Var Jesú sólguð, frjósemisguð eða frelsari?

Nú er komið að stóru Jesuskrifunum. Ég skrifaði fyrir síðustu jól um vetrasólstöðurnar og velti aðeins fyrir hvort fæðing frelsarans tengdist endurkomu sólarinnar um jólin og spurði þessarar spurningar: Hver var hann í raun þessi Jesú sem fæðist um jólin á sama tíma og sólin og er fórnað um páska? Ég hafði reyndar eitthvað heyrt óljósar hugmyndir um að Jesúfræðin gætu verið talsvert flóknari heldur en frásagnir Biblíunnar gæfu til kynna og að finna mætti fleiri Jésúa í öðrum og eldri trúarbrögðum. Hugsanlegu er viss skyldleiki milli flestra trúarbragða sem upp hafa sprottið í gegnum árþúsundin meira og þau meira og minna samtengt rétt eins og menningin og tungumálið.

LjosHeimsinsSama dag og ég birti umræddu grein kom svo einmitt umfjöllun í Fréttablaðinu um þetta og var þar lagt útfrá myndinni Zeitgeist sem ég vissi ekki af þá en margir hafa séð á netinu en fyrsti hluti hennar er lagður undir þessi Jesúmál. Í nefndri mynd eru taldir upp ýmsir fornir guðir sem tengdust átrúnaði á sólina og því haldið fram Jesú hafi í raun verið sólguð og sagnir um hann séu meira og minna byggðar á fornum goðsögnum og fyrirmyndum sem finna má í ýmsum trúarbrögðum. Meðal þeirra sem nefndir eru til sögunnar eru: Hórus - sólguð Egypta, Krisna - Kristur Hindúa og Mítra - Guð Persa. Þessir heilögu guðir og ýmsir fleiri eiga margt sameiginlegt. Þeir fæðast allir um vetrasólhvörf, gjarnan meyfæðingu, eru guðssynir, ljós heimsins, frelsa menn frá illu, lækna sjúka og deyja að lokum fyrir syndir mannanna – sumir jafnvel krossfestir.
Og talandi um kross, þá er krossinn auðvitað tákn kristinnar trúar en á sér um leið samsvörun í heiðnum átrúnaði á sólina þar sem miðja hans táknar sólina en höfuðáttirnar eru svo útfrá henni. Í fornum myndum af Jesú var reyndar höfuð hans gjarnan sýnt á miðju krossins eins og sólguði sæmir - ljósi heimsins.

En svo eru það páskarnir. Þeir eru auðvitað eins og jólin, forn hátíð. Jesú kom einmitt til Jerúsalem til að halda upp á páskana, en var þar svikinn, handtekinn, krossfestur, dáinn og grafinn en reis svo upp á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Páskana ber upp á þeim tíma þegar jafndægur eru að vori, eða því sem næst eins og fjallað er um í áðurnefndri Zeitgeist mynd. En í myndinni er hins vegar minni áhersla lögð á annan þátt páskahátíðarinnar, sem er nefnilega sá að páskarnir séu frjósemishátíð og sennilega ævaforn sem slík. Páskana ber upp á þann tíma þegar gróður jarðar fer að dafna eftir veturinn og það sem skiptir kannski meira máli hér, er að páskarnir eru sá tími þegar korninu er sáð í jörðu. Útsæðinu er fórnað, fyrir nýja uppskeru og því betri uppskeru eftir því sem guðirnir eru okkur hliðhollari. Á þeim örlagaríku páskum sem kristnir menn halda upp á, var sjálfum Jesú Guðssyni fórnað. Er þar kannski komin tilvísun í miklu eldri fórnarhátíðir um páska? Líta má svo á að eins og sáðkornið sem spíraði eða lifnaði við eftir að hafa legið í jörðinni í þrjá daga þá reis Jesú upp á þriðja degi „til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ eins og segir í trúarjátningunni. Svo má líka nefna að í bók fræðimannsins Einars Pálsonar er að finna frásögn um frjósemisguðinn Frey Njarðarson sem kemur úr ásatrúnni en þar er talað um að Njörður hafi fórnað sjálfum sér í syni sínum fyrir mannkynið og í myrkasta skammdeginu éta menn líkama hans og drekka blóðið, eða éta kornið og drekka ölið.

Þar hafa menn það, Jesú var maður eða goðsagnarvera sem átti sér marga eldri bræður frá mörgum samfélögum, sem voru sólarguðir og/eða frjósemisguðir. Jesú kristinna manna er hinsvegar samkvæmt Biblíunni ekki goðsagnavera, hann lifði og starfaði meðal fólksins, boðaði fyrirgefningu syndanna og frelsun mannanna. Það er í sjálfu sér ekkert sem sannar það Jesú Kristur hafi yfirleitt verið til, hvað þá að hann hafi verið eingetinn sonur guðs og risið upp frá dauðum. En þetta er auðvitað trúaratriði og verður hvorki sannað eða afsannað og eins og fellst í orðinu trú, þá er ekki um fullvissu að ræða heldur trú. 

- - - - - - 

Ég læt hér fylgja slóð á myndina Zeitgeist: http://www.zeitgeistmovie.com/main.htm. Eftir inngang að myndinni þá fjallar fyrsti hluti hennar um hugmyndina um Jesú sem sólarguð en annars virðist tilgangur hennar vera sá að fletta ofan af hlutunum eins og kristindómnum, en einnig um samsæriskenningar í sambandi við árásina á World Trade Center og svo kemur umfjöllun um peningakerfið í heiminum. 

Einnig bendi ég á grein á bloggsíðunni Greinasafn Sigursveins, en þar fékk ég fróðleik um Frey Njarðarson, en einnig er þar fjallað um tengsl fornra trúarbragða og frjósemisdýrkenda við hinn heilaga berserkjasvepp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef engar sannanir eru til með eða á móti þá höfum við ekkert.
Trú er ekkert nema von.

DoctorE (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 11:23

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Eða eigum við kannski að segja: „Trú, von og kærleikur“ svo vitnað sé í Pál postula.

Emil Hannes Valgeirsson, 21.3.2008 kl. 11:40

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er alveg bráðskemmtileg pæling og athyglisverðar hliðstæður hér og hvar, rétt eins og í öðrum þjóðsögum.

Njóttu páskanna! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.3.2008 kl. 12:02

4 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Þá er nú ekki ónýtt að kynna sér þátt -Dauðahafshandritanna- í þessu sambandi og tengsl Essena og Jesú.  Mætti líka segja mér, að hyldýpi Vatikansins geymi handrit ýmis konar, er illa þoli dagsins ljós ;)

Ásgeir Kristinn Lárusson, 24.3.2008 kl. 12:00

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir ábendinguna, Ásgeir. Dauðahafshandritin hafa af mörgum verið eignuð þessum trúarhópi og meinlætamönnuum Essenum. Spurningin hvort Jesú hafi verið einn af þeim er ein af þessum dularfullu ráðgátum um Jesú, en það bendir allavega margt til þess að hann hafi þekkt til hugmynda þeirra og tileinkað sér þær.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.3.2008 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband