30.11.2018 | 21:41
Veðurannáll 2011-2014 - misgóð tíð
Það má segja að á þessu tímabili hafi íslenska þjóðin verið nokkuð upptekin af því að hafa skiptar skoðanir um mörg mikilvæg mál sem tengdust fjármálahruninu og hvert ætti að stefna í næstu framtíð. Almenningur var þarna orðinn mjög heimavanur á kjörstöðum landsins þar sem kosið var um Icesave, stjórnarskrártillögur, auk forsetakosninga og hefðbundinna Alþingiskosninga og bæjar- og sveitastjórnakosninga. Ekkert var þó kosið um veðrið frekar en venjulega þótt það hafi ekki alltaf verið eins og best verður á kosið. Á undangengnum örlagatímum hafði veðráttan verið landsmönnum óvenju hliðholl þar sem hvert hlýindaárið hafði tekið við af öðru með meinlitlum vetrum og blíðum sumrum. En á því tímabili sem nú verður tekið fyrir brá svo við að ýmsir hnökrar fóru að gera vart við sig í veðráttunni, svo sem aukin snjóþyngsli og hret sem minntu á fyrri tíð. Það kom líka að því að Reykvíkingar gátu tekið upp gamalkunnugt vandlætingartal þegar kom að sumarveðráttu eftir óvenju langa hvíld í þeim efnum. Þó voru enn tvö góð sumur eftir í þeirri syrpu eins og komið verður að hér á eftir þar sem stiklað á stóru í veðurfari áranna 2011-2014.
Árið 2011 var meðalhitinn 5,4°C í Reykjavík sem er nærri meðalhita 10 áranna á undan sem öll voru hlý. Janúar byrjaði reyndar frekar kaldur með harkalegu norðanskoti með ofankomu og snjóflóðum fyrir norðan og vestan án þess þó að valda verulegu tjóni. Síðan tóku við hlýrri dagar og var janúar mjög snjóléttur í Reykjavík. Austlægar áttir voru annars tíðastar fyrstu tvo mánuðina með illviðrasömum kafla í febrúar. Í mars og apríl voru hinsvegar suðvestanáttir öllu tíðari með ýmsum leiðindaveðrum suðvestanlands. Snjór var þrálátur í borginni í mars og sífelld bakslög voru í vorkomunni í apríl en þá var aftur á móti óvenju hlýtt og snjólétt fyrir norðan og austan. Talsverður snjór var í Reykjavík að morgni 1. maí en næstu 10 daga gerði góðan hlýindakafla fram að seinni hluta mánaðar þegar kólnaði mjög með slæmri tíð, sérstaklega fyrir norðan og austan þar sem júní var síðan kaldari en verið hafði lengi. Eftir svala byrjun fór fljótlega að rætast ágætlega úr sumrinu í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu, nema á austurhelmingi landsins. Haustið var frekar tíðindalítið en nóvember var mjög hlýr þar til í lokin þegar breytti rækilega um veðurfar og veturinn tók öll völd. Desember var sá kaldasti í Reykjavík í 30 ár og nánast alhvítur. Þann 29. mældist snjódýptin 33 cm í borginni sem var það mesta sem mælst hafði þar. Hér má koma því að, að annálahöfundur tók sig til og ljósmyndaði Esjuna séða frá Öskjuhlíð alla daga ársins 2011 og má sjá afraksturinn á vefsíðunni: www.365reykjavik.is.
Árið 2012 var meðalhitinn í Reykjavík á sömu hlýju nótunum eða 5,5°C. Janúar var þó frekar kaldur en þá hélst snjór á jörðu í borginni nær allan mánuðinn eins og verið hafði mánuðinn á undan. Í febrúar og mars hlýnaði með umhleypingum og mikilli úrkomu suðvestanlands en öllu betra veður var þá austanlands og hlýtt. Viðsnúningur var í apríl en þá snérist meira til austlægra átta og síðan kaldari norðanátta í maí. Mjög sólríkt var bæði í maí og júní í Reykjavík sem og víðar með tilheyrandi þurrkum, mest þó á vesturhelmingnum á meðan austurhluti landsins fékk að kenna á kaldari og úrkomusamari tíð. Samkvæmt einkunnakerfi annálaskrifara fékk júní 2012 bestu veðureinkunn sem nokkur mánuður hefur fengið - örlítið hærri en júlí 2009. Mjög góð sumartíð hélt áfram í júlí og ágúst og svo vikið sé aftur að einkunnakerfinu þá fær þetta sumar í Reykjavík hæstu einkunn allra sumra í skráningarseríunni sem nær aftur til 1986. Aftur er það sumarið 2009 sem nartar í hælanna. En sumarið var gott víðar. Á Akureyri var þetta t.d. þurrasta sumarið frá upphafi mælinga 1928. Í september fór gamanið að kárna en þá var mjög úrkomusamt fyrir norðan, ekki síst í hinu mikla hríðarveðri sem olli miklum fjársköðum. Í október var nokkuð þægilegt veður en nóvember byrjaði með norðanóveðri þar sem ýmislegt fauk til á landinu, þar á meðal vegfarendur við nýreist háhýsi við Höfðatorg í Reykjavík. Snjólétt var þá syðra en talsverður snjór fyrir norðan. Í desember var mjög eindregin austanátt á landinu. Þurrt og snjólétt var í borginni þar til 28. desember en þá var sólarhringúrkoman í Reykjavík heilir 70 mm, sem er úrkomumet.
Árið 2013 var meðalhitinn í Reykjavík 4,9 stig og er það í fyrsta sinn frá árinu 2000 sem meðalhitinn er undir 5 stigum. Þótt þetta hafi verið kaldasta ár aldarinnar fram að þessu er varla hægt að segja að það hafi verið kalt, nema viðmiðanir hafi breyst eftir mörg hlý ár í röð. Árið hófst með talsverðum hlýindum tvo fyrstu mánuðina, sérstaklega í febrúar sem var sá hlýjasti í Reykjavík síðan 1965. Mjög snjólétt var í borginni allan veturinn og ríkjandi þurrviðri frá mars til maí. Frekar kalt var í apríl og í Reykjavík var hann t.d. kaldari en janúar og febrúar. Snjóþungt var þá fyrir norðan og austan með snjóalögum til fjalla sem lifðu óvenjulengi fram á sumar. Með sumri þessa árs má segja að lokið hafi sex ára syrpu góðra sumra í Reykjavík sem og suðvestanlands enda var það sólarlítið, úrkomusamt og kaldara en mörg undanfarin sumur. Hinsvegar var þetta öllu betra sumar á Norðausturlandi og ekki síst á Austurlandi, sem nú fékk að njóta sólskins og hlýinda. Mjög breytilegt veður var um haustið en þó var október sá þurrasti í Reykjavík frá upphafi. Desember var síðan kaldasti mánuður ársins og nánast alhvítur vetrarmánuður í Reykjavík.
Árið 2014 hlýnaði á ný svo um munar og var meðalhitinn í Reykjavík 6,0°C sem gerir árið það næst hlýjasta frá upphafi á eftir 2003. Víða á austurhelmingi landsins og sums staðar norðanlands var árið hinsvegar það hlýjasta frá upphafi. Janúar var hlýr á landinu og tók snjóinn, frá mánuðinum á undan, smám saman upp. Suðvestanlands og ekki síst í Reykjavík var mjög þrálátur klaki á jörðu sem sumstaðar entist langt fram eftir vetri en í febrúar voru þurrar austanáttir mjög ríkjandi. Í mars tóku umhleypingar við og þá snjóaði mjög fyrir norðan og austan. Vormánuðirnir voru yfirleitt ágætir fyrir utan vindasama daga um miðjan apríl. Aftur kom sumar sem olli vonbrigðum í Reykjavík en mun betra var norðan- og austanlands. Sumarið var yfirleitt hlýtt, ekki síst í júní í sólinni fyrir austan. Reyndar var júní sá úrkomumesti sem komið hefur í Reykjavík, en veðurgæði jöfnuðust nokkuð milli landshluta eftir því sem leið á sumarið. Í september voru hlýjar sunnanáttir ríkjandi og landshlutaveðrið eftir því en í október tóku við kaldari norðlægari áttir. Nóvember átti stóran þátt í háum ársmeðalhita enda á meðal þeirra allra hlýjustu. Í Reykjavík var hann sá hlýjasti frá metmánuðinum 1945. Óveður gerði svo um mánaðarmótin og tók þá við enn einn nánast alhvíti desembermánuðurinn í Reykjavík, eða sá þriðji á þessu fjögurra ára tímabili. Og eins og gerðist árin 2011 og 2013 var desember kaldasti mánuður ársins og í Reykjavík sá eini undir frostmarki.
Ýmislegt gekk á í jarðskorpunni. Fyrst ber að nefna óvænt og öflugt sprengigos í Grímsvötnum í maí 2011 og rigndi þá ösku yfir Skaftafellssýslur. Heilmikil jarðskjálftahrina var úti fyrir Norðurlandi í október 2012 sem þó olli ekki tjóni. Stórir atburðir hófust um miðjan ágúst 2014 þegar Bárðarbunga fór að skjálfa og ljóst að stefndi í gos. Þann 31. ágúst, sama dag og illviðri geisaði suðvestanlands, hófst síðan mikið sprungugos í Holuhrauni norðan Vatnajökuls ættað frá Bárðarbungu. Því gosi lok í febrúar árið eftir og reyndist hraunflæðið vera það mesta á landinu frá lokum Skaftárelda. Mestu náttúrhamfarirnar erlendis var risaskjálftinn í Japan í mars 2011 og flóðbylgjan mikla sem fylgdi í kjölfarið.
Sumarið 2012 er merkilegt á norðurslóðum fyrir meiri hafísbráðnun en þekkst hafði áður en annars hafði norðurskautsísinn frá og með árinu 2007, rýrnað mjög frá því sem áður var. Þetta þótti auka líkur á að Norður-Íshafið næði að verða íslaust í sumarlok innan fárra ára. Næstu tvö árin náði ísinn hinsvegar að braggast nokkuð á ný, enda sveiflur í þessu eins og öðru.
Næsti fjögurra ára annáll mun taka fyrir árin 2015-2018, en þar sem það tímabil er ekki alveg liðið verður beðið með birtingu fram yfir áramót.
Fyrri annálar í sama flokki:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 4.1.2019 kl. 18:43 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Emil, þó íslenskir veður annálar séu engin sérstök skemmtilesning þá ætla ég að þakka þér fyrir þessa sem þú hefur verið að birta. Það getur verið áhugavert að vita hvernig hver og einn upplifir veðrið.
Þessi annáll var þó sérstaklega áhugaverður fyrir mig sem bjó erlendis þetta tímabil og hafði því ekki tök á að upplifa íslenska veðráttu af eigin raun.
Magnús Sigurðsson, 2.12.2018 kl. 05:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.