5.2.2024 | 21:24
Veðurannáll 2019-2022
Fyrir nokkrum árum birti ég hér blogginu einskonar veðurannála sem voru byggðir á eigin veðurskráningum auk ýmissa upplýsinga af veðurstofuvefnum. Árin hafa liðið og komið að framhaldi og eins og áður tek ég fjögur ár fyrir í einu eða tímabilið 2019-2022. Í yfirlitinu er stiklað mjög á stóru og er miðað að mestu út frá Reykjavík enda er það mitt heimapláss. Eitt og annað í víðara samhengi er þó nefnt þegar ástæða er til.
Ekki var vetrarlegt um að litast á upphafsdögum gossins í Geldingadölum sem er einn af þeim atburðum sem settu mark sitt á tímabilið. Myndin er tekin 21. mars 2021.
Um tímabilið 2019-2020 má almennt segja að það hafi byrjað með mildri veðráttu og yfirleitt hagstæðu ástandi innan lands og utan. Ferðamenn streymdu til landsins sem aldrei fyrr og landsmenn flykktust út að sama skapi. Atvinnuástand var gott og verðbólga og vextir í lágmarki. Heimsmálin voru líka í ágætis skorðum og jörðin undir okkur nokkuð stöðug. Svo fór ýmislegt óvænt að gerast. Fyrst skal nefna Covid-19 heimsfaraldurinn sem barst til landsins í lok febrúar 2020 með tilheyrandi röskunum og takmörkununum og var mál málanna hér heima og erlendis um tveggja ára skeið. Þegar það ástand var loks að baki snemma árs 2022 réðust Rússar til innrásar í Úkraínu og settu þar með heimsmálin alveg úr skorðum þótt aðgerðin hafi ekki gengið samkvæmt plani því enn var barist í lok árs og friður ekki í augsýn. Hér heima fór Reykjanesskaginn að hrista upp í tilverunni með öflugum jarðskjálftahrinum og landrisi samfara kvikusöfnun nálægt Grindavík. Svo fór að það gaus á skaganum eftir 800 alda hvíld. Nema hvað gosin sem komu upp við Fagradalsfjall í mars 2021 og svo aftur í ágúst 2022 reyndust vera hin hin saklausustu og bestu túristagos.
Árið 2019 var sannarlega eitt af þessum hlýju árum sem komið hafa hér á landi á þessari öld en sérstaklega var þá hlýtt og sólríkt suðvestanlands. Meðalhitinn í Reykjavík var 5,8 stig sem er það fjórða hlýjasta á öldinni og í sjöunda sæti frá upphafi mælinga. Alla vetrarmánuði ársins var meðalhitinn yfir frostmarki en þó gerði almennilegan vetrarkafla upp úr miðjum janúar sem lauk með miklu þrumuveðri í borginni að kvöldi 21. febrúar. Þá tóku við mjög breytileg veður þar til í apríl sem einkenndist af hlýjum suðaustanáttum og varð apríl sá hlýjasti í borginni og víðar frá upphafi mælinga og náði hitinn í Reykjavík upp í 17 stig síðasta daginn. Einstakan sólskinskafla gerði í Reykjavík frá 22. maí til 18. júní en þá daga má segja að sól hafi skinið nánast samfleytt með smá uppábrotum. Þótt dregið hafi eitthvað fyrir sólu í júlí þá varð mánuðurinn hlýjasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík og hlýjasti mánuður sem þar hefur yfirleitt mælst, 13,4 stig. Áfram var nokkuð gott suðvestanlands í ágúst en síðra norðaustanlands þar til fór að rigna af ákafa í september en við tóku breytileg veður með frekar þurrum nóvember. Snjórinn lét svo sjá sig í umhleypingasömum desembermánuði og dagana 10.-11. des. gerði ansi slæman norðanhvell með allskyns sköðum víða og röskunum.
Árið 2020 var meðalhitinn í Reykjavík 5,1 stig sem er í lægri kantinum miðað við það sem af er öldinni en þó í meðallagi miðað við nýtt 30 ára viðmiðunartímabil 1991-2020. Reyndar var þetta ár að mestu í meðallagi suðvestanlands og almennt öfgalaust í veðri. Samt nokkuð vel sloppið því árið var mjög úrkomusamt norðan- og austanlands. Fyrstu mánuðina var nokkuð umhleypingasamt í borginni, og þótt ekki hafi verið mikil frost þá lá oftar en ekki einhver snjór á jörðu langt fram í mars. Veðrið var þó ekki aðalumræðuefnið þarna seinni hluta vetrar því skollinn var á Covid-faraldur sem bregðast þurfti við. Ágætlega hlýtt var hinsvegar um vorið og fram í júní, en í júlí urðu norðanáttir ofaná með ágætu sólarveðri sunnan heiða þótt hitinn væri ekki mikill. Eftir rigningarkafla suðvestanlands fyrri partinn í ágúst komu loks bestu dagar sumarsins með góðum hita og bjartviðri. Fátt markvert gerðist í Reykjavík um haustið, það kom eins og venjulega en lítið var um snjó fram að jólum en eftir sunnanrigningu á aðfangadag náðu þau að vera hvít að kvöldi. Hinsvegar gerði í desember miklar rigningar norðan- og austanlands með illskæðum skriðuföllum á Seyðisfirði eftir miklar stórrigningar þar.
Árið 2021 var meðalhitinn í Reykjavík 5,4 stig sem er við meðallag það sem af er öldinni. Veðurfar var nokkuð þægilegt fyrstu mánuðina. Janúar var reyndar í kaldari kantinum en febrúar og mars voru hlýir. Mjög snjólétt var suðvestanlands og lítil úrkoma sem kom sér vel fyrir alla þá gosþyrstu sem lögðu leið sína að Geldingadölum í byrjun mars og næstu mánuðina á eftir. Vormánuðirnir voru hinsvegar kaldari en áfram var lítil úrkoma suðvestanlands og fór gróður víða að brenna samfara miklum sólskinskafla fyrri hlutann í maí. Sumarhitar létu bíða eftir sér framan af og var júní kaldur. Smám saman rættist úr og var ágúst mjög hlýr á landinu öllu. Sá næsthlýjasti í Reykjavík og víða sá hlýjasti frá upphafi mælinga auk þess að vera með þeim allra sólríkustu norðaustanlands, á meðan sólin lét minna sjá sig sunnan heiða. Eins og oft vill verða fór veðrið að versna með haustinu með ýmsum illviðrum úr flestum áttum og fengu norðlendingar þá helst að kenna á úrkomunni. Þetta jafnaði sig þegar leið að vetrinum og endaði árið á þægilegum nótum fyrir utan endurnýjaða skjálftahrinu á Reykjanesskaganum. Jú, og svo var auðvitað alltaf eitthvað Covid.
Árið 2022 var meðalhitinn 5,1 stig eins og hann var árið 2020 en samt öllu viðburðarríkara. Árið hófst með illviðrasömum janúar en þó sæmilega hlýjum. Febrúar var talsvert kaldari og mjög snjóþungur á landinu, ekki síst í höfuðborginni með tilheyrandi ófærð dögum saman. Aftur hlýnaði í mars en þá gerði miklar rigningar og varð þetta úrkomumesti marsmánuður í Reykjavík frá upphafi mælinga. Allt mildaðist þetta með vorinu sem ekki þurfti að kvarta mikið yfir. Júní slapp fyrir horn að mestu en júlí stóð ekki alveg undir væntingum og var í kaldari kantinum á landinu og auk þess frekar sólarlítill í Reykjavík. Áfram var frekar svalt í ágúst en sólin skein þó eitthvað meira í borginni. September var síðan nokkuð góður og sólríkur, sérstaklega norðanlands en þó gerði illilegt óveður seint í mánuðinum með húsatjóni á austfjörðum. Síðan kólnaði og að þessu sinni var október kaldari en nóvember sem var reyndar óvenju hlýr og sumstaðar sá hlýjasti sem mælst hefur. En ekki entust hlýindin og fallið var mikið því desember einkenndist af óvenjumiklum kuldum og frostum á landinu. Í Reykjavík var þetta meira að segja kaldasti desember síðan 1916 en í leiðinni sá sólríkasti frá upphafi mælinga. Ekkert snjóaði þó í Reykjavík fyrr en um miðjan mánuð þegar gerði talsverða ofankomu og varð þar með alhvítt út árið með viðbótum um jól og áramót.
Jarðhræringar og eldgos. Ég hef komið aðeins inn á atburðina á Reykjanesskaganum hér á undan. Þeir atburðir byrjuðu í raun með skjálftum norður af Grindavík undir lok janúar 2020 samhliða landrisi vegna kvikusöfnunar við Grindavík. Það voru mikil tímamót sem gátu boðað nýtt skeið eldvirkni á skaganum. Öflugri skjálftar gerðu síðan vart við sig. Þann 12. mars 2020 var skjálfti upp á 5,2 við Fagradalsfjall og annar álíka 19. júlí á sömu slóðum. Vestan Kleifarvatns mældist svo 5,6 stiga skjálfti þann 20. október. Mikil hrina fór síðan í gang í kjölfar skjálfta upp á 5,7 stig við Fagradalsfjall þann 24. febrúar 2021 og héldu skjálftarnir áfram þangað til gos hófst í Geldingadölum að kvöldi 19. mars. Þrátt fyrir smæð gossins í upphafi þá lauk því ekki fyrr en 18. september án þess þó að valda tjóni. Aftur fór jörð að skjálfa seinni hlutann í desember en ekkert varð úr gosi þá. Í lok júlí 2022 hófst ný og öflug hrina við Fagradalsfjall og norður af Grindavík sem endaði í gosi í Merardölum þann 3. ágúst og stóð það í 18 daga. Ekkert tjón varð frekar en í fyrra gosinu og rann hraun að mestu yfir hraun frá árinu áður. Þetta þótti allt vel sloppið miðað við hvað hefði getað gerst. En var þetta allt og sumt eða voru stærri atburðir í bígerð?
Næsti fjögurra ára annáll verður væntanlega birtur hér snemma árs 2027. Best að lofa ekki nákvæmri tímasetningu eins og síðast því eiginlega átti þessi annáll að fara í loftið á tiltekinni mínútu fyrir rúmu ári. En líklega voru þó ekki mjög margir að bíða.
Fyrri annálar:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi
Veðurannáll 2011-2014 - Misgóð tíð
Veðurannáll 2015-2018 - Hitasveiflur á uppgangstímum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.