29.11.2014 | 21:56
Karamella á þúsundkall
Verðbólgan er vissulega ekki að sliga okkur þessa dagana. En það hefur ekki alltaf verið þannig. Ég man að eitt sinn á mínum ungdómsárum á áttunda áratugnum vorum við strákarnir að velta fyrir okkur verðlagi á nauðsynjavörum í verðbólginni framtíð. Spurt var: Gæti verið að ein karamella ætti eftir að kosta þúsund krónur í framtíðinni? Okkur fannst það fráleit tilhugsun og eiginlega bara fyndið. Á þessum tíma minnir mig að ein lítil karamella hafi kostað eina krónu og þá á ég við þessar venjulegu Töggur frá Nóa. Lítill brjóstsykur kostaði sennilega líka eina krónu en þeir stærri af Haltukjafti-gerð kostuðu tvær krónur. En gamla krónan hélt svo sannarlega ekki verðgildi sínu í óðaverðbólgu áranna á eftir. Hún breyttist í létta flotkrónu. Henni var myntbreitt hundraðfalt sem ýtti undir enn meiri verðbólgu. Síðar var nýkrónan sett á flott og sökk enn dýpra. Hvað ætli ein lítil karamella kosti þá í dag um 40 árum síðar? Jú, þær kosta um 20-30 krónur stykkið samkvæmt innanheimilisheimildum. Þá á eftir að bæta við tveimur núllum vegna myntbreytingar sem gera tvö til þrjú þúsund krónur gamlar, takk fyrir. Þetta sýnir auðvitað hvað allt krónugildi er afstætt þegar kemur að framtíðinni. Hvað fæst þá fyrir þúsund krónur eftir 40 ár? Skyldi karamellan þá kosta þúsundkall? Hver veit? Verður hún kannski verðlögð í Evrum, Dollurum eða Norskum krónum?
Ég fór nú eiginlega að spá í þetta um daginn þegar EFTA-dómurinn féll um verðtryggðu lánin. Samkvæmt honum er það með öllu óviðeigandi að gera ekki ráð fyrir verðbótum ofan á vexti þegar greiðsluáætlun fram í tímann er gefin út. Svindl og prettir lánastofnanna kom í huga margra þegar um var rætt. En er endilega rétt í ljósi karamelluhagfræðinnar að það eigi alltaf að gera ráð fyrir verðbótum í greiðsluáætlunum? Það þarf kannski ekki að vera. Þegar til dæmis verðbætur 40 ára láns eru reiknaðar inn í áætlanir og eftirstöðvar skoðaðar eins og þær verða eftir 20 ár kemur sennilega fram að upphæðin hefur hækkað í krónum talið þrátt fyrir þrotlausar síhækkandi afborganir. Svo gæti því virst sem lánið gerði ekki annað en að hækka að raungildi um langa framtíð þegar raunin er sú að lánið lækkar. Þó maður skuldi sífellt fleiri krónur er ekki þar með sagt að maður skuldi fleiri karamellur.
Sjálfum finnst mér verðtygging í raun ekkert óeðlileg því hún tryggir að afborganir og eftirstöðvar séu í samræmi við almenna verðlagsþróun. Það mætti hinsvegar frekar herja á sjálfa vextina enda eru raunvextir um 5% æði mikið á 40 ára láni. En það sem máli skiptir í öllu svona er að þeir sem taka lán, stutt eða löng, geri sér grein fyrir því í hverju það felst til framtíðar og að sá sem tekur lán og sá sem veitir lán séu á sömu blaðsíðu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:24 | Facebook
Athugasemdir
Álit EFTA hafði ekkert með fasteignalána að gera þar sem fasteignaviðskipti falla ekki undir neytendalán í ESB. Það er alveg sérstök tilskipum sem tekur á lánum til húsnæðiskaupa og fjallaði álitið ekkert um það.
Við munum ekki þekkja framtíðina og hvað þá hver verðbólgan verður eftir 25ár. Við vitum aftur með fullri vissu hver verbólgan hefur verið síðustu 25 ár á sama tíma vitum við hvað laun hafa hækkað umfram verðbólgu. Frá því 1989 hafa laun hækkað um 1,28% að jafnaði árlega umfram verðbólgu (Hagstofan).
Ef lánasamningar ættu að endurspegla það sem við vitum á samningsdegi þá ættum við að setja -1,28% í reitinn fyrir verðbólgu enda væri það í fullu samræmi við það sem við þekkjum að gerist á löngum tíma.
Því má segja að 40 ára lán mun líklega lækka um 51% miðað við kaupmátt að 40 árum liðnum. Ef menn vilja fitla við forsendur lánasamninga verða þeir að gera það báðum megin jafnaðarmerkisins.
Lánsform núverandi annuity lána gerir það að verkum að sveiflur í verðbólgu er jafnað niður á lánstímann sem eykur stöðugleika lánanna til muna í sveiflukenndu hráefnisdrifnu hagkerfi eins og er á Íslandi.
Eggert Sigurbergsson, 30.11.2014 kl. 07:29
Það þarf kannski ekkert að fikta við verðtrygginguna úr því að fjármálaöflunum er svona illa við það, en þá mundi ég mæla með að launin yrðu verðtryggð að sama skapi. það er ekki hægt að hafa þetta þannig að ef forstjóra t.d.hjá N1 dettur í hug að hækka bensín um einhverjar krónur til að greiða sér út nokkrar milljónir í arð, þá skuli lánin mín hækka um svo svo mikið og ekkert er til að styrkja mína launasamninga og er það í mínum huga samningsbrot.
Sandy, 30.11.2014 kl. 10:17
Íslendingar eru með slíkar ranghugmyndir um verðtryggingu að þeim finnst hún bara eðlileg og sanngjörn, bare ef.....
Ég hef ekki enn hitt þann útlending sem ekki sýpur hveljur.
Orðið eitt segir til um bullið, tryggingar virka þannig að hægt er að tryggja sig í báðar áttir, til dæmis er hægt að tryggja sig gegn veðri suður i Englandi. En ekki er hægt að tryggja sig gegn verðtryggingu. Þá er þetta orðið einkennilegt fyrirbæri.
Auk þess gerði ég fyrir margt löngu athugun á vísitöluútreikningi. Þetta var á níunda áratugnum. Stjórnmálamenn voru öskrandi og æpandi yfir því að vextir þyrftu að lækka um 2 próent. En enginn pældi i því að á þessum tíma varð olíuslys í Alaska, Exon slysið, stálverð hækkaði tímabundið allhressilega og verð á timbri tók stökk. Þessi 3 atriði hækkuðu lán landans um 3 prósent. Engin lán annarssstaðar i heiminum hækkuðu vegna þessa. Og þetta fékkst aldrei til baka einsog sumir halda því þegar verð lækkuðu þá sat hækkunarstabbinn fastur á lánunum.
Að halda því fram að verðtrygging sé eðlileg er dæmi um óeðliega íslenska "hugsun"
Páll (IP-tala skráð) 3.12.2014 kl. 08:46
Kannski hef ég ranghugmyndir en mér finnst öfugmæli að það þurfi að tryggja sig gegn verðtryggingu, því verðtrygging er einmitt verðtrygging.
Til skamms tíma geta komið verðbólguskot sem mætti kalla forsendubrest. En á löngum lánstíma ættu hlutirnir að jafnast út. Nú um stundir er t.d. mjög lítil verðbólga sem hægt og sígandi vinnur gegn fyrri verðbólguskotum. Ég er frekar á því að raunvextirnir sem leggjast ofan á verðtrygginguna séu of háir - sérstaklega á löngum lánum.
Emil Hannes Valgeirsson, 3.12.2014 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.