7.3.2008 | 20:20
Hámark hafísbreiðunnar á norðurhveli
Nú er kominn tími á meiri æsispennandi hafísskrif og að þessu sinni um hafísinn á norðurheimskautinu. En eins og venjulega gerist í snemma í mars má gera ráð fyrir því að vetrarhámarki hafísbreiðunnar á norðurhveli hafi verið náð. Á meðfylgjandi myndum sést útbreiðsla hafíssins eins og hún var sl. haust og svo núna í byrjun mars, en þarna kemur vel fram hinn mikli munur sem er á útbreiðslunni eftir árstíma. Eftir sögulegt lágmark hafíssins sl. haust hefur hafísinn að því er virðist náð sér vel á strik og heildarútbreiðslan ekki fjarri því sem eðlilegt má teljast. Það hafa t.d. verið talsverðir kuldar vestur af Grænlandi og víðar í vetur og því mikill hafís á þeim slóðum og áfram suður eftir til Nýfundnalands.
En það er ekki allt sýnist. Það má sjá t.d. að íslausa svæðið í Barentshafinu er óvenju stórt sem bendir til þess að hlýir vindar hafa leikið þar um, þótt umfram allt sé það Golfstraumurinn sem heldur þessum norðurhafsvæðunum íslausum að mestu árið um kring. En það hefur verið mjög hlýtt þarna í vetur, veturinn í Skandinavíu hefur verið mildur þrátt fyrir kaldari tíð víða annarsstaðar. Þessir hlýju vindar sem hafa náð inn á Barentshafið og áfram á norðurpólsvæðið sjálft hamla almennilegri hafísmyndun þannig að ísinn þarna verður enn eitt sumarið viðkvæmur fyrir hinni óumflýjanlegu sumarbráðnun.
Vísindamönnum verður sífellt betur ljóst hversu merkilegt síðasta hafíslágmark var og hversu afdrifaríkt það getur orðið. Jafnvel er talað um um að hafísinn á norðurpólnum hafi náð krítísku ástandi eða því sem kallað er upp á ensku tipping point, sem þýðir að úr þessu mun hafísútbreiðslan á norðurpólnum ekki eiga sér viðreisnar von á sumrin nema til komi veruleg kólnun á næstu árum. Vegna mikilla affalla á gömlum og traustum hafís síðustu ár er meginuppistaða hafísbreiðunnar núna þunnur og ungur ís sem bráðnar auðveldlega á sumrin. Þau opnu hafssvæði sem myndast á sumrin eru líka orðin það stór að orka sólarinnar nær að hita sjóinn í stað þess að endurvarpast til baka af hvítum ísnum, og útkoman verður því sífellt hraðari bráðnum og að lokum íslaust norðurhvel að sumarlagi eftir einhver ár. Strax núna í sumar gæti jafnvel verið fært skipum allt norður að pólnum sjálfum, allavega samkvæmt því sem Norski hafísfrömuðurinn dr. Olav Orheim segir (sjá hér).
Tek svo fram að lokum að þetta eins og flest sem ég skrifa um þessi fræði eru vangaveltur alþýðumanns en samt bara nokkuð áreiðanlegar eftir því sem ég best veit.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:25 | Facebook
Athugasemdir
takk fyrir þessa áhugaverðu lesningu... ísinn bráðnar hraðar heldur en maður hefur gert sér grein fyrir, þó hefur maður séð myndir og lesið um þessar miklu breytingar...
...en hvaða afleiðingar hefur þetta á endanum ef norðurhveli verður íslaust að sumarlagi?
Brattur, 7.3.2008 kl. 20:58
Ég get nú ekki ímyndað mér annað en það hafi heilmikil áhrif á öllum norðurslóðum ef ísinn tekur upp á því að bráðna á sumrin því þá hverfa þau kælandi áhrif sem hann hefur. Við hér á íslandi getum þá örugglega fagnað lengri sumrum en ekki endilega mikið hlýrri sumrum eftir því sem ég hef heyrt. En svo er alltaf möguleikinn á því að aðstæður breytist og ekkert verði úr þessum spám.
Emil Hannes Valgeirsson, 7.3.2008 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.