Staflinn á náttborðinu

náttborð

Skipulögð óreiða á vissum þáttum er sjálfsagður hluti góðs skipulags. Það hefur náttborðið mitt mátt reyna undanfarna mánuði því í vetur og fram á þennan dag hefur smám saman hlaðist um dágóður stafli af ýmsum bókum og pappírsgögnum sem ég hef verið að sýsla með. En öllu má nú ofgera og því tók ég mig nú loksins til og réðst á staflann, henti sumu, setti annað í skúffur eða möppur og kom svo bókum fyrir í nýrri bókahillu heimilisins. Til að heiðra minningu náttborðsstaflans er innihaldi hans hér gerð skil í eftirfarandi lista og er byrjað á því efsta og svo áfram niður:

  1. Gluggaumslög með nýjustu gjalddögunum (verða greiddir á næstunni)
  2. Boðskort á myndlistarsýningu Sigurðar Þóris (ekki búinn að fara)
  3. Tónleikaskrá Sinfóníuhljómsveitarinnar (fórum á 5. sinfóníu Gustafs Mahlers)
  4. Fréttabréf vináttufélags Íslands og Kúbu (hef verið félagi síðan í vinnuferðinni 1989)
  5. FÍB-blaðið (er semsagt líka félagsmaður í félagi íslenskra bifreiðaeigenda)
  6. Prófarkir (vegna bókar sem ég er að brjóta um)
  7. Meiri gluggapóstur (verða einnig greiddir á næstunni)
  8. Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind (á sirka 90 eftir)
  9. Límmiði frá FÍB (held ég lími hann ekki á bílinn)
  10. Enn meiri gluggapóstur (gott að það fannst)
  11. Bókin Bréf til Láru, eftir Þórberg Þórðarson (búinn að lesa hana)
  12. Útprent af vinnutengdum tölvupósti (trúnaðarmál)
  13. Árbók Ferðafélags Ísland 1993 (um rætur Vatnajökuls eftir Hjörleif Gutt.)
  14. Jöklaveröld - náttúra og mannlíf (aðallega um Austur-Skaftafellsýslu)
  15. Útprent af nýlegum fjölskylduljósmyndum (þrír ættliðir í sparifötum)
  16. Yfirlit yfir Verðbréfasjóði SPRON (framúrskarandi ávöxtun síðustu ára tíunduð)
  17. Yfirlit frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (safnast þegar saman kemur)
  18. Prentarinn - blað félags bókagerðarmanna (er ennþá í plastinu)
  19. Útreikningar vegna rekstraryfirlits 2007 (vegna prívat-vinnu)
  20. Bréf frá SPRON til gjaldkera húsfélagsins (sem er ég)
  21. Ársskýrsla EXISTA (skoðuð, en ólesin)
  22. Boðskort á 25 ára afmælissýningu Gerðubergs (fór ekki)
  23. Reikningaeyðublaðahefti (vegna prívat-vinnu)
  24. Skáldsagan Plötusnúður Rauða hersins (byrjaði á henni á sínum tíma)
  25. Skagfirðingabók (er ekki Skagfirðingur en kom að vinnslu ritsins)
  26. Ársrit Útivistar nr. 10 frá 1984 (vegna ferðar sem ég fór síðasta haust)
  27. Hvers vegna er ég félagi í Félagi bókagerðarmanna? (bæklingur sem svarar því)
  28. Skáldsagan Mæling heimsins eftir Daniel Kehlman (búinn að lesa hana)
  29. Frímerkjafréttir o.fl. frá Póstinum (er áskrifandi að nýjum frímerkjum)
  30. Árbók Ferðafélags Íslands 1997 (þar er m.a. fjallað um Esjuna)
  31. Kvittanir tengdar bílnum (smurnings- og dekkjaþjónusta)
  32. FÍT 2008 - Grafísk hönnun á Íslandi (Það besta frá liðnu ári úr mínu fagi)
  33. Veðuryfirlit í tölum fyrir alla mánuði frá 1961 (útprentað af vef Veðurstofunnar)
  34. Útivist - Ferðaáætlun 2008 (fer einstaka sinnum með þeim)
  35. IÐAN - símenntun í iðnaði. (vilji maður símennta sig)
  36. Gamli Stykkishólmur (bæklingur um gömlu húsin í Stykkishólmi)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Fróðlegur stafli

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 11.5.2008 kl. 13:12

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þvílík fjölbreytni á einu náttborði! Mér fannst skondnast að þarna skyldu leynast kvittanir tengdar bílnum! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.5.2008 kl. 13:31

3 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Flottur listi hjá þér. Næst er að tína upp úr ruslafötunni :)

Ég sé að þú hefur gaman að því að útbúa langan lista eins og ég gerði hér um daginn þar sem þitt nafn náðir að tróna efst á toppnum. Nú er nafnið þitt horfið af þeim 500 orða lista og mörg önnur skemmtileg og áhugaverð orð komin í staðin. En annars gaman að setjast niður og skoða svona hversdagslega hluti með þessum hætti.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 12.5.2008 kl. 12:32

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það var nú alltaf dálítið dularfullt hvað ég var að gera efstur á listanum þínum, Kjartan, og svo er maður bara horfinn! Staflinn á náttborðinu er hinsvegar ekki alveg horfinn, það voru nokkrir hlutir sem lifðu tiltektinna af og svo hefur reyndar eitthvað bæst við, en þetta er samt allt annað núna. Kvittanirnar tengdar bílnum er t.d. farnar.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.5.2008 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband