23.2.2014 | 20:38
Gengið um Granda
Á síðustu árum hafa menn lagt í mikla landvinninga á grandanum sem upphaflega af náttúrunnar hendi tengdi Örfirisey við meginlandið með mjóu sandrifi. Við gerð hafnarinnar fyrir um 100 árum var útbúinn hafnargarður út í eyjuna og með frekari uppbyggingu var Grandinn orðinn vettvangur mikilla umsvifa í sjávarútvegi í skjóli gömlu verbúðarlengjunnar sem setti sinn svip á svæðið. En nú er öldin önnur og með uppfyllingum er komið heilmikið nýtt landssvæði á vestanverðum Grandanum með gatnakerfi og stórhýsum allskonar. Uppbyggingin var mikil og útlit fyrir að svo yrði áfram - allt þar til kom að árinu 2008 þegar forsendur breyttust eins og það er stundum orðað. Ég fór á vettvang á björtum degi þann 15. febrúar og tók nokkrar myndir sem hér koma á eftir. Þetta er því einskonar myndablogg undir kjörorðinu: Meiri myndir - minna mas.
Ferðin hefst við hringtorgið við Ánanaust og framundan blasir meðal annars við mikið úrval matvöruverslana, jafnvel offramboð. Versli maður í NETTÓ, fæst KRÓNAN í BÓNUS. Vesturbæingar þurfa því ekki að óttast matarskort en auk þess er stutt í Nóatún, Víði og Hagkaup á gamla fastalandinu og svo er auðvitað Melabúðin á sínum stað.
Stálslegnir lýsistankar gnæfa yfir bílastæðin við Krónuna með hjálp aðdráttarlinsu. Þarna er Lýsið framleitt nú á dögum og fer reyndar ekki á milli mála þegar komið er þarna að og hægur andvarinn er í fangið.
Hér er komið að þráðbeinum göngustíg þar sem Faxaflóinn er á vinstri hönd en til hægri blasa nýjustu landvinningar við. Þarna er mikið af engu og nægt lóðaframboð hafi einhver áhuga. Bókaforlagið Forlagið er þarna í stóra húsinu.
Hér hefur verið lagður grunnur að byggingu og síðan ekki söguna meir.
Geymslusvæði Shell breiðir úr sér og blasir þar við ýmislegt misgamalt tengt olíusölu og dreifingu. Þessi afgreiðsluskúr er í módernískum stíl en hefur sennilega gengt sínu hlutverki.
Fleira er geymt á Grandanum. Hér er annað geymslusvæði þar sem má finna þennan gamla bátsskrokk sem enginn tímir að henda og enginn tímir að gera upp. Sama má sjálfsagt segja um gamla Lödu-Sport bílinn og gamla timburhúsið sem einnig er geymt þarna til síðari endurbóta.
Hleragerðin hlýtur að framleiða toghlera en þar fyrir utan er líka mikið af netum til skrauts eða til handagagns.
Hafi einhver áhuga á að hefja stórverslunarrekstur má benda á þessa byggingu sem staðið hefur nánast auð frá því hún var reist á sínum tíma. Gamla húsið sem þarna er innpakkað við hliðina mun vera hús Benedikts gamla Gröndal og stóð það áður við Vesturgötuna í Reykjavík.
Verbúðirnar á gamla Grandagarði eru nýttar undir ýmislegt í dag. Hér er vinsælt að fá sér ís.
Héðinshúsið tilheyrir að vísu ekki Grandanum en á heimleið var ekki hægt að láta þetta myndefni fram hjá sér fara.
Athugasemdir
Gaman að sjá þessar myndir frá gamla leiksvæðinu mínu. Þarna var maður hlaupandi uppá löngu beitningarskúrunum,einsog við kölluðum þá,og vorum með teygjubyssur í að reyna að skjóta á rotturnar,,,við hittum aldrei.Núna er komið í þessa ´´beitningarskúra´´ ýmis vænleg fyrirtæki,miklar breytingar hafa átt sér stað líkt og má sjá á myndum þínum. Þetta er eitt af mínum uppáhaldssvæðum í Reykjavík.Hafðu þökk.
Númi (IP-tala skráð) 23.2.2014 kl. 23:11
Þú gleymdir frystihúsi Granda hf, sem er sennilega mesta umhverfisslysið þarna ásamt þúfu Ólafar Norðdal. Þetta blasir við frá miðbænum og Hörpunni. Hvernig sem þetta svæði þróast, sem víst er að það geri og líklega til betri vegar, þá er þessi ömmurlega bygging komin þarna til að vera.
Jón Steinar Ragnarsson, 24.2.2014 kl. 00:42
Gleymdi því svo sem ekki. Gekka bara ekki svo langt.
Emil Hannes Valgeirsson, 24.2.2014 kl. 09:30
Tek undir pistil,Jóns Steinars.Þessi þúfa er hörmung.
Ótrúlegt að þessi bygging og þúfa skyldu verða samþykkt..
Númi (IP-tala skráð) 24.2.2014 kl. 10:31
Ég fór þarna oft þegar ég var að alast upp og fæ nú bara sting í hajrtað. Það er búið að gjöreyðileggja Örfirisey.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.2.2014 kl. 12:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.