16.5.2008 | 22:26
Frönsk framlög í Eurovision
Nú er ég búinn að finna mitt Eurovisionlag í keppninni í ár og hvort sem það er tilviljun eða ekki er það franska lagið sem höfðar mest til mín alveg eins og í fyrra. Frakkar taka þessari keppni greinilega með hæfilegri léttúð án þess þó að það komi niður á tónlistinni sem er ekkert nema fyrsta flokks og nú mæta þeir til leiks með eðaltöffarann og hjartaknúsarann Sebastian Tellier sem svipar dálítið til John Lennons á mesta hárvaxtarskeiði sínu. Að öllum líkindum mun þetta lag samt ekki slá í gegn í keppninni, margir þola t.d. ekki að Frakkar syngi á ensku, afgreiða þetta bara sem hverja aðra vitleysu og heyra ekki músíkina í þessu. Kannski mun íslenska tannkremsdiskólagið This is my life höfða meira til alþýðunnar í Evrópu þótt það höfði ekki til mín, en tel ég mig þó vera alþýðumann.
Hér kemur Franska lagið í ár, og einnig Franska lagið frá því í fyrra sem var einnig frábært en náði einungis 22. sæti af 24 í lokakeppninni. Frakkar eru misskildir snillingar.
Athugasemdir
Fyndið, "þetta lag er pottþétt uppáhaldslagið hans Emils í þessari keppni" sagði ég við Lauju á laugardaginn. Mér fannst þetta lag einfaldlega falla einstaklega vel að þínum tónlistarsmekk.
Ég verð að segja að ég er þér hjartanlega sammála varðandi þessi frönsku lög. Frábær bæði tvö og ánægjulegt að sjá að sumar þjóðir hugsa ekki aðeins um að sníða sín lög að keppninni.
Þetta yndislega franska lag mun sennilega ekki fara hátt á stigatöflunni en það mun í það minnsta gleðja mig langt umfram framlag okkar að þessu sinni.
Ingimundur H Hannesson (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 10:58
Ég er hjartanlega sammála, franska lagið er mitt lag í ár.
Ég væri virkilega til í að eiga Eurovision safndisk - einungis með framlagi Frakka, enda hafa mörg afar skemmtileg lög verið send frá þeim í þessa keppni í gegnum árin.
Lauja, 19.5.2008 kl. 12:48
Það er greinilega mikil samstaða hér. Frakkar þurfa reyndar að gjalda þess að frumflytja sín lög í lokakeppninni sjálfri eins og hinar „stóru“ þjóðirnar og svo eiga þessir gaurar kannski lítinn séns í ofur-skvísurnar frá Austur-Evrópu. En hver veit?
Emil Hannes Valgeirsson, 19.5.2008 kl. 13:04
Ég ætla að eyðileggja samstöðuna. Mér finnst ömurlegt að heyra Frakka syngja á ensku - en passar svosem inn í grínflipp. Franskan er svo fallegt tungumál og ljóðrænt að þeir eiga bara að nota það.
Enda kunna þeir enga ensku, blessaðir.
Lára Hanna Einarsdóttir, 23.5.2008 kl. 17:04
Mér finnst nú eiginlega enskan fallegust ef hún er með frönskum hreim. En allavega er engin ástæða til refsa Frökkum fyrir að reyna að syngja á ensku þótt franskan sjálf sé auðvitað flottust.
Emil Hannes Valgeirsson, 23.5.2008 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.