3.5.2009 | 23:19
Snjódagar í Reykjavík
Svona til að kveðja veturinn endanlega nú á þessum vordögum þá kemur hér mynd sem ég hef útbúið og sýnir hvenær snjór þakti jörð höfuðborgarinnar síðastliðinn vetur og til samanburðar liðna 22 vetur. Samskonar mynd birti ég fyrir ári nema nú er síðasti vetur kominn inn. Þetta er allt byggt á eigin athugunum en ég hef skráð snjóhulu ásamt öðrum veðurþáttum frá árinu 1986. Hver lárétt lína táknar einn vetur og hvítur litur sýnir hvenær jörð hefur verið hvít og fjöldi daga er sýndur til hægri.
Eins og sést á tölunum þá vill svo til að fjöldi hvítra daga er sá sami og í fyrravetur eða 74, sem er aðeins undir meðaltali þessara ára samkvæmt þessu. Þrátt fyrir þennan fjölda hvítra daga er varla hægt að segja að það hafi verið snjóþungt í vetur enda var snjórinn ýmist að koma eða fara og var yfirleitt lítið til vandræða. Ekkert snjóaði í apríl að þessu sinni sem er svo sem ekkert einsdæmi.
Þarna má líka sjá ýmis merkistímabil: Snjóþungu mánuðina janúar-apríl árin 1989 og 1990, en árið 1989 var sérstaklaga snjóþungt í borginni. Svo voru langir og snjóþungir vetur 1994-'95 og 1999-2000. Sá allra snjóléttasti síðastliðin ár er veturinn 2002-2003 með aðeins 32 snjódaga en sá vetur var líka einstaklega hlýr á öllu landinu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Alveg til fyrirmyndar Emil !
Samkvæmt öllu eru mestur snjór á áliðnum vetri, þ.e. seint í febrúar eða framan af mars. Sama má segja um líkur á snjóhulu. Athyglisvert að sjá breytinguna veturinn 2002-2003. Veturna á undan brást vart að snjór var yfir um mánaðarmótin feb. og mars. Síðan þá er það hending meða þeirri undantekningu að veturinn í fyrra (2007-2008) var nokkuð eðlilegur í þessu tilliti.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 4.5.2009 kl. 10:26
Fróðleg samantekt. Ég man eftir vetrinum 1999-2000, eftir einn mokstursdaginn var ruðningurinn 1,5 metra hár allt í kring um garðinn okkar, grjótharður og ekki séns að handmoka sig í gegn. Svo við hjuggum tröppur með exi í ruðninginn beggja vegna til að komast inn í hús.
Hjóla-Hrönn, 4.5.2009 kl. 13:34
Þarna er snjór yfir alveg frá janúar fram í apríl tvo vetur í röð, ´89 og ´90.
Það er orðið langt síðan maður hefur séð hlákusvell yfir öllu hér í Reykjavík. Guðný Halldórsdóttir gerði einu sinni grínmynd um fólk í hálku, hún hét "Gættu að því hvað þú gerir maður" eða eitthvað svoleiðis.
Hjóla-Hrönn minntist á ruðninga. Var það ekki svo uppúr 1990 sem byrjað var að ryðja gangstéttir skipulega með traktorum ?
Mig minnir að hér hafi verið æði snjóþungt upp úr 1980. Það gerði hér mikinn byl 4. janúar 1983. Og líka á sömu dagsetningu árið eftir.
Pétur Þorleifsson , 4.5.2009 kl. 14:20
Já það er merkilegt að það skuli hafi verið samfelldur snjór á jörðu frá janúar til apríl tvo vetur í röð. Snjóskaflarnir '89 voru þó miklu meiri og þrálátari. Ég man líka eftir þessum snjóþungu vetrum uppúr 1980 og ófærðinni í byrjun áranna 1983 og 1984.
En svo má líka rifja upp veturinn 1987-1988 sem var nánast snjólaus og mjög hlýr fram að áramótum en skipti svo algerlega um gír strax í janúar.
Annars sýnir myndin ekki um hversu mikinn snjó er að ræða, stundum er bara flekkótt jörð eða smá föl.
Emil Hannes Valgeirsson, 4.5.2009 kl. 15:08
Glæsileg mynd - þú ert snillingur í framsetningu á veðurfarsgögnum..
Loftslag.is, 4.5.2009 kl. 21:38
Takk fyrir. Ég er kannski líka eini grafískri hönnuðurinn meðal veðurnörda.
Emil Hannes Valgeirsson, 4.5.2009 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.