Hvað verður á boðstólnum í næstu kosningum?

Austurvöllur

Kosningar eru krafan fólksins í dag enda er tiltrú meirihluta almennings á sitjandi stjórnvöldum horfin út í veður og vind. Ef kosið verður fljótlega er forvitnilegt að spá í hvaða stjórnmálalega landslag kæmi út úr þeim kosningum og hverskonar ríkisstjórn muni þá hugsanlega taka við. Verkefni næstu ríkisstjórnar væri væntanlega að skapa þetta algóða samfélag sem sumir kalla hið Nýja Ísland þar sem réttlætið og kærleikurinn mun að sjálfsögðu ríkja að eilífu. Allt gott um það að segja. En eins og venjan er þá eru ekki allir sammála að leiðinni til draumalandsins en þar ber auðvitað hæst deilan um aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru. Þetta er í raun það stór spurning að það hlýtur að vera ómögulegt að mynda ríkisstjórn sem er ekki samtaka í því máli.

Ef kæmi til kosninga er í fyrsta lagi nokkuð líklegt að ný framboð komi fram sem byggjast á óánægju með sitjandi stjórnmálamenn - framboð sem vel gætu halað inn einhver atkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn er svo í meiri hættu en áður að klofna í herðar niður vegna ESB-málsins ef til kosninga kæmi og því skiljanlegt að Alþingiskosningar séu ekki á óskalista þeirra. Allt stefnir síðan í tvö Framsóknarættuð framboð með mismunandi áherslu til ESB mála.

Hér má svo sjá þá flokka sem hugsanlega gætu boðið fram í næstu Alþingiskosningum og væntanlega afstöðu þeirra til ESB. 

  1. Sjálfstæðisflokkur(1) sem er hlynntur inngöngu í ESB.
  2. Sjálfstæðisflokkur(2) sem er andvígur inngöngu í ESB.
  3. Samfylking, sem styður inngöngu í ESB.
  4. Vinstri grænir sem eru andvígir inngöngu í ESB.
  5. Framsóknarflokkur sem er hlynntur inngöngu í ESB.
  6. Þjóðlegur Framsóknarflokkur sem er andvígur inngöngu í ESB.
  7. Frjálslyndi flokkurinn sem er andvígur inngöngu í ESB.
  8. Kratabandalag (Aðdáendur Þorvaldar Gylfa) sem styður inngöngu í ESB.
  9. Reiðir og róttækir (Einar Már & Co) sem er andvígt inngöngu í ESB.
  10. Lýðræðishreyfingin (Ástþór og Stormsker), spurning með ESB.

Þarna eru allt í allt 10 flokkar og erfitt að sjá einhvern sem gæti fengið afgerandi stuðning. Það er auðvitað  ekkert víst að svona margir flokkar komi fram og ólíklegt að svona margir flokkar muni ná mönnum inná þing, en ef við skiptum þessu niður í fylkingar með og á móti ESB þá gæti þær litið svona út:

Með ESB aðild: Sjálfstæðisflokkur(1), Samfylking, Framsóknarflokkur og Kratabandalag (+lýðræðishreyfing Ástþórs?)

Gegn ESB aðild: Sjálfstæðisflokkur(2), Vinstri grænir, Þjóðlegur Framsóknarflokkur, Frjálslyndi flokkurinn og Reiðir og róttækir. (+Lýðræðishreyfing Ástþórs?)

Af þessum tveimur kostum finnst mér mun líklegra að flokkar fylgjandi ESB nái saman enda pólitískur skyldleiki þeirra mun meiri heldur en hinnar fylkingarinnar þar sem eru flokkar sem eru ýmist lengst til vinstri eða hægri í pólitíkinni. Þannig tel ég mig geta komist að þeirri niðurstöðu að kosningar leiði annaðhvort til að þess að Evrópusinnaðir flokkar komist til valda eða þá að einhverskonar stjórnarkreppa taki við. Það er samt alltaf gott ef lýðræðið fær að njóta sín en hætt er þó við að um eitthvað offramboð verða að ræða að þessu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Takk fyrir góða samantekt.

Allt getur gerst og flest er óráðið. Mikil ólga í þjóðfélaginu, sitt sýnist hverjum.

Ég held að það sé alveg ljóst að stærsti hluti þjóðarinnar kallar á nýtt og réttlátara þjóðfélag, þ.e.a.s lýðræðisþjóðfélag. -Svo er hluti þjóðarinnar sem berst með kjafti og klóm gegn breytingum og ætlar sér að hanga á völdum sínum og aðstöðu.

Verður þeim liðið það?

Jón Ragnar Björnsson, 10.1.2009 kl. 14:44

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Mín skoðun er að nú verði rétt einu sinni að stofna nýtt stjórnmálaafl sem hefur fá og skýrt afmörkuð baráttumál. Höfuðmálið ætti að vera breytt eða öllu heldur gerbreytt stjórnarskrá með sterkum áherslum á virkt lýðræði. Kosningalögin eru ávísun á spillingu og einræði undir merkjum lýðræðisins. Njörður P. Njarðvík fór nokkuð vel yfir þetta á Kvikunni Rás 1 kl. 13 í dag.

Árni Gunnarsson, 10.1.2009 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband