Nú er mælirinn sneisafullur

Ég hef í gegnum minn bloggferil haldið mig á mottunni og látið sem ekkert sé þótt allt sé hér á hverfanda hveli. En ekki lengur því nú er þolinmæðin mín á þrotum og það ekki af einni ástæðu heldur fleirum. Svo maður nefni það fyrsta þá er það auðvitað algerlega ólíðandi þegar maður er að aka inn í hringtorg að ökumenn annarra bifreiða skuli ekki gefa stefnuljós þegar þeir aka út úr hringtorginu. Með þessu háttalagi skapast mikið óvissuástand hjá þeim sem aka inn í hringtorg því auðvitað gerir maður ráð fyrir því að þeir sem ekki gefa stefnuljós ætli að halda áfram inn í hringtorginu en ekki að beygja.
Margir gangandi vegfarendur hafa líka komið sér upp þeim ósið að þegar þeir koma að gangbrautaljósum, ýta þeir umsvifalaust á gangbrautartakkann án þess að athuga hvort nokkur bifreið sé að nálgast. Ef svo er ekki þá arka þeir strax út á götuna löngu áður en græni karlinn birtist á gangbrautaljósunum. Þegar gangandi vegfarandinn er svo kominn yfir götuna þá stöðvast umferðin algerlega af óþörfu. Maður hlýtur því að spyrja: hví var ýtt á takkann ef þess var ekki þörf? Annars hef ég ekkert á móti gangandi vegfarendum og fleiri mættu mín vegna bætast í þann hóp.

En það er fleira. Eins og flestir þá greiði ég oftast fyrir vörur með rafrænum hætti þótt virðulegra þykir mér að greiða með peningum. Þegar greitt er með korti er það nánast orðin regla að maður fái þessa óþolandi spurningu: „Viltu afrit?“ Í rauninni á þetta ekki að vera nein spurning - maður á bara að fá afrit. Svo þegar maður gerir afgreiðslufólkinu þann óleik að vilja afrit þá fær maður tvö! Eitt afrit og svo kvittun. Ég vil bara fá eitt og þarf því að henda öðrum miðanum. Þetta náttúrulega gengur ekki.

Svo er ég líka alveg að gefast upp á sumu útvarpsfólki sem stendur í þeirri trú að útvarpsþátturinn verði skemmtilegri ef það flissar og rekur upp hlátrasköll í tíma og ótíma. Hressileiki finnst mér allavega vera stórlega ofmetinn í útvarpi enda er það margsannað mál að ekki er fer saman að vera hress og skemmtilegur. Útvarpsfólk mætti líka bera meiri virðingu fyrir þeirri tónlist sem það leikur með því að tala ekki ofaní lög og umfram allt á að leika lög til enda og afkynna þau með formlegum hætti. Annað er algerlega óásættanlegt.

Fleiri atriði mætti sjálfsagt nefna sem angra huga minn þessa dagana þó ég muni ekki eftir fleirum í augnablikinu. Ef eitthvað rifjast upp ætla ég samt að láta það liggja á milli hluta en mun snúa mér að veðri í næstu bloggfærslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftslag.is

Hvað finnst þér um þau fyrirtæki sem spurja hvort þú sért með einhver fríðindakort (safnkort og slíkt)? Bara spyr

Loftslag.is, 8.6.2009 kl. 23:58

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekki vinsæl spurning hjá mér enda kemur einfalt Nei við þeirri spurningu. Nota ekki svoleiðis.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.6.2009 kl. 00:09

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Orð í tíma rituð. Langar að bæta við þeim framburðarósið sem einkum íþróttafréttamenn hafa tamið sér og kannski nokkrir fleiri sem dreymir um að verða íþróttafréttamenn: að enda hverja setningu með ÞJÓSTI! Hnykkja á síðasta ORÐINU! Mér finnst þetta óþolandi framburðarkækur.

Sigurður Hreiðar, 9.6.2009 kl. 13:08

4 Smámynd: Einhver Ágúst

Og svo er algjörlega ótækt með öllu að táknmálsfréttir séu ekki tekstaðar fyrir okkur heyrandi manneskjurnar, ég meina þau geta verið að segja hvað sem er um okkur og við vitum ekkert, svo held ég að táknmálsfréttir hljóti að vera mjög sjálfmiðaðar.

Td um að plötusala hafi dregist samana um 15%, eða um flugslys útí heimi en sem betur fer var enginn heyrnalaus um borð, eða eitthvað rætið grín um hvernig heyrnalausir hafi hrekkt blinda útá götu.

Þessu verður að linna.

Auk þess hata ég upphrópunarmerki í skrifuðum teksta, sé bara engann veginn hvernig það getur virkað á prenti.

Einhver Ágúst, 9.6.2009 kl. 13:17

5 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Tek undir þetta, enn í rauninni á sá sem er í ytri hring að gefa stefnuljós ef hann ætlar áfram því að hann fer yfir punktalínu.

Þetta með táknmálsfréttirnar, það er rétt þau geta verið að segja einhvern fjandann um okkur já, en verðum við ekki bara að koma upp eftirliti eða gerist það kannski af sjálfu sér þegar við bætum skrifinnskunni í ESB á okkur, þau geta sett hvað sem er í textann Ágúst, þetta krefst umræðu.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 9.6.2009 kl. 13:42

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta er að verða ágætis meinhorn. Þetta með stefnuljósin og hringtorgin á helst við á smærri einnar akreinar hringtorgum sem er að fjölga mikið, ástandið er skárra á þeim stærri.

Emil Hannes Valgeirsson, 9.6.2009 kl. 13:50

7 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

já ókey, ég tek undir að við meigum alveg fara að hugsa um að það eru fleiri á ferðinni og sína smá tillitsemi, það vantar mikið upp á það og þetta með gangbrautarljósin það væri mikið í lagi að fullorðið fólk kíki einmitt eftir því hvort það er að stoppa ein bíl eða bílalest.

Það er ágætt að nöldra stöku sinnum yfir einhverju öðru en pólitík.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 9.6.2009 kl. 15:01

8 identicon

Hringtorg eru alveg frábært stjórntæki sem á að virka eins og tannhjól í vél. Vélin fer að hiksta þegar tennur eru skemmdar. Það á líka við um hringtorgin. Sjálfur nota ég alltaf stefnumerki til vinstri um áframhaldandi akstur á hvorri akrein sem er og til hægri út úr hringtorgi.Ef ökumaður gefur ekki stefnuljós þegar hann ætlar að halda áfram í hringtogi þá er aldrei að vita hvort viðkomandi ætlar að halda áfram eða er einfaldlega skussi og ætlar út án stefnuljóss.
Ef ég tjaldaði fellihýsinu mínu á einni akreininni á Miklubrautinni yrðu laganna verðir fljótir á staðinn og kæmu mér í burtu (samt er nóg af akreinum þarna). En ef ég leggði bílnum mínum upp á gangstétt einhverstaðar annarstaðar en í miðbæ Reykjavíkur yrði ég látinn óáreyttu.

Svo ég bæti nú einum pirringnum við þá er það hvernig fjölmiðlar ofnota og slíta úr samhengi hið ágæta orð "Íslandsvinur" sem var upphaflega notað um óeigingjarnt útlent fólk sem var landi og þjóð einkar velviljað í orði sem æði. Fjölmiðlar nútímans hengja þetta sæmdarheiti á hverja þá heimsfrægu persónu sem ekki á meira erindi á skerið en mesta lagi að millilenda hér. Elton John kom hingað til lands og spilaði í fimmtugsafmæli eins útrásarvíkingsins og þáði litlar 70 miljónir. Íslandsvinur skal það vera. Robin Williams kom og söng lítinn lagstúf og strunsaði út og af landi brott í fússi og fýlu. Hógvær Íslandsvinur að sjálfsögðu. Og núna er erlendur dópsmyglari titlaður á visir.is,  Íslandsvinur. Þarna er ekki eingöngu verið að ofnota eina ferðina enn orðið Íslandsvinur, heldur er búið að snúa því í andhverfu sína.

Gunnar Magnússon (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 16:04

9 Smámynd: Einhver Ágúst

Já Halldór ökukennarinn minn eða öllu heldur svokallaðaur "dæmdur ökukennari", kenndi mér nú að nota stefnuljós til vinstri þartil ég ætlaði út, þá bæri mér að gefa stefnuljós til hægri, mikið er nú oft gert grín að mér fyrir þessa "tillitsemi" mína, en mér finnst hún einmit vera mikilvægur þáttur til að fullkomna hið yndislega tannhjól sem talað er um hér að framann.

Jú Högni þetta eftirlit verður að líta dagsins ljós, og þá verða að vera í því fulltrúar heyrnalausra og heyrandi og að sjálfsögðu jafnt kynjahlutfall, þannig að við erum að tala um lágmark 4ra mann nefnd/eftirlitshóp.

Svo getur mér nú í alvöru gramist hvað það fyrsta sem við förum alltaf að velta okkur uppúr ef eitthvað gerst útí heimi af alvarlegum toga, þá líður varla sekúnda áður en við förum að velta fyrir okkur hvort það hafi verið íslendingar á svæðinu, alltaf er það aðalmálið, 3000 manns deyja einhversstaðar og viðförum án þess að hika að vera sjálfmiðuð. Pant ekki fá sérumfjöllun ef ég dey einhversstaðar með fjölda annara, ég er bara manneskja og einn af 6 milljörðum.

Segið svo að ég sé ekki með lausnir á atvinnuleysinu.

Einhver Ágúst, 9.6.2009 kl. 17:34

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk þið, fyrir að taka þátt í þessum hvunndagspirringi. Ég verð að játa að þessi færsla var dálítil tilraunastarfsemi þar sem ég gerði aðeins meira úr pirringi mínum en efni stóðu til. Kannski hafa sumir átt von á meira krassandi innihaldi miðað við fyrirsögnina en þetta var reyndar mesta lesna bloggfærsla mín á árinu sem sýnir að það er ágætis eftirspurn eftir pirringi. Allar athugasemdirnar hafa þó sem betur verið málefnalegar og bara nokkuð réttmætar.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.6.2009 kl. 01:11

11 identicon

"Svo er ég líka alveg að gefast upp á sumu útvarpsfólki sem stendur í þeirri trú að útvarpsþátturinn verði skemmtilegri ef það flissar og rekur upp hlátrasköll í tíma og ótíma."

ARG!  Þetta gerir mig alveg hvæsandi, gargandi úrilla!!!

Frábærlega skemmtilegur nöldurpistill.  Meira svona!

Malína (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 03:26

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Kannski maður ætti bara að gerast nöldrari.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.6.2009 kl. 09:18

13 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Það er bara nauðsynlegt að nöldra aðeins annað slagið það leysir oft sum mál eins og nú er Ágúst að fara að setja á laggirnar nefnd og vonast ég til að fá að vera meðeigandi hanns og stjórna með honum hvað kemur frá þeirri nefnd svona semdæmi.

Ég vil nota tækifærið og nöldra, ef ég má með leyfi fossseta, það er eiginlega alltaf rok þegar það er sól, ég er hættur að þola þetta og vil skipta veðurfræðingunum út og fá Ítalska veðurfræðinga þeir eru oftar með sól og mikklu oftar með logn.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 10.6.2009 kl. 23:55

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég vil taka undir með þetta með stefnuljósin bæði úr og í hringtorgi og svo einnig almennt, fólk er óþarflega sparsamt á þau.

Takk fyrir þetta hversdagsnöldur

Sveinn Atli Gunnarsson, 11.6.2009 kl. 00:10

15 Smámynd: Einhver Ágúst

Já og fyrst við erum svo mikið uppá hjálp Norðamanna komnir datt mér í hug að setja hér inn tvær norskar hugleiðingar, og vegna þess að ég er andvaka á sjúkrahúsi.

Hér er sú fyrri og er hún um pirrandi huti,

http://www.youtube.com/watch?v=rDAZy3Sm0g0&feature=PlayList&p=46263AB079C997D9&playnext=1&playnext_from=PL&index=22

Svo er hér videoupptaka með teksta sem sannar hvernig þessir heyrnadaufu eru svo ekki er um að villast, varúð þetta eru sjokkerandi upplýsingar. Líf ykkar mun breytast og það verður erfitt að treyst aftur.

 http://www.youtube.com/watch?v=O5D33voW5QU

Einhver Ágúst, 11.6.2009 kl. 07:00

16 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég fíla þennan pirraða Norðmann. Svo skulum við nota mikið af stefnuljósum í sem flestar áttir.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.6.2009 kl. 12:05

17 identicon

Tek undir þetta með stefnuljósin og flissandi útvarpsfólk sem talar gjarnan einni eða tveim tóntegundum of hátt.

Að auki finnst mér gersamlega óþolandi það fólk sem byrjar allar sínar setningar á "Heyrðu". Sérstaklega á þetta við þegar það er spurt að einhverju.

Margret Agustsdottir (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 22:13

18 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Heyrðu Margrét ég tek undir þetta og vil bæta við að ég þoli ekki þegar fólk sem dregið hefur verið í viðtöl í sjónvarpi og útvarpi og það kemur varla upp úr sér orði fyrir umli og jamli, já notum stefnuljósin og aldrei færri en tvö hvoru megin.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 14.6.2009 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband