Lesið í lógó – ekki er allt sem sýnist

Nú er komið að undraheimum grafískrar hönnunar. Þegar fyrirtæki láta hanna fyrir sig merki skiptir máli að útkoman endurspegli einkenni og karakter fyrirtækisins á sem smekklegastan hátt og þegar best tekst til má finna í merkjum og skrift fyrirtækja ýmislegt óvænt sem kemur í ljós við nánari skoðun. Lítum á dæmi.

fedex

Fyrst ber að nefna klassískt dæmi frá Ameríku. Hér er allt meðvitað en samt ekki mjög augljóst í fyrstu. Flutningsfyrirtækið Fedex notar eingöngu stafagerð til að einkenna sig. Kannski ekki mjög eftirminnilegt merki fyrr en maður sér hvítu píluna sem myndast þarna á milli tveggja stafa. Ég læt vera að benda á hvar hún er.

 

FLGroup

Svo er það merki FL Group sem er einfalt og stílhreint. Í bláum kassa eru stafirnir F og L, en L-inu hefur verið speglað svo það falli inní lausa plássið í F-inu þannig að stafirnir tveir pakkast saman í eina heild. Hversu margir skildu svo hafa tekið eftir því að í bláu línunum sem aðskilja stafina er sitjandi maður, að vísu höfuðlaus? Kannski flugmaður sem við sjáum á vinstri hlið með útréttar hendur eins og hann sé að stýra. FL-Group er að vísu ekki flugfélag en nafnið er vissulega dregið af Flugleiðum. Það hafa kannski ekki margir séð þennan flugmann og sjá kannski aldrei.

Á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi má sjá merki Vínbúðarinnar undir stóru Hagkaupsskilti. Vínbúðin er dæmi um það þegar myndmerkið er látið falla inní leturgerðina og mynda með henni eina heild. Hagkaup hinsvegar er dæmi um það þegar ekkert myndmerki er til staðar og skriftin ein látin duga sem merki. En bíðum við. Þegar skriftin í nafni Hagkaupa er skoðuð nánar þarna rétt fyrir ofan Vínbúðarmerkið sé ég ekki betur en að þarna séu falin vínglös sem myndast bæði í bókstöfunum H og A. Það er ekki annað að sjá en að þegar leturgerðin var ákveðin, hafi Hagkaupsmenn gert ráð fyrir því að versla með áfengi í framtíðinni. Skál fyrir því.

HagkaupVinbud


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Það er greinilegt að maður þarf að rýna betur í þau lógó sem á vegi manns verða. Hagkaupslógið hef ég fyrir augunum alla daga en hef aldrei komið auga á vínglösin sem myndast neðst á bókstöfunum tveimur.

Það eru líklega 30-40 ár síðan lógóið var hannað og ennþá bólar ekkert á áfenginu í hillum Hagkaupa.

Björg K. Sigurðardóttir, 21.4.2008 kl. 21:35

2 Smámynd: Lauja

Ekki var ég búin að sjá vínglösin í Hagkaupsnafninu, maður fer e.t.v. að rýna aðeins betur í fyrirtækjalógóin.

Lauja, 21.4.2008 kl. 21:49

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Vínglösin hef ég aldrei séð áður, en auðvitað eru þau augljós þegar þú bendir á þau. Ég hef alltaf lesið FJ út úr þessu lógói FL Group þótt ég viti vel að þetta eigi að vera FL - en flugmanninn góða hef ég aldrei séð áður.

Það tók mig smástund að finna píluna í FEDEX... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.4.2008 kl. 14:54

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Eftir því sem ég best veit þá kom þessi flugmaður í ljós í FL Group lógóinu eftir að það var hannað. Hann er því nokkurskonar óvænt viðbót sem átti ekkert að vera, frekar en vínglösin í Hagkaupslógóinu. En FedEx pílan hefur örugglega alltaf verið þarna að ásettu ráði.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.4.2008 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband