Hin heilaga litaþrenning

ljósdeplar

Nú er farið að styttast í hátíð ljóssins og jólaljósin hvarvetna farin að lýsa. Af því tilefni ætla ég að að hella mér út í smá litapælingar en litir og ljós eru auðvitað nátengd fyrirbæri því án ljóssins eru engir litir.

Í rauninni er ljós ekkert annað en orka eða hinn sýnilegi hluti rafsegulbylgna sem geisla út frá ljósgjafa sínum eða endurkastast frá hinum og þessum efnum og flötum. Misjafnt er hinsvegar hversu mikið af litrófi ljóssins hlutir endurkasta frá sér, svartir hlutir gleypa í sig alla orku ljóssins en endurkasta ekki neinu á meðan hvítir hlutir endurvarpa öllu litrófi ljóssins og eru því hvítir og kaldir. Litaðir hlutir hinsvegar gleypa í sig þann hluta litrófsins sem þeir endurkasta ekki, þannig gleypa til dæmis laufblöð í sig hina orkuríku rauðu liti en fúlsa hins vegar við hinum orkuminni grænu litum og endurkasta þeim. Þess vegna eru laufblöð græn.

Oft er talað um frumlitina þrjá sem allir aðrir litir eru gerðir úr og er þá yfirleitt talað um gulan, rauðan og bláan sem frumliti og með blöndu úr þeim megi fá út alla heimsins liti. Þegar prentað er í lit hvort sem er á litlum heimilisprenturum eða í stórum prentvélum eru notaðir þrír litir sem kallast Cyan (blár), Magenta (rauður) og Yellow (gulur). Þetta eru allt mjög hreinir og skærir litir og eru í raun hinir sönnu frumlitir. Rauði liturinn (magenta) getur þó varla talist rauður því hann er dálítið út í bleikt en er ekki þessi eldrauði litur sem er svo algengur. Ástæðan er einfaldlega sú að eldrauður er ekki frumlitur á sama hátt og blár og gulur heldur er hann samsuða úr Yellow og Magenta litunum eins og litirnir heita í prenti.

CMY-litir

Á myndinni hér að ofan sést hvernig þessir þrír frumlitir blandast. Þarna sést t.d. græni og rauði liturinn og svo dökkblár litur dálítið út í fjólublátt, en þessir litir kallast annars stigs litir. Þegar frumlitirnir leggjast allir ofan á hvern annan af fullum styrk fæst svartur litur. Grár litur fæst síðan með því að draga úr styrk litanna þriggja í nákvæmlega sömu hlutföllum, en séu hlutföllin ójöfn fást hinir ýmsu jarðlitir. Ath þetta fæst aðeins út ef litir eru transparent eins og prentfarfi eða blek og leggjast ofan á hvítan grunn. Í prenti er reyndar einnig notaður svartur (black) sem fjórði litur og því er oft talað um CMYK-liti í sambandi við fjögurra lita prentun eftir upphafsstöfum litana, nema að Ká-ið kemur úr aftasta stafnum í Black.

Ljóslitir

En svo ar annar flötur á þessu litamáli. Litirnir sem ég lýsti hér að ofan byggjast á því að litirnir leggjast ofan á hvítt undirlag. Hinsvegar gegnir allt öðru máli þegar litir koma sem einskonar ljós úr myrkri en þá getum við farið að tala um ljósliti. Ef ljósið er samsett úr öllum litum litrófsins er það hvítt, en ef ljósið er deyft niður í ekki neitt er útkoman að sjálfsögðu svart myrkur.

RGB-litir

Ljósið á einnig sína frumliti og með blöndun þeirra er hægt að fá út alla mögulega litatóna. Þeir frumlitir eru Rauður, Grænn og (dökkfjólu-)Blár, þ.e.a.s. litirnir sem liggja á milli litanna Cyan, Magenta og Yellow. Þessir ljóslitir eru oft skammstafaðir RGB (Red, Green, Blue), en það litakerfi er einmitt notað í tölvuskjáum og sjónvörpum eða þar sem ljósið teiknar það sem við erum að horfa á. Þegar tveir frumlitir í RGB koma saman verða síðan til sömu litir og mynduðu frumlitina í CMY-kerfinu (Cyan, Magenta og Yellow) nema hvað þeir eru ljósari.

- - -

Þá höfum við það. Ef við ætlum að skilgreina frumliti þá þarf að fylgja sögunni hvort við séum að tala um liti sem leggjast ofan á hvítt eða liti sem koma sem ljós úr myrkri. Cyan, Magenta og Yellow eru sjálfsagt sannir og góðir frumlitir, en hinsvegar eru Rauður, Grænn og Blár frumlitir ljóssins eða hin háheilaga litaþrenning ljóssins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Þessa færslu þarf ég að festa inni í skrá hjá mér. Gagnlegt á ástkæra, ylhýra.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 18.12.2008 kl. 20:11

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þú ert skemmtilegur. Takk

Gísli Ingvarsson, 18.12.2008 kl. 20:27

3 identicon

Man ekki hvernig ég rakst á þetta blogg þitt. En þetta er eina bloggið sem ég hef nokkurntíma bookmarkað. Hver greinin annari skemtilegri og fróðlegri, Endilega haltu áfram.

Í sambandi við CMYK þá hef ég alltaf heyrt að K sé fyrir Key color (Grunnlitur) en þín skýring er skemtilegur vinkill.

Karl Georg (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 21:06

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Karl Georg. Káið dularfulla gæti líka alveg staðið fyrir Key color úr því þú minnist á það. Hins vegar hef ég þessa skýringu mína úr bókinni Grafísk miðlun sem kom út nýlega og er alveg gríðarlega ýtarleg um allt í sambandi við prentvinnslu. Ef til vill kannast þú við hana.

Annars er ágætt að vita að til er fólk sem hefur af þessum skrifum eitthvað örlítið gagn og gaman.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.12.2008 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband