Sitthvað um Esjuna

ESJA_8agust09

Flest fjöll á Íslandi heita nöfnum sem eru auðskilin. Akrafjall er kennt við akra, Keilir er keilulaga, Herðubreið er herðabreið og Tindfjöll eru tindótt. Nafnið Esja hefur hins vegar vafist fyrir mönnum og fleiri en ein skýring virðist til á því heiti enda er orðið Esja ekki til í íslensku máli.

Vinsælast hefur verið að kenna Esjunafnið við konu af Keltneskum uppruna sem átti að hafa búið að Esjubergi eins og kemur fram í Kjalnesingasögu en hún tók við búi af landnámsmanninum Örlygi Hrappssyni hinum Írska. Fjallið Esja var þó ekki nefnt á nafn sem slíkt en bæjarheitið Esjuberg hefur samkvæmt þessu verið til frá upphafi og allt til þessa dags því enn er búið að Esjubergi. Hinsvegar vilja margir fræðingar frekar meina að Esjuheitið sé norrænt að uppruna og standi fyrir eldstæði eða flögusteina sem notaðir eru til slíks brúks (esje í norsku = eldstæði). Einnig getur Esja þýtt lausar aur- eða snjóskriður. Undan vestanverðri Esjunni koma gjarnan hinar ýmsu gerðir af skriðum undan bröttum hlíðunum og því ekki ólíklegt að bæjarheitið Esjuberg hafi upphaflega tengst því. Síðar meir hefur hið umfangsmikla bæjarfjall Reykvíkinga í heild sinni svo verið nefnt eftir bænum og fengið nafnið Esja.

Upprunalegt heiti fjallsins. Frá Reykjavík séð er Esjan mjög aflöng og flöt að ofan en svoleiðis fjöll eru stundum kennd við bátskjöl. Það er allavega ekkert út í hött að hugsa sér að Esjan hafi upphaflega heitið Kjölur og nesið sem gengur út frá henni nefnt Kjalarnes. Það er þekkt að örnefni eiga það til að flakka á milli staða og því getur verið að Kjalarnafnið hafi vikið til hliðar þegar Esjunafnið var eignað fjallinu og færst yfir á hálendið austur af Kjósinni, sem heitir einmitt Kjölur.

Hæsti punktur Esjunnar. Vegna þess hve víðfeðm og flöt að ofan Esjan er þá er ekki gott að sjá hvar hæsti punkturinn liggur. Lengi vel var talið að hæsti punkturinn væri austur af Kistufelli þar sem lítill tindur skagar uppúr og blasir við úr Mosfellsdal. Tindurinn var mældur 909 metrar og þótti sjálfsagt að kalla hann Hátind. Við nákvæmari mælingar síðar, kom í ljós að hábungan ofan Gunnlaugsskarðs væri nokkrum metrum hærri eða 914 metrar og var þá nefnd því frumlega nafni Hábunga. Á Esjunni eru því bæði að finna Hábungu og Hátind.

Kalkvinnsla. Árið 1877 hófst kalknám í Esjuhlíðum við Mógilsá. Námurnar entust ekki lengi og vinnslunni var hætt þegar sífellt erfiðara var að nálgast kalkið. Kalkið var flutt á bátum til Reykjavíkur og brennt í ofni sem stóð nálægt þar sem nú er Seðlabankinn. Gatan þar heitir einmitt Kalkofnsvegur. Eitthvað af kalkbyggðum húsum standa enn í dag, oftast er húsið að Lækjargötu 10 nefnt sem dæmi.

Daginn sem þetta er skrifað mátti enn sjá tvo smáskafla í Esjunni ofan við Gunnlaugsskarð. Þeir ættu nokkuð örugglega að hverfa í mánuðinum, en þegar komið er fram í september eru síðustu snjóskaflarnir ekkert að flýta sér að bráðna. Þeir eru þó ekki sýnilegir á myndinni með færslunni sem ég tók að morgni 8. september, en það er einmitt á sólríkum septembermorgnum sem mér finnst Esjan einna fallegust.

- - - - 

Meðal heimilda sem ég notaði hér er Ársrit Útivistar 1984 og einnig vefsíðan: Ferlir.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Takk fyrir þetta.

Halla Rut , 10.9.2009 kl. 11:36

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Skemmtileg pæling hjá þér Emil.

Varðandi Kjalrarnafnið þá vil ég benda á hliðstæðu frá noregi, en þeir kalla það að fara yfir kjöl að fara milli Oslo og Bergen.. eða frá vesturlandi til austurlands.. enda er noregur eins og kjölur á báti í laginu.. þetta hafi síðan komið með landnámsmönnum og þeir kallað það að fara yfir fjallið.. að fara Kjöl.. en norðmenn segja líka í dag "over fjellet" og meina þá að fara yfir kjöl.

Kjalarnes gæti hreinlega þýtt að þar hafi þeir dregið skip og báta á land..

en eins og áður segir, mjög svo skemmtileg pæling.

p.s

vil benda á skemmtilega staðreynd frá noregi .. Ef ekið er milli Porsgrunn og Larvik þá eru tvö skilti sem koma íslendingum kunnuglega fyrir sjónir. annað skiltið segir Kjose og hitt skiltið Gullbring.. þetta eru tveir dalir eða kommunur með einungis nokkura km millibili og sést frá E18.

Óskar Þorkelsson, 10.9.2009 kl. 12:45

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þessa hugmynd með Kjalarnafnið sá ég í Ársriti Útivistar sem ég vísaði í þannig að ég vil ekki vera að eigna mér þá pælingu. Kjölur gæti líka alveg þýtt einhverskonar hálendi og menn hafi t.d. talað um að fara yfir kjöl til að komast í Kjósina að sunnan samanber að fara yfir kjöl á milli Bergen og Osló. Svo er spurning hvor merking orðsins sé upprunalegri þ.e. landslagstengingin eða bátstengingin.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.9.2009 kl. 13:08

4 Smámynd: Sjóveikur

góð grein hjá þér ! ég trúi að þú sért vel nálægt "sannleikanum" í rökfræði þinni, mjög gaman að lesa þetta :) ég get skotið til að "essja" í sænsku er opinn eldstaður og þegar maður skoðar td. þínar myndir af Esjunni þá getur maður hugsað sér að það séu eldar hér og þar í fjallinu, það er mjög oft fallegt og sérkennilegt skýjafar í og yfir Esjunni sem gæti með sæmilegri innlifun fengið í gang hugsanir sem þessar, og bæði í Svíþjóð, Noregi og Norður Bretlandseyjum er mikið af örnefnum sem við þekkjum vel aftur við Íslendingar að heiman, það sama er í USA og Canada, þar eru flest nöfn nefnd eftir gömlu heimahögum landnema, jabb det var nu de :) takk aftur fyrir pistilinn og besta kveðja, Pálmar Magnússon

Sjóveikur, 10.9.2009 kl. 19:39

5 identicon

Í bókum Árna Óla,og þá nefni ég sérstaklega bókina  GRÚSK IV sem gefin var út 1974,er heilmikið sagt frá Kjalarnesi og þeim sem jafnvel áður þar bjuggu áður en Ingólfu Arnarson kom hingað á klakan. Einnig er sagt frá gömlun nöfnum og sagt frá kennileitum.Bækur Árna Óla eru mjög áhugaverðar

Númi (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 20:46

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Vísindavefurinn segir að Esja sé dregið af eldstæði og sé norrrænt að uppruna.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.9.2009 kl. 23:11

7 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Fróðleg og fín samantekt.

En hvað segir þú um síðasta snjóskaflinn á Esjunni.  Á ekki að fara í rannsóknarleiðangur?   Hann var talinn af 18. september í fyrra, um svipað leiti og Lehmans Brothers féllu.

Sigurpáll Ingibergsson, 12.9.2009 kl. 10:28

8 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Esjan er yndisfögur
utan úr Reykjavík.
Hún ljómar sem litfríð stúlka
í ljósgrænni sumarflík.
En komirðu, karl minn! nærri
kynleg er menjagná.
Hún lyktar af ljótum svita
og lús skríður aftan á.

Svo orti Þórbergur Þórðarson um bæjarfjallið Esjuna.  Hér er ágætis grein:

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=573825

Sigurpáll Ingibergsson, 12.9.2009 kl. 10:33

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það væri athugandi að fara í rannsóknarleiðangur að skafli. Það sést annars lítið til Esjunnar þessa dagana og spáð er endalausum sunnanáttum. Þeir ættu þó fljótlega að láta undan í rigningunum. 18. september er ekki ólíkleg lokadagsetning fyrir skaflinn - eða skaflana því þeir voru tveir núna í vikunni.

Takk fyrir greinina sem fylgdi.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.9.2009 kl. 12:06

10 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ingvar Birgir Friðleifsson skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna er mjög fróður um Esjuna, enda minnir mig að hann hafi fjallað um hana í doktorsritgerð sinni. Sjá pistil hans á Vísindavefnum hér.

Ágúst H Bjarnason, 12.9.2009 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband