12.10.2013 | 21:46
Fata Morgana
Í sjónvarpsþáttunum Merlín er farið yfir sögu Arthúrs konungs og eilífa baráttu hans við hina rammgöldróttu hálfsystur sína sem þráir ekkert heitara en að setjast sjálf í hásæti drottningar í konungsríkinu Kamelot. Þrátt fyrir vopnafimi sína og harðskeitta riddara hringborðsins er við ramman reip að draga í þessari baráttu við myrkraöflin og staðan vonlaus frá upphafi ef ekki nyti við skósveinsins og laumugaldramannsins Merlín sem iðulega bjargar Arthúri með kyngikrafti sínum úr launsátri.
Þessi vafasama hálfsystir, Morgana, umbreyttist til hins verra eftir lát föður þeirra og undi því illa að Arthúr settist í konungssæti þar sem hann hélt áfram baráttu föður síns gegn fólki af galdrakyni. Það styttist í endalokin í sjónvarpsþáttunum og má vera að þá komi sælueyjan Avalon við sögu þar sem allt vex og dafnar með sjálfbærum hætti í eilífum friði.
Þessar fornu sagnir um Arthúr konung og allt þetta lið eru sveipaðar miklum og fornum ævintýraljóma og enginn veit með vissu hvar þetta Kamelot á að hafa verið eða hvort eitthvað í líkingu við það hafi yfirleitt verið til. Böndin berast þó að Bretlandi eftir að hernámi Rómverja lauk á 5. öld. Arthúr gæti sjálfur hafa verið kominn af Rómverjum og hann gæti hafa verið maðurinn á bak við sigur innfæddra gegn innrásarher Saxa. Sögurnar áttu það til að breytast með tíð og tíma og ýmsu blandað saman héðan og þaðan. Hin goðsagnakennda Morgana hefur lengi verið þekkt og var hún nefnd á nafn á 12. öld sem Morgan Le Fay sem ríkti ásamt systrum sínum á Avaloneyju (Eplaeyju) þar sem þær lögðu stund á lækningalist. Þar líknaði Morgana sjálfum Arthúri konungi eftir lokabardaga sinn. Hvernig hún átti síðan eftir að verða hin vonda hálfsystir Arthúrs í seinni tíma útgáfum skal ég ekki segja um nema hún hafi alltaf verið það. Allt er þetta mjög snúið.
Hitt er svo annað mál að sjálf Morgana tengist hinu þrönga Messína-sundi milli Ítalíu og Sikileyjar á þann hátt að þar er nefnt eftir henni fyrirbæri það sem við köllum hillingar sem munu vera mjög algengar þar suðurfrá yfir sjóndeildarhringum. Ítölum hefur af einhverjum ástæðum þótt við hæfi að kenna þetta við töfra Morgönu eða Fata Morgana - kannski með einhverri tilvísun í töfraeyjuna Avalon.
Ef við förum út í hillingafræði þá fara málin ekki síður að vera snúin. Mirage mun vera heildarheitið yfir svona fyrirbæri á ýmsum erlendum tungum og er þá átt við ýmiss konar afbökun þess sem við sjáum þegar hitahvörf í lofti koma við sögu, aðallega þó neðst við sjóndeildarhring.
Svona hillingar geta ýmist komið fram vegna hitauppstreymis og kulda.
Í hitauppstreymi einkennast hillingar af speglun himinsins niðri við jörð rétt undir sjóndeildarhring og eru gjarnan mjög óstöðugar og hálfpartinn dansandi, og þá koma fram þessir pollar eins og gjarnan virðast sjást í fjarska á malbikuðum vegum og eyðimörkum.
Hillingar eru líka algengar á köldum svæðum eins og t.d. yfir ísbreiðum norðurhjarans og yfir sjávarflötum á köldum og stilltum dögum. Við þær aðstæður myndast sjónræn upplyfting og geta fyrirbæri þá birst okkur sem í raun ættu að vera undir sjóndeildarhring. Við þekkjum það á landi þegar fjöllin á Snæfellsnesi rísa upp úr öllu valdi með miklum þverhníptum klettabeltum neðst. Þessar hillingar eru stöðugar enda er kalda loftið neðst ekki á hreyfingu upp, ekki frekar en það gerir venjulega.
Þær hillingar sem kallaðar eru Fata Morgana eiga hinsvegar við flóknustu tegundir hillinga og samanstanda bæði af upplyftingum og speglunum og geta komið fram bæði á heitum og köldum svæðum. Fjöll, hús og skip í fjarska geta þá virst svífa í lausu lofti yfir sjóndeildarhring og stundum jafnvel á hvolfi. Draugaskipið Hollendingurinn fljúgandi er jafnvel talið geta hafa verið svona fyrirbæri en það fley var dæmt til að sigla um heimsins höf án þess að komast nokkru sinni að höfn.
Við sem erum af Tinnakynslóðinni þekkjum auðvitað hina óútreiknanlegu Fötu Morgönu samanber eyðimerkurævintýri hinna háleynilegu Skafta og Skapta í bókinni Svarta gullið þar sem þeir urðu hvað eftir annað fyrir barðinu á "Morgunfötunni" sem ætíð tókst að leika á þá. Hvort um sé að ræða rétta skilgreiningu á Fata Morgana er þó spurning miðað við það sem ég hef reynt að finna út hér að ofan.
- - - - -
Meðal heimilda:
http://en.wikipedia.org/wiki/Morgan_le_Fay
http://en.wikipedia.org/wiki/Fata_Morgana_(mirage)
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:29 | Facebook
Athugasemdir
Hafðu þökk fyrir ágæt mál Emil, sem oft áður.
Hrólfur Þ Hraundal, 12.10.2013 kl. 22:41
Takk fyrir skemtilegan pistil Emil. Af því ég hef ekki séð sjónvarpsþættina um Merlín þá leikur mér forvitni á að vita hvort í þeim er getið míns uppáhalds riddara, Prince Valíants?
Magnús Sigurðsson, 13.10.2013 kl. 12:43
Enginn Prins Valíant í sjónvarpsþáttunum enda mun hann vera seinni tíma teiknimyndahetja ef ég þekki rétt. Hinsvegar mætti alveg gera eina góða seríu um þann kappa.
Emil Hannes Valgeirsson, 13.10.2013 kl. 13:11
Skemmtilegt, var einmitt að pæla í þessu um daginn
Höskuldur Búi Jónsson, 14.10.2013 kl. 09:45
Fróðlegt og skemmtilegt - takk fyrir Emil.
Sveinn Atli Gunnarsson, 14.10.2013 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.