Nýjustu hitatölur úr Reykjavík

Hlýtt var í veðri í október og eins og á sama tíma í fyrra stefnir nú allt í að árið flokkist sem mjög hlýtt ár og enn er smá möguleiki á að þetta verði hlýjasta árið frá upphafi mælinga. Þetta gefur auðvitað tilefni til að birta mánaðarhitasúluritið góða sem sýnir hvernig meðalhitinn í Reykjavík hefur staðið sig á árinu. Að venju standa fjólubláu súlurnar fyrir meðalhita þeirra mánaða sem liðnir eru, en til samanburðar eru annars vegar síðustu 10 ár (rauðar súlur) og hinsvegar 30 ára viðmiðunartímabilið (bláar súlur) sem enn er í gildi og uppnefnist hér kalda meðaltalið vegna þess hversu kalt það var í raun. Lengst til hægri eru auk þess nokkrar árshitasúlur. Allt eins og áður hefur verið boðið upp á.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 10 mánuðir

Eins og sjá má þá skarar nýliðinn októbermánuður vel fram úr bæði kalda meðaltalinu og 10 ára meðaltalinu, þótt hann hafi ekki verið alveg eins óvenjuhlýr og í fyrra. Aðrir hlýir mánuðir það sem af er ári eru febrúar, maí og september. Aðrir mánuðir eru á hefðbundnari slóðum og enginn hefur verið kaldur enn sem komið er. Apríl er þó næstur því að teljast kaldur enda bara örlítið hlýrri en febrúar.

Spennan liggur hins vegar í framhaldinu og þar koma tónuðu súlurnar til hægri við sögu en þá er væntanlegur árshiti reiknaður út frá því hvort síðustu tveir mánuðir ársins verði í kalda meðaltalinu eða í meðallagi síðustu 10 ára. Kaldara framhaldið gefur árshitann 5,7°C og það hlýrra 5,9°C sem hvort tveggja er mjög gott í sögulegu samhengi. Árið í fyrra endaði í 6,0°C (græn súla) og telst vera næst hlýjasta árið í Reykjavík. Metið er 6,1°C frá 2003 og til að slá því við þyrftu góð hlýindi að haldast meira og minna út árið, eins og reyndin var reyndar í fyrra.

Best er að að sýna þetta á allsherjar línuriti yfir hitafar í Reykjavík frá 1901 til vorra daga. Árið 2017 er komið þarna inn til bráðabirgða en fölblá sporaskja sýnir á hvaða slóðum árshitinn mun líklega enda, þegar síðustu tölur hafa borist.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 10 mánuðir

Hvernig sem fer þá er allavega ljóst að hlýindi eru enn í fullum gangi hér hjá okkur og ekkert farið að bera á kólnun eins og einhverjir voru farnir að auglýsa, eftir hið tiltölulega kalda ár 2015. En þótt árið í ár verði ekki það hlýjasta í mælingasögunni þá er samt góður möguleiki á öðru meti sem er hlýjustu tvö árin í röð - eða hlýjasta tveggja ára syrpan. En það er svo sem ekki víst að keppt sé í því. Núverandi hlýjustu tvö ár í röð eru 2003-2004 (5,85°C), samkvæmt því sem ég reikna. Til að ná því þá þurfa síðustu tveir mánuðirnir ekki að gera betur en að hanga í hinu svokallaða kalda meðaltali áranna 1961-1990. Allt getur þó gerst og brugðist - ekki síst á lokasprettinum eins þekkt er og rysjótt tíð framundan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband