Um jökla, lón og Jökulsárlón

Það er alkunna að jöklar eru viðkvæmir fyrir loftslagsbreytingum. Á kuldaskeiði því sem kallað hefur verið litla-ísöldin stækkuðu jöklar mikið uns þeir náðu hámarki kringum aldamótin 1900. Tuttugasta öldin var hinsvegar það hlý að þá skruppu jöklarnir saman jafnt og þétt ef frá er talið tímabil á seinni hluta aldarinnar sem ég hef kallað pínulitla ísöldin. Um landnám hafði ríkt hér hlýindaskeið um langan tíma, enda voru jöklarnir þá ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem þeir eru í dag. Við óbreytt hitastig halda jöklarnir áfram að minnka, uns þeir ná nýju jafnvægi og gætu því endað í sömu stærð og við landnám. Ef hinsvegar spár um aukna hlýnun ganga eftir munu helstu jöklar landsins jafnvel nánast hverfa með tímanum. 

breidamerkursandur

 
Jökulsárlón á Breiðamerkursandi 

Breiðamerkurjökull er væntanlega augljósasta dæmið um áhrif jöklabúskaparins á landið. Þar var jökullinn stærstur skömmu fyrir aldamótin 1900 eftir að hafa gengið fram með rikkjum um nokkrar aldir og átti að lokum ekki eftir nema um 200 metra að ströndinni eins og kemur fram á korti frá danska herforingjaráðinu sem var teiknað eftir mælingum frá árinu 1902. Áður en jökullinn lagðist yfir var þarna sléttlendi og gróðursælar sveitir og jafnvel skógi vaxið land milli fjalls og fjöru um landnám. Þegar jökullinn hopar kemur allt annað land í ljós en það sem var fyrir. Það er eðli skriðjökla að grafa sig niður í það land sem þeir hvíla á og þar sem langt er í fast berg þarna á söndunum, hefur jökullin náð að grafa sig marga tugi metra niður fyrir sjávarmál þar sem lónið er, en lengra inn í landinu og undir skriðjöklinum sjálfum hafa mælingar sýnt að jökullin hefur grafið sig niður meira en 300 metra undir sjávarmál. Lón sem myndast vegna hörfandi jökla fyllast smám saman af framburði jökuláa sem í þau renna en það sem ógnar hins vegar þessu lóni er sjórinn sem smám saman vinnur á því hafti sem skilur að lón og haf. Því óttast menn að þarna sé að verða til heilmikill fjörður verði ekkert að gert og samgöngur milli landshluta í hættu landleiðina. Eins og kom fram í fréttaviðtali, þann 2. í páskum, við Fjölni Torfason bónda á Hala í Suðursveit eru hugmyndir upp um að opna lóninu aðra leið til sjávar og þá austar um gamlan farveg, en það á að minnka álagið á svæðið þar sem brúin er og styst til sjávar.

jokulsarlon

 

Á myndinni hér að ofan sést vel hversu mikið Breiðamerkurjökull hefur hopað frá því að hann fyllti út í allt lónið fyrir 100 árum. Áin sem liggur á milli hafs og lóns er orðin það stutt að sjórinn nær nú að flæða inn í lónið sem verður þannig hlýrra en ella og flýtir enn frekar fyrir bráðnun jökulsins.

Myndina setti ég saman úr fjórum myndum sem bloggarinn og flugkappinn Kjartan Pétur Sigurðsson tók á flugi yfir lóninu, en á hér myndasíðu hans má sjá fleiri myndir úr því flugi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Til hamingju :)

Sé að myndasamsetningin hefur lukkast vel hjá þér. Ég var að vísu búin að setja saman aðra mynd af svæðinu frá nr. 569 að 574. En þessi er flott. Kom akandi niður Breiðamerkurjökul fyrir nokkrum dögum og var þá allt lónið frosið. Myndirnar má sjá hér:

http://www.photo.is/08/03/3/index_28.html

http://www.photo.is/08/03/3/index_28.html

p.s. ég gaf út ljósmyndabók 1996 (Íslandsbókin) sem var byggð á þessari samsetningartækni, að vísu voru hvorki tölvur né forrit svona öflug eins og þau eru í dag :|

Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.3.2008 kl. 07:03

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hugmyndin um að opna frárennsli frá lóninu austan megin úr lóninu þar sem smá renna sést á myndinni sýnist mér vera snilldarhugmynd.

Varðandi að jöklar séu að hopa, þá er spurning með þetta árið. En nóg var af snjó þetta árið á Vatnajökli eins og sjá má úr myndunum sem að ég tók í páskaferðinni yfir jökulinn. Gaman væri að vita hvað væri meðaltal af jafnföllum snjó sem hefur fallið þetta árið á jöklinum.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.3.2008 kl. 07:09

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég man vel eftir Íslandsbókinni með öllum panoramamyndunum, en ég var ekki búinn að tengja hana við þig, Kjartan.

Það er líka ósennilegt að jöklar hopi mikið þetta árið, ef þá nokkuð. Hér eins víða um heim hefur verið það kalt að þetta er eins og afturhvarf 20-30 ár aftur í tímann.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.3.2008 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband