Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Samkvæmt venju er nú komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að birta mynd af Esjunni sem tekin er fyrstu vikuna í apríl þegar skyggni leyfir og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Fyrsta myndin var tekin í aprílbyrjun 2006 og eru myndirnar því nú orðnar 10 talsins. Að þessu sinni var bjart í lofti strax á fyrsta degi mánaðarins en ekki mikill vorbragur. Kalt var þarna í veðri en nokkrum dögum fyrr hafði snjóað nokkuð til fjalla sem og í byggð. Sökum kulda náði sólin lítið að vinna á þeirri snjóþekju nema helst í neðstu hlíðum fjallsins. Sjá má líka glitta í snjó í forgrunni myndarinnar sem tekin er við Sæbrautina og er það nýjung miðað við fyrri myndir. Aðrar nýjungar óháðar tíðarfari er setubekkur, rusladallur og þrjú skilti sem komið hefur verið þarna upp við göngustíginn.

En allavega. Esjan kemur hvít undan vetri að þessu sinni og virðist nokkuð snjóþungt í efri hlíðum sem er í samræmi við úrkomusaman vetur og frekar kaldan miðað við fyrri ár. Það getur varla talist líklegt að snjórinn hverfi á komandi sumri nema tíðarfarið verði þeim mun hagstæðara. Þetta hefur dálítið verið að breytast hin allra síðustu ár. Lengsta þekkta tímabil snjólausrar Esju að loknu sumri er árabilið 2001-2010. Síðan komu tvö tæp ár en óumdeilt er að snjórinn hvarf ekki árin 2013 og 2014. Setjum nokkur spurningamerki við 2015 meðan við vitum ekki betur. Hér eru þá myndirnar:

Esja april 2015

Esja april 2014

Esja 3. apríl 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Takk fyrir frábæra færslu um stöðuna á Esjunni. Er að velta fyrir mér hvort þú hafir séð fylgni með snjó í Esjunni sem hverfur seint og hvernig sumarið verður.

Í mínum huga: 

Sumarið 2014 og 2013 hvarf snjór ekki úr Esjunni. Þessi sumur í Reykjavík vaoru ekki neitt sérstakt. Ekki dæmiert sólarsumar og ekki hár hiti.

Nú, 1. apríl 2015, getum við búist við köldu sumri í Reykhavík, þar sem töluverður snjór er í Esjunni?

Mig minnir að sumarið 2007 hafi verið nkkuð gott, og þá hvarf snjór úr Esjunni 28. ágúst.

Aðal spurningin er: ef lítill snjór er í Esjunni 1. apríl, er hugsanlegt að sumarið verði hlýtt? Og ef mikill snjór er í Esjunni 1. apríl, er hugsanlegt að sumarið verði kalt?

Afsakaðu þessar spurningar, en auðvitað verður að skoða Esjuna í nokkuð mörg ár til að finna fylgni á hinu og þessu m.v. snjó á Esjunni í vorbyrjun ár hvert m.v. hvernig sumarið verður í Reykjavík.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 3.4.2015 kl. 03:23

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ingibjörg. Ég held að ef eitthvert samhengi sé þarna á milli þá er það óljóst og lítið sem hægt er að treysta á. Í aprílbyrjun 2013 er t.d. ekki áberandi meiri snjór heldur en var 2012 en sumrin sem á eftir komu voru mjög mishlý og góð. Hlýjasta sumarið á þessu tímabili er 2010 og þá er vissulega mjög lítill snjór í aprílbyrjun, hinsvegar var einnig mjög lítill snjór í Esju 2006 en sumarið sem á eftir kom var ekkert sérstakt.

Esjusnjór í aprílbyrjun segir aftur á móti margt um liðinn vetur. Lítið sem ekkert hefur verið um almennilega hlýindakafla frá því í desember að þessu sinni og talsverð úrkoma að auki. 

Sennilega er þó réttast að gera ekki miklar kröfur til komandi sumars.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.4.2015 kl. 11:41

3 identicon

Við verðum nú að fara að fá hlýindi. Helst hitabylgju næstu mánuði, við eigum svo mikið inni.

Ég væri amk. alveg til í að skipta við þau lönd þar sem að hitabylgjur ríkja.

Fannar Finnbogason (IP-tala skráð) 7.4.2015 kl. 17:32

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Reyndar held ég að við séum enn í talsverðum hlýindaplús eftir mörg góðæri undanfarið. Kuldinn á því enn töluvert inni.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.4.2015 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband