29.9.2008 | 00:30
Harðindavetur framundan
Í fyrravetur urðu ákveðin umskipti hér á landi sem og víðar sem benda ótvírætt til þess að veturinn sem framundan er verði með alharðasta móti. Við þekkjum úr sögunni lýsingar á alvöru harðindavetrum sem fengið hafa nöfn eins Píningsvetur, Lurkur, Svellavetur og á síðustu öld var það Frostaveturinn mikli. Það á eftir að koma í ljós hvað komandi vetur mun verða kallaður, en mér dettur í hug nöfn eins og Gengisfellingavetur, Fjármagnskostnaðarvetur, Verðbólguvetur, Uppsagnavetur, Gjaldþrotavetur og svo framvegis. Kannski eru þetta þó full óþjál nöfn, kannski mun hann einfaldlega bara heita Þrotavetur eða Þrotaveturinn mikli. Harðindi á vorum dögum eru semsagt ekki lengur bundin við duttlunga náttúrunnar eins og áður því nú er það hið manngerða fjármálakerfi sem ræður afkomu okkar. En ólíkt þeim vanda sem stafar af náttúruöflunum er fjármálavandi eitthvað sem við sem þjóð komum okkur sjálf í með ofmetnaði og hina óbilandi bjartsýni að leiðarljósi.
Það er eitthvað við ástandið í dag sem minnir mig á lítið atriði úr kvikmyndinni Óðal feðranna, eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þegar allt stefndi í óefni á þeim bæ í myndinni spurði sonurinn móður sína angistarfullur, Hvað eigum við að gera? Móðirin svaraði með dramatískri röddu: ÞAÐ ER EKKERT HÆGT AÐ GERA!
En kannski eigum við ekki að mála skrattann á vegginn, kannski verður eitthvað hægt að gera til þess allavega að lina þrautir þessa komandi harðindavetrar. Senn er sigruð þraut verður kannski sagt undir vor er hugarhrelling sú er hart oss þjakar nú mun hverfa og fleiri höpp oss falla í skaut.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sjúkkit... ég hélt að fyrirsögnin ætti við veðrið!
Ætli einhverjir kalli þetta ekki Kreppuveturinn mikla eða Hallærisveturinn hörmulega.
En við þreyjum þorrann að venju, trúi ég.
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.9.2008 kl. 00:41
Krísu-Lurkur hinn hryllilegi...
Malína (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 00:59
Now is the winter of our discontent!
Theódór Norðkvist, 29.9.2008 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.