Hnípin þjóð í vanda

Aldrei í sögu Íslendinga svo langt sem hún nær höfum við þurft að þola aðra eins skömm eins og við gerum nú og aldrei hefur þjóð okkar fallið í annan eins forarpytt af okkar eigin völdum eins og nú. Og við sem vorum fyrir nokkrum mánuðum flottasta, ríkasta, stórasta og fallegasta þjóð í heimi og að auki næst best í handbolta. Hvað gerðist? Hverjum er þetta að kenna? Ég hef satt að segja ekki getað áttað mig á því, allavega ekki hingað til, hvort þetta séu bara ill örlög viðkvæmrar smáþjóðar í ólgusjó heimsins eða fádæma glannaskapur hlaðinn mistökum. Stundum er líka sagt að stórslys verði ekki nema eftir röð mistaka, jafnvel eftir röð lítilla mistaka þar sem hvert og eitt hefði ekki komið að sök eitt og sér. Sjálfsagt er þetta einhvernveginn svona, enda er erfitt að benda á einn sökudólg sem kom okkur á kaldan klaka þótt hugsanlega mætti benda einhvern eða eitthvað sem hefði getað komið í veg fyrir þetta ólán.

Ég hef átt erfitt með að vera reiður í öllu þessu ástandi ólíkt mörgum öðrum. Þar kemur reyndar að hluta til af því að ég er varla nokkurn tíma reiður svona yfirleitt. En hinsvegar lít ég almennt þannig á að mönnum gengur yfirleitt gott til og ætla sér í alvöru að stuðla að framgangi mála öllum til heilla, svona í bland við eigin hagsmuni. Það er síðan ófullkomleika mannsins að kenna að hin góðu framfaramál reynast stundum óvart snúast upp í hin verstu mál eða svipað því sem ég hef sagt áður: leiðin til glötunar er gjarnan vörðuð góðum áformum. Við íslendingar erum líka ófullkomin þjóð, a.m.k. ófullkomnari en við héldum og okkar vesæla þjóðarskúta, hlaðin útrásarvíkingum fór á hliðina um leið og gefa fór á bátinn við England. Mikilmennskuæði lítillar þjóðar sem ofmat getu sína varð okkur að falli að lokum.

En þurfti þetta allt að fara svona illa? Atburðarásin sem átti sér stað í byrjun október kom öllum í opna skjöldu. Þótt bankarnir hafi verið þjakaðir af allt of miklum útrásarskuldum veltir maður því samt fyrir sér hvort rétt hafi verið að fara út í þjóðnýtingu eins banka sem síðan leiddi til hruns hinna bankanna. Aðgerðin var sögð vera til þess að koma í veg fyrir að allt færi hér á vonarvöl. Afleiðingin varð samt sem áður sú að allt fór á vonarvöl og það margfalda. Þjóðin er komin á hryðjuverkalista og dæmd sem alræmd fjárglæfraþjóð. Það sem því miður enginn hafði áttað sig á var ísjakinn örlagaríki - Icesafe - sem varð öllum til tjóns og bjargaði engum þegar til kom.

Var yfirtaka bankana eina ráðið í stöðunni eða hefði verið hægt að fara mildari leið og ekki eins afdrifaríka fyrir þjóðina? Það var víst einhver efnahagsráðgjafi sem ríkisstjórnin var með, Tryggvi Þór að nafni og mun víst hafa þekkingu á svona hlutum. Honum leist ekki á þessa yfirtökuleið sem farin var og er því ekki lengur efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar en ríkisstjórnin hafði nefnilega annan ráðgjafa sem taldi sig vita betur og er vanur að fá sínu fram.

En hversu slæmt sem þetta verður getur kannski einhver huggað sig við það að þjóðin hefur áður komist í hann krappan og upplifað miklu meiri hörmungar. Móðir allra harðinda á Íslandi átti sér stað seint á 18. öld en þá máttu Íslendingar þola ógurlegri náttúruhamfarir en við höfum nokkru sinni kynnst. Um það ætla ég að skrifa í næsta pistli. Þangað til er hægt að skemmta sér yfir gömlum texta sem Ríó tríóið söng á sínum tíma og fjallar um vissa tegund af útrás.

- - - - -

Þegar Stebbi fór á sjóinn, þá var sól um alla jörð / og hún sat á bryggjupollanum hún Lína / grét í vasaklút og svuntuhorn og svartan skýluklút / og hún sá á eftir Stebba á hafið út

Og hann Stebbi út við lunningu á lakkskóm svörtum stóð / upp á Línu renndi karlmannlegum sjónum / nei þeir kveðja ekki margir svona ást og svona þrá / eða sigla burtu spariskónum á

Og hann Stebbi var að hugsa meðan hægt þeir sigldu út
 / hversu hetjuleg sú kveðjustundin væri / hlutverk réttu, dapra stúlkan og hinn djarfi ungi sveinn / drengilegur svipur harður eins og steinn

Meðan Stebbi var að hugsa þetta, höfnin sagði bless / og á hafsins öldum skipið fór að velta / Yfir borðstokk nokkrar gusur komu glettnum öldum frá / svo að gefa tók nú spariskóna á

Og hún Lína enn á bryggjunni svo beygð og döpur sat / þegar bátur drauma hennar aftur snéri / upp þú fjandans æludýrið öskrað var þá dimmum róm / og einhver steig á land í blautum spariskóm

Já þeir sigldu marga hetjuför í huga vorum út / og í hörðum leik af drengjum öðrum báru / en í dagsins heimska lífi, margur draumur okkar dó / varð að deyja því við gátum ekki nóg

Jónas Friðrik 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ísland er stoppusöð á leið frá Noregi til Vínlands híns góða. Leifur Heppni vissi það.
Nú er komið að því að restin af þjóðinni taki skrefið og eignist vínland, sækjum um inngöngu í Kanada. Þar eigum við Fyrsta Veðrétt, samkvæmt Leifi ,og þar eigum við mestan fjölda íslenskra afkvæma. Þeir afkomendur hafa gert það svo gott, að þeir hugsa mjög sjaldan um stoppusöðina Ísland. Þeir hafa dreyft sérum Norður Ameríku og komið sér í mjög góða stöðu. Evrópa er búin að fá nóg af okkur, eins og Noregur forðum, en vesturheimur bíður okkar án nokkurra fordóma.

nonni (IP-tala skráð) 12.11.2008 kl. 10:52

2 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Nonni leggur sem sagt til leiðina sem Nýfundnaland fór 1949 og hefur séð eftir alla tíð síðan?

Ástandið er erfitt, þó vandinn jafnist ekki á við Móðuharðindin, sem betur fer. Hver sem gæti spáð um framtíðina á þessum síðustu og verstu tímum!

  1. Sól tér sortna,
    sígur fold í mar,
    hverfa af himni
    heiðar stjörnur.
    Geisar eimi
    við aldurnara,
    leikur hár hiti
    við himin sjálfan.

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 12:24

3 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Þetta er 58. erindi Völuspár, veit ekki af hverju talan breytist í 1.

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 12:25

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ef við högum okkur skikkanlega þá er stoppistöðin Ísland góður kostur og óþarfi að leita annað. Og þrátt fyrir þessi Ragnarök vonar maður að við höldum sjálfstæði okkar og þurfum ekki að ganga í einhver ríkjabandalög - eða gerast Belgar, eins og einhver sagði.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.11.2008 kl. 13:54

5 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Jamms og kjamms, verum bjartsýn

Völuspá nr. 65:

  1. Sal sér hún standa
    sólu fegra,
    gulli þaktan
    á Gimlé.
    Þar skulu dyggvar
    dróttir byggja
    og um aldurdaga
    yndis njóta.

Greta Björg Úlfsdóttir, 12.11.2008 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband