Móðir allra harðinda á Íslandi

Í harðindum þeim sem nú ganga yfir landið hafa Móðuharðindin komið til tals og jafnvel talað um að við séum að upplifa hörmungar sem ekki eiga sinn líkan síðan öll þau ósköp dundu yfir árin 1783-74. Það vita þó allir að ólíku er saman að jafna, en samt er allt í lagi að hafa í huga lífið hér á landi hefur ekki alltaf verið neitt sældarlíf og ýmislegt sem þjóð okkar hefur þurft að ganga í gegnum. Harðindi vorra daga eru auðvitað allt annars eðlis en þau sem áður gerðust því nú eru það peningarnir sem líf okkar byggist á en ekki duttlungar náttúrunnar. Þau harðindi sem gengu yfir landið seint á 18. öld og voru kennd við móðuna miklu af völdum Skaftárelda mætti kalla móður allra harðinda á Íslandi, en það var þá þegar nánast öll náttúran lagðist á eitt til að gera lífið hér á landi með öllu óbærilegt eins og kemur fram í þessum línum sem ég hef verið að setja saman undanfarið. 

Skaftáreldar FrímerkiSkaftáreldar

Flestir þekkja sögu Skaftárelda nokkuð vel og ég ætla því ekki að rekja gossöguna sérstaklega en get kannski gert það seinna. Allt byrjaði þetta einn góðan veðurdag um Hvítasunnu þann 8. júní 1783:

„ … um dagmálabil kom upp fyrir norðan innstu byggðarlög á Síðunni svart sandmistur og mökkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla síðuna og nokkuð af Fljótshverfinu svo þykkt að dimmt varð í húsum en sporrækt á jörðu.“

Þannig lýst eldklerkurinn Jón Steingrímsson fyrstu einkennum gossins sem átti eftir að verða þjóðinni svo dýrkeypt. Gossprungan var um 25 km á lengd og alls voru það 135 misstórir gígar sem sáu um að framleiða eitt af mestu hraunum sem hafa runnið á jörðinni frá ísaldarlokum. Það hjálpaði ekki til hversu ástandið átti eftir að vera slæmt að það hófst á versta tíma ársins þegar heyfengur vetrarins á undan var uppurinn og gróðurinn rétt komin af stað. Móðan sem lagðist yfir, öskufallið og eiturgufurnar urðu svo til þess spretta sumarsins varð nánast engin, ekki bara í Vestur-Skaftfellsýslu heldur einnig víðast hvar á landinu. Ástandið var því ekki gæfulegt þegar haustaði árið 1783 því búpeningur var þá þegar orðinn horaður og sjúkur, varla nokkuð almennilegt hey komið í hús, gosið enn í fullum gangi og hálf byggðin á Síðunni komin undir hraun.

Veturinn 1783-84

Þegar leið á veturinn 1783-84 fór virkilega að harðna á dalnum eins og gefur að skilja því nú var ekkert að hafa. Því miður áttuðu menn sig ekki nógu snemma á því að best hefði verið að fella bústofninn strax um sumarið í stað þess að láta hann veslast upp engum til gagns. Og þegar bústofninn var hruninn svarf hungrið að sem síðan varð helsta banamein þeirra sem létust, ásamt lungnabólgu, skyrbjúg og ýmsum öðrum pestum. En fyrir utan matarskortinn, voru auðvitað allar eiturgufurnar í loftinu ásamt miklum kuldum sem í ofanálag einkenndu þennan vetur. Þótt gosinu hafi lokið 7. febrúar 1784 áttu eymdin jafnvel enn eftir að ná hámarki og þegar yfir lauk hafði fimmtungur landsmanna látist, 40% nautgripa, tæpur helmingur hrossa og 75% alls sauðfjár.

Hafísar, jarðskjálftar og pest

Skaftáreldarnir voru svo sannarlega ekki það eina sem landsmenn þurftu að takast á við á þessum tíma. Átjánda öldin var í heild mjög köld veðurfarslega og algengt var að hafísinn legðist að landinu mánuðum saman með öllum þeim kuldum sem honum fylgdi. Árið 1784 var engin undantekning á því en þá lagðist hafísinn að Norðurlandi strax í ársbyrjun og hélst þar fram á vor. Harðindin vegna íssins fyrir norðan fram eftir ári 1784 lagðist ofan aðrar hörmungar, þannig að hrun í bústofni, mannfall og önnur neyð var síst minni þar en fyrir sunnan, samanber það sem kemur fram í svokölluðum Djáknaannálum 1784:

Allan þennan vetur var mesta umferð af fátæku flakkandi fólki, helzt úr Þingeyjarþingi, sem ráfaði bæði suður og vestur, dó og varð úti sumt af því í ýmsum stöðum. En um vorið tók fólkið óðum upp að flosna um allt Norðurland og víðar annars staðar og hrundi niður sumarið allt og haustið sem hráviði, bæði af hungri og allskyns óáran, því sumt af fólki, sem dálítið viðurværi hafði, þreifst ei fyrir lífsýki og ótímgun og veslaðist svo út af“

Í stíl við annað á þessum tíma komu svo auðvitað alvöru Suðurlandsskjálftar síðla sumars 1784 með miklum skaða á húsakynnum í Árnes og Rangárvallasýslum og jók það auðvitað á hörmungarnar þar þótt mannfall hafi ekki verið mikið sem rekja má beint til skjálftana. Til að kóróna svo allt saman þá gekk bólusótt yfir langþreytta landsmenn árið 1785, en af hennar völdum létust um 1500 manns, aðallega á Suðvestur- og Suðurlandi.

Neyðaraðstoð frá Danmörku

Ótíðindin frá Íslandi bárust ekki til Danmerkur fyrr en haustið eftir að Skaftáreldar hófust. Landsherrarnir þar gátu auðvitað ekki gert sér ljóst hversu ástandið var slæmt hér en brugðust þó við með samskotum í kirkjum landsins tvo sunnudaga í röð þar sem söfnuðust 9099 ríkisdalir. Í nóvember lagði svo af stað til Íslands skip með matvæli og annað gagnlegt en það náði þó ekki á leiðarenda í Reykjavík fyrr en í apríl vorið eftir því það þurfti að hafa vetursetu í Noregi vegna veðurs. Neyðaraðstoðin kom síðan að litlu gagni þegar til kom því ómögulegt var að flytja matvælin milli landshluta enda voru varla nokkrir hestar eftir sem gögnuðust til flutninga og svo lokaði hafísinn öllum siglingaleiðum fyrir norðan. Okkur voru því allar bjargir bannaðar. 

Batnandi tíð - þar til nú?

Móðuharðindin og aðrar hörmungar þessar ára voru síðasta stóráfallið sem þjóð okkar þurfti að ganga í gegnum, að minnsta kosti af náttúrunnar völdum, en á þremur árum 1783-1786 fækkaði fólki úr 49 þúsundum niður í 38 þúsund. Mannfjöldinn var samt nokkuð fljótur að endurheimtast og þrátt fyrir að mörg harðindaár ættu eftir að leggjast yfir landsmenn fór fólksfjöldinn smám saman að aukast á landinu fyrir utan vesturfaratímabilið á seinni hluta 19. aldar.

Í ástandi eins og er í dag þegar allt er að fara á vonarvöl, þarf fólk ekki lengur að ráfa um sveitir landsins og ekki þarf að óttast að við hrynjum niður eins og hráviði líkt og forðum. Við erum samt að fara inn í harðindatímabil af þeirri tegund sem höfum ekki þekkt áður og erum einskonar útlagar í samfélagi hinna fínni þjóða. En hvernig sem þetta endar þá er bara um að gera að standa áfram í fæturna og horfa fram á veginn sem sjálfstæð þjóð sem lætur ekki bugast þrátt fyrir þungar byrgðar.  Útilegumaður borg 

 

- - - - - - - - 

Nánar er hægt að lesa um Skaftárelda á þessari síðu: http://www.islandia.is/hamfarir/jardfraedilegt/eldgos/skaftareldar.html 

Að auki er hér er stuðst við er sagnfræðiritgerð í Íslands- og Norðurlandasögu við HÍ: Samspil náttúruafla, samfélagsbyggingar og sótta í Skaftáreldum og Móðuharðindum, eftir Örnu Björk Stefánsdóttur, sem svo vill til að er sambýliskona mín til margra ára. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ofan á þetta bættist, samkvæmt hitamælingum á Bessastöðum, að vísu ófullkomnum, að sumarið 1782 var það langkaldasta sem vitað er um, alveg frá júní til september.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.11.2008 kl. 17:18

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þar sem Sigurður Þór er hér mættur er sjálfsagt að nefna að tilvitnunina í Djáknaannála fékk ég einmitt á síðunni hans þar sem hann hefur tekið saman gífurlegan fróðleik í færslu sem kallast: Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.11.2008 kl. 18:03

3 Smámynd:

Áhugaverð lesning. Ái minn í 8. ættlið flúði einmitt úr Fljótshverfinu í Skaftáreldunum með konu og ársgamlan son og settist að í Fljótshlíðinni. Hef soldið verið að stúdera mannlíf í Vestur-Skaftafellssýslu. Merkilegt um margt og "gaman" að skoða áhrif Skaftárelda á búsetu og þróun mannlífs á þessu svæði.

, 15.11.2008 kl. 20:59

4 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Mikið heyrði ég eldklerkinn dásamaðan í bernsku minni austur á Kirkjubæjarklaustri.

Greta Björg Úlfsdóttir, 16.11.2008 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband