1.8.2009 | 13:47
Hversu gott var góðviðrið í júlí?
Eins og ég hef stundum minnst á, þá hef ég skráð veður í mörg ár og gefið hverjum degi veðurfarslega einkunn samkvæmt kerfi sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Einnig gef ég hverjum mánuði einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Samkvæmt þessu einkunnakerfi fékk nýliðinn júlímánuður einkunnina 5,8 sem segir kannski ekki mikið, nema hvað að þetta er hæsta einkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði frá því ég hóf skráningar sumarið 1986. Með þessu slær mánuðurinn út júlí 2007 í veðurgæðum sem var með einkunnina 5,5 en allt fyrir ofan 5 telst annars vera mjög gott á þessum mælikvarða.
Nánar um nýliðinn júlímánuð
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir júlí 2009. Myndin birtist stærri ef smellt er á hana.
Veðurgæðum var eins og oft áður nokkuð misskipt á milli landshluta og að þessu sinni hafði suðvesturhelmingur landsins ótvírætt vinninginn enda norðaustlægar áttir ríkjandi. Það hefur aldrei verið minni úrkoma í Reykjavík frá upphafi mælinga, meðalhitinn hefur sjaldan verið hærri og sólskinsstundir langt yfir meðallagi. Í mínum skráningum kom þetta út sem 11 almennilegir sólskinsdagar og aðrir 11 þar sem sólin skein til hálfs. Einnig skiptir máli að enginn slæmur veðurdagur varð í mánuðinum og aðeins tveir minniháttar úrkomudagar, þann 5. og þann 26. Hitaþróunin var nokkuð merkileg því að lengi vel stefndi í að meðalhitamet júlímánaðar yrði slegið en kuldakastið 23.-25 gerði út um allt slíkt. Þótt ekki hafi gert eiginlega hitabylgju fór hitinn tvisvar upp í 21,1 stig. Opinber meðalhiti þessa júlímánaðar er 12,8 stig en eins og ég skrái hitann er meðalhitinn 14,8 stig en sá munur er á að ég skrái hita og veður útfrá einskonar meðalveðri yfir daginn og sleppi þar með næturveðri (því miður fyrir næturverði).
Nokkrir gæðamánuðir fyrri ára til samanburðar
Júlí 2007 Einkunn 5,5. Þessi mánuður er í öðru sæti yfir bestu mánuðina frá 1986 og hefur allt sem prýða má almennilegan góðviðrismánuð, sólríkur, þurr, hlýr og hægviðrasamur. Meðalhitinn hér var einnig 12,8°C og hámarkshitinn um 21 stig. Sólin skein af miklum móð fyrstu 17 dagana en eftir það varð aðeins köflóttara veður með nokkrum kærkomnum úrkomudögum, en óvenjumiklir þurrkar höfðu staðið yfir frá því fyrri hlutann í júní.
Júní 1991 Einkunn 5,4. Þessi mánuður var einnig mjög eftirminnilegur góðviðrismánuður og einn af sólríkustu og þurrustu júnímánuðum sem komið hafa. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskýra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi og því vermir hann 3. sætið hér. Í kjölfarið kom svo hitametsmánuðurinn Júlí 1991 þegar opinber meðalhiti fór í 13 stig, en ýmis hitamet voru sett víða um land þegar gerði mikla hitabylgju dagana 6.-9. júlí. Sá júlímánuður fékk hjá mér einkunnina 5,1.
Ágúst 2004 Einkunn 5,3. Fyrir utan almennt góðviðri er þessi mánuður frægastur fyrir hitabylgjuna miklu sem gerði daganna 8.-12. ágúst. Hitamet var sett í Reykjavík, 24,8°C þann 11. ágúst. Það hitamet var svo slegið í fyrra: 25,7°C þann 30. júlí 2008 en sá mánuður fékk 4,9 í einkunn.
Besti mánaðarkaflinn.
Fyrir utan almanaksmánuði er besti mánaðarlangi veðurkaflinn sem ég hef skráð 21. júní - 21. júlí í góðærinu 2007 með einkunnina 6,1. Júlímánuður 2007 var einmitt nefndur hér að ofan sem næst besti mánuðurinn, en með því að hliðra til um nokkra daga fæst öllu hærri einkunn því aðal góðviðriskaflinn hófst seinni partinn í júní. Þá einmunablíðu sem þarna ríkti slær ekkert út frá árinu 1986 þegar ég hóf skráningar og örugglega þarf að fara mun lengra aftur í tímann. Næstbesti mánaðarkaflinn er þá nýliðinn kreppumánuður júlí 2009 sem er í 2. sæti með sín 5,8 stig en sú einkunn hækkar ekki þótt dagahliðrunum sé beitt.
Segjum þetta þá gott af blíðskaparveðrum enda nóg komið af upptalningum. Svo er bara að vona að sem flestir mánuðir bætist í þennan úrvalshóp á komandi árum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Facebook
Athugasemdir
Mjög skemmtilegt að lesa þetta. Ég er farinn að hallast að því að veðuráhugamenn séu á margan hátt eins og stjörnuáhugamenn. Báðir hópar hafa nánast fanatískan áhuga á viðfangsefninu sem er bara frábært!
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 1.8.2009 kl. 15:50
Auðvitað hafa veðuráhugamenn fanatískan áhuga á veðri. Þeir eru alveg hvítglóandi af fanatík!
Sigurður Þór Guðjónsson, 1.8.2009 kl. 17:48
Ég er einmitt núna alveg hvítglóandi af fanatík, eins og skærasta fastastjarna.
Emil Hannes Valgeirsson, 1.8.2009 kl. 18:24
Fróðlega aðferð við skráningu veðurs, gef henni 5,8 í einkunn :)
Fyrir forvitnissakir, hvað merkir þríhyrningurinn og tölurnar 11-15 og hvað stendur matrixinn sem er niðri og til vinstri fyrir?
Og að lokum hver er versti mánuðurinn sem þú hefur skráð? (maður á kannski ekkert að vera spá í það í góða veðrinu núna..?)
Sveinn Atli Gunnarsson, 2.8.2009 kl. 00:14
Best að svara þessu Svatli.
Þríhyrningurinn merkir að hiti er í meðallagi en í júlí er miðað við hitann 11-15 gráður. Hringur er hlýtt og ferningur kaldur dagur. Þríhyrningur gefur eitt stig í einkunnagjöfinni, hringur tvö og ferningur ekkert. Svipað er með vindinn, tvöföld píla er hvass vindur sem gefur ekkert stig, einföld píla eitt og hlykkjótt er hægviðri og gefur tvö stig. Sólskin og úrkoma/úrkomuleysi gefa svo hin stigin fjögur sem eru í boði.
Kassin niðri með tölunum er einskonar vindrós og sýnir hér að norðanáttin var tíðust og sterkust.
Versti mánuður sem ég hef skráð er janúar 1989 sem fékk 3,3 stig og versti sumarmánuðurinn er júní 1988 með 3,6 stig. Ég á gamla færslu þar sem þetta var tekið fyrir og ég endurbirti hana kannski við tækifæri.
Emil Hannes Valgeirsson, 2.8.2009 kl. 00:43
Ég er með kenningu með þetta veður.
A: Í byrjun júlí biluðu rúðuþurrkunar á bílnum mínum
B: Síðan það gerðist hef ég ekki þurft að nota þær
C: Rúðuþurrkunar á bílnum mínum hefur áhrif á veðurfar
Staðreyndirnar tala sínu máli ;)
DoctorE (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 01:51
Þetta er sjálfsagt engin tilviljun DoctorE. Guð býr auðvitað líka í rúðuþurrkunni.
Emil Hannes Valgeirsson, 2.8.2009 kl. 12:41
Kom mér á óvart að janúar 1989 skyldi fá verri einkunn hjá þér en janúar 1995. Sá mánuður hefur líklega verið einn sá versti um NV-vert landið á seinni helmingi tuttugustu aldarinnar. Á Vestfjörðum norðanverðum og á svæðinu umhverfis Húnaflóa var að heita má uppstyttulaus hríð frá 15. janúar til 11. febrúar. Þetta veður hófst með hreinum ósköpum, því snjóflóðin miklu á Súðavík urðu aðfararnótt þess 16. 1.
Ráðgarður (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 15:34
Ráðgarður. Skráningarnar mínar miða bara við veðrið í Reykjavík en ég man vel eftir vetrarveðrunum í janúar 1995 sem bitnaði verst á Norðvesturlandi og Vestfjörðum með miklum óveðrum og snjóþyngslum. Þessum janúarmánuði gaf ég einkunnina 3,9 fyrir veðrið í Reykjavík sem var mjög misgott, kalt og snjór yfir jörðu nær allan mánuðinn en þó án almennilegra snjóþyngsla. Þessi vetur var líka síðasti virkilega slæmi veturinn á landinu því eftir þetta fór að hlýna og snjóþyngsli að minnka, en viðsnúningurinn var þó kannski ekki fyrr en eftir snjóflóðið á Flateyri haustið eftir.
Emil Hannes Valgeirsson, 4.8.2009 kl. 16:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.