13.10.2008 | 21:35
Loksins almennilegur sólblettur
Eftir einhverja mestu ládeyðu sem sólin hefur sýnt af sér í 50 ár hefur loks birst sólblettur á yfirborði hennar sem gefur til að næsta 11 ára sólblettasveifla sé hafin. Þetta virðist ekki vera blettur sem hverfur nánast jafnóðum og hann myndast eins og sumir hafa gert undanfarið því þessi blettur er á stærð við jörðina og hefur þegar lifað í nokkra daga. Sólblettasveiflan sem nú ætti loks að vera að hefjast er númer 24 frá því menn fór að telja, en þegar sólblettasveiflan er í hámarki eru á hverjum tíma margir sólblettir samtímis á sólinni og oft mun stærri en sá sem nú prýðir sólina.
Því hefur verið spáð fyrir nokkru að sólarsveifla 24 ætti að vera nokkuð almennileg og endurspegla góða virkni í sólinni, en ládeyðan undanfarið hefur þótt svona heldur setja strik í þá útreikninga en spurning er samt hvort þessi sólblettur sé einn á báti eða sá fyrsti af mörgum glæsilegum á næstunni. Hinsvegar bendir margt til þess að þarnæsta sólarsveifla nr. 25 verði sú veikasta síðan einhvertíma á 19. öld, en sú veika sólarsveifla mun ganga yfir á árunum 2020-2030.
Vangaveltur um virkni sólarinnar hafa eðlilega verið nokkuð áberandi síðustu 10-15 ár því margir hafa mikla trú á að sólin sé einn öflugasti áhrifavaldurinn í hitafari jarðar og aðalorsakavaldurinn í hlýnun jarðar. Bakslag í virkni sólarinnar getur samkvæmt því þýtt bakslag í hita jarðar og það jafnvel svo um munar ef sólin fer í gegnum sólblettaleysi svipað og var á seinni hluta 17. aldar. Það efast reyndar enginn um að sólin hafi einhver áhrif en hvort hlýnun jarðar vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda sé orðin nógu mikil til að yfirgnæfa hitasveiflur af völdum sólarinnar er auðvitað stóra spurningin.
Myndir af sólbletti eru fengnar af síðunni: spaceweather.com
Myndin af sólarsveiflu og fleiri heimildir eru héðan: Long range solar forecast (NASA 10.okt. 2006)
og héðan: Blankest Year of the Space Age (NASA 30.sept. 2008)
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:34 | Facebook
Athugasemdir
Stórmerkilegt.
Kemur manni til að hugleiða stjörnuspekina um áhrif himintunglanna á lífið hér á jörðinni, í ljósi þess sem er að gerast í heiminum núna...
Greta Björg Úlfsdóttir, 14.10.2008 kl. 18:07
...og fleira grúsk.
Greta Björg Úlfsdóttir, 14.10.2008 kl. 18:11
Þá erum við komin út í annarskonar vísindi, Gréta - ég treysti mér ekki út í svoleiðis.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.10.2008 kl. 21:39
Ekki ég heldur, satt að segja.
Greta Björg Úlfsdóttir, 15.10.2008 kl. 01:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.