd við:
Þú gerir því skóna að hlýnun af völdum CO2 verði ekki eins mikil og ella vegna ENSO áhrifa þegar til lengri tíma er litið. Væri ekki nær að segja að hún verði brokkgengari en ella?
Hinar fjölmörgu vísindagreinar sem birtar hafa verið síðustu mánuði sem benda á sömu atriði og Nature greinin sem þú vitnar til eru sammála um að hlýnuna af völdum CO2 hafi síst minnkað. Hinn uppsafnaði hiti fer núna niður í undirdjúpin, en það er ekki með öllu óviðbúið. Greinin í Nature sem þú vitnar í er með tölvuspár sem reiknar inn ENSO sveifluna og þessi spá gerir ekki ráð fyrir minni eða hægari hlýnun - frekar að hlýnunin gerist í tröppugangi, eins og línuritið frá þér sýnir ágætlega (hlýnun síðustu 100 ára er vel í takt við spár, þrátt fyrir niðursveiflurnar tvær og flatneskjuna núna).
Flatneskjan síðustu 15 ára varð til þess að sumir (t.d. Economist) fóru að gera því skóna að hlýnunaráhrif CO2 væru í neðri kanti IPCC áætlana. Ef það væri rétt myndi hlýnun vissulega hægja á sér. En greinin í Nature (og aðrar svipaðar) sýna þvert á móti að hlýnunaráhrif CO2 eru í hærri kanti IPCC áætlana.
Nokkrar nýlegar vísindagreinar sem komast að sömu niðurstöðu varðandi ENSO sveifluna og flatneskjuna í hlýnun síðustu 15 árin:
Abrahm et al. (2013)
Levitus et al. (2012)
Balmaseda, Trenberth, and Källén (2013).
Guemas et al. (2013)
Nuccitelli et al. (2012)
Douglas, Knox (2012)
Loks er hér athyglsverð grein á Bloomberg Businessweek um hina væntanlegu IPPC skýrslu þar sem komist er að þeiri niðurstöðu að ís á Grænlandi og Suðurskauti bráðnar núna mun hraðar en áður var gert ráð fyrir.
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 10:39
Eigum við bara ekki að segja að Brynjólfur greyið sýni að vanda meiri ofsa en skilning? :D
"Previously estimates of future sea level rise from semi-empirical models were considerably larger than from process based models. However we show that the most recent estimates of sea level rise by 2100 using both methods have converged, but largely through increased contributions and uncertainties in process based model estimates of ice sheets mass loss." (Abrahm et al. (2013)) Viðurkennt að eldri spálíkön um hækkun sjávarborðs séu röng!
"Our estimates are based on historical data not previously available, additional modern data, correcting for instrumental biases of bathythermograph data, and correcting or excluding some Argo float data." (Levitus et al. (2012)) Viðurkennt að hafa fixað mæligögn :)
"In the last decade, about 30% of the warming has occurred below 700 m, contributing significantly to an acceleration of the warming trend. The warming below 700 m remains even when the Argo observing system is withdrawn although the trends are reduced." (Balmaseda, Trenberth, and Källén (2013).) Heilaspuni. Mæligögn um djúpsjávarhita/kulda eru strjál og óáreiðanleg allt til 2003 þegar Argo-duflin koma til sögunnar og dreifing þeirra er ekki fullkláruð fyrr en 2008. Ónákvæmni í mælingum Argo-duflanna er 0,1°C, þannig að mæliniðurstöður eru innan skekkjumarka, þ.e. sýna einungis suð.
"The ability to predict retrospectively this slowdown not only strengthens our confidence in the robustness of our climate models, but also enhances the socio-economic relevance of operational decadal climate predictions." (Guemas et al. (2013))
Aukin heilaspuni. Þeir sem trúa á gæði núverandi loftslagslíkana eru úti á túni í umræðunni!
"We find no evidence that the CO2 feedback is inconsistent with climate models." (Nuccitelli et al. (2012))
Loftslagslíkönin enn í brennidepli. Öll núverandi loftslagslíkön eru sama merki brennd; þau eru að engu hafandi.
"There has been considerable interest in whether Earth has been warming or cooling in recent years. Many studies show that the globally averaged surface temperature has been “flat” or decreasing since 1998."(!) Áhugaverður punktur fyrir heimilisveðurfræðingana :) - ennfremur:
"Thus climate shifts appear to be an essential feature of Earth’s climate system, and, as we shall show here, studies of OHC can be used to confirm and detect them."(!) Bíddu við, eðlilegar náttúrulega sveiflur í veðurfari heimsins?
"In paper [4] we studied Argo OHC data in the period after
the 2001–2002 climate shift and concluded that the radiation imbalance was negative with an uncertainty that included zero, in
agreement with [3] and this study. Contrary to Lyman et al.’s interpretation of OHC data, we therefore found that there was no
present empirically implied radiation imbalance and subsequently
[11] found no observational justification for an accumulation of
the “missing energy” proposed by Trenberth and Fasullo [15] on
the basis of model calculations (Hansen et al. [16])."(!) Erum við að tala saman? ;)
"Meehl et al. [22] show that decadal “hiatuses” are consistent
with model predictions of an otherwise constantly rising average
Earth temperature. The hiatus coinciding with the past decade is
traced to a possible connection with La Niña in the models. This
Letter incorrectly states that 1 W/m2 is an observed radiative imbalance, which it is not, as it is based on model computations (see[11]). The use of the word “hiatus” is obviously based on the assumption that the temperature is always expected to increase."(!) Nákvæmlega! Öll hátimbraða líkanasmíðin er að engu hafandi.(Douglas, Knox (2012))
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 11:51
Já Hilmar hinn rökfasti farin að steypa aftur. Nú eru 97% af öllum loftlagsvísindamönnum heimsins bara algerir bjánar og ljúga öllu sem hægt er að ljúga. Enginn nema Hilmar sjálfur skilur neitt í hnattrænni hlýnun því hann er sá eini sem getur skilið þetta mjög svo einfalda kerfi sem veðrahvolf jarðar og og hvernig hitastig þess tengis ALLS EKKI neinu sem mennirnir gera. Allir sem voga sér að vera ósammála Hilmari eru ataðir aur úr sandkassanum hans.
Það hefði verið gaman ef við hefðum haft fleiri slíka snillinga til að andmæla því að gatið á ósonlaginu væri að mannavöldum. Þá væri nú gaman að lifa án þess að hafa óson til að hlífa okkur.
Emil ég er ekki viss um að Hilmar hafi hugmynd um hvað þú ert að tala um þegar þú ert að tala um kolefnishringrás. Hann veit bara af einhverri kolefnistmafíu sem hann tönglast á að uppnefna en af hverju er ég ekki viss.
Þorvaldur Þórsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 11:51
Út frá því sem Brynjólfur sagði áðan, þá er það rétt að Greinin í Nature gerir ekki endilega ráð fyrir minni hlýnun en áður var spáð, hinsvegar eru það vangaveltur í mér að spár um hlýnun (andrúmslofts) hafi smitast af þeirri miklu hlýnun sem varð þarna undir lok síðustu aldar - þetta eru semsagt vangaveltur "heimilisveðurfræðingsins".
Spár um hlýnun loftslags á 21. öld samkvæmt IPPC frá 2007 eru á bilinu á 1,1-2,9 °C í lægri mörkunum en efri mörkin eru á bilinu 2,4-6,4°. (http://en.wikipedia.org/wiki/Global_warming)
Til að fá 2ja gráðu hlýnun á 100 árum þarf loftslag að hlýna um hálfa gráðu á hverjum 25 árum en það er álíka mikil hlýnun og varð á síðasta aldarfjórðungi - með hjálp jákvæðs fasa í Kyrrahafinu. Til að fá hlýnun upp á 4 gráður þarf loftslag hinsvegar að hlýna um 1 gráðu á hverjum 25 árum að meðaltali á öldinni og ekki seinna vænna fyrir hlýnunina að taka sig á. Hinsvegar getur hlýnunin líka verið stigvaxandi og hraðað á sér eftir því sem á líður. Útiloka það ekki.
- - -
Símon nefnir í sinni athugasemd að nýlegar tilraunir (IPPC) til að velja og týna til ákveðna þætti sjávar til að afsaka staðnaða hlýnun séu sorglegar. Ég er ekki svo viss um að svo sé því fram undir það síðasta er það eiginlega frekar skeptíski geirinn sem hefur verið að benda á hvernig áratugasveiflur í hafinu hafa áhrif til lækkunar og hækkunar á hnattrænum lofthita. Nefni þar sérstaklega þá Joseph D’Aleo og Don Easterbrook sem m.a. rituðu árið 2010 greinina: “Multidecadal Tendencies in Enso and Global Temperatures Related to Multidecal Oscillations” og spá reyndar kólnun í heildina með hjálp sólarinnar, en þá er maður nú kominn út í annað. (http://icecap.us/images/uploads/EE_paper_on_SPPI.pdf)
- - -
Svo er rétt að biðja Hilmar afsökunar á því að bendla hann við vanþekkingu. Auðvitað á maður að halda aftur af sér og gera ekki lítið úr þeim sem gera athugasemdir. Athugasemdaraðilar ættu einnig að hafa svipað í huga.
Emil Hannes Valgeirsson, 8.9.2013 kl. 12:19
Svo má hamra deigt járn að bíti um síðir.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er farinn að skipta sér af þessum málum, því hér er mikinn peningauð að finna fyrir þjóðir og sjóðinn í skattpíningu á almenning. Nú er bara að ýkja og auka skatta.
Mér fannst alltaf risaeðlur skemmtilegt umhugsunarefni hér á yngri árum og velti oft fyrir mér af hverju öll þessi dýr væru svona stór. Af hverju eru þau ekki svona stór í dag?
Hefur þetta eitthvað með andrúmsloft að gera og má þá reikna með að með sama framhaldi sem nú horfir, samkvæmt kolefnakenningunni, þá á þetta eftir að endurtaka sig og þá meina ég að sjálfsögðu eftir nokkur milljón ár?
Og hugsið ykkur allt metangasið, maður minn.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 12:46
Hátindahöfðinginn mættur til leiks á ný! :)
Og "rökin" ekki af verri endanum, frekar en venjulega:
a) 97% af öllum loftlagsvísindamönnum heimsins...(!)
b) andmæla því að gatið á ósonlaginu væri að mannavöldum...(!)
Fantasía ofsatrúarmanna um að 97% af loftslagsvísindamönnum heimsins tilbiðji Al Gore er náttúrulega bara brosleg og sýnir að menn geta skort menntun þó þeir eigi að heita lesnir.
Að sjálfsögðu á þessi bullkenning rætur að rekja til John Cook, teiknimyndasöguhöfunarins ástralska, aðalsprautu scepticalscience.com - móðurvefjar loftslags.is.
Til að gera langa sögu stutta þá er niðurstaða John Cook í ætt við teiknimyndasögurnar hans - fantasía og lygi: (http://www.forbes.com/sites/jamestaylor/2013/05/30/global-warming-alarmists-caught-doctoring-97-percent-consensus-claims/)
Þá er komið að hinu "hræðilega" gati á ósonlaginu sem skók heimsbyggðina á tíunda áratugi síðustu aldar. Það var að sjálfsögðu NASA sem "uppgötvaði" þetta hræðilega gat á ósonlaginu og gerði það heyrum kunnugt 19. desember 1994. NASA hafði nefnilega uppgötvað vetnis-flúor (HF) yfir Suðurpólnum.
Að sjálfsögðu fullyrtu "vísindamenn" NASA (Hansen et al) að HF gæti einungis verið tilkomið af "manna völdum" (kannist þið við frasann?) og fullyrtu að CFC væri kveikjan að þynningu/eyðingu ósonlagsins. Þessi fullyrðing NASA var sérdeilis bandittarísk og í ætt við kveikjuna að innrásinni í Írak þegar hátindahöfðingjar USA fullyrtu að Saddam Hússein ætti "alveg örugglega" gereyðingarvopn í fórum sínum (sem fundust svo reyndar aldrei).
Auðvitað reyndist uppruni HF af náttúrulegum toga og reyndar eru mestu uppsprettur HF að finna á . . . Suðurpólnum! Skýrsla í Geophysical Research Letters í nóv. 1990 birti niðurstöðu rannsóknar á gastegundum frá eldgosinu í Mt. Erebus á Suður-heimskautinu 1983. Eldfjallið spjó 1.230 tonnum af HCI og 480 tonnum af HF á degi hverjum!
Í þessu eina eldgosi losaði Mt. Erebus 150,000 tonn af HF í andrúmsloftið, en losun af HF af mannavöldum á þeim tíma var talin 2,480 tonn á ári (vegna uppbrots CFC)! Til að barna fantasíu NASA var meginhluti CFC framleiddur á norðuhluta jarðar, en lítil sem engin þynning ósonlagsins var merkjanleg á Norðurpólnum!
Áratug seinna upplýsti NASA (Hansen et al) svo um hina meintu hnatthlýnun af manna völdum :D
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 13:19
"...tilraunir (IPPC) til að velja og týna til ákveðna þætti sjávar til að afsaka staðnaða hlýnun séu sorglegar. Ég er ekki svo viss um að svo sé því fram undir það síðasta er það eiginlega frekar skeptíski geirinn sem hefur verið að benda á hvernig áratugasveiflur í hafinu hafa áhrif til lækkunar og hækkunar á hnattrænum lofthita."
Emil, þú misstir af samhenginu. Ef þú leyfir einu liði að týna til nýja þætti í módelið sem styrkja málstað þess, þá gæti annað lið einnig fundið aðra þætti sem styrkja einhverja allt aðra og jafnvel þveröfuga niðurstöðu. Þessi lið gætu leikið sér að þessu í mörg ár og bætt við 100 nýjum forsendum og ferlum, en eina raunverulega niðustaðan úr slíkum leik væri að staðfesta að upprunalega módelið var ónýtt, og að vonlaust sé að ræða málið af alvöru fyrr en vísindamenn hafa næga þekkingu á öllum ferlunum í heildina til að búa til módel sem stendur undir nafni. Það vill svo til að höfin eru undirstaðan, en ferlar þeirra eru einmitt minnst þekktir. Það verða engin gild heildstæð líkön smíðuð á meðan staðan er þannig, og allir ættu því að setja einn stóran fyrirvara við þessa umræðu, og sérstaklega þá ótrúlega miklu vissu sem sumir gefa sér.
símon (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 15:10
Hilmar sýnir stórkostlegar framfarir í netrökræðum! Síðasta færsla nánast algjörlega laus við persónuníð gagnvart viðmælendum (nú eru það útlendingar sem verða fyrir barðinu) og bara nokkuð málefnaleg.
Best að byrja á 97% tölunni. Nú veit ég ekki hvort John Cook hefur skrifað myndasögur, hann er menntaður eðlisfræðingur með sérgrein í eðlisfræði sólarinnar, en hann er ekki veðurfarsfræðingur. Það er vissulega rétt að hann stendur að baki vefsíðunni Skepticalscience.com sem er nú ein sú besta sinnar tegundar sem völ er á. Þar birtir hann niðurstöður rannsókna veðurfarsfræðinga.
Það er nú dáldið sérstakt, Hilmar, að gefa í skyn að skoðanir tiltekins manns séu ómarktækar af þeirri ástæðu að hann heldur þeim eindregið fram. Hvað segir það þá um þig?
Þessi 97% tala er fengin frá stórri metarannsókn sem Cook ásamt 8 öðrum vísindamönnum birtu í Environmental Research Letters fyrr á þessu ári. Þeir fundu tæplega 12.000 greinar sem birtust í jafningjametnum tímaritum á 20 ára tímabili þar sem hugtakið "hnattræn hlýnun" kom fram. Næst athuguðu þeir hvort í þeim væri sett fram skoðun á orsökum hnattrænnar hlýnunar. Í ljós kom að 2/3 þeirra settu ekki fram neina skoðun, sem er ekki endilega skrítið þar sem vísindamenn eru að skrifa um margt og mikið og ekki endilega að taka afstöðu til þessarar spurningar í hverri grein.
Af þeim þriðjungi greina þar sem sett var fram skoðun reyndist 97,1% greina þeirrar skoðunar að hnattræn hlýnun væri af mannavöldum, en 98,4% höfunda (greinar hafa marga höfunda, sumir höfundar koma oftar fyrir en aðrari). Restin skiptist c.a. þannig að 1,2% höfnuðu mannlegum áhrifum og 0,6% héldu fram óvissu um orskir (sem er auðvitað líka afstaða).
Í öðrum þætti rannsóknarinnar voru rúmlega 8.500 höfundar greina beðnir að meta sjálfir hvort greinarnar tækju afstöðu og var svarhlutfallið 60%. Í þessari rannsókn snérust hlutföllin við, tæplega 2/3 höfunda mátu það svo að greinar þeirra tækju afstöðu, rúmur 1/3 að þær gerðu það ekki. Meðal þeirra 2/3 sem tóku afstöðu mátu höfundar það sjálfir þannig að 97,2% greina gengu út frá hnattrænni hlýnun af manna völdum en 96,4% höfunda tóku sömu afstöðu.
Nokkrir þeirra höfunda sem ekki svöruðu í seinni hluta hafa síðar gagnrýnt flokkun á greinum eftir þá. Mér vitanlega er sá fjöldi ekki nægur til að breyta niðurstöðum svo nokkru nemi og Cook et al. hafa svarað gagnrýni amk. sumra þeirra með viðunandi hætti (mér er auðvitað ekki kunnugt um all sem þarna fer fram!)
Er rétt, á grundvelli þessarar athugunar, að setja fram þá fullyrðingu að 97% vísindamanna á þessu sviði séu þeirra skoðunar að hnattræn hlýnun sé af manna völdum? Í því felst auðvitað talsverð einföldun. Síðari hluti rannsóknarinnar virðist staðfesta þá fyrri, og svarhlutfallið er mjög hátt. Vænta mætti að þeir sem hafa ákveðnar skoðanir á málinu svari frekar en hinir sem ekki vilja láta neyða sig til afstöðu, þ.a. búast má við að einhverjir hlutleysingjar hafi ekki verið taldir með í síðari hluta rannsóknarinnar.
Talan 97% er auðvitað notuð sem slagorð til að benda á þá staðreynd, sem vel kemur fram í rannsókninni, að mjög lítill hluti vísindamanna er á móti hinni viðteknu kenningu, að hnattræn hlýnun sé af mannavöldum. Sú prósenta virðist liggja á bilinu 2 - 4%, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Hvort það sé réttlætanlegt að gera ráð fyrir að allir hinir séu á öndverðum meiði er kannski ekki jafn augljóst.
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 16:30
Hilmar, hitt atriðið sem við skulum aðeins skoða er ósonlagið. Árið 1976 birti Bandaríska vísindaakademían að uppsöfnun af manngerðrum lofttegundum, sérstaklega CFC, myndi hafa skaðleg áhrif á ósonlagið. Í kjölfarið ýttu nokkur lönd á takmörkun á framleiðslu þessara lofttegunda. Bandaríkin takmörkuðu framleiðslu þerra 1978 og árið 1985 bættust 19 önnur ríki í hópinn. Sama ár komst "ósongatið" í alheimsfréttirnar.
Það er kannski á misskilningi byggt hjá þér, Hilmar, að tala um HF sem sökudólginn, vetnisflúor er náttúrulegt efnasamband og vel þekkt afleiðing eldgosa, samanber móðuharðindin eftir Skaftárelda sem voru einmitt afleiðing gríðarlegs magns af FH sem lagðist á gróður og skemmdi tennur í grasbítum (gaddur).
CFC eru cklór-flúor-kolefnasambönd sem ekki finnast í náttúrunnni, en framleiðsla þess hófst á 3. áratug síðustu aldar og hafði þann einstaka eiginlega að vera afskaplega lítið hvarfgjarnt enda náði CFC miklum vinsældum og var notað sem drifefni í úðabrúsum, sem kælivökvi í ísskápum osvfrv.
En CFC virkar sem hvati á ósoneyðingu, án þess þó sjálft að hvarfast, og uppsöfnun þess í háloftunum voru mönnum áhyggjuefni. Þegar magn ósons tók að minnka svo mælanlegt var á 8. áratugnum tóku menn að draga verulega úr noktun CFC. Magn þessarar lofttegundar hefur farið minnkandi í háloftunum síðan (það tekur langan tíma að hverfa) og verulega hefur dregið úr hraða ósoneyðingar, þótt ekki sé öll nótt úti enn.
Þessar upplýsingar hef ég allar úr minnssarpnum, staðfestar og auknar af Wikipedia.
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 16:45
Hilmar, er það rétt lesið hjá mér, eða ertu að segja að NASA og fleiri hafi fyrst vakið athygli á hnattrænni hlýnun árið 2005? Eða ertu að meina 1995 (þú notar það ártal ranglega fyrr, það var 1985 sem ósongatið komst í heimsfréttirnar).
Nú veistu væntanlega að fyrsti vísindamaðurinn til að birta á riti kenningar um hnattræna hlýnun af mannavöldum var Svante Arrhenius árið 1886, ekki 1986?
Ég vil nota tækifærið og játa á mig smá mistök: Í fyrri færslu skrifa ég FH í staðinn fyrir HF (hafnfirskir fótboltamenn hafa ekkert með þetta að gera), og CFC heitir víst klór-flúor-kolefni.
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 16:49
Emil, varðandi það hvort ENSO sveiflan geti dregið úr hnattrænni hlýnun: Ég held að allar spár geri ráð fyrir að höfin taki til sín megnið af hnattrænni hlýnun, í hlutföllunum níu á móti einum hið minnsta. Spurningin er hvort það gerist jafnt og þétt eða í stökkum.Það sem núna virðist vera að koma í ljós er að það gerist í stökkum.
CO2 magn í andrúmslofti vex óðfluga, og bætir heldur í en hitt, þegar spáð er fyrir um hlýnunaráhrif á 21. öldinni er aukningin tekin með í reikninginn. Þú bendir á að á síðasta aldarfjórðungi síðustu aldar hafi hlýnað um hálfa gráðu. Sú hlýnun var eflaust umfram það sem CO2 magn þess tíma leiddi af sér, enda jákvæður ENSO fasi ríkjandi. Milli 1950 og 2000 hlýnaði um gróflega reiknað 0,7 gráður, meðal C02 í andrúmslofti á þessum 50 árum var 345ppm, eða 65ppm umfram það sem var fyrir iðnbyltingu.
Frá 2000 til 2050 stefnir meðaltalsstyrkur C02 í að vera um 430 miðað við línulegan vöxt (sem er vanáætlun miðað við núverandi horfur), eða 150 ppm umfram það sem var fyrir iðnbyltingu. Einfaldur handabaksreikningur út frá 0,7 með 65ppm gefur 1,6 gráður með 150ppm, eða 1,6 gráðu hlýnun fram til 2050. Ef við gefum okkur áframhaldandi línulegan vöxt (allt mjög vanáætlað) má fá að meðaltal 2050 til 2100 er 500ppm, eða 220 umfram. Hitastigshækkun útfrá sömu forsendum gefur þá 2,4 gráður.
Eða með öðrum orðum: Ef við gefum okkur þann handabaksreikning að meðalstyrkur CO2 á árunum 1950 til 2000 hafi valdið 0,7 gráðu hækkun, og að magn CO2 vaxi línulega, má reikna með 4 gráðu hækkun á 21. öldinni!
Þetta er auðvitað askaplega mikil einföldun, en punkturinn er kannski sá að það sem við höfum þegar séð gerast gefur ekki tilefni til að vera bjartsýnn á að dragi úr hlýnun til framtíðar.
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 17:11
það er s.s. verið að tala um 97% af þessum 33% sem taka einarða afstöðu á annað borð? Þá eru það 32% vísindamanna sem eru alveg vissir en um hina er ekki vitað. Alarmistarnir túlka það svo að 97% allra vísindamanna sé sammála þeim.
Hversu líklegt er að vísindamaður sem er ekki sammála þessum 32% sem eru alveg vissir, fái vinnu við að rannsaka þessa hluti?
IPPC- klíkan hleypir ekki slíkum undanvillingum að spenanum. Það gæti verið hættulegt og stefnt atvinnuöryggi þeirra í hættu.
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.9.2013 kl. 17:16
Nú veit ég ekki hvort IPCC sé "pólítískt" fyrirbæri eða hvort megi kalla þá sem þar vinna "mafíu". IPCC er opin öllum vísindamönnum innan þeirra sviða sem starf nefndarinnar nær yfir. Vinnan er ekki greidd og felst í því að rannsaka vísindagreinar og taka saman upplýsingar úr þeim, ekki að stunda sjálfstæðar rannsóknir.
Ef veðurfarsfræðingur vill græða peninga þá velur hann að taka opinberlega afstöðu gegn hnattrænni hlýnun af mannavöldum. Ekki veit ég hvað menn fá út úr því að vinna fyrir IPCC annað en viðurkenningu annarra vísindamanna.
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 17:20
Batnandi mönnum er best að lifa Brynjólfur ;)
Einn ljóður finnst mér þó vera á okkar nýbyrjuðu vinsamlegu rökræðum. Á meðan ég flengist um veraldarvefinn til að ritrýna allar heimildirnar þínar (um ekki neitt) þá virðist þú því miður ekki hafa fyrir því að skoða eina (1) tengilinn sem ég þó birti máli mínu til stuðnings að John Cook væri ástralskur hundur í sauðagæru: "Global Warming Alarmists Caught Doctoring '97-Percent Consensus' Claims".
"As is the case with other ‘surveys’ alleging an overwhelming scientific consensus on global warming, the question surveyed had absolutely nothing to do with the issues of contention between global warming alarmists and global warming skeptics."
"Either through idiocy, ignorance, or both, global warming alarmists and the liberal media have been reporting that the Cook study shows a 97 percent consensus that humans are causing a global warming crisis. However, that was clearly not the question surveyed."
"Investigative journalists at Popular Technology looked into precisely which papers were classified within Cook’s asserted 97 percent. The investigative journalists found Cook and his colleagues strikingly classified papers by such prominent, vigorous skeptics as Willie Soon, Craig Idso, Nicola Scafetta, Nir Shaviv, Nils-Axel Morner and Alan Carlin as supporting the 97-percent consensus."
"“Cook et al. (2013) is based on a straw man argument because it does not correctly define the IPCC AGW theory, which is NOT that human emissions have contributed 50%+ of the global warming since 1900 but that almost 90-100% of the observed global warming was induced by human emission,” Scafetta responded." (Þetta ætti hátindahöfðinginn, sveitungi minn úr Skagafirðinum að skilja)
"Astrophysicist Nir Shaviv similarly objected to Cook and colleagues claiming he explicitly supported the ‘consensus’ position about human-induced global warming. Asked if Cook and colleagues accurately represented his paper, Shaviv responded, “Nope… it is not an accurate representation."
"To manufacture their misleading asserted consensus, Cook and his colleagues also misclassified various papers as taking “no position” on human-caused global warming. When Cook and his colleagues determined a paper took no position on the issue, they simply pretended, for the purpose of their 97-percent claim, that the paper did not exist."
"“I hope my scientific views and conclusions are clear to anyone that will spend time reading our papers. Cook et al. (2013) is not the study to read if you want to find out about what we say and conclude in our own scientific works,” Soon emphasized."
"Misleading the public about consensus opinion regarding global warming, of course, is precisely what the Cook paper sought to accomplish. This is a tried and true ruse perfected by global warming alarmists. Global warming alarmists use their own biased, subjective judgment to misclassify published papers according to criteria that is largely irrelevant to the central issues in the global warming debate." (smbr. félagana hjá loftslag.is)
"These biased, misleading, and totally irrelevant “surveys” form the best “evidence” global warming alarmists can muster in the global warming debate. And this truly shows how embarrassingly feeble their alarmist theory really is." (http://www.forbes.com/sites/jamestaylor/2013/05/30/global-warming-alarmists-caught-doctoring-97-percent-consensus-claims/)
Skýrara getur það nú varla verið félagi Brynjólfur. Það eina sem þarf að gera er að að stafsetja nafn vefmeistarans hjá scepticalscience.com rétt: John Crook.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 17:25
Gunnar, við höfum farist á mis! IPCC "klíkan" er opin öllum. Peningarnir eru í að vera á móti.
Þú túlkar ekki tölurnar rétt, sýnist mér. Í fyrri hluta rannsóknarinnar tók 1/3 greina afstöðu (missterka, ekki endilega einarða, þetta er allt tíundað í rannsókninni).
Í öðrum fasa reyndist 2/3 greina taka afstöðu, sem sýnir væntanlega að fyrri fasinn vanmat fjölda þeirra sem tóku afstöðu.
Greinar sem taka ekki afstöðu eru hlutlausar - þær eru hvorki með, á móti, eða lýsa yfir óvissu. Efni greinanna ræður eflaust meiru um hvort höfundar sjá tilefni til að lýsa yfir afstöðu sinni, frekar en að þeir vilji ekki eða þori ekki að lýsa yfir afstöðu sinni.
Ef þú heldur að þessu sé öðruvísi farið (sem má auðvitað lesa út úr tölunum) þá mættirðu alveg koma með einhverjar heimildir fyrir því. Sjálfur hef ég engar heimildir fyrir því gagnstæða, frekar bara hyggjuvit. Þetta er svipað eins og með skoðanakannanir: Ef 1/3 greina um stjórnmál sem nefna ESB gefur upp afstöðu til ESB, þar af er 65% fylgjandi samningaviðræðum um ESB, 35% á móti. Má þá ætla að hin 2/3 séu líka á móti? Ekki út frá almennri skynsemi.
Nú veit ég ekkert um líkindi þess að afstaða manna til þessara mála ráði því hvort þeir fái vinnu eða ekki. Ýmsar stofnanir, á borð við Cato Institute, virðast hafa sand af seðlum en það er undarlegt hversu fáir velja að vinna fyrir þá.
Kannski er það bara vísindin sem benda mönnum á hvaða afstöðu þeir eiga að taka? Satt að segja er það mér vonbrigði að ekki skuli vera meira af andstæðingum meðal vísindamanna. Vísindamenn eru eins og annað fólk, tískubylgjur og hópefli hefur sitt að segja líka.
Pólítíkin virðist fyrst og fremst koma inn í þetta hægra megin frá. Ég man enn þegar Hannes Hólmsteinn skrifaði margar og langar greinar gegn hnattrænni hlýnun og sýndi magnaða fáfræði á stundum (t.d. um af hverju eru skipastigar í Panamaskurði), en á móti má segja að margar af hugmyndum græningja og "alarmista" eins og þú kallar þá minna illilega mikið á einhvers konar alheimskommúnisma!
En það er með þetta eins og svo margt annað: Þróunarkenningin, landrekskenningin, afstæðiskenningin, skammtafræðin, allt eru þetta kenningar sem viðurkenndar eru af svo gott sem öllum vísindamönnum. Loftslagsvísindi eru einhver heitustu vísindi nútímans og gríðarlega mikil vinna lögð í rannsóknir. Því fleiri greinar sem birtast, því ljósari virðist niðurstaðan. Og svo eru það staðreyndirnar, heimur hlýnar, jöklar bráðna. Ísland er ágætis dæmi um land sem er að umbyltast gróðurfarslega vegna hnattrænnar hlýnunar.
Mér skilst að enginn vísindamaður mótmæli hnattrænni hlýnun (það gæti verið gaman að finna einn slíkan!) Menn deila um orsakir (ekki margir sem eru á móti þeirri kenningu að hún sé af manna völdum) og hversu mikil áhrif hinar ýmsu styrkingar (t.d. skýjafar, metangas) muni verða.
Ef menn gefa sér að hlýnun eigi sér stað (eins og auðvelt er að mæla) og finna engar aðrar trúlegar orsakir en aukning CO2, sem greinilega er af manna völdum, ja hvað annað á maður að álykta?
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 17:39
Hilmar, mea culpo! Ég las ekki greinina í fyrstu umferð, en ég las hana núna og einnig upptalninguna hjá Popular Technology sem var mjög athyglisverð.
Persónulega verð ég að segja að eftir að hafa kynnt mér málið nánar finnst mér þessi 97% tala frekar hæpin, ekki endilega vegna mótmæla sumra vísindamanna, heldur frekar vegna þess að hún er blaðamannablaður sem er illa grundvallað í rannsókninni sem að baki býr.
Allar rannsóknir af þessu tagi geta innihaldið villur og málið er mjög heitt þ.a. það er ekki skrítið að þeir sem telja sig ranglega flokkaðir verði soldið súrir! Mér sýnist þetta vera um tugur manna, miðað við 12.000 greinar og 5.000 sem svöruðu tölvupóstum. Ekki nóg til að ógilda rannsóknarniðurstöður Cook et al.
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.9.2013 kl. 17:52
Ágæti Brynjólfur. Við skulum ekki gleyma ósonlaginu :) Hér er ágætis hugleiðing NASA-martröðina:
"It would appear that the hole is not a permanent year round event either. It disappears every year for about 8 - 10 months, DU over 250, then comes back, DU under 200, and has been doing so since scientists discovered a way to measure the ozone layer back around 1958. Before then we had no way of measuring and also had no data to show weather its been a normal natural event or other wise.
To give you both sides of the issue here is the one that we are most familiar with that the media and politicians all dwell on. Fair enough but look closely at the timelines of when that data relates too. September - October and that's it! Nothing mentioned for the other 10 months out of the year every year. Go figure.
http://www.theozonehole.com/ozoneholehistory.htm
Now for the second side to the ozone hole story that we don't see in the media. Apparently for the rest of the year the hole quickly fades and disappears from around mid November all the way to mid August where it's considered non existent every year (DU average over 250).
Animated seasonal maps here courtesy of NASA. http://ozonewatch.gsfc.nasa.gov/
So what do you think? Is it a real man made event that some how just coincides with the seasons every year since it was discovered and first measured or is it a natural event that is primarily all natural in its regular seasonal variations similar to how the winter temp averages are always colder than the summer? (http://www.electro-tech-online.com/members-lounge/133127-ozone-layer-hole-just-another-environmental-scam-you-decide.html).
Svari nú hver fyrir sig. Er stóra, skelfilega, gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautinu - sem NASA taldi sig hafa fundið ástæðu fyrir 1994(http://www.nasa.gov/home/hqnews/1994/94-215.txt) - af manna völdum eða einfaldlega náttúrulegt fyrirbæri?
Ég veit ekki um þig, ágæti Brynjólfur, en ég gat ekki varist því að brosa út í annað þegar ég las frétt um enn eina tímamótauppgötvun kolefniskirkjunnar: Það getur nefnilega skollið á óðahlýnun (a la Trausti Jónsson) á Suðurskautinu ef gatið (sem ku vera á stærð við USA) í ósonlaginu hverfur! (http://www.theguardian.com/environment/2009/dec/01/ozone-antarctica). Arrrg! - ég er ekki viss um að þú vitir af þessari nýju meintu aðsteðjandi hættu í helgiritum kolefniskirkjunnar :)
Ég get hins vegar vel skilið sjóaða blaðamenn hjá The Telegraph þegar þeir gera stólpagrín að hamfarakenningum kolefniskirkjunnar (http://blogs.telegraph.co.uk/news/janetdaley/100018432/newsflash-hole-in-ozone-layer-a-good-thing/). Niðurlag fréttaumfjöllunarinnar er óborganlegt:
"So yesterday's great threat to the planet (hole in the ozone layer) turns out not to have been a threat at all but a form of protection against the real great threat (CO2-generated global warming). Question: if the experts who gave us melodramatic warnings about the terrors of the damaged ozone layer got it so spectacularly wrong, why should we trust their equally alarming predictions about the dangers of its disappearance?"
Spyr sá sem ekki veit :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 18:06
Ég verð að koma með athugasemd við orð þín Emil um að spár vísindamanna séu litaðar af þeim hita sem varð á tímabilinu 1977-1998.
Ef skoðaðar eru greinar um jafnvægissvörun loftslags þá sést að þeim ber saman um að við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu þá megi búast við hækkun hitastigs um 2-4,5°C og líklegasta gildi um 3°C. Þá skiptir ekki máli hvaða tímabil er notað til að meta jafnvægissvörunina eða hvaða aðferð er notuð: Mælingar á hnattrænum hita, gervihnattamælingar, varmi sjávar, eldvirkni, fornloftslag og keyrsla loftslagslíkana.. sýna það sama sjá hér. Því eru spár varla litaðar af hitanum á þessu tímabili.
Höskuldur Búi Jónsson, 8.9.2013 kl. 20:59
En Höskuldur. Ef útreikningar um jafnvægissvörun byggjast meðal annars á mælingum á hnattrænum hita, gæti útkoman ekki mögulega hafa skekkst ef reiknað er útfrá hinni miklu hlýnun sem varð undir lok síðustu aldar? Þá geri ég ráð fyrir að hiti jarðar á upphafsárum þessarar aldar sé nokkurskonar tímabundið yfirskot - sem reyndar er smám saman að jafna sig.
Emil Hannes Valgeirsson, 8.9.2013 kl. 21:40
Áhyggjumaðurinn um loftslagsmál virðist því miður ekki fylgjast með framþróun loftslagsvísinda. Í nýrri vísindagrein, "An improved, objective Bayesian, approach for applying optimal fingerprint techniques to estimate climate sensitivity", eftir Nicholas Lewis sem birtist í Journal of Climate í vor, kemur eftirfarandi fram að það sé sífellt líklegra að tvöföldun CO2 þýði <2°C hlýnun.
Eins og plagsiður er hjá IPCC virðist vera um enn eitt ofmatið að ræða hjá þeim og því hægt að létta þeim áhyggjum af áhyggjumanninum. Niðurstaða Lewis er skýr:
"Lewis finds that in recent years neither the global temperature nor ocean heat uptake have changed very much, while CO2 concentrations have continued to rise. Therefore, the climate sensitivity must be lower."
Það er eins og mig minni að ég hafi verið að reyna að segja ykkur þetta í nokkur ár ;)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 21:58
Hilmar, hefur þú ekki aðallega verið að predika að aukning á CO2 hafi engin áhrif?
Emil Hannes Valgeirsson, 8.9.2013 kl. 22:15
Emil - það eru margar aðrar aðferðir notaðar og þær gefa svipaða niðurstöðu, skil ekki hvernig einhverjar "væntingar" vísindamanna við eina aðferðina eiga að hafa áhrif á allar hinar niðurstöðurnar.
Höskuldur Búi Jónsson, 8.9.2013 kl. 22:15
Hárrétt hjá þér EHV, enda sérðu glögglega trendið :)
Eftir því sem stóra stoppið í hnatthlýnun heldur lengur áfram (breska veðurstofan er búin að gefa út að það verði a.m.k. til 2018) þá lækkar jafnvægissvörunin í líkönum og að lokum rennur upp ljós fyrir kolefnistrúboðum: Styrkur CO2 hefur að sjálfsögðu ekki áhrif á hnatthlýnun - meint hnatthlýnun af manna völdum er sama NASA-bullið og meint eyðing ósonlagsins af manna völdum :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 8.9.2013 kl. 22:34
Mælingar staðfesta kenninguna.
Sveinn Atli Gunnarsson, 9.9.2013 kl. 00:32
Getur einhver útskýrt það fyrir mér, Hilmar má gjarnan gera það sjálfur, hvers vegna " Styrkur CO2 hefur að sjálfsögðu ekki áhrif á hnatthlýnun". Samkvæmt allri eðlisfræði sem ég hef lært hefur efnasamsetning lofthjúpsins áhrif á hitann. Er þetta rangt? Hefur efnasamsetning lofthjúsins engin áhrif á hitastigið? Ég hef alltaf talið svo vera, en samkvæmt Hilmari fer ég villur vega. Í hverju felst villan?
Kannski getur Hilmar í leiðinni útskýrt hvers vegna meðalhitinn á Venus er 462 °C? (Merkúr er nær sólu en þar er meðalhitinn mun lægri).
Hörður Þórðarson, 9.9.2013 kl. 19:26
Það er óvíst hvort einhver treystir sér til þess, Hörður.
Emil Hannes Valgeirsson, 9.9.2013 kl. 22:55
Ágæti Hörður. Það er rétt að ég hef leyft mér að halda því fram í umræðum um meinta hnatthlýnun af manna völdum (les: vegna aukins styrks CO2 í andrúmslofti) að styrkur CO2 hafi að sjálfsögðu ekki áhrif á hnatthlýnun.
Ég veit ekki um eðlisfræðina þína, en fjölmargir eðlisfræðingar hafa gefið kenningum kolefniskirkjunnar falleinkunn.
Mér dettur þó ekki í hug að reyna að afkola heittrúaða fylgendur kolefnistrúarinnar - þið hafið fulla heimild til að halda ykkar trú á meðan þið lifið í friði og sátt við aðra menn og reynið ekki að troða kolefnissköttum/-kvótum upp á heimsbyggðina.
Í athugasemdum hér að ofan hef ég bent á nýjar vísindagreinar sem sýna fram á að miðað við spálíkön kolefniskirkjunnar er það sífellt líklegra að tvöföldun CO2 þýði minna en 2°C hlýnun.
Náttúran sjálf er hægt og bítandi að afsanna kenningasmíðina ykkar. Með hverju árinu sem stóra stoppið í hnatthlýnin eykst ( 15 ár í dag og stefna að óbreyttu í 20) verða jafnvel þeir heittrúuðustu að sætta sig við að líkön um jafnvægissvörun loftslags munu halda áfram að draga úr vægi CO2.
Eins og staðan er núna þá er max 6°C óðahlýnunin, sem skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar (Trausti Jónsson et al) spáði árið 2008 (http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/visindanefndloftslagsbreytingar.pdf), ekki lengur í kortunum. Hræðsluáróðurinn um 4°C hnatthlýnun sem Potsdam Institute for Climate Impact Research and Climate Analytics vann fyrir World Bank í nóvember 2012 (http://climatechange.worldbank.org/sites/default/files/Turn_Down_the_heat_Why_a_4_degree_centrigrade_warmer_world_must_be_avoided.pdf er ekki að gera sig og stefnan er tekin á þægilega aðlögun heimsins að 1,5°C hlýnun, m.v. núverandi stöðvun hlýnunar.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.9.2013 kl. 23:48
Sælir
Vegna fyrirspurnar Harðar um Venus og Merkúr þá rifjaðist upp gamall pistill frá2009:
Gróðurhúsaáhrifin dásamlegu...
Ágúst H Bjarnason, 10.9.2013 kl. 06:10
Sæll aftur Hilmar! Ég vil byrja á því að draga að hluta til baka orð mín um 97%. Svo virðist sem þessi tala sé ekki bara byggð á rannsókn Cook et al. (þó hún sé viðamest), og svo virðist sem nokkrir þeirra sem hafa hrópað hvað hæst um misflokkun hafi einfaldlega rangt fyrir sér.
Roy Spencer er einn þeirra , hann hélt því fram fyrir rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings að hann væri ranglega flokkaður (reyndar ekki talinn upp hjá Popular Technology), við nánari athugun kom í ljós að 5 af greinum hans voru flokkaðar, 4 sem gefandi upp enga skoðun, sú 5. sem gerandi mjög lítið úr mannlegum áhrifum.
Björn Lomborg hélt svipuðu fram, en hann er ekki loftslagsvísindamaður og kom því ekki til álita í rannsókninni. Nir Shaviv heldur því fram að andstaða hans megi lesa milli línanna. Honum var boðið að flokka grein sína sjálfur í síðari hluta hjá Cook, en tók ekki boðið upp.
Richard Tol gagnrýnir aðferðarfræði, þótt hann sé í engum vafa um að hnattræn hlýnun sé af mannavöldum, meðal annars vildi hann að færri greinar hefðu verið rannsakaðar og að tölfræðilegur samanburður væri gerður milli beggja þátta rannsóknarinnar.
Eins og ég sagði síðast þá má auðvitað gera ráð fyrir einhverri rangflokkun í svona viðamikilli rannsókn. Síðan hjá PT er með átta vísindamenn sem mótmæla, þar af eru tveir eða þrír að misskilja aðferðarfræðina (samkvæmt Cook) eða vita ekki hvernig þeir eru flokkaðir. Rannsóknin náði til 12.000 greina og 8400 höfunda.
Eldri rannsóknir sem birtar voru á undan Cook sýna svipaða niðurstöðu. Árið 2004 voru rannsakaðar 928 greinar, engin þeirra andæmælti AGW (Androgenic Global Warming, hnattræn hlýnun af manna völdum). Árið 2009 fundu Doran & Zimmerman að 97% vísindamanna sem voru virkir í skrifum studdu AGW. Anderegg et al. (2010) litu á þá loftslagsvísindamenn sem hefðu opinberlega tekið afstöðu með og á móti og fundu að 97% studdu AGW.
Allt í allt virðist 97% talan standa, með þeirri viðbót að hún á við um þá loftslagsvísindamenn sem hafa birt afstöðu sína opinberlega, beint eða gegnum greinaskrif.
Brynjólfur Þorvarðsson, 10.9.2013 kl. 07:00
Hilmar, nú veit ég ekki hvort þú hafir lesið það sem ég skrifaði um ósonlagið. NASA birti vissulega staðfestingu á því að orsakir ósongatsins væru CFC árið 1994 en umræðan var miklu eldri og mun fleiri hafa komið að málinu. Ástæða þess að menn fóru að rannsaka ósonlagið var einmitt rökstuddur grunur um að CFC væri að eyða ósoni!
Fyrri fullyrðing þín um að það væri eldgosavirkni sem ylli gatinu stóðst ekki, þú virtist halda að það væri HF sem væri sökudólgurinn, en það er CFC sem verið er að tala um núna.
Varðandi árstíðabundna sveiflu í magni ósons yfir heimsskautunum, það er nú mjög gömul staðreynd sem menn hafa vitað um mjög lengi. Ósonmagn sveiflast með árstíðum yfir pólsvæðum, m.a. vegna áhrifa mislangs sólargangs.
Menn byrjuðu að mæla magn ósons í andrúmslofti fyrir fyrra stríð, með jarðbundnum mælum, og langflestar mælingar eiga sér enn stað með þeim hætti. Ósonlagið var uppgötvað 1913, CFC fundið upp 1920, ósonmælar settir upp víðsvegar um hnöttinn á milli 1928 og 1958. Mælingar á þykkt ósonlagsins eru því orðnar talsvert gamlar.
Efnafræðin bak við áhrif CFC á óson er vel staðfest. Það er því rökrétt að álykta að aukið magn CFC dragi úr magni óson. Þetta vissu menn og fóru því að mæla, með gervihnöttum, magn CFC í háloftunum. Óson er enn að mestu mælt frá jörðu niðri.
Hið svokallað ósongat, réttara kallað ósoneyðing, var nokkuð sem menn höfðu séð gerast yfir fleiri áratugi, með sífellt vaxandi hraða. Síðustu tvo áratugi hefur dregið mjög úr framleiðslu CFC, magn þess í háloftunum fer hægt minnkandi, og sömuleiðis ósoneyðingin.
Hilmar, þessar greinar sem þú vísar til minna dáldið á sköpunarsinnagreinarnar sem Mofi vísar til í sífellu. Ástæða þess að línurit um ósoneyðingu beinast að haustmánuðum er einfaldlega að það er þá sem "gatið" myndast á hverju ári. Árstíðasveiflan hefur alltaf verið til staðar, það er lágmarkið sem menn beina athygli sinni að.
Bloggfærslan á vefsíðu Telegraph (höfundur er ekki blaðamaður hjá því blaði) virkar sem tómt bull - ég skil alls ekki hvert höfundur er að fara. Hún vísar ekki til neinna heimilda um að ósoneyðingin sé bull, og greinin sem hún vitnar í efast ekki um að ósoneyðingin sé raunveruleg og af manna völdum. Hún er einnig mjög ákveðið fylgjandi AGW.
Blogghöfundur virðist vera að skýra, fyrir hönd AGW sinna, af hverju hlutar Suðurskautslandsins hafi ekki hlýnað eins hratt og búist var við. Greinarhöfundar Guardian rugla einnig saman aukningu á hafís kringum Suðurskautslandið (sem er líklegast vegna aukinnar snjókomu vegna aukinnar hlýnunar) og þeirrar staðreyndar að miðbik Suðurskautslandsins hefur ekki hlýnað eins hratt og t.d. Norðurpóllinn.
Allt í allt ósköp lélegar heimildir, Hilmar. En strategían er ljós: Ef hægt er að telja fólki trú um að allt ósontalið var bull þá er auðveldara að telja fólki trú um að AGW sé bull. Þetta hafa einhverjir sniðugir andmælingar hugsað upp þegar þeir sáu að það var ekki hægt að ráðast á AGW með beinum hætti.
Að lokum, yfir 30 vísindaakademíur og tugir annarra samtaka vísindamanna hafa lýst yfir stuðningi við AGW en aðeins ein samtök hafa andmælt - félag olíujarðfræðinga í BNA. Það félag breytti síðan afstöðu sinni í hlutlausa eftir mikil mótmæli frá félagsmönnum.
Brynjólfur Þorvarðsson, 10.9.2013 kl. 07:25
Hilmar, þú segir að aukinn styrkur CO2 hafi engin áhrif til hlýnunar. Efast þú um gróðurhúsaáhrifin almennt? Gaman væri að sjá einhverjar heimildir!
Brynjólfur Þorvarðsson, 10.9.2013 kl. 07:26
Þetta er orðin ansi víðfem umræða. Spannar allt frá sjávardjúpum til Venusar og Merkúrs. Meira segja ósonlagsdraugurinn birtist hér afturgenginn.
En mér finnst alltaf merkilegt hversu iðulega menn einblína á mannana gjörðir þegar kemur að áhrifum á andrúmsloftið. Það er eins og sólin sé ekki til og áhrif hennar skipti nánast engu máli.
Erlingur Alfreð Jónsson, 10.9.2013 kl. 12:14
Erfitt að sigla í gegnum þetta: http://www.dailymail.co.uk/news/article-2415191/Global-cooling-Arctic-ice-caps-grows-60-global-warming-predictions.html
Yfirveguð og vel rökstudd samantekt: http://icecap.us/images/uploads/EE_paper_on_SPPI.pdf
125 sérfræðingar efast : http://opinion.financialpost.com/2012/11/29/open-climate-letter-to-un-secretary-general-current-scientific-knowledge-does-not-substantiate-ban-ki-moon-assertions-on-weather-and-climate-say-125-scientists/
holmsteinn.jonasson@reykjavik. (IP-tala skráð) 10.9.2013 kl. 13:21
Erlingur - Sólin er vissulega til og hefur vissulega áhrif á hitastig - en mælingar styðja ekki þá fullyrðingu að hún eigi hlut í máli varðandi núverandi hlýnun, sjá t.d. Mýta: Hlýnunin nú er af völdum sólarinnar - þar sem eftirfarandi kemur fram:
Þannig er það nú Erlingur, það er auðvelt að setja fram fullyrðingar út í loftið eins og þú gerir - en það er að sjálfsögðu erfiðara að koma fram með rök sem standast skoðun. Það væri gott ef að "efasemdamenn" hættu að henda fram staðhæfingum sem þeir virðast ekki sjálfir hafa athugað og hafa augljóslega ekki hugmynd um hvað liggur að baki. Reyndu að kynna þér málin áður en þú setur fram fleiri innihaldslausar fullyrðingar (þetta á við um fleiri sjálfskipaða "efasemdamenn").
Sveinn Atli Gunnarsson, 10.9.2013 kl. 15:11
Þakka HJ og EAJ fyrir góðar athugasemdir. Hins vegar skulum við ekki velkjast í vafa um að áhangendur AGW eru sanntrúaðir, innvígðir og innmúraðir ofsatrúarmenn sem hreinlega neita að taka rökum.
Vísindakirkja Al Gore er líka komin það langt á veg í lygi og blekkingum og miskunnarlausri misnotkun á vísindunum að hún svífst einskis að falsa og fixa talnagögn til að fæða hátimbruðu líkanasmíðina sem bullvísindin ganga út á.
Og sanntrúaðir eru með tölfræðina á hreinu. Félagi Brynjólfur er, eftir töluverða yfirlegu, endurfæddur í 97% kenningunni :) Vinsamlegast takið eftir "vísindalegu" nákvæmninni. Hér eru engin skekkjumörk leyfð, þetta er sko ekkert venjulegur íslenskur spurningavagn með rokkandi svarhlutfalli og innbyggðum vafa.
Hér er allt klárt og kvitt - jafnvel þótt tugþúsundir vísindamanna rísi opinberlega upp til að andmæla vitleysunni. Allar loftárásir á "vísindalega samhljóminn" hans Al Gore eru auðvitað takmarkalaus óskammfeilni :)
Vinsamlegast takið eftir því að sjálft hugtakið "Scientific consensus" er á skjön við öll vísindi, enda uppkokkað af stjórnmálamanninum Al Gore. Það áróðursbragð hefur jú lengi verið notað í pólitík að vísa í ætlaðan samhljóm skoðana.
Þannig að til að svara bersýnilega sanntrúuðum Brynjólfi þá má hann gjarnan lifa í voninni um vísindalega samhljóminn sinn, svo lengi sem hann styður ekki álagningu kolefnisskatta/-kvóta á saklausa skattborgara.
Andmælandi minn ágætur, Brynjólfur, ritar líka langloku um ósonlagið og setur fram sína söguskýringu á fyrirætlunum þeirra sem hafa leyft sér að benda á NASA-bullið. Hér er gripið niður í umræðuna 1994:
"It is absolutely true that "ozone depletion" is an absurd environmentalist bogey-man. There is no evidence that long-term global ozone levels are declining; there is no evidence that ultraviolet radiation levels reaching ground level are increasing; and even the declines in ozone projected by alarmists for the next thirty years would not result in ultraviolet exposure levels equivalent to one's moving about 100 miles south! Moreover, the so-called "ozone hole" cannot expand outside of Antarctica, because it is confined to that region by unique meteorological conditions. And one of NASA's own studies, conducted by Dr. Linwood Callis, found that the impact of CFCs on the ozone layer during the 1980s had been negligible."(http://mol.redbarn.org/objectivism/Writing/RobertBidinotto/OzoneDepletion.html)
Enn og aftur Brynjólfur, "gatið" skelfilega í ósonlaginu yfir Antarktiku hefur alltaf verið þarna. Það er árstíðabundið og kemur og fer - af náttúrulegum orsökum. Það var þarna áður en vísindamenn NASA uppgötvuðu það og hagnýttu til að hrella heimsbyggðina - og það er þarna ennþá. Bara eitt í viðbót. Þetta hefur aldrei verið "gat" heldur einungis mælanleg þynning - en hitt hugtakað hentaði skelfingarsinnum auðvitað betur í áróðri sínum :)
En auðvitað eru þetta alltsaman ósköp lélega heimildir hjá mér, að mati trúboða kolefniskirkjunnar. Það litla sem stendur þá eftir er að sjálfsögðu misskilningur minn og vanþekking á helgiritunum :)
En þrátt fyrir að kolefniskirkjan eigin það sameiginlegt með öðrum ofsatrúarhópum (sjá t.d. Talíbanar í HÍ) að þola illa gagnrýni er það samt svo að sífellt bætast við nýjar rannsóknir sem varpa ljósi á bullkenningar skelfingarsinna.
Nýleg ritrýnd vísindagrein, sem birt var 21. nóv. 2012 ber heitið "Polynomial cointegration tests of anthropogenic impact on global warming", eftir M. Beenstock1, Y. Reingewertz2, and N. Paldor3.
Vísindamennirnir rannsaka meint áhrif CO2 á hnatthlýnun og niðurstaðan er athyglisverð:
"In the present study we apply the method of polynomial cointegration to test the hypothesis that global warming since 1850 was caused by various anthropogenic phenomena. Our results show that GHG forcings and other anthropogenic phenomena do not polynomially cointegrate with global temperature and solar irradiance. Therefore, despite the high correlation between anthropogenic forcings, solar irradiance and global temperature, AGW is not statistically significant. The perceived statistical relation between temperature and anthropogenic forcings is therefore a spurious regression phenomenon." Og ennfremur:
"In summary, ignoring the fact that greenhouse gas forcings are I (2) and treating them as if they were I (1) variables creates the false impression that global temperature is cointegrated with solar irradiance and greenhouse gas forcings. This spurious relation suggests (spuriously) that a doubling of carbon forcing will raise temperature by about 4 degrees. Once the I (2) status of anthropogenic forcings is taken into consideration, there is no significant effect of anthropogenic forcing on global temperature." Og rúsínan í pylsuendanum:
"Thus far our results reject a linear representation of AGW...
We have been unable to find a nonlinear specification of AGW even after extensive data-mining. Based on many experiments, we conclude that anthropogenic forcings are not nonlinearly cointegrated with temperature and solar irradiance. Nor, of course, are they linearly cointegrated." (http://www.earth-syst-dynam.net/3/173/2012/esd-3-173-2012.pdf)
Hvað stendur þá eftir af bullkenningu kolefniskirkjunnar um hnatthlýnun af manna völdum?
Því er fljótsvarað: Ekkert!
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.9.2013 kl. 15:27
Þessi grein sem Hólmsteinn bendir á: HÉR er athyglisverð og sópar t.d. af borðinu þetta með "Extreme whether", sem Höskuldur hafði heimildir um frá tryggingafyrirtæki, sem er svo ekki tryggingafyrirtæki heldur hugdettusölufyrirtæki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.9.2013 kl. 16:46
Hilmar, þú ert nú að komast í gamla farið aftur! Það er nú ekki málstaðnum til framdráttar að væna útlendinga um blekkingar, miskunnarlausa misnotkun, falsanir, og hvað veit ég.
Sérðu ekki sjálfur að þetta er eitt augljósasta einkenni tapaðs málstaðs, að ráðast að einstaklingnum í stað þess að takast á við skoðanir hans?
Varðandi 97% töluna, ég held ekki að ég hafi haldið því fram að hún væri vísindalega nákvæm. Hún er niðurstaða nokkurra viðamikilla rannsókna, ekki ætla ég að efast um tölfræðina (sem ég hef ekki á hreinu), almennt efast ég ekki um heilindi vísindamanna, sama hvaða skoðanir þeir hafa.
Þessi tala stenst í því samhengi sem hún er sett fram í: 97% lofstslagsvísindamanna sem taka afstöðu til AGW styðja AGW. Ertu ósammála því?
Meðan ég man: þú svaraðir ekki örstuttri athugasemd um gróðurhúsaáhrifin almennt. Ég bíð enn eftir svari og heimildum.
Varðandi "ósongatið" þá er greinin sem þú vitnar í nokkuð góð, en ekki skrifuð af vísindamanni. Þú ættir kannski sérstaklega að taka eftir því að þessi blaðamaður komst að því að hann vissi miklu meira um málið en þeir andmælingar sem höfðu sig í frammi!
Varðandi fullyrðingar hans um að ósongatið sé staðbundið og að það að standa undir því sé ekki hættulegra en að ferðast yfir í tempruðu beltinn, þetta er alveg rétt! Hann vísar að vísu ekki í neinar heimildir, heldur ekki fyrir þeirri staðhæfingu að CFC hafi hverfandi áhrif.
"Ósongatið" er nokkuð sem fjölmiðlar skrifa um, það er árstíðabundið og staðbundið. En það sem menn sáu fyrst var að óson fór minnkandi um miðbik jarðar, þar sem UV geislun er í hámarki til að byrja með. Þar var jafnvel talað um einhver prósent á áratug vegna CFC. Á þeim tíma gerðu menn sér ekki grein fyrir hinni miklu dýpkun "gatsins" yfir suðurpólnum.
Eitt og sér hefur þetta gat ekki mikil áhrif á meðan það varir, vegna árstíðarsveiflu þá lokast loft í háloftunum inni í hringiðu þar sem hið árstíðabundna gat myndast. Á öðrum tímum árs opnast hringiðan og blöndun á sér stað út frá suðurskautinu.
Þegar tilvist þessarar miklu dýpkunar gatsins var staðfest reyndist hún verulega miklu meiri en menn höfðu gert ráð fyrir. Þannig að staðbundin og mikil eyðing ósons í "ósongatinu" hafði, og hefur, hnattræn áhrif, einfaldlega vegna þess að þegar gatið hverfur í sinni árstíðabundnu sveiflu þá minnkar heildarmagn ósons hnattrænt vegna blöndunar (magn ósons jafnast út til að fylla gatið).
Ósoneyðing er hnattræn af völdum CFC, en frekar hægfara og varla hættuleg enn sem komið er. En hin miklu hraðari eyðing ósons yfir suðurskautinu sérstaklega er til komin vegna póllægra háloftaskýja sem myndast ekki annars staðar á hnettinum. Þessi ský auka mjög áhrif CFC og ýtir undir virkni þess. Hin mikla dýpkun gatsins (um 70% frá því áður en CFC byrjaði að streyma út) hefur því talsverð hnattræn áhrif.
Öll þessi umræða andmælinga virðist byggja á misskilningi á blaðamannafréttum af vísindarannsóknum. Sama á við um mikið af því sem þú segir, Hilmar, eins og þú spáðir réttilega fyrir um.
Yfirleitt er ágætt að taka útgangspunkt í Wikipedia til að dýpka skilning sinn. Það er alls ekki allt rétt sem þar stendur, en einhver rannsókn sýndi víst að Wikipedia er áreiðanlegri en Encyclopedia Britannica - sem er auðvitað heldur ekki villulaus.
Hér er eitt lítið línurit sem sýnir hnattrænt magn ósons frá ári til árs, frá NASA:
Brynjólfur Þorvarðsson, 10.9.2013 kl. 16:56
Hilmar, þá er komið að seinni hluta. Minni á að ég er ekki enn búinn að sjá skoðun þína á gróðurhúsaáhrifum almennt.
Eðlisfræðin sem býr að baki kenningunni um að aukning CO2 leiði til hækkandi hitastigs er óhögguð. Gæti verið gaman ef þú finnur einhverjar heimildir fyrir öðru.
Greinin sem þú vitnar til, eftir þá Beenstock et al., er nokkuð góð og kemst vissulega að þeirri niðurstöðu að tölfræðilega séð er ekki að sjá að jörðin fari hlýnandi af völdum aukningar í C02, en þeir finna hins vegar enga aðra skýringu á mældri hlýnun - og taka þeir þó alla þekkta áhrifaþætti með. Þetta eitt fær mann til að halda að það sé eitthvað að. Og það er nú nokkuð langt gengið hjá þér að segja að "ekkert standi eftir" í kenningum okkar í kolefnissöfnuðinum bara vegna þess að þú fannst eina grein sem segir eitthvað annað!
Vísindamenn birta greinar, lesa greinar og svara greinum. Þeir mynda sér skoðanir á grundvelli eigin rannsókna og þess sem þeir lesa hjá öðrum, og ef þeir sjá athyglisverðar greinar sem segja eitthvað nýtt þá rjúka fjölmargir til við að gagnrýna og hafna eða styðja niðurstöðurnar. Það er einmitt þess vegna sem þessi 97% tala er svo mikilvæg: Hverjir fylgjast betur með vísindalegri umræðu um loftslagsmál en þeir vísindamenn sem birta ritrýndar greinar um loftsslagsmál?
Eins og svo oft þá stendur og fellur tölfræðin með forsendunum. Þú vitnaðir hér langt fyrir ofan í grein sem beitir Bayesískri tölfræði, hún er mjög vandmeðfarin og öflug ef rétt notuð, en er mjög háð gefnum forsendum.
Aðferðarfræði og gefnar forsendur skipta máli, og einmitt þar hafa þeir Beenstock et al. verið gagnrýndir harkalega. Þeir Hendry et al. hafa birt grein þar sem þeir benda á margar alvarlegar villur í aðferðarfræði Beenstock et al. og vísa niðurstöðum hans algjörlega til föðurhúsanna.
Hendry et al. nota sömu aðferðarfræði og Beenstock et al. til að sýna fram á að fjöldi umferðarslysa í samfélaginu er algjörlega óháður heildarfjölda ekinna kílómetra! Þeir rekja síðan í hverju villurnar felast sem leiða til þessarar öfugsnúnu niðurstöðu.
Þar sem ég er nú ekki neinn sérstakur tölfræðingur þá leitaði ég sjálfur frekar eftir röngum forsendum hjá Beenstock et al. og þóttist sjá að þeir hafa ekki reiknað djúpsævi með í hlýnunarferlið, enda er sú umræða frekar ný. Tilraun þeirra til að afgreiða áhrif sjávar er svohljóðandi: "First, ... , because water vapor and ocean heat content are entirely dependent on temperature ..." en þetta er nú frekar öfugsnúið: Lofthiti er algjörlega háður sjávarhita, uppgufun er háð báðum þáttum. Og hiti djúpsævis hefur engin áhrif á lotfhita eða uppgufun.
Ein mikilvægasta staðreynd í þeirri umræðu sem er þessa daga, um hugsanlega stöðnun hnattrænnar hlýnunar, er að yfirborð sjávar heldur áfram að hækka og bætir frekar í en hitt. Hluti þessarar hækkunar er til komin vegna bráðnunar íss, en dugar þó engan veginn til að skýra hækkunina.
Eina skýringin er sú að höfin halda áfram að hlýna jafnt og þétt og fara hækkandi vegna hitaþenslu. Mælingar, t.d. Hadcrut, sýna að hlýnun efstu 2000 metranna er ekki nægjanleg til að skýra hækkukn sjávar umfram bráðnun. Ef hlýnunin á sér stað enn dýpra (sem nýlegar rannsóknir benda til) þá er hún að sama skapi enn meiri: Hitaukning á miklu dýpi leiðir ekki af sér sömu útþenslu og sama hitaukning á minna dýpi.
Það er því rökrétt að álykta að heimshöfin haldi áfram að hlýna, og ennfremur, að hlýnunin sé hraðari en fyrr. Rannsóknir beina enda sjónum sínum að þessu atriði, það er ekki nóg að álykta rökrétt þegar vísindin eru annars vegar, þótt rökrænar ályktanir bendi mönnum á hvert þeir eiga að beina rannsóknum sínum.
Þeir sem vilja afneita hnattrænni hlýnun þurfa að skýra af hverju andrúmsloftið hefur hlýnað jafn mikið og raun ber síðustu rúma öld, og enn fremur, af hverju höfin halda áfram að þenjast út.
Hefur þú einhverjar aðrar skýringar á þessum staðreyndum, Hilmar, hlýnun í eina öld og áframhaldandi hækkun sjávarborðs, en að þetta sé af völdum aukningar CO2 í andrúmslofti?
Brynjólfur Þorvarðsson, 10.9.2013 kl. 17:31
Varðandi það að hlýnun djúpsjávar hafi engin áhrif á hlýnun andrúmslofts þá er það auðvitað ekki rétt til lengri tíma litið. Meðalhiti úthafanna er mun lægri en núverandi hiti andrúmslofts gefur til kynna, vegna áhrifa ísalda sem staðið hafa yfir 90% af síðustu rúmum 2 milljónum ára.
Ef núverandi lofthiti héldist í nokkrar milljónir ára myndi djúpsjór ná jafnvægi og kælandi áhrif hans þegar hann rís upp á yfirborð myndi hverfa. Jafnvel mætti ímynda sér að djúpsjór yrði hlýrri en yfirborðssjór, vegna útstreymis varma neðanfrá, m.a. vegna neðansjávareldgosa.
En hafstraumar eru að miklu leyti háðir hitamismun milli yfirborsðsjávar og djúpsævis og ef sá mismunur hverfur stöðvast hafstraumar eflaust meira og minna.
Brynjólfur Þorvarðsson, 10.9.2013 kl. 17:40
Það verður nú að segja hverja sögu eins og hún er Brynjólfur. Bendi í þessu sambandi vinsamlegast á að Al Gore er dæmdur lygari og blekkingameistari (con-man).
Og talandi um lygara og blekkingameistara þá er John Crook sannarlega creme-de la creme áróðursmeistari AGW, enda nældi teiknimyndasöguhöfundurinn sér í feita styrki hjá JuLIAR Gillard föllnum forsætisráðherra Ástralíu. Minni þig enn einu sinni á að Ástralir eru nýbúnir að hafna þarlendum umhverfistalíbönum í kosningum og fella niður kolefnisskattinn.
97% vísindasamstaðan er nefnilega upptiktaður blekkingarleikur John Crook sem er svo einkarvel lagið að skálda vísindin:
http://www.sott.net/article/262688-Cooking-climate-consensus-data-97-of-scientists-affirm-AGW-debunked
http://wattsupwiththat.com/2012/07/18/about-that-overwhelming-98-number-of-scientists-consensus/
http://wattsupwiththat.com/2013/06/01/tol-statistically-deconstructs-the-97-consensus/
Í stuttu máli eru niðurstöður John Crook rakið kjaftæði.
Þú segist enn bíða eftir svari og heimildum við spurningu þinni um "gróðurhúsaáhrifin almennt"(!).
Mér sýnist Ágúst H Bjarnason svara þessu ágætlega hér að ofan (Gróðurhúsaáhrifin dásamlegu...)
Og meðan ég man, já ég virðist hafa spáð réttilega fyrir um staðlað svar umhverfistalíbana. Allir þeir sem afneita trúnni eru haldnir "vanþekkingu" og "misskilningi" á helgirit kolefniskirkjunnar :D
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.9.2013 kl. 17:41
Brynjólfur, það er tímasóun að svara Hilmari sérstaklega - hann er sjálfur versti óvinur síns málstaðs eins og hann hagar sér, með persónulegu skítkasti og fullkomnu bulli.
Sveinn Atli Gunnarsson, 10.9.2013 kl. 17:50
Gary Sharp of the Salinas, CA 'Center for Climate/Ocean Resources Study' has been associated with VNIROV scientist Leonid Klyashtorin in Moscow for years.They met on their common interest of climate regime issues, fishery ecosystem and fisheries consequences. Both scientists are strong proponents of the 60-70 year climate cycles. Klyashtorin's forecasts are Right On Track: E&E article
Leonid Klyashtronin died of a stroke on February 23rd 2013.
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 10.9.2013 kl. 17:55
Debunking 97% Climate Consensus Denial - þar sem lesa má eftirfarandi:
Sveinn Atli Gunnarsson, 10.9.2013 kl. 18:05
Og áfram spyr Brynjólfur: "Hefur þú einhverjar aðrar skýringar á þessum staðreyndum, Hilmar, hlýnun í eina öld og áframhaldandi hækkun sjávarborðs, en að þetta sé af völdum aukningar CO2 í andrúmslofti?
Fyrir það fyrsta Brynjólfur: Hvaða hlýnun? Ertu að tala um meinta 0,7°C hlýnun síðustur aldar? Ef svo er þá var hún einfaldlega náttúruleg leiðrétting eftir -0,7°C kólnun á litlu-ísöld miðalda.
Ertu að tala um núverandi ástand? Það er viðurkennt að nú ríkir kyrrstaða/pása í meintri hlýnun jarðar. Jörðin hefur ekki hlýnað sl. 15 ár, eftir að jafnvægi var náð eftir kólnunina á litlu- ísöld - mannstu?
Þú ert væntanlega ekki að tala um max óðahlýnun Trausta Jónssonar et al í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar frá 2008, er það? Sú sviðsmynd er líka einkar skemmtilega á skjön við allan raunveruleika í dag. Reyndar er öll hátimbraða líkanasmíðin hjá kolefniskirkjunni að engu hafandi, eins og ég gat um hér að ofan.
Hvað varðar djúpsjávarkafanir þínar í leit að týndu hnatthlýnuninni er ég ósköp hræddur um að þú hafir lítið upp úr krafsinu. ARGO-baujurnar hafa innbyggða 0,1°C ónækvæmni, þannig að flöktið sem þær sýna er bara það - flökt.
Í þessu sambandi er rétt að vitna í danska stjarneðlisfræðinginn Henrik Svensmark:
"How should ocean water under 700 meters be warmed up without a warming in the upper part? … In the period 1990-2000 you could see a rise in the ocean temperatures, which fit with the greenhouse effect. But it hasn’t been seen for the last 10 years. Temperatures don’t rise without the heat content in the sea increasing. Several thousand buoys put into the sea to measure temperature haven’t registered any rise in sea temperatures."
Endurtaka síðustu málsgreinina fyrir þig í þeirru veiku von að það kvikni örlítil grútartýra:
"Several thousand buoys put into the sea to measure temperature haven’t registered any rise in sea temperatures." (http://notrickszone.com/2013/08/09/major-danish-daily-warns-globe-may-be-on-path-to-little-ice-age-much-colder-winters-dramatic-consequences/)
En þér verður nú ekki skotaskuld úr því að bera brigður á orð þekkts doktors í stjarneðlisfræði ef ég þekki þig rétt Brynjólfur :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.9.2013 kl. 18:10
Hilmar, athugasemdir þínar varðandi 97% töluna eru allt vísanir í greinar skrifaðar af andmælingum, það er ekkert hald í slíku. Sveinn Atli svarar því ágætlega.
Ágúst skýrir vel gróðurhúsaáhrifin og þú virðist sammála honum. Hvernig samrýmir þú það við að aukning CO2 hafi engin áhrif?
Ég sé að þú endurtekur undarlega kenningu þína um að núverandi hlýnun (sem er talsverð, 0,7 gráður er verulega mikið á einni öld) sé leiðrétting eftir litlu ísöldina. Ég hef reyndar farið yfir þetta áður, en hér kemur það aftur: Núverandi hlýskeið náði hámarki fyrir um 6000 - 8000 árum, eftir það hefur farið jafnt kólnandi. Á sögulegum tíma (síðustu 6000 - 4000 árin) hafa komið minniháttar hlýskeið og kuldaskeið, en meðaltalið er jafnt niður á við. Á hámiðöldum var eitt slíkt minna hlýskeið, þó kaldara en fyrra minna hlýskeið sem kennt er við Rómverja.
Sem sagt, jöfn kólnun frá hátindi núverandi hlýskeiðs, með minniháttar sveiflum. Síðasta kuldasveifla hófst c.a. á 15. og 16. öld. Hún tók ákveðna niðurdýfu í hinu svokallaða Maunder lágmarki, þegar útgeisla sólar minnkaði, frá miðri 17. öld og fram á þá 18.
Línuritið hér fyrir neðan, frá Wikipedia, sýnir ágætlega þróunina á núverandi hlýskeiði, hitatoppurinn er fyrir um 8000 árum og "litla ísöldin" sést sem niðursveiflan í svörtu línunni undir lokin. Svarta línan endar í 1970 (hefðbundinn lokapunktur þegar sýndar eru áætlanir um hita frá því áður en mælingar hófust), en örin sýnir hver meðalhitinn var árið 2004 þegar línuritið var gert.
Það er nú ekki að sjá að núverandi hlýnun sé einhver "leiðrétting", línuritið leitar nokkuð ákveðið niður á við síðustu 8000 árin í takt við Milancovich sveiflurnar sem hafa verið allsráðandi um loftslag síðustu rúmar 2 milljónir ára. Auðvitað varð "leiðrétting" þegar sólin tók við sér aftur eftir Maunder, en hlýnunin núna er miklu meiri en svo.
Taktu eftir því, Hilmar, að hitasveiflur eiga sér orsakir. Það er ekki nóg að segja "leiðrétting" án þess að benda á orsakir uppsveiflna jafnt sem niðursveiflna. Hin jafna kólnun frá hátindi hlýskeiðs er vegna minnkandi sólarorku (Milankovich sveiflan), niðurdýfan á Maunder skeiðinu var vegna tímabundinar dýfu í sólarorku. Hin hraða hlýnun á síðustu öld gengur gegn hinni ríkjandi náttúrulegu sveiflu, eina orsökin sem hægt er að finna er aukning CO2.
Til að skoða nánar "litlu ísöldina" má einnig líta á þetta línurit, einnig frá Wikipedia, sem sýnir þróun síðustu 2000 ára.
Enn er ekki að sjá að núverandi hlýnun sé bara "leiðrétting" eftir hina svokölluðu litlu ísöld.
Varðandi það sem þú segir um mælingar á hlýnun sjávar, ég held að ég hafi slegið marga varnagla við því að slíkar mælingar sýni að djúpsævi sé að hlýna. Nokkrar nýlegar vísindagreinar virðast staðfesta að svo sé, en ég hef ekki kynnt mér hvernig þær komast að niðurstöðum sínum.
Það sem ég benti á var allt annað: Hækkandi sjávarborð verður aðeins skýrt með hitaútþenslu hafsins. Hitaútþensla er beinn hitamælir (þarf engar baujur til), þú hefur kannski einhvern tímann séð svona dæmigerðan kvikasilfurshitamæli? Nákvæmlega það sama er að gerast með höfin: Þau eru sinn eiginn hitamælir, þau þenjast út og sýna þar með að hitinn er að aukast.
Nánast allir hitamælar byggja á þeirri einföldu staðreynd að efni þenjast út með auknum hita. Flestir "stafrænir" hitamælar gera þetta einnig, en eru með málmþynnur í stað kvikasilfurs (eða vínanda). Nýverið er svo farið að nota piezo-rafvirka hitamæla, þar sem leiðni ákveðinna málmblandna eykst og minnkar með hitastigi.
Henrik Svensmark spyr, gáfulega, hvernig sjávarhiti geti hækkað undir 700 metrum ef hann hækkar ekki yfir 700 metrum? Þetta er eins og að spyrja hvernig ísskápur getur kólnað að innan þótt hann hlýni að utan. Ef ekki væru hafstraumar ætti þessi athugasemd rétt á sér, en staðreyndin er sú að sterkir straumar flytja yfirborðssjó niður í gegnum miðlög sjávar á ákveðnum stöðu, beint niður á meira dýpi.
Hafstraumarnir í Kyrrahafinu flytja varmann niður á mikið dýpi en það gerist á mjög takmörkuðu svæði. Úthöfin eru að yfirgnæfandi mestu lagskipt, þannig að það á sér stað svo gott sem engin hreyfing á vatni upp eða niður, helst að einhver hliðarhreyfing sé, og mjög lítil varmatilfærsla. En á nokkrum stöðum rís eða sekkur verulega mikið vatn, þar á varmatilfærslan sér stað.
Stjarneðlisfræðingurinn ætti kannski að beina sjónum sínum aftur uppávið.
Varðandi Argo baujurnar þá sýna þær marktæka hitaaukningu í efstu 1500 metrunum. Þessi innbyggða 0,1C ónákvæmni hjá þér held ég að byggi á tvöföldum misskilningi: Þó hver bauja sé með ónákvæmni þá núllast hún út yfir allar baujarnar, því fleiri baujur, því minni ónækvæmni. Svo sýnist mér niðurstaðan, miðað við þennan pistil vera sú að varmaaukningin sé 5.4 Wm2 +/- 0.1 Wm2 á tímabilinu 2005-2010, ekki kann ég að fullu skil á wöttum per fermetra, en mér sýnist hlýnunin vera 50 falt umfram skekkjumörk.
Brynjólfur Þorvarðsson, 10.9.2013 kl. 18:57
Reyndu að kynna þér málin áður en þú setur fram fleiri innihaldslausar fullyrðingar (þetta á við um fleiri sjálfskipaða "efasemdamenn").
Það er ekkert annað!
Sveinn Atli: Ég verð að segja að mér finnst þessi ummæli ansi drambsfull og full af yfirlæti, þó fólk sé ekki komið jafnlangt og þú í loftslagspælingum, eða er jafnvel á öndverðri skoðun.
Ég reyni að lesa mér eitthvað til um efnið endrum og eins, þegar tími vinnst til. Það er meðal annars ástæðan fyrir að ég er hér! (Meira segja hef kíkt á loftslag.is, ótrúlegt en satt.) En stundum koma fram fleiri og aðrar heimildir en notaðar eru á loftslag.is.
Þakka annars fyrir ábendinguna!
Erlingur Alfreð Jónsson, 10.9.2013 kl. 19:08
Varðandi það sem þú segir um Al Gore, að hann sé "dæmdur lygari og blekkingarmeistari", þá veit ég ekki hvort þú ert að vísa til dómsmáls sem höfðað var vegna fyrirhugaðrar notkunar myndarinnar "An Inconvenient Truth" í barnaskólum í Bretlandi?
Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að sýna mætti myndina. Hann komst að þeirri niðurstöðu að myndin væri í öllum aðalatriðum rétt, að fjórar megin kenningarnar sem settar væru fram væru studdar af yfirgnæfandi meirihluta vísindamanna, en hann benti á að 9 af þeim langa lista af athugasemdum sem borist höfðu væru réttmæt og vísuðu til smávægilegra villna.
Eða ertu að tala um eitthvað allt annað? Maður fer nú að efast um sannleiksleit þína hérna, Hilmar!
Brynjólfur Þorvarðsson, 10.9.2013 kl. 19:11
Verði þér að góðu Erlingur. Ég er ekkert að draga af mér þegar ég sé hinar venjubundnu staðhæfingar sem ekkert innihald hafa og bera því vitni að þeir sem þær setja fram hafa ekki kynnt sér málin. Þú skoðar kannski gögnin betur áður en þú slettir fram svona fullyrðingu næst - gætir meira að segja lesið eitthvað meira af loftslag.is :)
PS. Mér er nokk sama þótt einhverjir séu mér ekki sammála - mér finnst þó betra að hafa staðreyndir á hreinu, hvað sem líður persónulegum skoðunum fólks.
Sveinn Atli Gunnarsson, 10.9.2013 kl. 19:49
"Tónninn" lætur ekki að sér hæða
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.9.2013 kl. 21:14
Umhverfistalíbanarnir eru sannarlega að detta í gamla gírinn; Svatli dregur ekkert af sér og sakar menn um að "sletta fram fullyrðingum", nokk sama hvort menn séu sammála honum eða ekki og Wikipediu-Brynjólfur veit sko hlutina aldeilis betur en aumir stjarneðlisfræðidoktorar ;)
Veistu það Brynjólfur - í alvöru - aularökin þín eru ekki svaraverð. Það eina sem er undarlegt á þessum síðum eru forstokkaðir umhverfistalíbanar sem nota öll trixin í bókinni til að reyna að ljúga sig út úr vonlausri stöðu.
Aularök 1: "...athugasemdir þínar varðandi 97% töluna eru allt vísanir í greinar skrifaðar af andmælingum, það er ekkert hald í slíku."(!)
Aularök 2: "Línuritið hér fyrir neðan, frá Wikipedia..."(!)
Aularök 3: "Auðvitað varð "leiðrétting" þegar sólin tók við sér aftur eftir Maunder, en hlýnunin núna er miklu meiri en svo."(!)
Aularök 4: "Nokkrar nýlegar vísindagreinar virðast staðfesta að svo sé, en ég hef ekki kynnt mér hvernig þær komast að niðurstöðum sínum."(!)
Aularök 5: "Hækkandi sjávarborð verður aðeins skýrt með hitaútþenslu hafsins."(!)
Aularök 6: "Henrik Svensmark spyr, gáfulega, hvernig sjávarhiti geti hækkað undir 700 metrum ef hann hækkar ekki yfir 700 metrum? Þetta er eins og að spyrja hvernig ísskápur getur kólnað að innan þótt hann hlýni að utan."(!)
Aularök 7: "Stjarneðlisfræðingurinn ætti kannski að beina sjónum sínum aftur uppávið."(!)
Aularök 8: "Þó hver bauja sé með ónákvæmni þá núllast hún út yfir allar baujarnar, því fleiri baujur, því minni ónækvæmni."(!)
Tökum t.d. nýjustu kjaftasögu þína um meinta hækkun sjávarborðs. Hver er hin raunverulega staða þeirrar "ógnvænlegu hættu" sem búið er að hræða Reykvíkinga reglulega með?
"...if there is one scientist who knows more about sea levels than anyone else in the world it is the Swedish geologist and physicist Nils-Axel Mörner, formerly chairman of the INQUA International Commission on Sea Level Change. And the uncompromising verdict of Dr Mörner, who for 35 years has been using every known scientific method to study sea levels all over the globe, is that all this talk about the sea rising is nothing but a colossal scare story."
Endurtekið fyrir Wikipediu-Brynjólf: "...all this talk about the sea rising is nothing but a colossal scare story". Og ennfremur:
"Despite fluctuations down as well as up, "the sea is not rising," he says. "It hasn't risen in 50 years." If there is any rise this century it will "not be more than 10cm (four inches), with an uncertainty of plus or minus 10cm". And quite apart from examining the hard evidence, he says, the elementary laws of physics (latent heat needed to melt ice) tell us that the apocalypse conjured up by Al Gore and Co could not possibly come about."
Endurtekið fyrir Wikipediu-Brynjólf: "And quite apart from examining the hard evidence, he says, the elementary laws of physics (latent heat needed to melt ice) tell us that the apocalypse conjured up by Al Gore and Co could not possibly come about." (http://www.telegraph.co.uk/comment/columnists/christopherbooker/5067351/Rise-of-sea-levels-is-the-greatest-lie-ever-told.html)
Eins og ég hef reyndar áður sagt þér Brynjólfur, krónísk ritræpa er ávísun á krónískt aularök :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.9.2013 kl. 22:27
Vinsamlega ekki minnast á Svensmark ógrátandi (að nota þetta nafn og orðið gáfulega í sömmu setnigu ætti að vera bannað), þaðan af síður þetta sorglega Mörner fyrirbæri.
"Mörner's claim that sea levels are not rising has been criticised for ignoring correctly calibrated satellite altimeter records, all of which show that sea levels are rising"
http://en.wikipedia.org/wiki/Nils-Axel_M%C3%B6rner
http://sealevel.colorado.edu/
Hörður Þórðarson, 10.9.2013 kl. 23:16
Úps... fyrirgefðu HÞ. Særði ég umhverfistalíbanaegóið þitt? Auðvitað er Mörner sorglegt fyrirbæri vegna þess að hann setur sig upp á móti kennisetningum kolefniskirkjunnar.
Umhverfistalíbanarnir nota ýmis meðöl til að koma sjálfstæðum vísindamönnum fyrir kattarnef, eins og t.d. Berufsverbot og smearing. Veðurfræðingar Veðurstofu Íslands virðast hins vegar allir halda vinnunni og vel það - enda búnir að spá max 6°C óðahlýnun á öldinni.
Og þú brynnir músum yfir Svensmark! Hvaða kvalifasjónir hefur þú annars Hörður? Ertu kannski líka stjarneðlisfræðingur með doktorsnafnbót? Eða svífur þú um eins og fíllinn Dumbó á eyrunum af innbyrgðu umhverfistalíbanamonti? Það má ekki gleyma því að það er nóg að þið séuð sjálfmenntaðir heimilisveðurfræðingar til að þið getið gengið á vísindavötnunum :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.9.2013 kl. 23:46
Svona nú Hilmar. Gula spjaldið!
Emil Hannes Valgeirsson, 11.9.2013 kl. 00:03
Sveinn Atli skoraði á mig að lesa mér meira til svo fullyrðingar mínar væru innihaldsríkari, svo ég fann þessa færslu á vefnum hans, loftslag.is. Þar er fullyrt að CO2 gildi hafi ekki farið yfir 400 ppm sl. 800 þúsund ár að minnsta kosti, jafnvel allt að sl. 15 milljón ár (engin smá vikmörk þarna), fyrr en nú í vor við Mauna Lea á Hawaii. Hvernig hægt er að fullyrða fyrir víst um magn CO2 fyrir svona löngum tíma, 800 þús-15 milljón árum, veit ég ekki. Slíkt fullyrðing er náttúrulega aldrei annað en nálgun af einhverju tagi, aldrei mæling, því eftir því sem ég kemst næst eru elstu ískjarnar aðeins um 800 þús. ára gamlir.
Mér skilst að gögn IPCC yfir CO2 gildi á fyrri tíma séu komin til af rannsóknum á þessum gömlu ískjörnum og ályktunum sem af þeim rannsóknum eru dregnar.
Því langar mig að setja hér fram spurningu til þeirra sem hafa látið sig þessa umræðu skipta: Er það rétt að til séu mælingar vísindamanna á CO2 gildum í andrúmsloftinu frá 1812-1960 sem ganga gegn niðurstöðum ískjarnarannsókna fyrir sama tímabil og sýna hærri CO2 gildi í andrúmsloftinu en mælst hafa til dagsins í dag?
Sveinn Atli veit þetta kannski?
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 01:06
Leiðrétting. Ætla fá að umorða spurninguna:
Er það rétt að til séu mælingar vísindamanna á CO2 gildum í andrúmsloftinu frá 1812-1960 sem sýna hærri CO2 gildi í andrúmsloftinu en niðurstöður ískjarnarannsókna á tímabilum fyrir 1812, og eru hærri en þau gildi sem mælst hafa eftir 1960?
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 01:30
Hilmar, nú ertu alveg búinn að missa flugið, rökþurrðin gjörsamleg og málefnið að engu orðið.
En það grátlegasta er að þú heldur að þú getur vitnað í blaðamannaviðtöl við einstaklinga og þannið afsannað vísindastarf tugi ef ekki þúsunda vísindamanna í yfir hundrað ár.
Röksemdafærsla ala Hilmar: Úbbs þarna kom óþægileg staðreynd/spurning. Lausnin: Úthúðum spyrjandann, köllum staðreyndina/spurninguna aulalega, finnum einn vísindakall sem sagt hefur eitthvað annað í blaðaviðtali.
Elsku besti vinur, ég held að það sé mál að hætta þessu, rjúpan komst aldrei upp á staurinn.
Brynjólfur Þorvarðsson, 11.9.2013 kl. 06:19
Erlingur. Átt þú við þessa grein?
Ágúst H Bjarnason, 11.9.2013 kl. 07:30
Sæll Ágúst. Ekki greinina sérstaklega en jú, þær niðurstöður og gögn sem þar er að finna.
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 09:03
Erlingur. Meira hér.
Ágúst H Bjarnason, 11.9.2013 kl. 10:48
Sagt er: "Give 'em enough rope, and they'll hang themselves."
Hörður Þórðarson, 11.9.2013 kl. 11:24
Ágúst ætlarðu virkilega að segja mér að þú trúir eftirfarandi setningu úr þessari grein, frá hópnum Friends of Science sem þú vísar til:
Þetta er mjög ósannfærandi í ljósi þess hvað mælingar byggðar á vísindalegum grunni segja okkur. Nánar má lesa um samtökin Friends of Science, sem gerðu þessa grein á SourceWatch.org - virðast vera gamlir góðir afneitarar vísinda, samanber Tim Ball, sem er frægur að endemum og hann kemur, ásamt fleirum, fyrir í eftirfarandi myndbandi - Ósérhæfðir sérfræðingar.
Erlingur - það er mjög gott þegar einhver ætlar að vísa í eitthvað að vísa í rétta grein - það er ekki talað um það sem þú vísar til í þeirri grein sem þú vísar til á loftslag.is - en OK, gerum ráð fyrir að þú hafir ruglast lítillega, því ég fann aðra grein á loftslag.is, sem kemur inn á það sem þú ert að segja, sjá 400 - þar segir (bein tilvísun):
Það þykir því ljóst að það er mjög langur tími síðan styrkur CO2 hefur farið yfir 400 ppm og við erum ekki enn stop, væntanlega förum við vel yfir 500 ppm og jafnvel (með "hjálp" vísindaafneitara) langt yfir 1000 ppm...
Sveinn Atli Gunnarsson, 11.9.2013 kl. 11:26
Ágúst, það er gaman að fá alvarlegri umræðu um þessi mál. Greinin sem þú vísar til er þónokkuð góð og mér finnst Sveinn Atli skauta nokkuð yfir hana í svari sínu.
Ég fann tvær athugasemdir á netinu, frá Harro A.J. Meijer og Ralph Keeling
Það virðist full ástæða til að skoða þessar eldri mælingar nánar, en það er nú ekki alveg ljóst af grein Beck að þær séu eins áreiðanlegar og hann vill vera að láta.
Hann finnur stóra toppa og djúpar lægðir í CO2 magni í andrúmslofti þétt upp að hvort öðru, til dæmis aukningu upp á vel yfir 200ppm á tveimur áratugum fram að seinna stríði. En hann kemur ekki með neina skýringu á hvaðan allt þetta kolefni kom, eða hvað orsakaði þessa gríðarlegu losun.
Hafið er auðvitað stærsti þátturinn í kolefnahringrásinni, en hvað gæti orsakað að hafið losar á tveimur áratugum svo miklu kolefni?
Andrúmsloftið inniheldur 400 ppm samkvæmt Mauna Loa mælingunum. Þetta samsvarar c.a. 3E12 tonnum, eða 3 þúsund milljörðum tonna (mt) af koltvísýringi. Kolefni er rétt tæplega þriðjungur af massa CO2, og aukningin hjá Beck er rúmlega 200 ppm, kolefnalosunin á þessum tveimur áratugum hjá honum er því um 500 mt af kolefni.
Til að bera þetta saman er athyglisvert að skoða línurit hjá NASA á þessari síðu. Línuritið er án eininga en með smá grúski staðfesti ég að einingin mun vera milljarðir tonna (mt).
Samkvæmt línuritinu inniheldur yfirborð sjávar (þ.m.t. lífríki yfirborsðins) um 1000 mt, allt lífríki þurrlendis um 550 mt, árleg losum mannkyns er um 9 mt. Gengur þetta dæmi upp? Eru virkilega svona stórar náttúrulegar sveiflur í kolefnahringrásinni að magn þess í andrúmslofti aukist um 500 mt á tveimur áratugum, og minnkar um það sama á næstu tveimur áratugum?
Brynjólfur Þorvarðsson, 11.9.2013 kl. 11:59
Brynjólfur, ég skauta yfir greinina, þar sem ég tel heimildina vafasama og ekki til þess fallinn að taka alvarlega í þessum efnum (ekki í fyrsta skipti sem ég rekst Tim Ball og félaga í Friends of Science afneita vísindum með rökleysum sem ekki standast skoðun).
En flott hjá þér að svara honum efnislega - kemur í raun í ljós að það er óhætt að skauta yfir þessa grein í umræðunni, þar sem hún virðist ekki marktæk - takk fyrir það.
Sveinn Atli Gunnarsson, 11.9.2013 kl. 12:57
Afsakaðu Sveinn Atli. Ég var með 2 síður opnar á loftslag.is og hef afritað ranga slóð. Ætlaði að vísa í greinina sem þú hlekkjar réttilega í enda ber textinn þess merki held ég.
Greinin sem Ágúst vísar í er jú birt á Friends of Science (vefs eða samtaka sem ég þekki ekki neitt til og veit ekkert um), en efni hennar er líka birt á fleiri stöðum og þar eru rannsóknirnar eru sagðar gerðar af vísindamönnum, m.a. 2 Nóbelsverðlaunahöfum, eftir viðurkenndum vísindalegum aðferðum á nefndu tímabili. Vildi bara fá að vita hvort þið viðurkennið tilvist þessara gagna og ef svo, hvers vegna eru þau ekki tekin til greina í loftslagsumræðum.
Zbigniew Jaworowski birti efasemdir sínar og gagnrýni á vinnulag IPCC við gerð AR4. Hann bendir á að IPCC birti "Summary for Policymakers" áður en AR4 var birt. Birtingu AR 4 var seinkað um 3 mánuði til þess að hægt væri að tryggja samræmi við það sem kom fram í " Summary for Policymakers". Er þetta rétt hjá Jaworowski?
Hann bendir líka á ummæli Timothy Wirth og Richard Benedick í Ríó árið 1992 (feitletrun og undirstrik er mín):
- Timothy Wirth, U.S. Undersecretary of State for Global Issues, seconded
Strong’s statement: “We have got to ride the global warming issue. Even if the
theory of global warming is wrong, we will be doing the right thing in terms of economic policy and environmental policy.”
- Richard Benedick, a deputy assistant secretary of state who headed policy divisions of the U.S. State Department, stated: “A global warming treaty must be implemented even if there is no scientific evidence to back the [enhanced]
greenhouse effect.”
Erum við að grínast? Þetta eru engir kaffistofulabbakútar að tala þarna! Þetta eru menn sem hafa komið að alþjóðlegri "samvinnu" í umhverfis- og loftslagsmálum og segja að þessu skal komið í gegn hvað sem tautar og raular!!!
Árið 1988, sagði fyrrum umhverfisráðherra Kanada við ritstjóra og blaðamenn Calgary Herald: " No matter if the science of global warming is all phony...climate chagne [provides] the greatest opportunity to brign about justice and equality in the world."
Og svo eigum við hinir óupplýstu að liggja kylliflatir fyrir stóra sannleikanum ykkar! Erum bara merktir afneitarar af hinum upplýstu!
Einu sinni var jörðin talin flöt, sko! Af stórum hópi vísindamanna svo öldum skipti! Þeir sem gagnrýndu þá skoðun þurftu að labba með veggjum!
Það er bara ansi magnað drengir þegar sett er fram gagnrýni á ykkar málflutning og jafnvel vísað í gögn eða ransóknir sem ganga gegn ykkar skoðunum er farið að tala um afneitara vísinda, eða að viðkomandi vísindamenn séu fyrirbæri, jafnvel ekki gáfulegir, ef menn fái reipi er óhjákvæmilegt að að þeir hengi sig. Hvers konar málflutningur er þetta?
Hversu margir vísindamenn hafa orðið fyrir því að vera úthrópaðir sem vitleysingar og rugludallar því þeir falla ekki inn í viðurkennda skoðun samtímamanna, einungis til að vera hampað síðar sem hugsuðum og frumkvöðlum? Nægir að nefna Kopernikus og Galileo Galilei. (Er þó ekki að setja vísindamenn sem hér hefur verið úthúðað í flokk með þeim, heldur bara að lýsa viðhorfi samtímamanna.)
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 13:01
Á meðan fyrri athugasemd var í ritun sé ég að fleiri athugasemdir eru komnar.
Brynjólfur bendir á þá staðreynd að höfin eru stærsti einstaki þátturinn í kolefnahringrásinni. Gott að það kom frá honum en ekki mér. Í grein Jaworowski, sem ég hlekkja á, bendir hann á að heitur sjór losi meiri CO2 en kaldur, sjá bls 19:
"Solubility of CO2 in warm water is lower than it is in cold. When climate warms,
less CO2 can be retained in the upper 3,000-meter layer of oceans, and it is exhaled into the atmosphere, where the CO2 content is more than 50 times lower than it is in the ocean. This is the reason that between 1880 and 1940, when the global average temperature warmed up by about 0.5°C, the direct measurements in the atmosphere registered a very large increase of CO2 , from about 290 ppmv in 1885 up to 440 ppmv in 1940—about 60 ppmv higher than now." (Beck 2007)
Þannig að ef höfin eru að hitna eins og hér hefur verið bent á, eykst losun CO2 og magn CO2 í loft margfaldast. Og losun manna á CO2 er aðeins brot af því sem höfin og náttúran losa. Engu að síður er því haldið hér fram blákalt að losun manna sé drifkraftur í hlýnun jarðar!
Allir vita að andrúmsloft jarðar, s.s dry air, samanstendur af 78% nitrogen, 21% súrefni og 0,9% argon. Engin þessara lofttegunda er gróðurhúsalofttegund eins og þið vitið.
Af þessu lítur út fyrir að gróðurhúsalofttegundir séu u.þ.b. 1-2% af lofthjúpnum, eftir því hversu mikill hluti er álitinn vatnsgufa. Stærsta gróðurhúsalofttegundin er vatnsgufa (0,25%), því næst CO2 (0,039%). Ég hef séð því haldið fram að hlutfall CO2 í gróðurhúsalofttegundum sé 3,6%, og af þessu hlutfalli sé aðeins 3,4% manna völdum, restinn sé náttúrulegt. Sé þetta rétt gerir það u.þ.b. 0,0014% CO2 í lofthjúpnm af mannavöldum. Þetta hljóta vera mun hættulegri og áhrifameiri koltvísýringssameindir heldur en þær sem hafið og náttúran losar, fyrst þessi losun er ráðandi þáttur í hlýnun hnattarins!
Að lokum vil ég taka fram að ég tala ekki gegn hnattrænni hlýnun, hún er mæld og staðfest. En eins og ég hef sagt annars staðar, þá tel ég áhrif losunar manna á koltvísýringi (CO2) stórlega ofmetin. Það er alla vega svoldið í það að ég sannfærist.
Til hamingju með líflega umræðu Emil, þó stundum hafi hún farið á svolítið lágt plan!
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 13:54
Eitt í viðbót vegna þessarar setningar:
Stærsta gróðurhúsalofttegundin er vatnsgufa (0,25%), því næst CO2 (0,039%).
Hér er átt við hlutfall af lofthjúpnum.
Góðar stundir.
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 13:57
Þakka Ágústi H. Bjarnasyni fyrir prýðilega tilvísun í vísindagreinina 180 YEARS OF ATMOSPHERIC CO2 GAS ANALYSIS BY CHEMICAL METHODS eftir Ernst-Georg Beck.
Við lestur greinarinnar kemur í ljós að kolefniskirkjan tók snemma upp á að falsa og fixa vísindin:
"Modern greenhouse hypothesis is based on the work of G.S. Callendar and C.D. Keeling, following S. Arrhenius, as latterly popularized by the IPCC. Review of available literature raise the question if these authors have systematically discarded a large number of valid technical papers and older atmospheric CO2 determinations because they did not fit their hypothesis?"
Þarna er brugðið ágætu ljósi á skýra tilhneigingu fylgismanna bullvísindanna að fella vísindagögn að líkanasmíðinni. Gögn sem sýna fram á bullið eru töluð niður og vísindamenn sem voga sér að benda að falskenningarnar eru miskunnarlaust teknir niður.
Það vantar ekki að fylgismenn Al Gore telja sig geta gengið á vatni og saka gagnrýnendur um "misskilning", "vanþekkingu" og "rökleysu". Þessir grótesku flugfílar eru auðvitað fyrst og fremst aumkvunarverðir og aðhlátursefni fyrir komandi kynslóðir.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.9.2013 kl. 18:23
http://www.friatider.se/polarisen-vaxer-i-rekordtakt
Upp komast svik um síðir.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 11.9.2013 kl. 20:23
Erlingur - greinin á Friends of Science er ekki mikils virði í umræðunni og þar af leiðandi getum við bara hundsað hana.
Þú virðist núna vera að færa rök fyrir því að af því að hlutfall gróðurhúsalofttegund sé lágt, þá geti þau ekki haft mikil áhrif? Það er rökleysa sem ekki stenst skoðun - enda styðja mælingar að aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum er staðreynd - hvað sem einhverjir nóbelsverðlaunahafar (á hvaða sviði?) og aðrir frá aðilar frá Friends of Science segja.
Annars er það alveg ljóst í huga mér að þeir sem ekki hafa kynnt sér málin en hafa samt sterkar skoðanir sem ekki byggja á fræðum heldur einhverjum útúrsnúningum, þeir hafa yfirleitt ekki margt nýtt fram að færa - heldur apa upp einhverjar gamlar mýtur án nokkurar hugsunar.
Eins og ég hef áður sagt, þér (og hverjum sem er) er svo sem velkomið að afneita vísindum með persónulegum skoðunum og útúrsnúningum - sama er mér. En ef þú er viðkvæmur fyrir því að vera svarað, þá skaltu sleppa því að gera opinberar athugasemdir.
Mæli með að þú lesir eftirfarandi 2 mýtur úr umræðunni - þú ert ekki að koma fram með neitt nýtt í sjálfu sér:
Það er ekki hægt að sanna að CO2 sé orsök núverandi hlýnunar
Eðlisfræðin á bakvið kenninguna um gróðurhúsaáhrifin er vafasöm
Sveinn Atli Gunnarsson, 11.9.2013 kl. 20:26
Vá! Sér er nú hver tónninn!
Í fyrsta lagi er ég ekki viðkvæmur fyrir svörum þínum né annarra opinberlega. Hvernig færðu út að það hafi verið málið Sveinn Atli? Það fylgir skoðanaskiptum opinberlega að vera svarað. Ég hélt ég hefði bara verið að færa rök fyrir mínu máli en ekki hjóla í manninn.
Í öðru lagi, ef þú tókst ekki eftir því, þá kom ég reyndar ekki með hlekkinn á greinina á FoS, heldur hlekkjaði á aðra grein eftir annan mann. Sem þú hefur ekki tjáð þig um og þarft ekki að gera.
Í þriðja lagi sagði ég bara þá skoðun mína að mér þætti einkennilegt hvernig losun manna á CO2 gæti verið afgerandi þáttur í hlýnun jarðar þegar hlutfall CO2 af mannavöldum er svo lítið í heildarmagninu sem raun ber vitni. Sérstaklega þegar náttúran losar mun meira magn en menn. Þetta byggi ég á því sem ég hef þó lesið til þessa.
Að síðustu, ég mun líta á þessar greinar sem þú bendir á, þakka þér fyrir ábendingarnar. Vona að þær séu fróðlegar, en ég verð að segja að ég er alveg að missa alla virðingu fyrir skrifum þínum, þó eitthvað af því séu þýðingar á verkum annarra, einungis hvernig þú tjáir þig hér við aðra með hrokafullum hætti og drambi. En þér er að sjálfsögðu slétt sama um það. Og mér líka.
Kannski kemst ég að annarri niðurstöðu í tímans rás, en það verður ekki af lestri greina á loftslag.is.
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 20:51
Sveinn Atli: Ég renndi yfir þessar stuttu greinar, önnur fjallar um gróðurhúsaáhrifin, hin segir bara að menn séu valdir að hlýnuninni. Það sé óyggjandi. Gott og vel. Á gróðurhúsaáhrifin hef ég ekki borið brigður á hér í þessari umræðu heldur, enn og aftur, þessi meintu miklu áhrif mannanna gjörða í ferlinu.
Í ljósi þess sem ég sagði í fyrri athugasemd frá 13:54 um hlutfall CO2 í lofthjúpnum og hversu mikið hlutfall er af mannavöldum, getur þú upplýst mig og aðra hversu mikið CO2 er losað á hverju ári í lofthjúpinn, og þar með a)hversu mikið kemur frá náttúrunni og b) hversu mikið er af mannavöldum? Það er til lítils að vísa í loftslagslíkön því ég hef ekki aðgang að þeim.
Ef þú hefur heimildir hvar þessar tölur er að finna væri það gott líka. Ég, og aðrir sem vilja, getum þá kíkt á það og fylgst með. Einnig ef þú ert með gögn sem ná aftur í tímann. Ég hef ekki rekist á þessar tölur til þessa, en hef heldur ekki gert ítarlega leit. En bara ef þú hefur þetta á takteinum. Ef þú hefur það ekki virði ég það og fer ekki fram á meira.
Þakka fyrir.
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 21:40
Erlingur:
Aukning CO2 er af manna völdum - sjá Er aukning á CO2 af völdum manna? - þar sem fram kemur að aukin styrkur CO2 í dag er af mannavöldum - mælingar sýna það óyggjandi.
Þú getur fundið tölur þarna, t.d. eftirfarandi:
Þannig að það er þunnur þrettándi að kenna þinni eigin leti um að þú hafir ekki fundið tölur um eitt né neitt.
Þér er velkomið að lesa önnur gögn en þau af loftslag.is - en því miður þá eru þau gögn sem þar er að finna í góðri samstöðu við vísindalegar niðurstöður á þessu sviði - en hvað um það, ef þér líður betur við að snúa út úr og lesa afneitunarblogg og samsæriskenningar - þú um það, truflar mig ekki hið minnsta.
Svona í framhjáhlaupi og af því að þér þóknaðist að fullyrða út í loftið um það, þá voru það vísindamenn, eins og t.d. Galileo sem fundu út úr sannleikanum varðandi snúning jarðar um sólina - það voru einhverjir aðrir en alvöru vísindamenn sem afneituðu þeim staðreyndum - væntanlega einhverjir sem ekki vissu neitt eða kunnu lítið og ekki höfðu tíma til að kynna sér efnið áður en þeir mynduðu sér skoðun - dejavu...
Sveinn Atli Gunnarsson, 11.9.2013 kl. 21:58
PS. Erlingur - ég held að tónn minn, ef einhver er, gagnvart vísindaafneiturum og þeim sem ekki nenna að lesa sér til áður en að þeir mynda sér persónulega skoðun og koma með staflausar staðhæfingar, sé vegna þess að ég hef rekist á of marga sem afneita vísindum á sama hátt og þú og sumir aðrir hér - s.s. með engu innihaldi.
Ég biðst forláts ef ég hef móðgað þig - þú mátt ekki vera viðkvæmur gagnvart beinskeittum skotum. En afneitun loftslagsvísinda er eitt það heimskulegasta sem mannkynið getur gert og ég er orðin hundleiður á að fólk (sem á að heita vel upplýst) hér á landi standi í því - líka með þeim rökum að það viti ekki nóg, sem er enn kjánalegra :)
Sveinn Atli Gunnarsson, 11.9.2013 kl. 22:38
Ég veit ekki hversu lengi þessi umræða heldur áfram en það eru enn nokkrir dagar eftir af athugasemdatímanum. Þetta eru ágætis umræður svona yfirleitt. Hvet þó til þolinmæði og kurteisi gagnvart þeim sem eru öndverðar skoðunnar svo umræðan endi ekki í sama argaþrasi og oft áður þegar þessi mál er rædd. Ég er aðallega í því að lesa alla þessa speki sem streymir fram í stríðum straumum, enda búinn að segja mitt í bili. Bloggfærslan stendur líka ágætlega fyrir sínu hvað mig varðar þótt örlað hafi á gagnrýni frá báðum áttum.
En útfrá þessum vangaveltum um CO2-mælingar frá fyrri tíð, þá mættu menn íhuga hvers vegna í dag er miðað við mælingar sem gerðar eru uppi á Mauna Loa fjalli í miðju Kyrrahafi en ekki í þéttbýlum meginlöndum fjarri sjó.
Emil Hannes Valgeirsson, 11.9.2013 kl. 22:47
Þú ert óborganlega ruglaður Sveinn Atli!
Ég sagði ekki að ég hefði ekki nennt að leita, sagðist bara ekki hafa gert ítarlega leit. Hef nefnilega öðrum hnöppum að hneppa líka þó ég leyfi mér að tjá mig hér. (Fæ væntanlega eitthvað hraun fyrir að segja þetta.)
Það var reyndar Kopernikus sem setti fyrstur fram kenninguna um að jörðin snerist um sólina. Þess vegna tók ég hann sem dæmi. Sú kenning var svo loks sönnuð af Newton eftir útfærslur Galileo og Johannes Kepler.
Það gekk þó aldeilis ekki þrautalaust fyrir Galileo að koma kenningum sínum á framfæri við sína samtímamenn. Rannsóknarrétturinn neyddi hann til að afneita verkum sínum og hann eyddi síðustu 40 árum ævi sinnar í stofufangelsi. Sem sagt eins og ég sagði: Samtímamenn máttu verk hans lítils en seinni tíma menn sáu hversu mikill frumkvöðull hann var.
En varðandi Galileo er það því alveg rétt að hann studdi kenningu Kopernikusar. Ég gerði heldur alls ekki lítið úr því né fullyrti nokkuð annað, eða nokkuð út í loftið varðandi hann. Skil því ekki hví þú ert að hnýta í mig þessa vegna. Þú hinsvegar eyðir um það bil hemingi þinna skrifa í að hnýta persónulega í aðra ef skrif þeirra þóknast þér ekki. Af hverju veit ég ekki.
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.9.2013 kl. 23:01
Já, kolefnistrúarbrögðin eru sannarlega dálítið ruglíngsleg :)
Aukning CO2 - af manna völdum - hefur auðvitað hverfandi áhrif á meinta "hnatthlýnun af manna völdum", eða "loftslagsbreytingar", eins og kolefniskirkjan kýs að kalla bullvísindin eftir að pásan hans EHV í hlýnun jarðar varð of löng og yfirþyrmandi til að hákirkjan gæti logið sig út úr þeirri staðreynd.
Í þessu sambandi er rétt á benda á að CO2 telur um 0,03% af andrúmslofti jarðar. (http://www.geocraft.com/WVFossils/atmos_gases.html)
Greinin Reality Check: CO2 eftir Richard F. Yanda er ágætis samantekt á bullvísindum kolefniskirkjunnar. (http://whatreallyhappened.com/WRHARTICLES/Rick%20Yanda.pdf)
Niðurstaða höfundar er skýr:
"The current rate of increase in atmospheric concentration of carbon dioxide, measured at the Mauna Loa Observatory on the big island of Hawaii, is 30 billion tons! Wow, sounds like a lot. Of course, they don’t tell you that the atmosphere weighs 5 quadrillion tons.
What does that terrifying number really mean?
I quote Roy Spencer, in Climate Confusion34:
“At the rate of rise shown [Mauna Loa data], mankind adds only 1 molecule of CO2 to every 100,000 molecules of air every five years or so. This, then, is what is supposedly going to cause a global warming catastrophe.”
The point could not be made any more clearly than that.(!)
Þá er heldur ekki úr vegi að benda á ritrýnda vísindagrein sem birtist í Global and Planetary Change, Volume 100, janúar 2013, bls. 51–69.
Greinin nefnist "The phase relation between atmospheric carbon dioxide and global temperature" eftir Ole Humlum, Kjell Stordahl og Jan-Erik Solheim. (http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0921818112001658)
Niðurstaða greinarhöfunda er skýr:
"There exist a clear phase relationship between changes of atmospheric CO2 and the different global temperature records, whether representing sea surface temperature, surface air temperature, or lower troposphere temperature, with changes in the amount of atmospheric CO2 always lagging behind corresponding changes in temperature.(!) Vinsamlegast takið eftir þessu: Styrkur CO2 eltir í öllum tilfellum hitabreytingar.
(1)The overall global temperature change sequence of events appears to be from 1) the ocean surface to 2) the land surface to 3) the lower troposphere.
(2)Changes in global atmospheric CO2 are lagging about 11–12 months behind changes in global sea surface temperature.
(3)Changes in global atmospheric CO2 are lagging 9.5–10 months behind changes in global air surface temperature.
(4)Changes in global atmospheric CO2 are lagging about 9 months behind changes in global lower troposphere temperature.
(5)Changes in ocean temperatures appear to explain a substantial part of the observed changes in atmospheric CO2 since January 1980.
(6)CO2 released from anthropogene sources apparently has little influence on the observed changes in atmospheric CO2, and changes in atmospheric CO2 are not tracking changes in human emissions.
(7)On the time scale investigated, the overriding effect of large volcanic eruptions appears to be a reduction of atmospheric CO2, presumably due to the dominance of associated cooling effects from clouds associated with volcanic gases/aerosols and volcanic debris.
(8)Since at least 1980 changes in global temperature, and presumably especially southern ocean temperature, appear to represent a major control on changes in atmospheric CO2.
Al Gore og flugfílahjörðin hans verður því að bíta í það súra vísindaepli að aukinn styrkur CO2 veldur e k k i hnatthlýnun :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 12.9.2013 kl. 00:04
Það var algjör tilviljun að Google fann greinina á Friends of Science síðunni þegar ég fann hana. Ég vissi að hún væri til því ég mundi eftir nafni höfundarins frá því er hann var að leita að gömlum gögnum um mælingar á CO2 og var að senda út fyrirspurnir. Þessi grein kemur því Friends of Science ekkert við. Google gefði alveg eins getað vísað á einhvern annan geymslustað. Ef við Googlum [ "ernst-georg beck" co2 ] þá fáum við yfir 45.000 tilvísanir.
Við verðum auðvitað að hafa það í huga að þarna er ekki um að ræða samfelldar mælingar á CO2, heldur stakar mælingar eða mislangar raðir af mælingum hér og þar í heiminum, framkvæmdar með mismunsndi mælitækjum. Þarna gætu því staðbundir áhrif frá iðnaði eða stríðsátökum hafa haft áhrif á mælinguna.
Engu að síður er þetta gott framtak hjá Beck og niðurstaða fróðleg.
Ágúst H Bjarnason, 12.9.2013 kl. 07:23
Takk fyrir hlý orð Erlingur - þér finnst greinilega allt í orden að kalla fólk ruglað - gott hjá þér :)
Saga Kopernikusar, Galileo og félaga er fróðleg, og hefur ákveðna samsvörun við afneitun vísinda í dag, því að þessir góðu vísinda þenkjandi menn þurftu einmitt að berjast gegn afneitun á þeirra hugsunarhætti - dejavu.
Þér er velkomið að hafa skoðanir Erlingur - eins og mér er velkomið að benda þér á að þú byggir þínar skoðanir ekki á vísindum og mér finnst það líka athugavert að þú hafir ekki leitað uppi upplýsingarnar áður en þú leggur fram fullyrðingar um hlutina (hvað sem kalla má það, leti, tímaleysi eða annað).
Sveinn Atli Gunnarsson, 12.9.2013 kl. 08:14
Ágúst, þú telur s.s. að þetta standist - fróðlegt:
Þetta er mjög ósannfærandi í ljósi þess hvað mælingar byggðar á vísindalegum grunni segja okkur, eins og áður sagði. Merkilegt að sjá þegar maður Googlar þessa grein eins og þú gerir, Ágúst, að það kemur upp mikið af "efasemdabloggum" og þar að auki í fyrstu niðurstöðunum - virðist eiga við um margar af þeim greinum sem þú velur að leggja fram í þessari umræðu. Reyndar kom líka upp þessi fróðlega grein á RealClimate, Beck to the future - þar sem m.a. má lesa eftirfarandi:
Þetta kom mjög fljótlega upp í leitinni Ágúst, hjá mér innan 20 fyrstu niðurstaðnanna - ætti kannski að vera gagnrýnu fólki lærdómsríkt að skoða annað en bara "efasemdablogginn" sem virðast stöðluð í heimildum hjá sumum - s.s. er alltaf fróðlegt að leita gagnrýnna heimilda fyrir hluti sem virðast við fyrstu sýn vera ósannfærandi. Þetta er afskaplega ósannfærandi og flestir hugsandi menn myndu ekki benda á þetta gagnrýnislaust Ágúst.
Sveinn Atli Gunnarsson, 12.9.2013 kl. 08:17
Ég held að ég hafi gleymt að setja eftirfarandi tengil inn í þessa umræðu. En þetta var að sjálfsögðu sett inn á loftslag.is til höfuðs umræðu um meinta pásu í hlýnun Jarðar - í tenglinum má sjá myndband þar sem sérfræðingar segja frá því hvers vegna hlýnun Jarðar hefur ekki stoppað, en allavega fróðlegt efni fyrir áhugasama:
Engin pása í hnattrænni hlýnun!
Sveinn Atli Gunnarsson, 12.9.2013 kl. 20:16
"meinta pásu í hlýnun jarðar"
Ég hélt að það þyrfti ekki að deila um það, hvað sem framtíðin ber í skauti sér
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.9.2013 kl. 20:58
Gunnar, þú ert sjálfum þér líkur - ekkert innihald í gasprinu þínu að venju :)
En, það er nú svo að 90% af hlýnuninni á sér stað í hafinu og það er engin pása í þeirri hlýnun, hvað sem segja má um hlýnun á andrúmsloftinu til skemmri tíma. En það myndirðu náttúrulega vita Gunnar minn ef þú hefðir skoðað myndbandið ;)
Sveinn Atli Gunnarsson, 12.9.2013 kl. 21:57
Þú ert hlægilegur, Svatli. Samt ekkert fyndinn... pældu í því
Gunnar Th. Gunnarsson, 12.9.2013 kl. 23:02
Ég veit ekki með þá fáu sem hafa hugsanlega nennt að fylgjast með þessum umræðum, en tilsvör Svatla segja auðvitað meira en margt annað um kreddukenningar kolefniskirkjunnar.
Það er óumdeilt að engin hnatthlýnun hefur átt sér stað sl. 15 ár, smbr. fyrirsögn þessa bloggs: "Pása í hlýnun jarðar". Einnig hefur komið fram að efsta lag úthafanna er að kólna og djúpsjávarmælingar sýna ekki fram á hlýnun.
Að auki birta lærðar, ritrýndar vísindagreinar niðurstöður um að CO2 elti í öllum tilfellum hnatthlýnun en ekki öfugt, sem kollvarpar auðvitað bullkenningum kolefniskirkjunnar um að aukið magn CO2 valdi hnatthlýnun.
Talsmenn bullkenninga kolefniskirkjunnar eru því sannarlega hlægilegir, en á sama tíma stórskaðlegir sjálfum sér og umhverfinu.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 00:31
Þađ þarf ansi sterka "trú" til ađ hundsa allar þær mælingar og rannsóknir sem styđja þá kenningu ađ jörđin sé ad hlýna af mannavöldum - því felst mikil hræsni í þessu sífelldu tuđi Hilmars um "kolefniskirkjuna".
Höskuldur Búi Jónsson, 13.9.2013 kl. 06:39
Gunnar:
Takk fyrir að ljá okkur þína persónulegu skoðun á persónu minni - takk fyrir að láta þér ekki í léttu rúmi liggja ef þér mislíkar eitthvað í fari mínu :)
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 07:59
Ég ætlaði að láta þáttöku minni lokið hér í umræðum eftir síðustu athugasemd mína, en nú hefur hér verið bent á að 90% hlýnunar jarðar eigi sér stað í hafinu, því langar mig að nefna eftirfarandi:
Í grein sem ég hlekkjaði á er því haldið fram að sjór bindi 50 sinnum meira af CO2 en loft. Því er einnig haldið fram í sömu grein að heitari sjór bindi minna af CO2 en kaldari sjór.
"Solubility of CO2 in warm water is lower than it is in cold. When climate warms, less CO2 can be retained in the upper 3,000-meter layer of oceans, and it is exhaled into the atmosphere, where the CO2 content is more than 50 times lower than it is in the ocean." (sjá vinstri dálk á tölusettri blaðsíðu númer 19).
Sama grein heldur því einnig fram að CO2 elti hitastig en ekki öfugt.
Í ljósi þess að nú hefur komið fram að 90% hlýnunar jarðar er sögð eiga sér stað í hafinu, og ef það er rétt sem bent er á í greininni að hafið bindi um 50 sinnum meira CO2 en loft, langar mig að spyrja mér fróðari menn hér:
a) Hversu mikið magn er hafið að losa af CO2 vegna hærra hitastigs?
b) Og hversu mikil áhrif er sú losun að hafa á aukningu á CO2 í andrúmsloftinu á móti losunar af mannavöldum?
Ég spurði svipaðrar spurningar fyrr í umræðunni en fékk aðeins svar um magn losunar manna á CO2.
Ég veit að lítið er eftir að tíma til að gera athugasemdir en held það sé reyndar meira stillingaratriði á stjórnborði bloggsíðunnar en nokkuð annað.
Erlingur Alfreð Jónsson, 13.9.2013 kl. 15:53
Erlingur - ég hef ekki tíma til að leita svara þér núna - best er auðvitað ef þú prófar sjálfur. Ég er viss um að þú getur fundið svör víða, m.a. á loftslag.is og skepticalscience.com, sjá t.d. CO2 is coming from the ocean - svo eitthvað sé nefnt (margir aðrir möguleikar í stöðunni - en vertu gagnrýnin á heimildir - það er mikilvægt). Gangi þér vel í upplýsingar leit þinni.
Mundu þó að aukning CO2 í andrúmsloftinu og hafinu er af mannavöldum (það er vegna þess að það kemur aukalega inn í kolefnishringrásina við m.a. brennslu jarðefnaeldsneytis), það er þó ekki þar með sagt að það geri lítið úr þeim náttúrulegu kolefnis hringrásum sem eru í gangi, nú sem fyrr.
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 16:41
Sveinn Atli - þó ég leggi fram spurningar hér þýðir það ekki að ég sé ekki að leita heimilda annars staðar, og þ.á.m. á skepticalsience.com. Ég hef bara líka áhuga á viðhorfum manna sem hér hafa ritað við atriðunum sem nefnd eru í a) og b). Hins vegar verður áhugavert að sjá svörin þín ef þú hefur einhvern tímann tíma til að skoða málið. Gætir jafnvel skrifað pistil á loftslag.is um málið?
Erlingur Alfreð Jónsson, 13.9.2013 kl. 18:24
Takk fyrir hvatninguna Erlingur - hvur veit nema ég skrifi pistil um málið á loftslag.is þegar tími gefst. Ekki það að ég telji þetta mikilvæga punkta í umræðunni, þar sem aukning CO2 í andrúmsloftinu nú um stundir er vegna þess að það kemur auka CO2 inn í kolefnishringrásina af mannavöldum (m.a. brennsla jarðefnaeldsneytis) - það er hið mikilvæga - ég sé ekki að það sé mikilvægt bera saman einstaka þætti hinnar náttúrulegu hringrásar (sem er að sjálfsögðu mikilvægt að þekkja) við það sem er að valda aukningunni.
Gangi þér vel Erlingur.
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 19:17
Óviðjafnanlegt svar: "Ég er viss um að þú getur fundið svör víða, m.a. á loftslag.is og skepticalscience.com"(!) :D
Það vill svo til að vefritið loftslag.is sækir allan sinn "fróðleik" í hina illa þokkuðu sorpsíðu scepticalscience.com. Og hver er svo sannleikurinn um scepticalscience.com?:
"Skeptical Science is a climate alarmist website created by a self-employed cartoonist, John Cook. It is moderated by zealots who ruthlessly censor any and all form of dissent from their alarmist position. This way they can pretend to win arguments, when in reality they have all been refuted. The abuse and censorship does not pertain to simply any dissenting commentator there but to highly credentialed and respected climate scientists as well; Dr. Pielke Sr. has unsuccessfully attempted to engage in discussions there only to be childishly taunted and censored while Dr. Michaels has been dishonestly quoted and smeared. The irony of the site's oxymoronic name "Skeptical Science" is that the site is not skeptical of even the most extreme alarmist positions.
John Cook is now desperately trying to cover up his background that he was employed as a cartoonist for over a decade with no prior employment history in academia or climate science.
Thanks to the Wayback Machine we can reveal what his website originally said,
"I'm not a climatologist or a scientist but a self employed cartoonist" - John Cook, Skeptical Science.
It is very important for Mr. Cook to keep up this facade, as once people learn of his lack of credentials and scientifically worthless employment history they are unlikely to take his website seriously no matter how he desperately pads his resume. As opposed to the highly credentialed climate scientists his staff harassed and censored." (http://www.populartechnology.net/2012/03/truth-about-skeptical-science.html)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 20:28
Erlingur - ég bið þig einnig um að spá í hin örvæntingarfullu viðbrögð Hilmars í athugasemdum, krydduð með persónulegu níði...er nema von að það sé ekki hægt að stunda efnislega umræðu um þessi mál þegar eiga má von á svona viðbrögðum. En jæja, hvað um það - bara vinsamlega ábending um umræðu menningu sumra þeirra sem afneita vísindum.
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 20:51
PDO, ENSO and sea level rise by Judith Curry - September 13, 2013. http://judithcurry.com/2013/09/13/contribution-of-pdo-to-global-mean-sea-level-trends/#comments
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 20:58
Annars er þessi "Skeptical Science" síða kannski ekki beint svo "Skeptical": http://www.populartechnology.net/2012/03/truth-about-skeptical-science.html
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 21:02
Annað gullkorn frá vefaranum mikla: "...bara vinsamlega ábending um umræðu menningu (les: umræðumenningu) sumra þeirra sem afneita vísindum." :D
Og hverjir afneita svo vísindunum?:
"How reliable is skepticalscience.com as a source of climate information?
It isn't skeptical and it isn't science IMO. It is more of a political blog that pretends to be about science. I have looked on it for information but it doesn't take long before it inevitably makes unsubstantiated claims and reveals its AGW bias." (http://ca.answers.yahoo.com/question/index?qid=20101019075800AAtWVLi)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 21:24
Professor Scafetta examined tide gauge records scattered over the globe that go back 300 years and compared the data to ocean cycles PDO, AMO and NAO indexes. He found some interesting results, to put it mildly. According to the abstract of Scafetta’s paper: Tide gauge accelerations oscillate significantly from positive to negative values mostly following the PDO, AMO and NAO oscillations. In particular, the influence of a large quasi 60–70 year natural oscillation is clearly demonstrated in these records.” - See more at: http://link.springer.com/article/10.1007%2Fs00382-013-1771-3
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 21:26
Annað gullkorn frá vefaranum mikla: "...bara vinsamlega ábending um umræðu menningu (les: umræðumenningu) sumra þeirra sem afneita vísindum." :D
Og hverjir afneita svo vísindunum?:
"How reliable is skepticalscience.com as a source of climate information?
It isn't skeptical and it isn't science IMO. It is more of a political blog that pretends to be about science. I have looked on it for information but it doesn't take long before it inevitably makes unsubstantiated claims and reveals its AGW bias." (http://ca.answers.yahoo.com/question/index?qid=20101019075800AAtWVLi)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 21:51
Sveinn Atli: Það er engum til framdráttar að vera með persónuleg níð, ásakanir um leti eða telja fólk ruglað, sérstaklega þegar einu kynni manna hver að öðrum eru af netskrifum. Slíkt mat getur illa verið raunsætt þar sem hver les og túlkar texta annars með sínum augum. (Eins og þú sérð tek ég dæmi úr eigin ummælum, jafn sem þínum.)
Í efnislegri umræðu á fólk á að halda sig við efnið og gagnrýna textann sem ritaður er enn ekki lýsa manninum sem skrifar hann, eða gefa sér neinar forsendur um persónu viðkomandi, hvort sem menn eru á algjörlega öndverðum meiði eða ekki. Og stundum er þá líka viturlegra að þegja.
Hvað síðustu athugasemd Hilmars varðar, spyr ég bara, án þess að ég hafi neina fyrirfram mótaða skoðun á því: Hvað er rangt í því sem þar stendur? Hvers vegna týnirðu það ekki til í stað þess að tala um örvæntingar full viðbrögðs? Þakka annars vinsamlega ábendingu.
Áhugamaður, eins og John Cook, getur vel safnað saman góðu efni, jafnt sem slæmu. En eru það lærðir gestaskrifarar sem rita pistlana á Skeptical science? Sumt virðist þýtt annars staðar frá. Hverjir eru þá þeir höfundar? Eða eru þetta bara áhugasamir bloggarar? Ég hef ekki hugmynd um það, enn sem komið er.
En það eru líka til sprenglærðir vísindamenn sem efast, og setja nafn sitt við efasemdirnar. Eru þeir þá búnir að afneita vísindum sem þeir lærðu? Kallast þeir þá ekki lengur vísindamenn? Ég kaupi ekki svona málfutning, og þess vegna hef ég sett fram þessar spurningar sem fólk hefur séð.
Erlingur Alfreð Jónsson, 13.9.2013 kl. 22:15
Tek fram að ég sá ekki athugasemd Hilmars áður en ég birti mína.
Erlingur Alfreð Jónsson, 13.9.2013 kl. 22:16
Erlingur - fyrst takk fyrir umræðuna - þú ert málefnalegur.
Það er alltaf gott að ræða málefnin Erlingur - en það er ekki hægt að ræða við menn eins og Hilmar og hans nálgun er ekki í lagi. Það getur vel verið að við 2 höfum farið eitthvað í manninn (útiloka það ekki), en það er hins vegar langt frá persónulegu skítkasti Hilmars. Ég bendi þér vinsamlega á þetta - prófaðu að lesa eitthvað af því sem hann skrifar og skoðaðu hvernig hann fer ítrekað í manninn og með tilvísanir sem ekkert hafa með vísindi að gera (gagnrýni á heimildir er mikilvægur partur í þessari umræðu) - en hans nálgun skiptir í sjálfu sér ekki máli í okkar persónulegu umræðu Erlingur.
Hitt er annað mál að síðan SkepticalScience (eins og loftslag.is) er fyrst og fremst gerð af áhugamönnum. En vísindamenn og aðrir sérfræðingar hafa líka komið nálægt skrifum þar (sem og á loftslag.is). Það er oftast hægt að nálgast heimildirnar í tenglum eða heimildalistum við færslur - þannig að það eru yfirleitt tengingar í fræðin.
Það eru alveg örugglega til sprenglærði vísindamenn sem efast - ég efast ekki um það, en um eða yfir 97% af þeim vísindamönnum sem starfa við þessi fræði eru tiltölulega sammála um þátt mannanna í hnattrænni hlýnun - auðvitað eru hlutirnir ekki svart hvítir eða allir alveg sammála um hvert atriði - en álit loftslags vísindamanna (97 prósentanna) er þó nokkuð samhljóða að aukin gróðurhúsa áhrif af mannavöldum eru raunveruleg og jörðin er að hlýna vegna þessara áhrifa.
Þess má líka geta að ScepticalScience (sem og loftslag.is) tekur útgangspunkt í fræðunum og með samhljóm í því sem flestir vísindamenn sem starfa á þessu sviði halda að sé í gangi.
Það getur verið leiðigjarnt að svara nýjum og nýjum mýtum um fræðin. Það lýsir sér þannig að einhver setur fram fullyrðingu sem maður svarar á málefnalegan hátt með tilvísun í fræðin, en í stað þess að viðurkenna að viðkomandi hafi ekki haft staðreyndirnar réttar þá er bara hoppað í næstu mýtu og nýjar fullyrðingar - þetta er hálfgerður vítahringur sem er leiðigjarnt að lenda í. Þess vegna er t.d. hægt að lesa margar af mýtunum bæði á loftslag.is (mýtur) svo og á SkepticalScience (arguments).
Ég hef ekki að kallað alla vísindamenn sem efast eitthvað um fræðin afneitara - ég er fyrst og fremst að benda á að menn eins og t.d. Hilmar (sem aðallega leita í afneitunarbloggsíður - ekki vísindi) og þeir sem aðhyllast þannig málflutning afneita vísindum. Það eru líka til vísindamenn sem afneita loftslagsvísindunum - en slíkt er tiltölulega sjaldgæft sem betur fer...þó sumir séu frægir fyrir það og lítið annað.
Góð lesning sem byggir á fræðunum er t.d. þessi síða af loftslag.is - Mælingar staðfesta kenninguna - því þetta er ekki eitthvað sem er fundið upp af mér eða einhverjum öðrum einstaklingi í einhverju stóru samsæri - heldur eru mælingar sem liggja að baki - mælingar byggðar á vísindalegum grunni
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 22:47
Þetta er allt sprenglærðir vísindamenn sem efast. Samkvæmt svatla og höska afneita þeir allir vísindum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 23:13
Þeir skrifuðu allir undir opið brég til aðalritara Sameinuðuþjóðanna:
Open letter to UN Secretary-General: Current scientific knowledge does not substantiate Ban Ki-Moon assertions on weather and climate.
http://opinion.financialpost.com/2012/11/29/open-climate-letter-to-un-secretary-general-current-scientific-knowledge-does-not-substantiate-ban-ki-moon-assertions-on-weather-and-climate-say-125-scientists/
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 23:18
Ban Ki- Moon nálgast loftslagsmál á sama hátt og IPPC og loftslag.is
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 23:20
"Policy actions that aim to reduce CO2 emissions are unlikely to influence future climate."
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 23:22
Erlingur - ég hef ekki myndað mér skoðun á þessum lista Gunnars og get því ekki svarað fyrir hann sérstaklega. En það má gjarnan benda á eftirfarandi umfjöllun varðandi álit loftslagsvísindamanna almennt, Is there a scientific consensus on global warming?
Annars er til mikið af svona listum sem einhverjir telja að afsanni raunverulegar mælingar og rannsóknir - en eru í raun bara skoðanir einhverra (sem sumir geta verið hámenntaðir)...hér er t.d. annar listi til umfjöllunar, Over 31,000 scientists signed the OISM Petition Project - fróðleg lesning.
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 23:23
"On November 9 this year you told the General Assembly: “Extreme weather due to climate change is the new normal … Our challenge remains, clear and urgent: to reduce greenhouse gas emissions, to strengthen adaptation to … even larger climate shocks … and to reach a legally binding climate agreement by 2015 … This should be one of the main lessons of Hurricane Sandy.”
On November 13 you said at Yale: “The science is clear; we should waste no more time on that debate.”
The following day, in Al Gore’s “Dirty Weather” Webcast, you spoke of “more severe storms, harsher droughts, greater floods”, concluding: “Two weeks ago, Hurricane Sandy struck the eastern seaboard of the United States. A nation saw the reality of climate change. The recovery will cost tens of billions of dollars. The cost of inaction will be even higher. We must reduce our dependence on carbon emissions.”
We the undersigned, qualified in climate-related matters, wish to state that current scientific knowledge does not substantiate your assertions. "
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 23:23
Ég er ekki að segja að þessi listi afsanni eitt eða annað álit um loftslagsmál. Það girðir hins vegar niður um svatla og fullyrðingar hans og það er fyndið.... og digurbarkalegt tal svatla er hlægilegt
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 23:27
Gunnar - þessi listi gerir ekkert varðandi mína afstöðu og breytir vísindunum enn síður - en ef þú vilt snúa þessu þannig í höfði þínu að þú hafir "girt niður um mig og mínar fullyrðingar" - þá þú um það Gunnar.
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.9.2013 kl. 23:59
97% vísindasamhygðarmaðurinn Sveinn Atli Gunnarsson situr fastur við sinn keip - hans afstaða er óbifanleg, vandlega grundvölluð á blekkingaleik John Crook:
"Dr William Briggs, “Statistician to the Stars”, said: “In any survey such as Cook’s, it is essential to define the survey question very clearly. Yet Cook used three distinct definitions of climate consensus interchangeably. Also, he arbitrarily excluded about 8000 of the 12,000 papers in his sample on the unacceptable ground that they had expressed no opinion on the climate consensus. These artifices let him reach the unjustifiable conclusion that there was a 97.1% consensus when there was not.
“In fact, Cook’s paper provides the clearest available statistical evidence that there is scarcely any explicit support among scientists for the consensus that the IPCC, politicians, bureaucrats, academics and the media have so long and so falsely proclaimed. That was not the outcome Cook had hoped for, and it was not the outcome he had stated in his paper, but it was the outcome he had really found.”" (http://wattsupwiththat.com/2013/09/03/cooks-97-consensus-disproven-by-a-new-paper-showing-major-math-errors/)
Kolefnisboðskapur skepticalscience.com er grundvallaður á lygi og blekkingum. Það er eðlilegt að Svatli sé hálf ráðvilltur :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.9.2013 kl. 01:13
New data acquired in August 2013 show near-normal sea-surface height conditions across the equatorial Pacific Ocean.http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=82041
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 14.9.2013 kl. 13:51
Þetta er flókið og það er greinilegt að þessi loftlagsmódel eru ekki að virka ! http://online.wsj.com/article/SB10001424127887324549004579067532485712464.html
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 14.9.2013 kl. 16:01
Listinn skiptir í sjálfu sér ekki máli en það sem þessir vísindamenn segja hlýtur að vekja hugsandi fólk til umhugsunar, þó það hafi engin áhrif á þig.
En framkoma þín hér og annarsstaðar í garð þeirra sem kokgleypa ekki allt sem frá ykkur á loftslag.is kemur, sýnir hversu lítill kall þú ert.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.9.2013 kl. 17:21
Æji Gunnar minn, á nú að reyna þessa smjörklípu enn og aftur - fer nú að verða hálf vorkunsamt hjá þér. Viltu ekki bara kalla mig vistkvíðasjúkling eða eitthvað annað sem þú hefur gert áður - það er allavega hreinna og beinna en einhverjar leiðinda smjörklípur ;)
PS. Þó að einhverjir aðilar (vísindamenn og aðrir) skrifi bréf til nafngreinds aðila varðandi loftslagsmálin og lýsi skoðun sinni á þeim aðila (og Al Gore líka) ásamt því að segja sína persónulegu skoðun á ákveðnum þáttum í loftslagsumræðunni, þá breytir það ekki vísindunum (hvað þá minni skoðun sem byggir á því sem ég hef lesið um vísindin). Ef þeim er svona annt um vísindi - þá hefðu þeir kannski átt að birta ný gögn sem sýna fram á eitthvað nýtt í þessum efnum. Þeim er svo sem velkomið að segja skoðun sína - en það hefur ekkert með mig eða vísindin að gera Gunnar - og breytir í mínum huga engu þó þeir hafi persónulega skoðun sem er í andstöðu við meirihluta loftslagsvísindamanna. Auðvitað er þér velkomið að telja að bréf til nafngreinds aðila frá öðrum nafngreindum aðilum komi í stað vísinda - ekki málið Gunnar minn.
Sveinn Atli Gunnarsson, 14.9.2013 kl. 18:20
Eftirfarandi er opið bréf til The Wall Street Journal, undirritað af sextán framúrskarandi vísindamönnum 2011. Í bréfinu taka þeir skýrt fram að kenningin um hnattræna hlýnun af manna völdum sé ekki studd vísindasönnunum.
"No Need to Panic About Global Warming
There's no compelling scientific argument for drastic action to 'decarbonize' the world's economy.
A candidate for public office in any contemporary democracy may have to consider what, if anything, to do about "global warming." Candidates should understand that the oft-repeated claim that nearly all scientists demand that something dramatic be done to stop global warming is not true. In fact, a large and growing number of distinguished scientists and engineers do not agree that drastic actions on global warming are needed.
In September, Nobel Prize-winning physicist Ivar Giaever, a supporter of President Obama in the last election, publicly resigned from the American Physical Society (APS) with a letter that begins: "I did not renew [my membership] because I cannot live with the [APS policy] statement: 'The evidence is incontrovertible: Global warming is occurring. If no mitigating actions are taken, significant disruptions in the Earth's physical and ecological systems, social systems, security and human health are likely to occur. We must reduce emissions of greenhouse gases beginning now.' In the APS it is OK to discuss whether the mass of the proton changes over time and how a multi-universe behaves, but the evidence of global warming is incontrovertible?"
In spite of a multidecade international campaign to enforce the message that increasing amounts of the "pollutant" carbon dioxide will destroy civilization, large numbers of scientists, many very prominent, share the opinions of Dr. Giaever. And the number of scientific "heretics" is growing with each passing year. The reason is a collection of stubborn scientific facts.
Perhaps the most inconvenient fact is the lack of global warming for well over 10 years now. This is known to the warming establishment, as one can see from the 2009 "Climategate" email of climate scientist Kevin Trenberth: "The fact is that we can't account for the lack of warming at the moment and it is a travesty that we can't." But the warming is only missing if one believes computer models where so-called feedbacks involving water vapor and clouds greatly amplify the small effect of CO2.
The lack of warming for more than a decade—indeed, the smaller-than-predicted warming over the 22 years since the U.N.'s Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC) began issuing projections—suggests that computer models have greatly exaggerated how much warming additional CO2 can cause. Faced with this embarrassment, those promoting alarm have shifted their drumbeat from warming to weather extremes, to enable anything unusual that happens in our chaotic climate to be ascribed to CO2.
The fact is that CO2 is not a pollutant. CO2 is a colorless and odorless gas, exhaled at high concentrations by each of us, and a key component of the biosphere's life cycle. Plants do so much better with more CO2 that greenhouse operators often increase the CO2 concentrations by factors of three or four to get better growth. This is no surprise since plants and animals evolved when CO2 concentrations were about 10 times larger than they are today. Better plant varieties, chemical fertilizers and agricultural management contributed to the great increase in agricultural yields of the past century, but part of the increase almost certainly came from additional CO2 in the atmosphere.
Although the number of publicly dissenting scientists is growing, many young scientists furtively say that while they also have serious doubts about the global-warming message, they are afraid to speak up for fear of not being promoted—or worse. They have good reason to worry. In 2003, Dr. Chris de Freitas, the editor of the journal Climate Research, dared to publish a peer-reviewed article with the politically incorrect (but factually correct) conclusion that the recent warming is not unusual in the context of climate changes over the past thousand years. The international warming establishment quickly mounted a determined campaign to have Dr. de Freitas removed from his editorial job and fired from his university position. Fortunately, Dr. de Freitas was able to keep his university job.
This is not the way science is supposed to work, but we have seen it before—for example, in the frightening period when Trofim Lysenko hijacked biology in the Soviet Union. Soviet biologists who revealed that they believed in genes, which Lysenko maintained were a bourgeois fiction, were fired from their jobs. Many were sent to the gulag and some were condemned to death.
Why is there so much passion about global warming, and why has the issue become so vexing that the American Physical Society, from which Dr. Giaever resigned a few months ago, refused the seemingly reasonable request by many of its members to remove the word "incontrovertible" from its description of a scientific issue? There are several reasons, but a good place to start is the old question "cui bono?" Or the modern update, "Follow the money."
Alarmism over climate is of great benefit to many, providing government funding for academic research and a reason for government bureaucracies to grow. Alarmism also offers an excuse for governments to raise taxes, taxpayer-funded subsidies for businesses that understand how to work the political system, and a lure for big donations to charitable foundations promising to save the planet. Lysenko and his team lived very well, and they fiercely defended their dogma and the privileges it brought them.
Speaking for many scientists and engineers who have looked carefully and independently at the science of climate, we have a message to any candidate for public office: There is no compelling scientific argument for drastic action to "decarbonize" the world's economy. Even if one accepts the inflated climate forecasts of the IPCC, aggressive greenhouse-gas control policies are not justified economically.
A recent study of a wide variety of policy options by Yale economist William Nordhaus showed that nearly the highest benefit-to-cost ratio is achieved for a policy that allows 50 more years of economic growth unimpeded by greenhouse gas controls. This would be especially beneficial to the less-developed parts of the world that would like to share some of the same advantages of material well-being, health and life expectancy that the fully developed parts of the world enjoy now. Many other policy responses would have a negative return on investment. And it is likely that more CO2 and the modest warming that may come with it will be an overall benefit to the planet.
If elected officials feel compelled to "do something" about climate, we recommend supporting the excellent scientists who are increasing our understanding of climate with well-designed instruments on satellites, in the oceans and on land, and in the analysis of observational data. The better we understand climate, the better we can cope with its ever-changing nature, which has complicated human life throughout history. However, much of the huge private and government investment in climate is badly in need of critical review.
Every candidate should support rational measures to protect and improve our environment, but it makes no sense at all to back expensive programs that divert resources from real needs and are based on alarming but untenable claims of "incontrovertible" evidence.
Claude Allegre, former director of the Institute for the Study of the Earth, University of Paris; J. Scott Armstrong, cofounder of the Journal of Forecasting and the International Journal of Forecasting; Jan Breslow, head of the Laboratory of Biochemical Genetics and Metabolism, Rockefeller University; Roger Cohen, fellow, American Physical Society; Edward David, member, National Academy of Engineering and National Academy of Sciences; William Happer, professor of physics, Princeton; Michael Kelly, professor of technology, University of Cambridge, U.K.; William Kininmonth, former head of climate research at the Australian Bureau of Meteorology; Richard Lindzen, professor of atmospheric sciences, MIT; James McGrath, professor of chemistry, Virginia Technical University; Rodney Nichols, former president and CEO of the New York Academy of Sciences; Burt Rutan, aerospace engineer, designer of Voyager and SpaceShipOne; Harrison H. Schmitt, Apollo 17 astronaut and former U.S. senator; Nir Shaviv, professor of astrophysics, Hebrew University, Jerusalem; Henk Tennekes, former director, Royal Dutch Meteorological Service; Antonio Zichichi, president of the World Federation of Scientists, Geneva."
Ég heyrði ekki betur en að íslenskir veðurfræðingar væru að spá k ó l n a n d i veðri á næstu árum og áratugum á Íslandi í kvöldfréttum Stöðvar 2. Sveinn Atli hlustar auðvitað ekki á fréttir og les bara scepticalscience.com :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.9.2013 kl. 18:54
Nú sá ég ekki fréttina í sjónvarpinu, og þegar þetta er ritað er fréttatíminn ekki kominn á netið og ég get því ekki sannreynt það sem Hilmar bendir á með íslenska veðurfræðinga, en svipuð, en þó líklega sama frétt, er á visir.is í textaformi og vitnað í Pál Bergþórsson:
Páll segir að mikið hafi hlýnað á jörðinni síðan fyrir 1980 og að nú geti verið komið að því að það fari að kólna. Það haldi svo áfram að kólna fram undir mijða öldina en þá byrji að hlýna aftur. „Og þá miklu meira heldur en núna hefur hlýnað, vegna þess að inn í þetta kemur annað. Það er mengunin, koltvísýringurinn sem að við erum að spýja út í andrúmsloftið,“ segir hann.
Páll hefur áður bent á reglubundna 25-40 ára fasa á norðurhveli þar sem andrúmsloftið hlýna og kólnar á víxl.
Öll kólnun er náttúrulega þvert á allar dómsdagspár í þessu sambandi og vekur upp spurningar um nákvæmni loftslagslíkana. En það er engu að síður ekki nema sanngjarnt að benda á allt sem sagt er þegar vitnað er í fréttir, þó ég hafi sjálfur efasemdir um hversu mikil áhrif CO2 eru á hlýnunina í raun. Miðað við frétt visir.is bendir þú því miður bara á hálfa söguna, Hilmar.
Erlingur Alfreð Jónsson, 14.9.2013 kl. 21:00
Það er einfaldlega ekki rétt hjá þér EAJ:
"Búast má við kólnandi veðri á næstu árum og áratugum, en það segir veðurfræðingurinn Páll Bergþórsson, sem hefur fylgst með veðri og vindum lengur en flestir."
Þetta er einmitt það sem ég hef verið að segja talsmönnum kolefniskirkjunnar á Íslandi í nokkur ár, það er að kólna.
"Páll segir að mikið hafi hlýnað á jörðinni síðan fyrir 1980 og að nú geti verið komið að því að það fari að kólna. Það haldi svo áfram að kólna fram undir mijða öldina en þá byrji að hlýna aftur. „Og þá miklu meira heldur en núna hefur hlýnað, vegna þess að inn í þetta kemur annað. Það er mengunin, koltvísýringurinn sem að við erum að spýja út í andrúmsloftið,“ segir hann."
Ef þú hefur fylgst með athugasemdum hér að ofan sýna nýjustu vísindagreinar að CO2 hefur hverfandi áhrif á hlýnun jarðar. CO2 eltir hlýnunina, en ekki öfugt.
Páll viðurkennir því að það sé óhjákvæmilega að kólna en virðist hallur undir bullvísindi kolefniskirkjunnar, eins og reyndar starfsmenn Veðurstofu Íslands.
Það gengur þvert á spálíkön kolefniskirkjunnar að halda því fram að 50 ára hik geti orðið á hnatthlýnun þrátt fyrir að magn CO2 margfaldist í andrúmslofti.
Með fullyrðingu sinni um yfirvofandi hnattkólnun er Páll því í rauninni að segja að CO2 hafi ekki áhrif á hnatthlýnun :)
Speglasjónir Páls um óðahlýnun í fjarlægri framtíð vegna aukins magns CO2 í andrúmslofti eru því markleysa.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.9.2013 kl. 22:32
"Ef þú hefur fylgst með athugasemdum hér að ofan sýna nýjustu vísindagreinar að CO2 hefur hverfandi áhrif á hlýnun jarðar. CO2 eltir hlýnunina, en ekki öfugt."
Þú ættir kannski að lesa (aftur?) eins og eina athugasemd sem ég hef sett hér inn að ofan (að langmest leyti í rökræðum við Svein Atla), og byrjar kannski á þessari síðustu, áður en þú segir svona. Miðað við efni þeirra, í hvoru liðinu heldurðu að ég sé?! Gargandi snilld!
Mér fannst hins vegar bara eðlilegt og sanngjarnt að hér komi fram að Páll telur CO2 hafi mikil áhrif á loftslagið í hina áttina, en ekki bara að nú fari kólnandi.
Erlingur Alfreð Jónsson, 15.9.2013 kl. 00:01
Erlingur Alfreð. Mér stendur slétt á sama í hvaða "liði" þú telur þig vera. Framþróun vísinda byggist ekki á frumstæðum liðsuppstillingum manna heldur leitinni að sannleikanum.
Athugasemdir þínar - eða mínar - skipta nákvæmlega engu máli í því sambandi.
Talandi um fyrrverandi Veðurstofustjóra þá er ekkert nýtt í oftrú hans á kenningar um hnatthlýnun af manna völdum. Bendi í því sambandi á þá staðreynd að hákirkja kolefnistrúarinnar á Íslandi er einmitt til húsa hjá Veðurstofunni.
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 15.9.2013 kl. 09:52
Ég tel að lokum vel viðeigandi að vísa í glænýja frétt:
"Loftslagsspár rangar í helmingi tilfella
Loftslagsnefnd SÞ viðurkennir mistök í væntanlegri skýrslu.
Ítarleg úttekt sem gerð hefur verið á loftslagsspám Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, gegnum tíðina leiðir í ljós að þær spár hafa að mestum hluta verið rangar. Hlýnun jarðar hefur verið töluvert minni en jafnvel bjartsýnustu spár stofnunarinnar. (endurtekið fyrir umhverfistalíbanana: ...þær spár hafa að mestum hluta verið rangar. Hlýnun jarðar hefur verið töluvert minni en jafnvel bjartsýnustu spár stofnunarinnar.)
Það er breska blaðið Daily Mail sem komist hefur yfir skýrslu sem til stendur að birta opinberlega síðar í þessum mánuði þar sem þetta kemur fram en þar viðurkenna vísindamenn IPCC mistök af sinni hálfu við loftslagsspár. (endurtekið fyrir umhverfistalíbanana: ...þar viðurkenna vísindamenn IPCC mistök af sinni hálfu við loftslagsspár.)
Kemur fram meðal annars að spár IPCC byggðar á gögnum frá árinu 1950 sem sýndu 0.2 gráðu hlýnun að jafnaði á hverjum áratug síðan þá eru fjarri lagi. Raunhlýnun á áratugagrundvelli yfir það tímabil reyndist vera 0.12 gráður þegar að var gáð. (endurtekið fyrir umhverfistalíbanana: Raunhlýnun á áratugagrundvelli yfir það tímabil reyndist vera 0.12 gráður þegar að var gáð.)
Þá kemur líka fram að jafnvel fullkomnustu loftslagslíkön hafi ekki reiknað út þá stöðvun hlýnunar sem nýverið hefur mælst en sem kunnugt er hefur hitastig að mestu staðið í stað eða jafnvel lækkað örlítið allra síðustu árin. (endurtekið fyrir umhverfistalíbanana: ...jafnvel fullkomnustu loftslagslíkön hafi ekki reiknað út þá stöðvun hlýnunar sem nýverið hefur mælst.)
(http://www.dv.is/frettir/2013/9/15/loftslagsspar-rangar-i-helmingi-tilfella/)
John Crook hvað?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 15.9.2013 kl. 12:03
Mjög áhugaverð grein hjá Daily Mail, Hilmar. Hvet þá sem hér hafa ritað athugasemdir að lesa hana.
Nokkur ummæli úr greind Daily Mail:
...
The 31-page ‘summary for policymakers’ is based on a more technical 2,000-page analysis which will be issued at the same time. It also surprisingly reveals: IPCC scientists accept their forecast computers may have exaggerated the effect of increased carbon emissions on world temperatures – and not taken enough notice of natural variability.
…
A forecast in the 2007 report that hurricanes would become more intense has simply been dropped, without mention.
This year has been one of the quietest hurricane seasons in history and the US is currently enjoying its longest-ever period – almost eight years – without a single hurricane of Category 3 or above making landfall.
…
One of the report’s own authors, Professor Myles Allen, the director of Oxford University’s Climate Research Network, last night said this should be the last IPCC assessment – accusing its cumbersome production process of ‘misrepresenting how science works’.
…
Starting a week tomorrow, about 40 of the 250 authors who contributed to the report – and supposedly produced a definitive scientific consensus – will hold a four-day meeting in Stockholm, together with representatives of most of the 195 governments that fund the IPCC, established in 1998 by the World Meteorological Organisation (WMO) and the United Nations Environment Programme (UNEP).
The governments have tabled 1,800 questions and are demanding major revisions, starting with the failure to account for the pause.
…
Prof Allen said: ‘The idea of producing a document of near-biblical infallibility is a misrepresentation of how science works, and we need to look very carefully about what the IPCC does in future.’
…
Last night IPCC communications chief Jonathan Lynn refused to comment, saying the leaked report was ‘still a work in progress’.
…
Critics of the article entirely ignored its equally accurate statement that there is mounting evidence the Arctic sea ice retreat has in the past been cyclical: there were huge melts in the 1920s, followed by later advances.
Some scientists believe that this may happen again, and may already be under way – delaying the date when the ice cap might vanish by decades or even centuries.
…
Ummælin má lesa í óslitnu samhengi á vef Daily Mail hér.
Langar einnig að vekja athygli á nýlegri grein á loftslag.is:
Engin pása í hnattrænni hlýnun! (Vona hlekkurinn sé réttur í þetta skiptið Sveinn Atli)
Erlingur Alfreð Jónsson, 15.9.2013 kl. 13:40
Hlekkurinn á loftslag.is var réttur - takk fyrir Erlingur. Reyndar ber að varast að taka fréttamiðla eins og Daily Mail mjög alvarlega þegar kemur að því að túlka vísindi - sjá t.d. um fyrri rangfærslur David Rose (sá sem ritar greinina) hér. Það virðist vera sem David Rose sé ekki mjög umhugað um að fara með rétt mál þegar kemur að þessum málum - reyndar ekki í fyrsta skipti hjá honum.
Ég á ekki von á öðru en að einhverjum mislíki það að túlkun Daily Mail á loftslagsvísindum sé hrakin - en tek það fram að ég ber ekki ábyrgð á því hvernig David Rose og Daily Mail haga sínum málflutningi. Hér má lesa meira um málatilbúnað þeirra - Arctic sea ice delusions strike the Mail on Sunday and Telegraph.
Reyndar á enn eftir að hrekja hans nýjustu grein sem Erlingur vísar í - ég á ekki von á öðru en það verði gert fljótlega. Las reyndar eftirfarandi hjá einum FB-vini í dag í tilefni af gagnrýnislausri endurtekningu DV.is á þessari "frétt" Daily Mail:
Jamm, en þetta mun væntanlega halda áfram - þrátt fyrir haldbær vísindaleg gögn um hnattræna hlýnun af manna völdum. Svona málatilbúnaður dúkkar reglulega upp.
Sveinn Atli Gunnarsson, 15.9.2013 kl. 18:38
Já auðvitað. Daily Mail er náttúrulega stórvarasamt rit og David Rose algjörlega vonlaus blaðamaður þegar kemur að loftslagsmálum. Og ég efa það ekki að skepticalscience.com á eftir að tæta efni greinarinnar í sig sem mýtu. Er bara alveg hissa hversu seinir þeir eru að taka við sér miðað við þekkinguna sem þar er að finna.
En þá ætti líka að hrekja orð þeirra vísindamanna sem vitnað er til í greininni, Prof. Myles Allen og Prof. Judith Curry, sem bæði eru loftslagsvísindamenn, eða alla vega leita eftir viðbrögðum þeirra. Á ekki von á að slíkt verði gert í umfjöllun skepticalscience.com.
Viðbrögð Judith Curry er reyndar að finna á hennar eigin bloggi þar sem hún staðfestir að rétt sé eftir henni haft:
"Apparently someone in the IPCC made the Report available to ‘friendly’ journalists, as part of a strategy to brief them before the formal release of the Report. I have declined to comment until very recently, since I thought it was best to let the IPCC process play out. Now it is clear that the leaked report has made it into the hands of journalists that were not on the IPCC’s ‘friends’ list. I have now seen a copy of the SPM, and I provided comments to David Rose (and also to another journalist, not sure when that will air).
David Rose quotes me in his article (accurately)."
Þar næst birtir hún tölvupóstinn sem hún sendir David Rose. Þetta skiptir meira máli en miðillin sem birtir efnið. En þá er Prof. Judith Curry sjálfsagt orðin ótrúverðug.
Erlingur Alfreð Jónsson, 15.9.2013 kl. 21:13
David Rose er ótrúverðugur og hefur margítrekað sýnt fram á það - hvort sem að hann hefur rétt eftir Curry eður ei...það er ekki aðalmálið í þessu samhengi (hún er reyndar þekkt "efasemdamanneskja").
Málið er að David Rose hefur verið marg staðin að því að fara með rangt mál varðandi loftslagsvísindin. Hann veit sem er að svona vitleysa fer ansi hratt yfir - það tekur tíma að greina og svara svona þessu og fæstir sjá nokkurn tíma svarið. En ef þú vilt ræða vísindi, þá er David Rose og greinar hans á Daily Mail ekki málið...það er augljóst þeim sem það vilja sjá - sumir vilja að sjálfsögðu ekki sjá það, en það er svo annað mál.
Sveinn Atli Gunnarsson, 15.9.2013 kl. 21:25
Hvað sagði ég: "Hún [Judith Curry] er reyndar þekkt efasemdamanneskja." Sem sagt ótrúverðug.
Segðu mér eitt að lokum Sveinn Atli: Eru ALLIR efasemdamenn afgreiddir sem ótrúverðugir og afneitarar vísinda, sem ekki gangast við niðurstöðum IPCC og ykkar stuðningsmanna þeirra kenninga í loftslagsmálum? Skiptir engu máli hvort viðkomandi "efasemdamanneskja" er hámenntaður vísindamenntaður og styður mál sitt með vísindarökum? Getur þú, eftir alla þína skoðun á þessum málum, bent á einn vísindamann sem ekki gengst við niðurstöðum IPCC og telst enn vera trúverðugur vísindamaður í loftslagsumræðu?
Erlingur Alfreð Jónsson, 15.9.2013 kl. 21:52
Judith Curry er vísindamaður, það verður ekki tekið af henni - en hún er líka "efasemdamanneskja" og m.a. fræg fyrir það - ég hef reyndar ekki kallað hana afneitara eða ótrúverðuga hér, en hvað um það - David Rose er ótrúverðugur, hvað sem segja má um Curry (mín skoðun á henni skiptir í raun ekki máli og ég setti ekki fram hennar nálgun hér).
Nei, ég get ekki bent á neinn vísindamann, sem ég hef rekist á, sem afneitar loftslagsvísindunum og ég tek mjög alvarlega varðandi þau fræði. Reyndar skal hér tekið fram að það er ekki til eitthvað sem kallast niðurstöður IPCC - IPCC tekur saman niðurstöður vísindamanna (mikið til ritrýndar vísindagreinar), en stundar ekki eigin rannsóknir sérstaklega. Það má segja að IPCC setji saman einskonar yfirlit yfir niðurstöður vísindanna varðandi loftslagsmálin. En það samdómaálit sem hefur myndast innan loftslagsvísindanna er að mínu mati mun meira virði en einhver léleg blaðagrein í Daily Mail eftir einhvern sem hefur langan feril í að mistúlka fræðin. Taktu eftir því þegar þú lest greinina hvernig orðalagið er - talað er um m.a. "doom" og eitthvað "gospel" - ásamt áhyggjum af skattamálum og endurnýjanlegri orku út frá einhverri pólitík að því er virðist vera - lýsingar sem virðast ekki eiga við þegar rætt er um vísindi. Almennt, þá virðist svona orðalag ekki trufla "efasemdamenn" - en þetta eykur ekki trúverðugleika hans sem blaðamanns í augum þeirra sem vilja ræða vísindi almennt.
Sveinn Atli Gunnarsson, 15.9.2013 kl. 22:52
"(hún er reyndar þekkt "efasemdamanneskja").
Er hún þá á svörtum lista hjá ykkur?
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.9.2013 kl. 23:44
Susan Solomon birti niðurstöður ransókna sinna á áhrifum vatnsgufu (water vapor) í heiðhvolfinu (stratosphere) á yfirborðshita jarðar.
Meginatriði ritgerðarinnar eru svona:
Stratospheric water vapor concentrations decreased by about 10% after the year 2000. Here we show that this acted to slow the rate of increase in global surface temperature over 2000–2009 by about 25% compared to that which would have occurred due only to carbon dioxide and other greenhouse gases. More limited data suggest that stratospheric water vapor probably increased between 1980 and 2000, which would have enhanced the decadal rate of surface warming during the 1990s by about 30% as compared to estimates neglecting this change. These findings show that stratospheric water vapor is an important driver of decadal global surface climate change.
Skepticalscience.com setur þetta í flokk með skeptics arguments og afgreiðir þessar niðurstöður svona:
The effect from stratospheric water vapor contributes a fraction of the temperature change imposed from man-made greenhouse gases. Also, it's not yet clear whether changes in stratospheric water vapor are caused by a climate feedback or internal variability (eg - linked to El Nino Southern Oscillation). However, the long term warming trend seems to speak against the possibility of a negative feedback.
...
There seem to be two major misconceptions arising from this paper. The first is that this paper demonstrates that water vapor is the major driver of global temperatures. In fact, what this paper shows is the effect from stratospheric water vapor contributes a fraction of the temperature change imposed from man-made greenhouse gases. While the stratospheric water vapor is not insignificant, it's hardly the dominant driver of climate being portrayed by some blogs.
Sem sagt, Skeptical science er ósammála Susan Solomon og túlkar niðurstöður hennar á annan hátt en hún. Telur þú þar með að ekki sé hægt að taka Susan Solomon, og hennar framlag, alvarlega í loftslagsumræðum?
Erlingur Alfreð Jónsson, 16.9.2013 kl. 00:17
Þarna átti að standa: Meginatriði rannsóknarinnar er svona:
Erlingur Alfreð Jónsson, 16.9.2013 kl. 00:18
Erlingur - ég held að þú sért að lesa þetta eitthvað á rangan hátt - held að SkepticalScience argumentið hafi ekkert með grein Susan Solomon að gera og hvorugt virðist vera í andstöðu við hitt - reyndar vantar tengil á grein hennar - myndi hjálpa. SkepticalScience segir að vatnsgufa sé "not insignificant" - s.s. hafi áhrif en sé bara ekki "dominant" (aðal) drifkraftur núverandi loftslagsbreytinga. S.s. Solomon gefur til kynna að það séu einhver áhrif - áratugasveiflur - hún talar ekki um aðal drifkraft breytinga - SkepticalScience gefur til kynna að vatnsgufur hafi áhrif (not insignificant) en segir líka að það sé ekki aðal drifkraftur núverandi breytinga.
S.s. engin mótsögn í þessu Erlingur - ég skil því ekki túlkun þína þar sem þú segir að SkepticalScience sé ósammála Solomon - það er ekkert sem styður þá túlkun.
Sveinn Atli Gunnarsson, 16.9.2013 kl. 08:03
Nei Sveinn Atli, ég held ég sé að lesa bara það sem stendur á Skepticalscience. Umræðan þar hefst með þessum orðum í skeptics arguements:
Water vapor in the stratosphere stopped global warming.
A new study authored by Susan Solomon, lead author of the study and a researcher at the National Oceanic and Atmospheric Administration in Boulder, Colo. could explain why atmospheric carbon is not contributing to warming significantly. ...
Síðan er vísað í hvað vísinding segja. Ég get því ekki séð annað en argumentið og umfjöllunin sé beintengt grein Solomon enda vísað hana á tveimur stöðum í greininni.
Þú segir: "S.s. Solomon gefur til kynna að það séu einhver áhrif - áratugasveiflur - hún talar ekki um aðal drifkraft breytinga - SkepticalScience gefur til kynna að vatnsgufur hafi áhrif (not insignificant) en segir líka að það sé ekki aðal drifkraftur núverandi breytinga. S.s. engin mótsögn í þessu Erlingur - ég skil því ekki túlkun þína þar sem þú segir að SkepticalScience sé ósammála Solomon - það er ekkert sem styður þá túlkun."
Skepticalscience segir að áhrifin séu einungis brot (fraction), not significant (ekki milivæg/marktæk) og varla ráðandi (hardly dominant) en Solomon segir þau þýðingarmikil (important). Þannig að þú telur engan mun á fraction eða not significant vs important driver?
Greinin heitir Contributions of Stratospheric Water Vapor to Decadal Changes in the Rate of Global Warming og hægt er að nálgast hana á sciencemag.com en þó þarf að skrá sig til að fá aðgang að henni. Í umfjöllun Skepticalscience er reyndar nafn greinarinnar gefið og hlekkjað á útdrátt hennar þar, sem hægt hefði verið að sjá ef greinin er skoðuð.
En svo fann ég skannað afrit úr sciencemag hér.
Erlingur Alfreð Jónsson, 16.9.2013 kl. 08:38
Sveinn Atli, þú svaraðir heldur ekki spurningunni: Telur þú þar með að ekki sé hægt að taka Susan Solomon, og hennar framlag, alvarlega í loftslagsumræðum?
Erlingur Alfreð Jónsson, 16.9.2013 kl. 08:41
Þegar þú ert að lesa það sem stendur í "The skeptict argument" boxinu - þá er það sú túlkun sem að "efasemdarmenn" leggja í hlutina - í þetta skiptið í rannsókn Solomon. Það virðist því vera sem "efasemdamenn" séu að mistúlka rannsókn Solomon 2010 og fullyrða að niðurstöðurnar séu aðrar en þær eru - eins og tekið er fram á SkepticalScience:
Þetta er klassíker - "efasemdamenn" mistúlka rannsóknir og reyna að færa rök fyrir því að hin eða þessi rannsókn sanni að loftslagsbreytingar séu ekki af manna völdum. Svo þegar rýnt er í gögnin (eins og gert er á SkS) þá kemur í ljós að ekkert er að marka mistúlkanir "efasemdamanna" - fyndið þó að lesa þetta á þann veg að það sé einhver túlkunarmunur hjá SkS og í þessari rannsókn. Ég tel ekki að SkS sé að setja nokkuð út á þessa rannsókn - heldur eru þeir að útskýra hvers vegna fullyrðingar "efasemdamanna" varðandi þessa rannsókn standast ekki ;)
Væri væntanlega gott hjá þér að lesa greinina á SkS aftur og skilja munin á því hvað eru fullyrðingar "efasemdarmanna" og hvar er í raun fjallað um rannsóknina sjálfa - myndi hjálpa verulega.
Sveinn Atli Gunnarsson, 16.9.2013 kl. 13:57
Ég hef ekkert út á þessa rannsókn Susan Solomon að athuga - get ekki annað sagt en að það sé óhætt að taka rannsóknina alvarlega. En ég veit svo sem ekki meira um hana, þannig að ég get svo sem ekki svarað því nánar hvað ég á að halda um hana - virðist bara vera ósköp venjulegur vísindamaður...
Sveinn Atli Gunnarsson, 16.9.2013 kl. 14:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.