Langskemmtilegasta langstökkskeppni sögunnar

Þann 30. ágúst 1991 var heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum haldið í Tókýó. Hápunktur þess móts var án efa langstökkskeppnin sem stundum er talin vera ein mesta keppni sem nokkru sinni hefur verið háð á frjálsíþróttavelli. Þar áttust við ofurmennið Carl Lewis og hinn minna þekkti Mike Powell, báðir frá Ameríku og endaði keppnin með heimsmeti þess síðarnefnda. Þessu ætla ég að gera skil ásamt myndbandi sem sýnir dramatískasta hluta keppninnar, sem var svo sannarlega dramatísk.

Bob BeamonFyrir keppnina í Tókýó var heimsmetið í langstökki 8,90 metrar og orðið 23 ára gamalt og var lengi talið nánast ofurmannlegt að stökkva slíka vegalengd. Metið átti Bob Beamon sem hann setti í þunna loftinu á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968. Með stökkinu bætti hann eldra heimsmet um heila 55 cm og þótti það með slíkum ólíkindum að talað var um stökk inn í næstu öld, þ.e. þá öld sem við lifum á nú.

Þegar Carl Lewis kom fram á sjónarsviðið á 9. áratugnum var farið að gera að því langstökksskóna að heimsmetið frá 1968 gæti verið í hættu enda var Carl Lewis algerlega ósigrandi í langstökki í heil 10 ár og var farinn að höggva nærri heimsmetinu. Þegar kom að heimsmeistaramótinu í Tókýó 1991 var Carl orðinn þrítugur að aldri, þó enn í fantaformi og ætlaði sér hina hina stærstu hluti og heimurinn fylgdist með. En hlutirnir fóru ekki alveg eins og áætlað var því flestum að óvörum var það næst besti langstökkvarinn, Mike Powell, sem stal senunni þrátt fyrir að Carl Lewis hafi átt í það heila, bestu stökkseríu allra tíma í langstökkssögunni.
Hér er langstökkskeppnin rakin en til fróðleiks og samanburðar má nefna að Íslandsmet Jóns Arnar Magnússonar er 8,0 metrar.

1. umferð: Mike Powell á misheppnað stökk, 7,85 metra. Það hefði þó dugað til sigurs á flestum Ungmennafélagsmótum á Íslandi. Carl Lewis hittir vel á það og stekkur 8.68 metra sem þá var mótsmet og myndi duga til sigurs á flestum alþjóðlegum mótum enn í dag.

2. umferð: Mike Powell nær sér á strik og stekkur 8,54 eða jafn langt og sigurstökk nýliðins heimsmeistaramóts. Carl Lewis gerir illilega ógilt.

3. umferð: Adrennan í vandræðum hjá Mike Powell sem stekkur 8,29 metra. Carl Lewis nær fyrsta risastökki keppninnar uppá 8,83 metra. Hans besta stökk á ferlinum fram að þessu.

4. umferð: Mike Powell nær gríðarlöngu stökki en gerir hárfínt ógilt og er afar ósáttur með dómara keppninnar. Carl Lewis svarar með lengsta stökki sögunnar 8,91 metrar en vegna meðvinds er það ekki skráð sem heimsmet. Hann fagnar þó vel og ekki að ástæðulausu.

5. umferð: Mike Powell sem nú var orðið mjög heitt í hamsi nær hinu fullkomna stökki 8.95 metrar og slær heimsmetið frá 1968 á óvefengjanlegan hátt við mikin fögnuð. Carl Lewis var ekkert á því að gefast upp og á enn eitt risastökkið, 8,87 metra sem dugar þó ekki til. Þetta stökk er skráð sem hans besta stökk á ferlinum enda meðvindur innan löglegra marka.

6. umferð: Mike Powell er hættur og horfir á Carl Lewis stökkva sitt síðasta risastökk upp á 8,84 metra og keppninni lýkur þar. Mike Powell fær gullið og heimsmet hans 8,95 metrar er staðfest og stendur enn óhaggað. 

Þannig fór það. Sálfsagt er að minnast á þann sem vann bronsið í þessari keppni en það var enn einn Bandaríkjamaðurinn Larry Myricks, sem stökk „aðeins“ 8,42 metra.

- - - - - - 

Myndbandið sem hér fylgir er tæpar 8 mínútur en við komum til leiks í fjórðu umferð og fylgjumst með hápunkti keppninnar. Þulurinn er bandarískur og talar því í fetum og tommum. Þessa langstökkskeppni mátti sjá beinni útsendingu í sjónvarpinu á sínum tíma og vitanlega fylgdist ég spenntur með og það er því við hæfi að gera þetta að sjónvarpsnostalgíu mánaðarins á þessari síðu.

Ath! Youtube leyfir ekki að myndbandið sé skoðað inn á bloggsíðum, þannig að smella verður á link á myndinni til að sjá það. (Ég mæli hins vegar með því, ásamt því að fara út í garð og reyna að stökkva 8,95 metra)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilega upprifjun! Man vel eftir þessu þó ég hafi ekki verið nema 10 ára gamall. Klárlega merkilegasti og skemmtilegasti íþróttaviðburður sem ég hef séð í sjónvarpi. Ekki verra að Powell hafi unnið hrokagikkin Lewis.

Lumarðu á fleiri gullmolum?

Pési (IP-tala skráð) 30.8.2009 kl. 09:56

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Aldrei að vita hverju ég luma á þótt íþróttir séu eiginlega undantekning. Carl Lewis var ekki beint kátur þarna í lokin, en það er einnig hægt að sjá á youtube aðra hluta keppninnar, part 1, 2 og 4.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.8.2009 kl. 15:07

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Takk

Gestur Guðjónsson, 30.8.2009 kl. 16:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband