6.8.2019 | 22:09
Jöklarnir rýrna samkvæmt gervitunglamyndum
Mér datt í hug að gera smá athugun á því hvernig jöklar hálendisins eru að spjara sig á þessu sumri sem hefur verið í hlýrri kantinum auk þess sem það hófst óvenju snemma í ár með afspyrnuhlýjum aprílmánuði. Samanburðurinn er einungis sjónrænt mat á gervitunglamyndum frá NASA, en á Worldview-vefsíðu þeirra er hægt að kalla fram myndir hvaðan sem er á jörðinni nokkur ár aftur í tímann og gera samanburð milli dagsetninga. Á myndunum sem hér fara á eftir hef ég valið að bera saman dagana 31. júlí, 2017 og 2019 en á þeim dagsetningum var bjart og gott útsýni yfir miðhálendi landsins.
Munurinn á jöklunum er greinilegur milli þessara tveggja sumra. Árið 2017 rýrnuðu jöklar landsins eins og þeir hafa gert síðustu 25 ár eða svo. Mismikið þó. Jöklabráðnun var mest árið 2010 en síðan hafa komið ár eins og 2015 og 2018 þar sem afkoma sumra jökla var meira í jafnvægi eða jafnvel jákvæð. Myndirnar eru af Langjökli, Hofsjökli og vestanverðum Vatnajökli en dekkri jaðrar jöklana nú í sumar bera þess greinilega merki að bráðnun hefur verið öllu meiri en þarna fyrir tveimur árum. Sumarið er þó ekki búið og ekki komið að uppgjöri. Væntanlega mun samt nokkuð draga úr jöklabráðnun með kaldara lofti sem stefnir yfir landið.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Þakka góðar upplýsingar. Ég hef verið að fylgjast með jöklum og notað Google earth og Google map ásamt loft myndum frá íslensku loftmynda fyrirtæki man ekki nafn.
Drangajökull er eins og á ljósmyndum sem ég á úr Leirufirði 1966 og ég held að allmennt sé talið að hann breytist ekki mikið.
Hoffellsjökull virðist hafa bætt við sig allaveganna í Apríl og svo fékk ég ljósmynd í gær sem sýndi að hann var svipaður.
Breiðamerkurjökull miðað við stálið/sárið og að brú þá hefir hann aukið við sig það var í vor líka.
Finnur Pálsson sagði mér og sendi skýrslur að sumir jöklar hafa verið að stækka og sérstaklega norðan megin á Vatnajökli.
Svo vitum við með skrið jökulinn í Jakobsfirði V Grænland hefir stækkað um 20km eða meira þar sem kaldur sjór kom frá N atlantshafinu og Hafró sagði í gær seltulítill sem hjálpaði til að hann fraus.
c.1973 fór ég með Kalla Radio Eiriksson um haust að mæla jökullin við Jökulheima en þá var hann byrjaður að minnka en hann setti smá vörður fyrir hvert ár og fyrsta varðan var mjög nálægt skálanum. Hef ekki fylgst með honum.
Þakka fyrir og slóðina World View sem ég þarf að skoða.
Valdimar Samúelsson, 7.8.2019 kl. 10:02
Flottur samanburður Emil og fín leið til að bera saman sjónræna afkomu jöklana. Snælínan á hverjum tíma sést vel þegar heiðríkt er og hægt að teikna inn á kort. Hjarnmörkin síðasta dag leysingar áður en snjóar að nýju segja síðan til um afkomuna. Sumarið 2010 leysti allan vetrarsnjó m.a. á Drangajökli og sjá mátti vel með viðlíka samanburði. ESv
Einar Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 7.8.2019 kl. 13:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.