16.1.2009 | 11:54
Af lægðum og geðlægðum
Eins og ástandið er í dag er orðið erfitt að halda uppi bloggsíðu sem fjallar um eitthvað annað en peninga og pólitík. Eðlilega smitar ástandið útfrá sér og litar alla umræðu enda er það nánast siðferðisleg skilda hvers manns í dag að vera ýmist reiður, hræddur eða þunglyndur.
En þá að efni pistilsins sem að þessu sinni fjallar um veðursálfræði. Stundum heyrir maður fólk segja óháð öllu bankahruni að það hljóti að vera einhver lægð á leiðinn eða kannski lægð yfir landinu og tengir fólk það þá við einhverskonar þyngsli sem liggja í loftinu sem hefur áhrif á líkamlegt ástand eða geðslag. Þannig eiga veðurfarslegar lægðir að bera ábyrgð á allskonar skrokkverkjum, letiköstum og jafnvel tímabundnu þunglyndi.
Það er auðvitað ágætt að kenna utanaðkomandi aðstæðum um skort á eigin vellíðan og varpa ábyrgðinni yfir á það sem við fáum ekki stjórnað. En hvað með svona veðurlægðir, ætli það sé eitthvað til í þessari tengingu milli loftþrýstings og líkamlegs ástands? Veðurfarsleg lægð myndast samkvæmt fræðunum þegar hlýr loftmassi mætir kaldara lofti og þar sem heita loftið er léttara í sér skrúfast það yfir það kalda svo úr verður hringuppstreymi í kringum miðju sem við köllum lægðarmiðju. Þetta uppstreymi lofts þýðir að loftvogir mæla LÉTTARA loft enda hefur loftþrýstingur á svæðinu LÆKKAÐ. Þetta er öfugt við það sem gerist með hæðarsvæði því þá á sér stað niðurstreymi lofts með hærri loftþrýstingi.
En það sem ég vildi segja með þessu er það er varla er hægt að tengja veðurfarslegar lægðir við einhver þyngsli í lofti. Kannski er það bara orðið LÆGÐ sem ruglar fólk í ríminu eins og um sé að ræða geðlægð eða ládeyðu. Kannski mun fólki líða betur ef lægðir væru kallaðar uppstreymi eða jafnvel upplyfting sem hljómar mun betur og er alveg jafn lýsandi á þessu veðurfyrirbæri.
Þegar þetta er skrifað er loftþrýstingur hér í Reykjavík ekki nema 970 hPa en á næstu dögum mun mikið lægðarsvæði hringsóla kringum Ísland og má þá búast við að loftþrýstingur falli enn meir, okkur öllum til mikillar upplyftingar.
Myndin sem fylgir greininni er MODIS gervitunglamynd, en hún var tekin þann 4. september árið 2003 og sýnir myndarlegan lægðarhvirfil suðvestur af landinu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Breytt s.d. kl. 11:57 | Facebook
Athugasemdir
Það er gott og blessað að blogg endurspegli það sem er að gerast í þjóðfélaginu. En fyrr má nú rota en dauðrota. Bloggið var fyrir kreppuna fjölbreyttara og blæbrigðaríkara en nú er og líka persónulegra. Það skemmtilegasta við blogg finnst mér að fá að komast inn í hugarheim skemmtilegra eða áhugaverðra bloggara en ekki það að lesa þar framhald af blaðamennsku eða pólitískra umræðna annarra fjölmiðla. Kreppan hefur tvímælalaust gert blogg landsmanna einsleitara og leiðinlegra.
Sigurður Þór Guðjónsson, 16.1.2009 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.