13.2.2009 | 18:18
Hvað finnst mér um Eurovisionlögin?
Enginn sem tekur sjálfan sig alvarlega getur tekið Eurovision-söngvakeppnina alvarlega, það er nokkurn veginn vitað. Þess vegna ætla ég hér af fullri alvöru að fjalla um lögin sem koma til greina sem framlag Íslands í keppnina í ár. Fyrir það fyrsta þá finnst mér lögin sem koma til greina nú nokkuð jöfn að gæðum og ómögulegt að segja hvað verður fyrir valinu. Gæði lagana eru þó yfirleitt ekki meiri en svo að ástæða sé til að óttast að við förum að vinna keppnina með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgir en þó er aldrei að vita. Hinsvegar sýnist mér ekkert lag vera þarna sem gæti orðið okkur til meiri ævarandi skammar á alþjóðavettvangi en orðið er. Eiginlega má bara segja að innanlandskeppnin nú í ár sé frekar litlaus í heildina - engir furðufuglar með gula hanska eða steraboltar sem lífga keppnina við eins og í fyrra, hvernig sem á því stendur.
Að þessu sögðu koma hér mínir óskeikulu sleggjudómar um lögin sem í boði eru. Röð lagana eru í stafrófsröð eftir heiti þeirra. Einnig er hægt að hlusta á þau með því að smella á titilinn.
1. Easy to fool
Höfundur: Torfi Ólafsson, Flytjendur: Arnar, Edgar, Sverrir og Ólafur
It´s hot under the west-coast sun, But cold up here in Maine segir í texta lagsins. Þó að veðurfregnir höfði yfirleitt til mín þá er helsta vandamálið hér að þetta er bara púra Amerískt kántrýlag og ágætt sem slíkt en satt að segja finnst mér svona þjóðlagatónlist frá öðrum heimsálfum varla eiga heima sem framlag Íslands í Eurovision. Mætti kannski senda þetta í Grand Ole Opry keppnina sem haldin er oft og reglulega í Nashville Tennessee.
2. Got no love
Höfundur: Örlygur Smári, Flytjendur Elektra.
Hér er búið að setja saman stelpuhljómsveit með hinum svokölluðu Hara-systrum sem eru víst raunverulegar systur en þær urðu í öðru sæti í X-faktor þáttunum sem ég annars þekki lítið til. Hér er sami lagahöfundur á ferð og samdi sigurlagið í fyrra This is my live sem mér fannst reyndar afar leiðinlegt lag. Þetta framlag er hins vegar mun betra fyrir minn smekk þótt þetta sé nokkuð hefðbundið pop-rokk, þó dálítið glyskennt með tilgerðarlegum smartheitum. Minnir dálítið á rússnesku platlesbíurnar í T.a.t.u. sem er svo sem allt í lagi. Örlygur Smári gæti hæglega átt sigurlagið annað árið í röð.
3. I think the world of you
Höfundur: Hallgrímur Óskarsson, Flytjandi: Jógvan Hansen.
Hér er annar þaulreyndur Eurovision höfundur sem átti t.d. lagið sem Birgitta söng um árið. Söngvarinn er sjálfur sigurveginn í áðurnefndri X-faktor keppni og nýtur sjálfsagt vinsælda út á það auk þess sem hann er dálítið þekktur meðal fiskveiðiþjóða norður-Atlantshafsins. Svo má ekki gleyma að hann er Færeyingur sem þykja vera sérlegir vinir okkar Íslendinga. Allt gerir þetta að verkum að lagið á ágæta möguleika á að sigra, nema hvað lagið er frekar óspennandi vakningarballaða með viðeigandi upphækkun í lokin: All around the world, it's gone crazy..., Virkar þó kannski vel í svona keppni.
4. Is it true
Höfundur: Óskar Páll Sveinsson, Flytjandi: Jóhanna Guðrún Jónsdóttir.
Enn einn gamalkunnur Eurovision höfundurinn mættur til leiks og nýtur hér fulltyngis barnastjörnunnar fyrrverandi Jóhönnu Guðrúnar, sem er greinilega ekki lítil lengur. Þótt svona músik sé ekkert mitt uppáhald er hér á ferðinni afskaplega fín og pottþétt ballaða sem gæti hæglega brætt hjörtu margra Evrópubúa. Jóhanna er líka hin glæsilegasta á sviðinu og syngur þetta vel og af miklu öryggi. Hugsanlega besta lagið í keppninni en ég er þó ekki viss um að það eigi mikla möguleika enda gæti barnastjörnustimpillinn háð söngkonunni.
5. Lygin ein
Höfundur: Albert G. Jónsson, Flytjandi: Kaja Halldórsdóttir
Hér byrjar ballið fyrir alvöru því hér stígur á svið aldeilis skutla sem syngur þéttan ljóðabálk á íslensku um glataðan gæja sem trítar svo sannarlega ekki vel. Lagið er ískalt teknó-diskó með stálhörðum takti en dálítið flatt, textinn gæti verið eftir Leoncie en atriðið er nokkuð vel skreytt með svartklæddum dansmeyjum. Það er einhver stafrænn 2000-stíll í þessu sem er ekki alveg í takt við tímann í dag lagið en gæti þó virkað í austur-Evrópu. Samt má alveg hafa gaman að þessu.
6. The kiss we never kissed
Höfundur: Heimir Sindrason, Flytjandi: Edgar Smári
Heimir Sindrason kemur hér með hugljúft lag af rólegra taginu. Dálítið í Johnny Logan stíl með væmnum teardrop in your eye texta sungið af ungum dægurlagasöngvara sem hefur sést áður í Eurovision undankeppni og er að auki einn af kúrekunum í laginu hans Torfa Ólafs. Sumum þykir þetta ef til vill voða huggulegt og vel heppnað en mér finnst hér ýmislegt ekki virka, sérstaklega söngurinn eða raddbeitingin sem fer í full mikla falsettu í erfiðustu köflunum. Ég held að við ættum ekkert að vera að hugsa um þetta lag.
7. Undir regnbogann
Höfundur: Hallgrímur Óskarsson, Flytjandi: Ingó
Annað lag eftir áðurnefndan Hallgrím en gjörólíkt. Ingó Veðurguð sem flutti Bahama-lagið í sumar er ekki meira en ágætur raulari, dugir þó til að koma þessu léttmeti frá sér. Trallalalalla eru skilaboð sem komast allstaðar til skila en annars er bara jákvætt að textinn sé á íslensku - saminn af sjálfum Eiríki Hauks. Stelpurnar í lúðrasveitarbúningunum með bumbutrommuna og túbuna eru náttúrulega ágætis skraut, lífga þetta við og undirstrika taktinn í laginu. Þær taka að vísu til sín mestu athyglina, einkum túbustelpan sem hefur sjálfsagt aldrei séð svona skrítið hljóðfæri áður og örugglega aldrei blásið í það.
8. Vornótt
Höfundur: Erla Gígja Þorvaldsdóttir, Flytjandi: Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm
Hér gerast undur og stórmerki. Ung stúlka syngur undurhugljúft lag ömmu sinnar um ástarfund í Skagfirskri vornótt þar sem fuglinn morgunferðar bíður. Hér má heyra hörpuslátt og englaraddir í bakgrunni sem hjálpa til við gera þetta að eftirlætislaginu mínu í keppninni. Þótt þetta muni sjálfsagt ekki gera stóra hluti í sjálfri Moskvu er þetta langeinlægasta lagið og það sannasta. Spurning hvort X-faktor kynslóðin skynji það. Kannski er ég bara farinn að eldast en þegar maður hefur hlustað á þetta lag finnst manni allt hitt vera hálfinnantómt og tilgerðarlegt. Eins og þessi dásamlega keppni annars er.
Athugasemdir
Finnst dansararnir í "Lygin ein" svo góðir að ég held ég kjósi það, er þetta annars ekki performance keppni?
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 13.2.2009 kl. 22:41
Jú performancinn skiptir máli. Maður hefur reyndar séð misheppnuð dansatriði eyðileggja lög en í „Lygin ein“ er dansinn flottur. Svo vona ég bara að „Vornóttin“ verði ekki poppuð upp með dönsurum.
Emil Hannes Valgeirsson, 13.2.2009 kl. 23:46
Lagið Vornótt er málið, verum bara einlæg og hrein - gott lag, vel sungið af fallegri stúlku - og hættum að tönglast á að höfundurinn sé fjörgamall/gömul kona....það er hreinlega dónalegt (og þá er ég aðallega að hugsa um kynninguna á laginu í undankeppninni, viðtal við höfundinn o.s.fr.) Það er auðvitað hætta á að við vinnum keppnina með þessu framlagi, því einfaldleiki og einlægni hefur áður slegið glysinu við. Jæja, þá það, verum bara heiðarleg og einlæg. Vornótt áfram til sigurs.
Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 14.2.2009 kl. 04:13
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 14.2.2009 kl. 08:21
Er ekki Jóhanna Guðrún sætasta stelpan á ballinu? Lagið hennar er ekki tilþrifamikið en eitthvað segir mér að hún muni vinna út á útlit og pottþéttan söng. Hefði samt viljað sjá höfundinn toga meira þekkta hæfileika stelpunnar.
Ágætis samantekt hjá þér Arnar, hefði ekki orðað þetta betur.
Haukur Nikulásson, 14.2.2009 kl. 10:26
Emil átti það að sjálfsöðgu að vera!
Haukur Nikulásson, 14.2.2009 kl. 10:27
Vornóttinn er yndislega fallegt og vel sungið.
Þetta er lag sem snertir taugar
SigJ (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 13:37
EMIL!!!!!!
Ásgeir Kristinn Lárusson, 14.2.2009 kl. 13:57
Ég veit hvað þér finnst um Eurovision, Ásgeir.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.2.2009 kl. 14:15
Það væri nú nær lagi að blogga um veðrið en þessi ósköp!Í alvöru!
Sigurður Þór Guðjónsson, 14.2.2009 kl. 14:41
Ég skrifa eiginlega bara um það sem mér finnst skemmtilegt að skrifa um eins og þessa færslu en flest að því er ákveðið nokkuð fram í tímann. Ég viðurkenni alveg að mér hefur alltaf fundist þessi keppni vera bæði merkileg og áhugaverð þó hún sé ekki samþykkt í gáfumannasamfélaginu. Veðurblogg er auðvitað alltaf áhugaverðast, en það er heldur ekki öllum sem finnst það.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.2.2009 kl. 15:22
Ég er svo sem alveg sátt við lagið sem fer. Hefði þó frekar viljað fá "Lygina eina" áfram, eða lagið með honum Ingó - ég hafði gaman af því, líflegar og skemmtilegar stelpur með honum - og Ingó hefði alveg náð fólki til sín - held ég.
Erla mín var hins vega afar sátt við úrslitinin - 6 ára skvísan - henni fannst Jóhanna Guðrún bæði falleg og flott og syngja fallegt lag! Allavega er ég sáttari við val okkar á lagi í ár - miðað við í fyrra.
Þó maður sé ekkert allt of spenntur fyrir þessari keppni - þá horfir maður nú alltaf á hana.
......og skrifin þín Emil eru mjög skemmtileg eins og þau eru, mátt alls ekki breyta þessu alfarið yfir í veðurblogg
Lauja, 16.2.2009 kl. 09:02
Já þetta voru bara ágætisúrslit - kannski vinnum við þetta bara. Flottast væri þó að syngja lagið íslensku.
Þetta blogg er annars ekkert að breytast í eitt eða neitt en á næstunni má þó búast við miklum en misskemmtilegum vísindapælingum.
Emil Hannes Valgeirsson, 16.2.2009 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.