Týpógrafískir knattspyrnumenn

Það má lengi velta sér upp úr nýafstöðnu heimsmeistaramóti í fótbolta þótt flestir séu eflaust nokkuð sáttir með að öll ósköpin séu liðin hjá. Knattspyrnan á sér margar hliðar, ekki síst bakhliðar. Þar komum við að einu þeirra atriða sem fangað hefur athygli mína, nefnilega leturhönnun aftan á búningum leikmanna, sem eins og annað verður að vera tipp topp. Nike stórveldið sér mörgum keppnisliðum fyrir búningum en til að gefa hverju liði meiri sérstöðu þá fær hvert landslið sína eigin leturgerð sem gjarnan er sérteiknuð af hinum færustu leturhönnuðum.

Búningar Letur

Stundum þykir reyndar við hæfi að nota gamalgróna fonta eins og í tilfelli frönsku búninganna sem státa af hinu gamla framúrstefnuletri AVANT GARDE enda hafa Fransmenn lengi gælt við ýmsar framúrstefnur. Leturgerð Bandaríska liðsins er undir greinilegum áhrifum frá köntuðum leturgerðum sem prýða búninga hafnarboltaleikmanna. Leturgúrúinn mikli Neville Brody mun hafa komið við sögu við hönnun ensku leturgerðarinnar og Sneijderefast ég ekki um að Rooney sé vel sáttur við það. Portúgalska letrið er líka stílhreint og nýstárlegt en mestu stælarnir eru í Hollenska letrinu sem býður upp á þann möguleika að samnýta í einu stafabili bókstafina I og J með því að lyfta I-inu upp svo ekki myndist dautt svæði milli bókstafana. Þetta vakti auðvitað sérstaka athygli mína í hvert sinn er hinn hollenski SNEIJDER snéri baki í myndavélarnar.

Gula spjaldið fyrir týpógrafíu
En svo er það Brasilía sem reyndar var upphaflega kveikjan að þessum pistli. Brasilíska letrið er sérteiknað fyrir heimsmeistaramótið og mun vera undir áhrifum af letrum sem mikið eru notuð í allskonar götuplakötum í Brasilíu. Hið fínasta letur verð ég að segja, sérstaklega tölustafirnir.

Silva SpjaldEn það er að mörgu að hyggja og misbrestir geta verið víða eins og Brasilíska liðið fékk að kenna á í síðustu leikjunum. Fyrirliðinn Thiago Silva var fjarri góðu gamni er lið hans steinlá fyrir Þjóðverjum 7-1 og aftur var hann spjaldaður í tapleiknum gegn Hollendingum. Ég veit ekki hvort hann hafi mikið velt sér upp úr leturmeðferðinni á sinni keppnistreyju en það gerði ég hins vegar.
Þegar nafnið SILVA er sett upp í hástöfum blasa við ákveðin vandamál því þar koma saman stafir sem falla einstaklega misvel hver að öðrum sé ekki brugðist við - sem mér sýnist ekki hafa verið gert. Eins og sést á myndinni standa bókstafirnir I og L mjög þétt saman á meðan stór og mikil bil eru sitt hvoru megin við V-ið sem sundra nafninu.

Upprunalega hefur hver bókstafur sitt kassalaga helgisvæði sem ræðst af lögun stafsins. L-ið hrindir þannig frá sér næsta staf vegna þverleggsins niðri. V-ið er því víðsfjarri L-inu ólíkt bókstafnum I þar sem ekkert skagar út. Einnig myndast stórt bil á milli V og A sem báðir eru duglegir við að hrinda hvor öðrum frá sér. Í heildina virðist þetta nafn SILVA vera alveg sérstaklega erfitt í hástöfum og því nauðsynlegt að laga bilin eins og grafískir hönnuðir hér á landi læra í fyrsta tíma hjá Gísla B. Í nútíma tölvusetningu gerist þetta þó gjarnan sjálfkrafa eins og tilfellið virðist vera á þessu bloggsvæði. Hér að neðan hef ég gert mína tilraun til að bjarga málum fyrir T. Silva og þegar það er búið fær nafnið og letrið að njóta sín. Ja, nema þetta eigi bara að vera svona sundurslitið, stælana vegna. Gula spjaldið fyrir týpógrafíu er alla vega viðeigandi í þessari leturbloggfærslu sem dulbúin er í fótboltabúning.

 Silva jafnað

Nánar um leturhönnun á NIKE heimsmeistarakeppnisbúningum:
http://www.designboom.com/design/nike-world-cup-fonts-07-01-2014

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á ekkert að fjalla meira um meinta bið milli vonar og ótta eftir því hvort bræðslutímabilið verði eins lélegt og í fyrra eða eins afdrifaríkt og metsumarið 2012?

> http://northwestpassage2014.blogspot.se/2014/07/sv-altan-girl-requests-help-from-uscgc.html

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 16.7.2014 kl. 17:36

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Engar áhyggjur. Ég er ekki vanur að bregðast aðdáendum mínum.

Emil Hannes Valgeirsson, 16.7.2014 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband