Mánaðar- og árshiti í Reykjavík. Staðan eftir fjóra mánuði.

Í síðasta mánuði kynnti ég til sögunnar súlurit sem ætlað er að sýna hvert gæti stefnt með árshitann í Reykjavík. Þetta súlurit er ég nú búinn að uppfæra útfrá tölum aprílmánaðar en meiningin er að birta þetta reglulega.
Myndin ætti að skýra sig sjálf en geri hún það ekki þá tákna bláu súlurnar meðalhita hvers mánaðar samkvæmt núverandi opinbera meðaltali 1961-1990 sem vill svo til að er frekar kalt tímabil. Rauðu súlurnar sem rísa hærra er mánaðarmeðalhiti síðustu 10 ára, sem er öllu hlýrra tímabil. Fjólubláu súlurnar standa svo fyrir þá fjóra mánuði sem liðnir eru af núverandi ári, 2014. Hægra megin við strik eru 5 súlur sem sýna ársmeðalhita. Bláa súlan þar er kalda meðaltalið 1961-1990 (4,3°) og sú rauða er meðalhiti síðustu 10 ára (5,4°). Allra lengst til hægri er græn súla sem stendur fyrir meðalhitann í fyrra, 2013 (4,9°) sem var kaldasta árið í Reykjavík, það litla sem af er öldinni.

Meðalhiti Rvik 4 2014

Spennan liggur í því hvert stefnir með þetta ár og þar koma tónuðu súlurnar tvær við sögu. Sú bláfjólubláa segir til um árshitann ef mánuðirnir sem eftir eru verða akkúrat í kalda meðaltalinu en sú rauðfjólubláa sýnir hver árshitinn verður ef restin verður jöfn meðalhita síðustu 10 ára. Fyrstu fjórir mánuðir þessa árs hafa allir verið yfir meðalhita síðustu 10 ára. Ekki munar miklu í febrúar og mars, en janúar og apríl voru talsvert hlýrri.

Meðalhitinn í apríl var 4,9 stig eða sá sami og árshitinn var í fyrra. Aprílhitinn var þar með einni gráðu fyrir ofan meðalhita síðustu 10 ára, tveimur stigum yfir meðalhita aprílmánaðar 1961-1990 og þremur stigum hærri en í apríl í fyrra. Samkvæmt mínum útreikningum er staðan eftir þrjá mánuði þá þannig að sé framhaldið reiknað út frá kalda meðaltalinu stefnir árshitinn í Reykjavík í 5,0 stig sem er 0,2 stiga hækkun frá síðasta uppgjöri. Sé framhaldið reiknað út frá síðustu 10 árum stefnir árshitinn í 5,7 stig og hefur sú tala hækkað örlítið frá því síðast. Ársmeðalhiti á bilinu 5,0–5,7 ætti því að vera líklegur en gæti endað neðar og gæti endað ofar. Fyrsti þriðjungur ársins lofar allavega góðu, maí er ennþá í mjög góðum málum og aldrei að vita nema sérlega hlýtt ár sé í uppsiglingu. Þó er engu að treysta, samanber árið í fyrra en þá voru nú reyndar bara tveir fyrstu mánuðirnir verulegu hlýir. Málin skýrast betur í næsta uppgjöri eftir mánuð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Þetta er einstaklega skemmtilegt hjá þér Emil!

Ég sé á erlendum vefmiðlum að líkur á El Nino teljast núna 80% síðari hluta árs, þótt hið "opinbera" ENSO spáapparat tali enn aðeins um að fyrir El Nino séu yfir 50% líkur: (http://www.cpc.ncep.noaa.gov/products/analysis_monitoring/lanina/enso_evolution-status-fcsts-web.pdf)

Menn telja víst ýmislegt bendat til að El Nino í uppsiglingu gæti jafnast á við þann sem varð 97/98, þ.e.a.s. verulega öflugur.

Veistu hvaða áhrif slíkur El Nino gæti haft á Íslandi? Hver var meðalhitinn á klakanum árin 97 og 98 í samanburð við árin í kring?

Brynjólfur Þorvarðsson, 10.5.2014 kl. 14:11

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir Brynjólfur. Þessi spurning kom líka upp hér í síðasta mánuði þegar ég birti svona mynd fyrst. Beint samhengi milli El Nino og hitafars á Íslandi virðist ekki vera mjög afgerandi. Meðalhitinn í Reykjavík árið 1997 var reyndar ágætur eða 5,1 stig en 1998 var hann 4,7 stig eða svipað og árin þar um kring. Svo var smærri El Nino árið 2010 sem vill svo til að er með allra hlýjustu árunum hér, eða 5,9 stig.

En svo verður bara að koma í ljós hvort þetta verður öflugur El Nino eða ekki. Aðstæður í Kyrrahafinu hafa frá aldamótum ekki verið mjög vænlegar fyrir sterka El Nino ef hugmyndir um áratugasveiflur eru réttar. En það er önnur saga.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.5.2014 kl. 15:34

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Væri gaman að sjá meðalhitann 1930-60

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.5.2014 kl. 19:57

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Gunnar, það væri forvitnilegt en ekki er hægt að sýna allt. Ef það hjálpar þá var ársmeðalhitinn í Reykjavík 1931-1960, 4,95 stig eða álíka og „kalda árið“ 2013.

Tímabilið 1961-1990 er ennþá opinbert viðmiðunartímabil og því valdi ég það ásamt síðustu 10 árum.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.5.2014 kl. 23:32

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Mjög gott - en þó smáathugasemd: Árin 2002 til 2013 eru tólf en ekki tíu. Í hvoru liggur prentvillan?

Trausti Jónsson, 11.5.2014 kl. 00:53

6 identicon

Skv. fréttum að utan er ekki aðeins El Nino í uppsiglingu, heldur Super El Nino. Slíkir verða aðeins á um 20 ára fresti og einkenni þeirra er að hækkun á hitastigi sjávar byrjar í eystri hluta Kyrrahafsins og færir sig síðan yfir til vestri hluti Kyrrahafsins með svipuðum afleiðingum og urðu ´97-´98. Forsmekkurinn af þessum El Nino varð fyrr á þessu ári(í apríl) þegar að mestu úrhellisrigningar í sögu Sólómónseyja urðu og ollu stórfeldu tjóni þar.

http://www.techtimes.com/articles/6587/20140507/australia-issues-alert-el-niño-will-come-strong-and-early-this-year.htm

Hermundur Sigurdsson (IP-tala skráð) 11.5.2014 kl. 01:12

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir ábendinguna Trausti. Villan á nú að vera löguð.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.5.2014 kl. 01:15

8 identicon

Sæll og þúsund þakkir fyrir góða og áhugaverða pistla.

þessi samanburður er einkar áhugaverður. En aðeins ein spurning bankar upp:

Af hverju eru hitatölur frá og með 1991 til 2003 ekki teknar með þegar verið er að vinna með þetta stutt tímabil?

kær kveðja, páll

páll (IP-tala skráð) 12.5.2014 kl. 11:43

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þakka þér Páll. Mér finnst ágætt að nota síðustu 10 ár sem viðmiðun, bæði vegna þess að þetta er næst okkur í tíma og svo eru þetta líka mjög hlý ár þannig að á meðan við höngum í því meðaltali getum við sagt að hlýindin haldi áfram. Hitinn það sem af er ári gerir þó gott betur en spurning er hversu lengi það endist.

Síðustu 10 ár eru reyndar ekki alveg þau hlýjustu í Reykjavík því að hlýjasta árið 2003 er dottið úr því meðaltali en 2013 kom í staðinn og var rúmlega einni gráðu kaldara. En nú fer að styttast í að næsta 30 ára viðmiðunartímabil verði reiknað þ.e. 1991-2020 sem verður væntanlega öllu hlýrra en það sem nú er í gildi.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.5.2014 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband