26.3.2009 | 12:11
William Blake og myndin af Isaac Newton
Listasagan hefur að geyma ýmsa kynlega kvisti sem hafa farið sínar eigin leiðir og verið dálítið á skjön við tíðarandann hverju sinni. Þetta eru gjarnan listamenn sem njóta lítillar hylli í lifandi lífi en fá uppreisn æru löngu eftir sinn dag þegar þeirra tími er kominn. Einn af þeim sem þetta gæti átt við er enski myndlistamaðurinn og skáldið William Blake sem upp var á árunum 1757-1827 en hann gaf út við lítinn orðstýr miklar ljóðabækur sem hann prentaði og myndskreytti sjálfur í takmörkuðu upplagi.
Það sem gerði William Blake utanveltu meðal gáfumannasamfélagsins var eindregin andstaða hans við skynsemis- og vísindahyggjuna sem var allsráðandi á hans tímum. Einnig hafði hann sérstakar skoðanir í trúmálum þótt hann væri sjálfur sanntrúaður en framar öðru túlkaði hann veruleikann út frá sínu eigin hyggjuviti og hughrifum. Ein af hans frægari myndum sýnir mann í hálfgerðu guðalíki sem er niðursokkinn í mælingar, þetta mun vera Isaac Newton sem William Blake var ekki par hrifinn af, ekki frekar en af öðrum hálærðum vísindamönnum sem að hans áliti voru svo blindir í sinni vísindahyggju að þeir sáu ekki hinn raunverulega heim sem í kringum þá var, rétt eins og Newton þarna á þessari mynd.
Þessi togstreyta milli vísindalegrar skynsemishyggju og andlegrar skynjunar hefur oft komið upp í menningarsögunni og misjafnt hvort viðhorfið hefur betur hverju sinni. Hippahreyfingin og nýaldarhyggja eru dæmi um það síðarnefnda ásamt líka rómantísku stefnunni og spíritisma. Þótt vísindahyggja hafi leitt til almennra framfara held ég að það sé mikilvægt að viðurkenna að skynsemi og hæfileikum mannsins séu takmörk sett, eins og oft hefur komið í ljós enda getur ofurtrú á hæfileikum okkar stundum leitt til tómrar vitleysu.
Svo ég tali um mig sjálfan þá er ég yfrleitt talinn vera frekar jarðbundinn og hef litla trú allskonar handanheimum og því sem ekki er mælanlegt. Einnig get ég líka verið skipulagður, allavega á sumum sviðum, t.d. er ég búinn að ákveða hvað ég mun skrifa hérna á blogginu í næstu þremur færslum. Það verður þó ekkert gefið upp en ég get þó sagt að næst verður boðið upp á léttmeti í yfirþungavigt en með ljóðrænu ívafi. Þar á eftir mun ég svo halda áfram að mæla heiminn, jafn staurblindur og venjulega á samfélagið í kringum okkur.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:13 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir skemmtilega fram setta upplýsingu.
Svanur Gísli Þorkelsson, 26.3.2009 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.