23.1.2019 | 20:15
Þegar við steinlágum fyrir Frökkum á heimsmeistaramótinu 1990
Við höfum upplifað misgóðar stundir með strákunum okkar á handboltamótum gegnum tíðina. Þar á meðal eru glæstir sigrar gegn sterkum andstæðingum en líka eftirminnilegir skellir og áföll sem stundum hafa lagst þungt á sálarlíf þess hluta þjóðarinnar sem lætur sig handbolta einhverju varða. Einn af þessum skellum frá fyrri tíð situr ef til vill ekki hátt í handboltaminni þjóðarinnar en markaði engu að síður ákveðin tímamót hjá landsliði okkar og kannski ekki síður hjá andstæðingnum. Þetta var leikur Íslands og Frakklands um 9. sætið á heimsmeistaramótinu í Tékkóslóvakíu árið 1990 sem að sögn Alfreðs Gíslasonar eftir leik, var erfiðasta stund sem hann hafði upplifað sem íþróttamaður. Leikurinn sem var lokaleikur okkar á mótinu var háður eldsnemma á laugardagsmorgni og man ég eftir honum ekki síst vegna þess að ég horfði á hann í eftirpartíi sem dregist hafði á langinn en tilvalið þótti að enda gleðskapinn á handboltaleik - sem einmitt varð raunin.
Landslið Íslands hafði átt góðu gengi að fagna árin á undan og var auk Alfreðs skipað þrautreyndum leikmönnum ásamt nokkrum yngri og efnilegum: Kristjáni Ara, Bjarka Sig, Júlíusi Jónassyni, Þorgilsi Óttar, Sigurði Gunn, Héðni Gils, Geira Sveins, Jakobi Sig, Einari Þorvarðar, að ógleymdum hornamanninum knáa Guðmundi Guðmundssyni. Þjálfari var hinn margfrægi Bogdan Kowalczyk. Árangur liðsins á mótinu fyrir leikinn við Frakka var hinsvegar slakur. Of margir tapaðir leikir miðað við væntingar. Versti skellurinn var gegn liði Sovétríkjanna 19-27, en ljósi punkturinn var sigur gegn Austur-Þjóðverjum 19-17. Gamli tíminn var ekki alveg að baki. Þessi síðasti leikur okkar á mótinu var mikilvægur því með sigri gátum við tryggt okkur sæti á komandi Ólympíuleikum í Barcelóna 1992. Þetta var því síðasti séns að gera eitthvað gott á þessu móti - og góðir möguleikar á því enda voru Frakkar ekki hátt skrifaðir í handboltanum. Svokallaður skyldusigur gegn lítilli handboltaþjóð þar sem allt var í húfi.
Ég get ekki sagt að ég muni eftir einstökum atvikum úr þessum leik, annað en að frá fyrstu stundu virtist þessi rimma svo til töpuð. Frakkar mættu til leiks með aflitað ljóst hár sem vakti óhug og óöryggi hjá okkar mönnum. Við réðum engan vegin við hraðann hjá Frökkunum, vorum hikandi og skrefi á eftir í öllum aðgerðum. Þetta var allt annað franskt landslið en við höfðum áður kynnst. Niðurstaðan í leikslok: sex marka tap, 23-29. Partíið búið, engir Ólympíuleikar á Spáni og við blasti í B-keppnin í Austurríki 1992 en þó með von um sæti á heimsmeistaramótinu árið þar á eftir.
Lez Bronzés á Ólympíuleikunum 1992.
Þessi tapleikur við Frakka var síðasti leikur landsliðsins undir stjórn Bogdans og samkvæmt frétt mbl íhuguðu nokkrir burðarásar landsliðsins að hætta, hvernig sem það fór. Við liðinu tók Þorbergur Aðalsteinsson og endurskipulagning liðsins framundan. Svo fór reyndar að strákarnir okkur tóku óvænt þátt í Ólympíuleikunum 1992 þar sem Júgóslövum hafði verið meinuð þátttaka nokkrum dögum fyrir setningu leikanna. Þar stóðum við okkur framar vonum og lékum um bronsverðlaun á leikunum eftir tvísýnan undanúrslitaleik gegn Samveldi sjálfstæðra ríkja (fyrrum Sovétríkja) sem sigraði mótið. Auðvitað mættum við svo Frökkum í bronsleiknum og sáum ekki til sólar í þeim leik frekar en fyrri daginn.
Af Frökkum er það að segja að lið þeirra var orðið eitt af fremstu handboltaliðum heimsins og kannski var fyrsta vísbending í þá átt einmitt sigurleikur þeirra um 9. sætið gegn Íslandi á heimsmeistaramótinu 1990. Franska liðið fékk viðurnefnið Les Bronzés, eftir frammistöðuna á Ólympíuleikunum 1992 og gerðu svo enn betur á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 1993 þar sem þeir urðu í 2. sæti, eftir úrslitaleik gegn Rússum (sem loksins voru nú Rússar).
Sællar minningar eða kannski ekki, þá vann Franska liðið sinn fyrsta stórtitil í handbolta, einmitt í Laugardalshöll árið 1995 eftir sigur á nýríkinu Króatíu - og hafa verið óstöðvandi meira og minna síðan. Við íslendingar viljum helst ekki rifja mikið upp það mót sem fór fram við frumstæðar aðstæður í ýmsum íþróttahúsum, auk þröngu gömlu Hallarinnar þar sem þó hafði verið bætt við áhorfendaplássum bak við annað markið. Vitanlega vorum við meðal þátttakenda og enduðum í 14. sæti. Þó má rifja upp það sem útvarpsmaðurinn Gestur Einar lét út sér þegar útlitið var sem svartast. Við töpuðum fyrir Rússum, svo Hvít-Rússum. Hverjir verða það næst? Svart-Rússar?"
Ekki reyndust það vera Svart-Rússar þarna um árið, en hitt er víst að nú síðast voru það Brasilíumenn. Skyldi þið vera næsta stórveldi í handbolta?
- - -
Heimildir:
Íþróttafrétt Morgunblaðsins 11. mars 1990 bls. 34
Heimsmeistaramótið 1990
Athugasemdir
ÍL mínum huga skiptir engu máli hvort að bolta sé hennt fram og til baka.
Jón Þórhallsson, 24.1.2019 kl. 10:01
Sjálfsagt finnst þér það Jón. En það sem skiptir engu máli getur líka verið áhugavert.
Emil Hannes Valgeirsson, 24.1.2019 kl. 11:25
Einmitt og þannig er það bara.Hve oft hefur maður ekki fengið að heyra hversu vitlaust það er að horfa á 2x7 manna lið kasta bolta fram og til baka,rétt eins og tilgangurinn sé ómarkviss.- Sá seinast sem gerði lítið úr því er þó nokkuð góður skákmaður og ég minnti hann á skákkeppnir sem oft voru sýndar í sjónvarpi áður fyrr svo spennandi en útheimtu heilmikla þolinæði áhorfenda að pæla í næsta leik,en takmarkið er alltaf það sama að vinna andstæðinginn.
Helga Kristjánsdóttir, 25.1.2019 kl. 02:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.