12.6.2008 | 12:07
20 stiga sumur í Reykjavík
Í framhaldi af síðustu færslu þar sem ég fjallaði um hinn sjaldgæfa 20 stiga hita í Reykjavík, hef ég teiknað upp mynd sem sýnir á einfaldan hátt hvenær komið hafa sumur þar sem hitinn hefur einhverntíma náð 20 stigum hér í borginni frá árinu 1930. Hver súla á myndinni sýnir hámarkshita hvers sumars og eru þau sumur sem hafa náð hámarkshita yfir 20 stigum aðgreind með gulum lit.
Á árunum 1934 til 1960 komu nokkuð reglulega 20 stiga sumur enda var þá hlýtt á landinu. Sumarið 1939 stóð sig alveg sérstaklega vel þótt það sjáist ekki á myndinni en þá náðu 6 dagar 20 stigum þar af þrír í röð dagana 24.-26 júlí. Árið 1950 náði hitinn 23,1°C þann 17. júlí og hafði hitinn ekki áður komist svo hátt á öldinni.
Næstu áratugir eru nokkuð sérstakir því á 29 ára tímabili 1961-1989 fór hitinn aðeins tvö sumur yfir 20 stig en gerði það hinsvegar svo um munaði, í fyrra skiptið þann 9. júlí 1976, sem var heitasti dagur 20. aldar: 24.3°C. Árið 1980 komu svo tveir mjög hlýir dagar í röð: 30. júlí, 23,7°C og 31. júlí, 23,0°C. Þessir mjög svo hlýju dagar árin 1976 og 1980 eru svo enn merkilegri fyrir það að á þessum árum er kuldakaflinn á síðari hluta 20. aldarinnar í hámarki. Það tímabil hef reyndar áður kallað pínulitlu ísöldina, en það er önnur saga.
Með hækkandi hita um og eftir 1990 fór 20 stiga sumrum fjölgandi á ný en komu samt nokkuð óreglulega. Hitabylgjan í júlí 1991 var eftirminnileg með þremur 20 stiga dögum í röð, hæst náði hitinn þá 23,2°C þann 9. júlí. Eftir 6 sumur án 20 stiga komu svo þrjú 20 stiga sumur í röð árin 2002-2004. Þar er auðvitað frægust hitabylgjan mikla dagana 9.-12. ágúst 2004 þegar hitinn náði hæst 24,8°C, þann 11. ágúst, sem er hitamet í Reykjavík. Það sem af er þessu sumri hefur hitinn ekki náð 20 stigum enda ekki langt liðið á það og mikil hlýindi reyndar ekki í sjónmáli þegar þetta er skrifað (11. júní). Síðast fór hitinn yfir 20 stigin þann 13. júlí í fyrra þegar hann náði 20,5°C.
Læt þetta nægja af 20 stiga hitum að sinni, en áður en ég hætti ætla ég aðeins að minnast á hinn endann, þ.e. sumur með lægstan hámarkshita. Þar eru tvö sumur jöfn, því árin 1973 og 1989 komst hitinn í Reykjavík aldrei ofar en 15,6°C sem þætti auðvitað engan veginn boðlegt í dag. Hinsvegar er líka nauðsynlegt að taka fram að þótt hitinn í Reykjavík fari yfirleitt ekki upp úr öllu valdi er samt lítil hætta á því á sumrin að það komi virkilega kaldir dagar. Eins og með hitann þá ræður því staðsetning borgarinnar hér suðvestanlands og nálægðin við sjóinn.
(Heimildir eru fengnar af vef Veðurstofunnar og Veðráttunni)
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt 15.12.2008 kl. 11:08 | Facebook
Athugasemdir
Hvenær fáum við svo 30 stiga hitann?
Sigurður Þór Guðjónsson, 14.6.2008 kl. 20:22
Svona á að giska 11. júlí árið 2058, klukkan korter í tvö.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.6.2008 kl. 21:19
Þá verð ég steindauð, sem betur fer. Mér líður ekkert vel í miklum hita.
Lára Hanna Einarsdóttir, 14.6.2008 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.