Víkurbyggð á Hawaii hverfur undir hraun

Gosið heldur áfram á Hawaii og hefur mikið af hrauni runnið til sjávar frá því ég tók stöðuna síðast þann 19. maí. Þótt eignatjón sé mikið hefur ekki orðið manntjón til þessa, fyrir utan að einn íbúi meiddi sig á fæti er hann varð fyrir hraunmola. Alvarleiki þessara atburða er því öllu minni en í sprengigosinu mikla í Guatemala nú á dögunum. Ég ætla samt að halda mig áfram á Hawaii þar sem hraunrennslið hefur sífellt tekið nýja stefnu og ætt yfir byggðir fjarri upptökunum þar sem íbúar töldu sig hólpna um sinn að minnsta kosti.

Hraunrennsli Hawaii Kapoho1

Á myndinni hér að ofan má sjá gosupptökin efst í vinstra horninu sem hafa nú einangrað sig við eina gossprungu (nr. 8) sem var einmitt sú áttunda í röðinni af þeim gossprungum sem opnuðust í Leilani íbúahverfinu fyrir um mánuði. Eftir að hraunrennsli hófst fyrir alvöru og tók að flæða út fyrir íbúaðhverfið, rann það að mestu yfir strjála byggð stystu leið til sjávar. Undir lok maímánaðar varð hinsvegar stefnubreyting þegar hraunið tók að renna í stríðum straumi í norðaustur og fann að lokum fallega vík austast á eyjunni með blómlegri strandbyggð um 10 kílómetrum frá upptökunum. Allir íbúar höfðu þá verið fluttir á brott enda ljóst í hvað stefndi.

Hraunrennsli Hawaii Kapoho2

4. júní, daginn eftir að fyrri myndin var tekin, var hraunið farið að renna í víkina og ekkert lát á aðstreymi hrauns með hraunfljótinu.

Hraunrennsli Hawaii Kapoho3

Þann 5. maí er öll víkin horfin undir hraun og mestur hluti byggðarinnar. Þarna munu hafa verið tveir byggðakjarnar, annarsvegar Kapahoa beach sem taldi 150 íbúðahús, meðal annars þau sem eru nærst á myndinni, og hinsvegar Vacationland með 350 hús og er talið að þau hafi öll horfið undir hraunið. Við þessar tölur bætast um 150 hús sem hraunið hefur eytt nærri upptökunum í Leilani-hverfinu þar sem gosið hófst.

Hawaii 6. juni

Fyrir hið víða samhengi kemur svo ný útgáfa af kortinu sem ég föndraði saman og hef birt með fyrri Hawaii-pistlum. Umrædd gossprunga nr. 8 er þarna austarlega eynni en þaðan hafa hraunin runnið til sjávar og vísar efri pílan þar í hraunstrauminn sem fór í umrædda vík en neðri pílan vísar til hraunsins sem rann til sjávar í síðasta mánuði. Sjálf megineldstöðin, Kilauea, er um 40 kílómetrum frá hraungosinu. Kvikan sem fóðrar hraungosið kemur þaðan, en Kilauea er dyngja og hefur þar mælst jarðsig vegna brotthvarfs kvikunnar. Þetta er nokkuð svipað ferli og við sáum í Bárðarbunguatburðunum hér um árið en Holuhraun væri þá hliðstæða hraunsins sem nú rennur þarna austast á eynni þótt magntölur séu aðrar. Atburðunum mætti kannski frekar líkja við Kröfluelda í umfangi. Í sjálfum gígnum í Kilauea-öskjunni er ekki gos í gangi en nokkrar sprengingar hafa orðið sem náð hafa að þeyta ösku, aðallega til suðvesturs. Óttast var að mun stærri sprenging gæti orðið en það mesta virðist yfirstaðið, en ekki alveg öruggt. Óvíst er um goslok en minna má á að með þessu gosi lauk loksins gosinu í Puu Oo gígnum sem stóð í 35 ár. Sá gígur var á sömu sprungurein, eins og sést á kortinu.

- - - -

Heimildir og uppruni mynda: US Geological Survey

Fyrri pistlar um sama efni:

Aðstæður skoðaðar á Hawaii með hjálp korta

Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii

Meira af Hawaiieldum

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir skemmtilega pistla og myndir af þessum hamförum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.6.2018 kl. 06:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband