Freatóplínískt þeytigos yfirvofandi á Hawaii

Þegar þú lesandi góður lest þetta þá gæti vel verið að atburðir þeir sem hér er fjallað um verði með öllu yfirstaðnir. En allavega, þegar þetta er skrifað, Eurovision-laugardaginn 12. maí, er fastlega búist við því að á næstu sólarhringum verði grundvallar fasabreyting á gosinu lífseiga sem staðið hefur á Hawaii allt frá því í janúar 1983. Í síðasta pistli fyrir viku tók ég stöðuna svona almennt á því sem er að gerast þarna, en þá höfðu litlar gossprungur opnast í byggðu svæði, um 60 kílómetrum frá Kilauea elddyngjunni sem er skammt frá risavöxnum nágranna sínum Mauna Loa á stærstu og eldvirkustu eyju Hawaii-eyjaklasans og birti þá meðal annars þetta google-map-kort þar sem ég bætti við helstu atriðum til skýringar en þar eru hæg heimatökin fyrir mig, grafíska hönnuðinn. Jarðfræðingur er ég hinsvegar ekki og þurfti að fletta upp hvað nákvæmlega átt er við með Freatóplínísku gosi, eins og minnst er á í fyrirsögn.

Hawaii Big Island suður

Til átta sig á hvað er að gerast hverju sinni þarna á Hawaii, verður maður helst að leggjast í eigin upplýsingaöflun og þá er auðvitað best í þessu tilfelli að leita beint til jarðfræðimiðstöðvar Bandaríkjanna (USGS, U.S. Geological Survey). Í íslenskum fjölmiðlum er lýsing á atburðunum og staðháttum mjög óljósir og misvísandi, rétt eins og þegar erlendir fjölmiðlar skrifa um jarðelda og afleiðingar þeirra hér á Íslandi. Dæmi um slíkt er hér í viðtengdri frétt þar sem segir meðal annars: "Vís­inda­menn telja að mögu­leiki sé á meiri hátt­ar eld­gosi úr Ki­lau­ea-eld­fjall­inu á Hawaii. Fjallið hóf að gjósa fyr­ir um viku og hef­ur hraun runnið í stríðum straum­um frá því síðan" Hér verður að hafa í huga að fjallið Kilauea hefur í raun ekkert verið að gjósa upp á síðkastið og frá því hefur ekki runnið neitt hraun, að minnsta kosti ekki á yfirborðinu.

Kilauea gígur

Kilauea er varla hægt að kalla fjall í venjulegum skilningi en það má kalla það dyngju með lítilli öskju og í þeirri öskju sannkallað Ginnungagap með kviku sem á upptök sín djúpt í iðrum jarðar og tengist möttulstróknum þarna undir austustu eyjunni. Á þeim áratugum sem liðnir eru frá upphafi gossins 1983 hefur kvikan frá Kilauea leitað neðanjarðar til gígsins Puu Oo og þaðan hefur víðáttumikið hraun runnið í átt til sjávar. En svo gerðist það vegna gliðnunar lands af völdum þrýstingsbreytinga að kvika frá öllu kerfinu fann sér leið neðanjarðar lengra austur í átt að byggðum svæðum. Örlítið brot af þeirri kviku hefur leitað til yfirborðs í formi smárra sprungugosa inn á milli húsanna. Hver þessara gossprungna (15 talsins) hefur einungis verið virk í nokkrar klukkustundir og því hefur hraunrennsli verið mjög lítið, en þó auðvitað gert sinn usla.

Með færslu kvikunnar í austur þornaði fyrst gígurinn Puu Oo alveg upp og eftir stóð djúpt gat ofan í jörðina þar sem áður var myndarleg hrauntjörn. Sama er núna að gerast með stóra megingíginn í Kilauea. Fyrir um mánuði náði hrauntjörnin alveg upp að gígbrún og flæddi jafnvel upp úr. Á síðustu dögum hefur hrauntjörnin og kvikan fallið mjög í gígnum samfara tilfærslu kvikunnar í austur og ef svo heldur áfram er hætta á ferðum. Ef kvikuyfirborðið fellur nógu langt niður getur gígrásin stíflast vegna grjóthruns að ofan og þegar kvikan kemst í snertingu við grunnvatn skapast aðstæður fyrir þessa miklu sprengingu sem talað er um, eða hinu svokallaða Freatóplínstu þeytigosi.

Kilauea sprenging

 

Gos nákvæmlega af þessari gerð eru ekki algeng því sérstakar aðstæður þarf til. Hér er það ekki ákaft uppstreymi kviku sem veldur, enda er kvikan frekar á leiðinni niður heldur en upp, áður en sprengingin á sér stað. Vatn og kvika er hins vegar öflug blanda eins og við þekkjum hér á landi þegar gos brýst upp úr jökli þótt þau séu ekki alveg að þessari gerð. Sprengingin mikla sem varð í Öskju árið 1875 er hinsvegar nefnt í bókinni Náttúruvá á Íslandi þar sem segir á bls. 94: "Upphaf gossins var þurr og lágplínítískur en breyttist svo í freatóplínískan fasa."

Ef spár ganga eftir með þessa sprengingu þá verður örugglega ekki um neitt smá fret að ræða en þó alls óvíst að stærðin verði í líkingu við Öskjugosið 1875. Víst er þó að stór björg munu þeytast í loft upp án þess þó að ógna byggðum svæðum. Öskufall gæti hinsvegar orðið talsvert á eyjunni og gosmökkur náð allnokkra kílómetra í loftið á þeim stutta tíma sem atburðurinn varir. Allt er þetta þó hlaðið óvissu og ekki einu sinni víst að nokkuð verði úr.

Framhaldið á hraunflæði niðri í byggðinni er líka alveg óvíst. Eins og er þá hefur engin gossprunga verið virk síðustu tvo sólarhringa og alveg mögulegt að ekkert gerist þar frekar. Vísindamenn eru þó ekki alveg svo bjartsýnir enda hefur mikil tilfærsla kviku átt sér stað sem mögulega gæti komið upp í stríðari strumi en hingað til. Þetta er ekki ósvipað því sem átti sér stað þegar kvikan hljóp frá Bárðarbungu og gaus upp lengst í burtu í Holuhrauni nema að hraunmagnið yrði aldrei sambærilegt. Óneitanlega er þó sérstakt að fá sprungugos í bakgarðinum hjá sér og ekki skemmtilegt ef heimilið fuðrar upp í ofanálag. Hér kemur í lokin samsett yfirlitsmynd frá USGS sem sýnir hvernig hraun hefur runnið í byggðinni. Ljósu skellurnar á dökka hlutanum eru gossprungur og hraun og er hver gossprunga merkt númerum. Langmesta hraunið kom úr einni sprungu sem er nr. 8 á kortinu.

Hraunrennsli Hawaii mai 2018

- - -

Heimildir:

USGS, U.S. Geological Survey  og  Honululu Star Adviser


mbl.is Telja líkur á sprengigosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Afar fróðlegt, bestu þakkir. Bíð eftir framhaldinu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.5.2018 kl. 22:23

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þakka þér Sigurður. Ef maður byrjar á sögu þá þarf helst að klára hana, verst er að ómögulegt er að segja hveru mikið er eftir af henni. En áhugaverðir hlutir eru enn í gangi þarna, þótt engin sé sprengingin.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.5.2018 kl. 12:23

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Furðulegt hversu lítið er fjallað um þessa atburði í fjölmiðlum hér á landi. Að mínu mati eru það litlu hlutirnir sem skipta ekki síður máli, sprungan sem gengur þarna út frá eldstöðinni, hversu langt hún getur náð, fjöldi gosa upp úr henni, skjálftatíðnin og svo framvegis.

Hér á landi eru skrýtnir atburðir að gerast við Herðubreið sem jarðvísindamenn eru ekki á einu máli um hvað þýða, litlir en djúpir skjálftar. Kvika á ferð eða frárek. Einnig skjálftarnir undir Tungnakvíslajökli í Mýrdalsjökli. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur heldur því fram að þar sé gúll á hægri leið upp á yfirborð.

Einnig skjálftarnir sem stafa af niðurdælingu Hellisheiðarvirkjunar við Húsmúla. Skammt frá eru flekaskil og hugsanlega er með dælingunni verið að „smyrja“ sprungur og búa til stóran skjálfta. Margir jarðfræðingar hafa af þessu miklar áhyggjur.

Fleira mætti til taka hér á landi af litlum atburðum sem eru einstaklega áhugaverðir en geta um leið verið ógnvænlegir.

Við höldum áfram að fylgjast með, Emil.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.5.2018 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband