Stórborgamynstur

Ég skrapp í dálitla heimsreisu nú á dögunum og var tilgangur ferðarinnar aðallega sá að skoða skipulag í hinum ýmsu borgum heimsins. Svona heimshornaflakk er mun auðveldara í dag en áður fyrr, þökk sé hinu stórskemmtilega google-maps en með hjálp þess getur maður setið á sama stað en verið samt að ferðast. Hér koma nokkur sýnishorn úr ferðinni þar sem sjá má hvernig mismunandi borgarlandslag nýtur sín úr lofti.

(Myndirnar birtast stærri ef smellt er á þær tvisvar)
 

París

París. Þarna má meðal annars sjá Sigurbogann og hvernig göturnar geisla út frá honum og öðrum torgum í allar áttir. Göturnar liggja sjaldnast hornrétt á hver aðra en samt er greinilega allt þaulskipulagt.


Barcelona

Barcelona. Stór hluti borgarinnar utan um elsta kjarnann er byggður með þessu reglulega reitaskipulagi.


Róm

Róm hin forna. Þarna í elsta hluta borgarinnar er byggt afar þétt. Aðalgötur er beinar en þær þrengri liðast einhvern veginn eins og þær hafa sjálfsagt gert frá fyrstu tíð. Hringlaga byggingin er Pantheon-hofið frá tímum Rómaveldis.


Bagdad

Hér er ég kominn til hinnar stríðshrjáðu Bagdad. Þetta er íbúðahverfið Sadr City, nefnt eftir shítaleiðtoganum Mohammad Sadeq al-Sadr en hét áður Saddam City. Hér ríkir greinilega mikil röð og regla úr lofti séð en kannski ekki eins mikil á jörðu niðri.

 HoSiMin

Ho Chi Minh. Hver þumlungur er gjörnýttur í þessari stærstu borg Víetnam en sjálfsagt er þetta ekki akkúrat staðurinn þar sem betri borgararnir búa. Í gegnum borgina rennur Saigon-fljót til sjávar en lengi vel var borgin nefnd eftir því fljóti.


Mexico City

Mexíkóborg. Hér er gott dæmi um risastórt fjöldaframleitt íbúðahverfi byggt fyrir sívaxandi fjölda aðkomufólks úr sveitum landsins. Þarna renna húsin saman í eitt en hver smáreitur inniheldur fjölda smáhýsa. Borgin er meðal þeirra allra stærstu í heimi með um 19 milljónir íbúa ef úthverfi eru talin með.


Brasilia

Brasilíuborg er afar sérstök borg en hún var reist frá grunni lengst inni í landi í anda módernískrar hugsunar og gerð að höfuðborg landsins árið 1960. Þótt þetta hafi verið draumaverkefni arkitekta og skipulagsfræðinga á sínum tíma er ekki víst að útkoman sé sú fullkomna nútímaborg sem stefnt var að.

 

Miamy

Miami á Flórída er byggð á afar láglendu svæði og er meðalhæðin yfir sjávarmáli ekki nema um tveir metrar. Þarna má sjá eitt af einbýlishúsahverfum borgarinnar og er óhætt að segja að þéttri byggðinni sé mjög haganlega fyrir komið á þessum votlenda stað.

 

Vesturbær

Að lokum er það svo bara Vesturbærinn í Reykjavík á sólríkum sumardegi. Þarna einhverstaðar neðarlega til vinstri á ég sjálfur heima sem aðfluttur vesturbæingur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Svakalega er gaman að sjá þetta sjónarhorn! Á Reykjavíkurmyndinni sést bæði húsið sem ég ólst upp í og húsið sem ég er búin að búa í í 16 ár!

Lára Hanna Einarsdóttir, 6.2.2009 kl. 16:12

2 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Flott flakk.

Þéttleiki borga sést vel þarna. Reykjavík, stærsta smáborg í heimi.  Með 413 manns á ferkílómeter. París með 24.948 íbúa á ferkílómeter.

Sigurpáll Ingibergsson, 6.2.2009 kl. 16:41

3 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Frábært!  Þegar horft er yfir miðbæ Rvk. sést vel, hve Tjörnin sker sig rækilega frá umhverfi sínu, en mér hefur lengi fundist, að hlaða ætti góða, breiða göngu- og hjólastíga meðfram þessari perlu borgarinnar og setja niður fullt af trjám...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 6.2.2009 kl. 19:41

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Á Reykjavíkurmyndinni sést húsið þar sem ég ólst upp, beint á móti þar sem hún Lára á núna heima!

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.2.2009 kl. 00:54

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er þá sannkallað smáborgarsamfélag sem við höfum hér.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.2.2009 kl. 01:16

6 identicon

Takk fyrir þetta. Snilld.

Ferðhugurinn kickar alltaf inn við að sjá svona myndir

Steinþór Ásgeirsson (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband