Lúpínuræða Fastagests

Ég hef áður vitnað í skáldsöguna Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson en það er góð bók að mínu mati, mjög sérstök en vissulega ekki við allra hæfi. Bókin er kraftmikill óður til Öræfasveitarinnar og náttúrunnar sem slíkrar en ekki síður fjallar bókin um samskipti mannsins við landið og náttúruöflin og er þar komið víða við. Ein höfuðpersóna bókarinnar nefnist Fastagestur og eru ófáar blaðsíður lagðar undir einræður hans enda skilst mér að hann sé einskonar samviska höfundar, eða sá sem talar máli höfundar bókarinnar. Fastagestur er yfirleitt ekkert að skafa utan af hlutunum og ekki heldur þegar kemur að blessaðri lúpínunni sem sífelldur styr stendur um. Ég ætla að leyfa mér að birta hér lúpínuræðu Fastagests í Öræfabókinni en þótt að hlutirnir séu hér málaðir sterkum litum þá get ég ekki annað en verið bara nokkuð sammála í aðalatriðum. Vonandi sjá sem flestir ljósið einnig.

„ … við skulum ekki tala um lúpínuna, Bernharður minn, sagði Fastagestur við gluggann, hún er plága, tapað stríð sem við háðum gegn sjálfum okkur, ég verð svo óendanlega sorgmæddur þegar ég sé lúpínu eða heyri á hana minnst, lúpínan er blá sorg, tákn fyrir sjálfshatur okkar, dapurlega sjálfsmynd, lúpínan er svo fögur planta og mögnuð, en misnotuð í eyðileggingarskyni eins og skógræktin gegn móanum og mýrinni og gervallri náttúrunni, það var Skógræktarstjóri ríkisins sem kom með lúpínuna í Öræfin fyrir 50 árum, við förum ekki í grafgötur um það, lúpínan hefur þegar eyðilagt margfalt stærri svæði en hörmungargosið 1362, en hún gerir það hljóðlega, lúpínan hegðar sér nákvæmlega eins og vírus, krabbamein, nákvæmlega eins og maðurinn, smeygir sér inn og eyðileggur allt innan frá og milljónfaldast; reynt var að fela grjótið þegar brúin var opnuð 1974, fela jökulöldurnar sem eru minnisvarðar um hvert jökullinn hefur teygt tungur sínar, fela sandinn, fela móana og fela melana, fela þessa minnisvarða um tímann og kraft náttúrunnar, skítugu börnin, öldurnar eru óþekkjanlegar og ófærar fyrir lúpínu, það er ekki lengur hægt að fá sér göngutúr um öldur og sker og skoða grjótið eins og maður gerði í gamla daga, sagði Fastagestur við gluggann, Tvískerjabræður hafa reynt ýmsar aðferðir til að uppræta þessa skæðu plöntu og endurheimta gömlu móana en án árangurs, fræin geymast að minnsta kosti í hálfa öld í jörðu eins og viðlegubúnaður í jökli, svo sprettur lúpínan upp óvænt hvar sem er og dreifir úr sér á ógnarhraða og kæfir og eyðileggur allt sem fyrir er, bæði gróður og auðn, eins og gusthlaup sýnt hægt … Allt sem heitir rækt … rækt er á móti náttúrunni, á móti lífinu, á móti Guði, hvort sem það er skógrækt eða sauðfjárrækt eða vaxtarrækt, ég er fyrst og fremst á móti allri rækt, sagði Fastagestur við gluggann á hótelinu í Freysnesi, ég er allur með Guði og náttúrunni, mönnum, dýrum, plöntum og grjóti og jökli og vindinum; ég er allur fyrir öræfin.“ (Öræfi, bls. 318-320)

 

Morsá

Lúpína á Skeiðarásandi komin yfir það litla vatn sem rennur þar sem Skeiðará breiddi úr sér áður. Eftir að Skeiðará hvarf á þessum slóðum er ekkert sem hindrar lengur landnám lúpínunnar vestur eftir gjörvöllum Skeiðarársandi. (Ljósmynd: EHV)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband