Hliðarskot frá Bárðarbungu yfir í Öskjukerfið?

Út frá því sem maður hefur lesið og lært um eldvirkni hér á Íslandi þá skiptast eldstöðvarnar í svokölluð eldstöðvakerfi sem raðast eftir gliðnunarbeltum landsins. Hvert þessara kerfa eru að mestu sjálfstæðar einingar. Á hinum eldri og þroskaðri kerfum eru megineldstöðvar með kvikuþróm sem fóðra sprungureinar sem liggja út frá þeim. Á suðurhelmingi landsins hafa kerfin SV-NA stefnu en á Norðurlandi er sprungustefnan N-S.

Elstöðvakerfi miðja landsins.Myndin hér til hliðar er hluti myndar sem tekin er af vef Vatnajökulsþjóðgarðs og sýnir legu eldstöðvakerfana fyrir miðju landsins. Við sjáum að sprungukerfi Bárðarbungu liggur í NNA-átt frá megineldstöðinni og endar vestan megin við Öskjukerfið en það teygir sig hinsvegar í SSV-átt og endar í Dyngjujökli í suðri einmitt þar sem kvikan hefur leitað og skjálftarnir hafa verið flestir upp á síðkastið.

Ef þetta er svona mætti spyrja hvers vegna hleypur kvikan úr Bárðarbungu ekki í norð-norðaustur eins og hún ætti að gera - nú eða í suðvestur? Ekki veit ég svarið við þessu en það er þó ekki annað að sjá en að kvikan hafi farið rækilega út af sporinu.

Þetta sést betur á næstu mynd sem tekin er af vef Veðurstofunnar undir lok dags 24. ágúst. Þarna eru eldstöðvakerfin lituð með gulum tón hvert um sig. Öskjukerfið gengur inn í myndina að ofanverðu og þangað leita skjálftarnir og þar með kvikan. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir en þeir elstu bláir.

Skjálftar 25. ágúst

Útfrá elstu skjálftunum þá virðist kvikan upphaflega hafa reynt tvær útgönguleiðir frá kvikuþró Bárðarbunguöskjunnar. Útrásin eftir sprungurein kerfisins í norð-norðaustur virðist ekki hafa tekist. Öðru máli gegnir með hliðarskotið í aust-suðaustur, þvert á stefnu Bárðarbungukerfisins. Sú útrás opnaði mjög fljótlega, leið inn í næsta sprungusveim sem tilheyrir Öskjukerfinu og því má líta á þetta sem algert hliðarspor af hálfu kvikunnar og má jafnvel tala um ranga kviku í vitlausu eldstöðvakerfi. Með því að svindla sér inn svona öfugu megin er kvikan líka að stefna í öfuga átt miðað við það sem kvika í viðkomandi eldstöðvakerfi ætti að gera. Hvort þetta auki eða minnki líkurnar á því að kvikan komi upp veit ég ekki en eitthvað var hann Haraldur Sig. að nefna að skjálftarnir væru farnir að mælast á meira dýpi en áður. Skýringin á því gæti verið sú að kvikan sé komin úr einu eldstöðvakerfinu yfir í annað sem tekur vel á móti og gefur kvikunni færi á að láta fara vel um sig, djúpt í iðrum jarðar á nýjan leik.

Þannig hljóða leikmannaþankar mínir þessa stundina. Hvað verður í framhaldinu veit ég ekki. Kannski verður bara farið að gjósa þegar þú lesandi góður sérð þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er það ekki bara skamsýnishugsun okkar skamlífra manna að tala um sjálfstæð eldstöðvakerfi um miðbik lands þar sem hvor helminginn rekur í sína áttina? Á endanum hlýtur allsstaðar að koma upp kvika í sárið!

En þessi pæling er samt fróðleg og gerir þar með ráð fyrir að þetta "neðanjarðargos" haldi sig þar áfram en komi ekki upp, þar sem hraunið/kvikan rennur bara niður aftur,  í næsta edstöðvarkerfi. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 25.8.2014 kl. 08:02

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Allavegar virðist Bárðarbunga vera félagslega sinnuð og gjafmild á kviku sem gæti skýrst af legu hennar nærri miðju möttulstróksins. Svo má líka spá í hvort mögulegt þverbelti sem liggur alla leið frá Snæfellsnesi um Bárðarbungu og til Suðausturlands, eigi þarna hlut að máli og gefi möguleika á svona hliðarskrefum á þessum slóðum.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.8.2014 kl. 11:32

3 identicon

Ætlar þú virkilega ekki að fjalla um bræðslusumarið mikla 2014?

http://www.dailymail.co.uk/news/article-2738653/Stunning-satellite-images-summer-ice-cap-thicker-covers-1-7million-square-kilometres-MORE-2-years-ago-despite-Al-Gore-s-prediction-ICE-FREE-now.html

Hvað varð um alla meintu óðabræðsluna?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.8.2014 kl. 10:52

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hef ekki skrifað um bræðslusumarið mikla 2014 enda er þetta ekki bræðslusumarið mikla. Hinsvegar skrifaði ég síðast um hafísinn á norðurslóðum þann 24.7 í sumar: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1414890/

Þar kom fram að fátt benti til þess að um einhverja ofurbráðnun yrði um að ræða í sumar. Ég á eftir að gera hafísnum skil síðar þegar líður að lágmarki en það verður ekki næsta bloggfærsla. Sú umfjöllun verður ekki í vafasömum æsifréttastíl að hætti Daily Mail sem þekkja ekki muninn á "would be" og "could be".

Emil Hannes Valgeirsson, 31.8.2014 kl. 13:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband