Hvernig lítur íslenski fáninn út?

Ég ætla að halda áfram á þjóðlegum nótum en þó ekki alveg í sauðalitunum því nú er það okkar ástsæli þjóðfáni sem ég ætla að taka fyrir. Íslenska fánanum hefur talsvert verið flaggað undanfarið og ýmsir farnir að merkja sinn varning með fánanum til að undirstrika innlendan uppruna þess sem verið er að selja. Allt gott um það að segja nema hvað að mér hefur oft fundist vera dálítið kæruleysi ríkjandi varðandi það hvernig hann birtist. Litirnir í fánanum eru t.d. gjarnan mjög úr skorðum og hlutföllin oft bara einhvernvegin. Það eru til mjög skýrar reglur um hlutföll fánans sem auðvelt er að fylgja, en þegar kemur að litunum þá vandast málið og ekki óeðlilegt að ýmsar litaútgáfur komi fram.

fánalitirLitir

Þegar íslenski fáninn var upphaflega ákveðinn árið 1915 var lýsingin á litunum þannig að hann skuli vera heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi inn í hvíta krossinum. Það eru flestir sammála um það hvernig hárauður litur er og hvítur er jú alltaf bara hvítur, en hinsvegar er það þetta með heiðbláa litinn sem er erfiðara. Ef lýsingunni á bláa litnum væri fylgt af alvöru ætti blái liturinn að vera miklu ljósari en við eigum að venjast og fáninn að líta út einhvernvegin eins og sést hér efst til hliðar.

Hinsvegar hefur skapast sú hefð að nota dekkri bláan lit í staðinn fyrir þennan ljósbláa, eða bara svona „venjulegan“ bláan lit sem er hvorki dökkur né ljós. Eðalbláan mætti kannski kalla hann, en heiðblár er hann varla.

Á vef forsætisráðuneytisins eru upplýsingar um fánann og hann sýndur og mætti ætla að þar væri hinn eini sanni litur á ferðinni. Hinsvegar eru blái liturinn þar ekki lengur eðalblár heldur beinlínis dimmblár og heiðríkjan hvergi til staðar. Að vísu eru litir á tölvuskjáum alltaf misjafnir og því aldrei alveg marktækir. Hinsvegar er til skilgreining á litunum í kerfi sem nefnist Standard Colour of Textile, Dictionaire Internationale de la Couleur. Þar hefur heiðblái liturinn fengið númerið: SCOTDIC nr. 693009. Þetta litakerfi er mjög víðfeðmt en því miður virðist ekki vera hægt að kalla fram þennan lit í þeim forritum sem notuð er til mynd- og prentvinnslu. Fánalitirnir hafa hinsvegar verið skilgreindir í prentlitakerfum og þar er blái liturinn Pantone nr.287 og í CMYK: 100c+69m+11,5k. Fólk er kannski ekki miklu nær en ég get þó staðfest að þetta eru nokkuð dökkir litir eða svipaðir þeim dimmbláa sem sýndur er hér neðst til vinstri. Mig grunar reyndar að yfirfærsla staðallitarins yfir í prentliti hafi gefið þessa full dökku niðurstöðu.

Ljósari fáni í gamla daga?

Það er spurning hvort upphaflega hafi blái litur fánans verið talsvert ljósari en í dag eða nokkurnveginn heiðblár eins og hann á að vera samkvæmt uppskriftinni. Á gömlum svarthvítum myndum sem teknar voru fyrir 1944 virðist blái liturinn allavega hafa verið nokkuð ljós samanber þessa mynd sem tekin var af þessum staðföstu skátum árið 1928. Fleiri myndir, t.d. frá Alþingishátíðinni 1930, sýna bláa lit fánans með sama ljósgráa tóninum.

skátar 1928

 

fánahlutföll

 
Hlutföll fánans

Eins og ég nefndi eru til tölur sem taka af allan vafa um hlutföll fánans, en þær eru þannig talið lárétt frá stöng: 7-1-2-1-14, en lóðrétt meðfram stöng eru þau 7-1-2-1-7. Þannig er breidd fánans 18/25 af lengd hans samkvæmt fánalögum. Þessi hlutföll eru yfirleitt í góðu lagi á alvöru fánum sem blakta á fánastöngum. Hinsvegar er ekki annað hægt að segja en að talsvert kæruleysi sé til staðar hjá þeim sem nota fánann á ýmsum prentgripum eða jafnvel á litlum 17. júní-fánum sem seldir eru börnum. Oft er t.d. rauði krossinn allt of breiður miðað við hvíta flötinn eða báðir krossarnir of mjóir miðað við fánann í heild. Dæmi um þetta má sjá hér að neðan á nokkrum fánum sem urðu á (Lauga)vegi mínum í dag. 

 

Fánarmyndir1

 

 

 

Svona birtist fáninn víða á Laugaveginum. Báðar útgáfur eru fjarri réttum hlutföllum.

  
fánarmyndir 2

 

Tveir blaktandi fánar við verslanir. Báðir nokkuð réttir í hlutföllum nema að rauði krossinn í þeim er misbreiður miðað við hvíta krossinn. Sá til hægri þó sennilega réttur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir þetta. Við má bæta að þegar fáninn er hengdur upp á krossinn alltaf að vera til vinstri. Þessa er ekki ætíð gætt. Sömuleiðis er ætlast til að stærð fána sé í réttu hlutfalli við stöngina sem hann er á og reglur eru til um þetta allt og margt fleira í sambandi við meðferð og gerð fánans.  

Sæmundur Bjarnason, 9.12.2008 kl. 21:04

2 identicon

Festi kaup á lifrarpylsu og fannst skondið að sjá límmiða af fánanum. En svona að athuguðu máli þá er þetta bara alveg rétt...........

Upp með þjóðerniskenndina og kaupum íslenskt.

Margret (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 23:07

3 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Gott hjá þér, og full þörf á þessu. Mér hefur fundist, að fólk viti ekki nóg um fánann, og litina. Að ekki sé talað um notkunina. T.D. hefur það alltaf farið pínulítið í taugarnar á mér, hvað fólk notar fánaveifur mikið, til þess eins að þurfa ekki að taka hana niður, og setja upp á hverjum degi.

Hvernig væri að taka skjaldarmerkið fyrir næst ? Það er staðreynd, að ansi margir vita ekki hvernig það er (halda að það sé hvítur og rauður kross), eða söguna um það.

Það hefur alltaf farið í taugarnar á mér, að þurfa að útskýra fyrir túristum, að skjaldarmerkið í Bessastaðakirkju sé ekki rétt gert.

Börkur Hrólfsson, 10.12.2008 kl. 02:13

4 identicon

Það vill svo til að Búmaður þekkir hana Guðrúnu Þorvaldsdóttur, sem á og rekur einu "löggiltu" fánasaumastofu landsins á Hofsósi, ÍFS. Hún hefur sagt mér, að þegar hún lætur lita dúka í fánana (þessa þrjá liti) þarf hún að senda prufur til forsætisráðuneytisins til að fá staðfest að þeir séu í samræmi við hinn "eina og sanna lit" en þau gögn varðveitir ráðuneytið eins og sjáöldur augna sinna. Svo eru þessar reglur um hlutföll og annað, sem er í reglugerðinni og þarf að gæta vandlega að. Guðrúnu þykir hinsvegar undarlegt, að svo virðist að hver sem er geti látið "prenta" fána erlendis, í Kína og hver veit hvar, að eigin geðþótta og með röngum litum og hlutföllum. Þarna er ekki spurning um hvað smekkur býður, heldur hvað hin opinbera reglugerð kveður á um.  

Búmaður (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 09:02

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er auðvitað allskonar fleiri reglur sem gilda um fánann sem mætti taka fyrir og þá ekki síður Skjaldarmerkið. Í sambandi við litina í skjaldarmerkinu þá er Börkur væntanlega að tala um hvíta litinn sem á að vera silfur eins og reglan er í skjaldarmerkjum á sama hátt og það á að nota gylltan í staðinn fyrir gulan lit. Annar eigum við í rauninni ekkert almennilegt skjaldarmerki, heldur skjöld sem líkist fánanum og haldið er uppi af landvættum.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.12.2008 kl. 09:42

6 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Með réttu ber að lýsa skjaldarmerki Íslands svo: Blátt á silfurkrossi, sem sker fyrir ofan miðju, rauður kross. Þetta er hið eiginlega skjaldarmerki, enda markað á skjöld. Landvættirnir eru í raun skjaldberar og merkið getur staðið fyrir sínu með eða án skjaldberanna, eins og var t.d. á aura-myntinni fyrir síðustu myntbreytingu.

Höfum í huga að skjaldarmerkið er tákn fyrir ríkið og því ekki til almenningsbrúks. Andstætt fánanum, sem er þjóðfáni og öllum frjáls til notkunar innan þess ramma, sem fánalögin leyfa. Það er því rangt, eins maður hefur oft séð, að nota hnappa með skjaldarmerkinu við íslenzka karlmannsbúninginn. Nema sá sem í honum er sé opinber starfsmaður í embættiserindum.

Emil Örn Kristjánsson, 10.12.2008 kl. 11:00

7 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Til margra ára vann ég við litun hjá Slippfélaginu.  Eitt sinn var ég fenginn til að útbúa fánabláan lit fyrir eina af stofnunum ríkisins og var mér uppálagt að laga litinn eftir bláum taubút, sem þá og væntanlega er enn varðveittur í Þjóðminjasafninu.

Það var heilmikil serimónía kringum þetta og mér var tjáð, að þessi taubútur bæri „hinn eina, rétta bláa lit og ef ég man rétt, þá var hann vel dökkur. Minnir líka, að einn embættismaðurinn hafi notað orðið -Kóngablár- :)

Ásgeir Kristinn Lárusson, 11.12.2008 kl. 11:36

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo má bæta við að Ellingsen seldi efni í íslenska fánann og sjófána samkvæmt ítrustu litastöðlum skv. því sem ég var að heyra. Svo fylgdi sögunni að þetta hafi verið vinsælast meðal kvenna sem saumuðu úr efnunum kjóla og gardínur.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.12.2008 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband