Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?

Nú eru liðin næstum 5 ár síðan síðast kom upp eldgos á Íslandi en það var í Grímsvötnum 1. nóvember 2004. Þó að þetta sé ekkert sérstaklega langt goshlé, gætu örugglega margir vel hugsað sér dálítið eldgos svona til að hrista upp í tilverunni á þessum síðustu og verstu tímum. Og nú ætla ég að spá í eldgos, eins og ég gerði hér á blogginu fyrir ári síðan og líka árið þar áður. Þetta er nefnilega ein af þessum árlegu uppfæranlegu bloggfærslum mínum sem svo þægilegt er að eiga.

Ég get ekki sagt fyrir um hvenær næsta eldgos verður en hinsvegar ætla ég að leggja mitt mat á það hvar næsta eldgos verður. Þetta er sett fram án allrar ábyrgðar enda er ég ekki jarðfræðingur og því síður bý ég yfir yfirnáttúrulegum spádómshæfileikum, ég er bara einn einn af þessum bloggurum sem halda að þeir hafi vit á hlutunum. En upplýsingar og fróðleik hef ég úr ýmsum fréttum og öðrum heimildum sem ég hef séð. Að þessu sögðu kemur hér mitt mat í prósentum á því hvar næsta eldgos verður á Íslandi. Þau líklegust eru nefnd fyrst.

Hekla 1991

37% Síðustu áratugi hefur HEKLA gosið á nánast 10 ára fresti eða árin 1970, 1980, 1991 og 2000 (auk smáskvettu árið 1981). Þessi reglulega goshegðun hlýtur að vera einstök meðal eldfjalla og ef hún heldur þessu áfram ætti að bresta á með Heklugosi á næsta ári eða snemma á því þarnæsta. Gosið 1991 varð um miðjan janúar þannig að ekki skeikaði miklu á áratugareglunni. Talið er að Hekla sé núna nánast tilbúin fyrir gos og gæti hún samkvæmt því alveg eins gosið á morgun enda gera gosin nánast engin boð á undan sér. Annars er það þannig með náttúruna að þegar við sjáum einhverja reglu í henni þá á hún það til að skipta um ham og því ekki alveg ráðlegt að stóla á þessa 10 ára reglu en í gegnum tíðina hafa Heklugos átt sér stað einu sinni til tvisvar á öld.

20%  Virkasta eldstöðin á Íslandi eru Grímsvötn. Hugmyndir eru uppi um að eldvirkni þar er sé að einhverju leiti lotubundin nokkra áratugi í senn og í takt við það er nú meiri virkni í Grímsvötnum og nágrenni en á seinni hluta 20. aldar. Ef gosið á sér stað undir vötnunum sjálfum eins og algengast er veldur það ekki jökulbráðnun og hlaupi. Ef hinsvegar gýs utan vatnanna undir jöklinum veldur það hlaupi eins og átti sér stað í Gjálpargosinu 1996. Það má síðan minna á að Skaftáreldar áttu upptök sín úr megineldstöðinni við Grímsvötn án þess að ég sé nokkuð að boða slíka atburði.

13%  Það hefur lengi verið beðið eftir Kötlugosi enda liðið 91 ár frá síðasta gosi sem er eitt lengsta goshlé í Kötlu eftir landnám. Gosið 1918 flokkast sem stórt Kötlugos en stærð gossins þá er nú talin ein ástæðan fyrir þessari löngu hvíld. Hinsvegar er ekki endilega talið að löng goshlé séu fyrirboði stórs eldgoss. Það hefur eitthvað róast yfir eldstöðinni frá því fyrir nokkrum árum þegar talið var að eldgos væri nánast yfirvofandi. Eitthvað hefur þó verið talað um að skjálftarnir í Goðabungu hafi átt sýnar skýringar í jökulhreyfingum. Það hefur lítið frést að skjálftum eða öðru í Kötlu undanfarið en það má alveg bóka þarna gos í nánustu framtíð. Þolinmæði er þó ráðlögð.

10%  Yfirvofandi eldgos við Upptyppinga eða Álftadalsdyngju er ekki eins líklegt nú og var í fyrra þegar fjöldi jarðskjálfta mældust. Á þessu ári hefur meiri ró færst yfir svæðið en þó er talið að einhver kvika geti verið þarna á ferðinni. Ef þarna gýs er helst talað um rólegheitar dyngjugos sem staðið geti lengi með þunnfljótandi hraunrennsli, en dyngjugos verða þegar kvikan kemur djúpt úr jörðu án þess að þróast í kvikuþró megineldstöðvar. Annars er óvissan mikil og erfitt að spá í framhaldið.

4%  Eyjafjallajökull var eitthvað að minna á sig í sumar með jarðskjálftum svipað og var árin 1994 og 1999 og því fær hann að vera með í þessari upptalningu. Aðeins er vitað um tvö eldgos í Eyjafjallajökli frá landnámi, bæði minniháttar, það síðara var árin 1821-1822 og kjölfar þess varð Kötlugos árið 1823. Gos í Eyfjallajökli getur auðvitað fylgt hlaup en þá skiptir máli hvar í fjallinu eldsuppkoman verður.

4%  Askja verður að fá að vera hérna með enda er Öskjukerfið eitt mesta eldstöðvakerfi landsins og í fullu fjöri. Í Öskju gaus síðast 1961, nokkur smágos urðu á þriðja áratugnum og svo stóra gjóskugosið 1875, en Öskjuvatn myndaðist í framhaldi af því.

4%  Bárðarbunga er megineldstöð sem á sér mikla gossögu en þar hefur ekki gosið í um 150 ár. Þarna getur gosið í jöklinum með tilheyrandi jökulhlaupum en einnig utan hans. Bárðarbungukerfið í heild sinni er annars mjög stórt og til þessa kerfis er hægt að rekja feiknamikil eldgos í stíl við Skaftárelda. Þjórsárhraunið sem rann alla leið í sjó fram við Stokkseyri fyrir um 8 þúsund árum er talið eitt mesta hraungos á jörðinni á nútíma. Það kom upp á langri sprungu nálægt Þórisvatni.

8% Aðrir staðir. Þrátt fyrir mikið úrval annarra eldstöðva hef ég ekki mikla trú á að nein þeirra sé líkleg til að knýja næsta gos. Það má þó alveg nefna Kverkfjöllin, Torfajökulssvæðið og jafnvel Vestmannaeyjar. Reykjanesskaginn og vestara gosbeltið er í sínum langa dvala en á sennilega eftir að vakna á næstu öldum. Snæfellsnesið er svo í enn lengri svefni. Öræfajökull hefur gosið tvisvar eftir landnám en þar er allt með kyrrum kjörum.

 - - - - - - -

Og þannig lýtur þetta þá út á kökuriti: 

Næsta eldgos

- - - - - - - - 

Hér var meðal annars notast við þessar Mbl-fréttir: Engin teikn um stórann skjálfta og Kvikuinnskot gæti vakið Kötlu og bókina Íslandseldar eftir Ara Trausta. Ljósmyndin er frá síðustu dögum Heklugossins 1991 (Ljósm.EHV)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Skemmtileg færsla - þar sem þú minnist á Kötlu, þá var að koma út ný bók um hana og meðal annars eru þar nokkrir íslenskir vísindamenn sem skrifa í hana:

The Myrdalsjokull Ice Cap, Iceland Volume 13 - Glacial Processes, Sediments and Landforms on an Active Volcano

Það vill svo skemmtilega til að það er einn sýniskafli þarna ókeypis - sjá hér, en sá kafli fjallar einmitt um eldfjöllin Kötlu og Eyjafjallajökul. Er ekki búinn að skoða greinina, en eflaust áhugaverð og spurning hvort það breytast eitthvað prósenturnar hjá þér

Höskuldur Búi Jónsson, 21.10.2009 kl. 23:59

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir Höski. Ég mun rýna í þessa grein í góðu tómi. Mér sýnist þó í niðurlaginu að enn sé verið að tala um hugmyndir Páls Einarssonar um gúlamyndun (e. cryptodome) undir Goðabungu auk hefðbundinnar kvikusöfnunnar undir Kötluöskjunni. Og ef þetta tvennt blandast saman þá geti allt farið í bál og brand:

„Furthermore, the suspected cryptodome can cause explosive volcanism if it ascends above the ground and makes a dome, which can collapse and generate pyroclastic
flows, or, if a basaltic magma intrudes into a rhyolitic cryptodome. In addition, basaltic eruptions that take place under the Mýrdalsjökull ice cap will be phreato-magmatic. This, together with a possible differentiation of the material in a shallow magma chamber, favours explosive activity, possibly reaching plinian magnitudes.
“

Annars er verst að svona fræðigreinar skuli yfirleitt bara skrifaðar á ensku með öllum þessum framandi fræðihugtöktökum. Það mætti alveg hafa okkur almenninginn líka í huga. Annars læt ég prósenturnar standa óbreyttar því ég hef trú á að Hekla eða Grímsvötn verði á undan, en útiloka þó ekki neitt.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.10.2009 kl. 09:57

3 identicon

Takk fyrir fróðleiksmolana en þetta er spennandi viðfangsefni sem ég hef pælt allnokkuð í til þessa. Vona að hann gjósi ekki fyrr en ég hef keypt mér alvöru Canon vél og mér finnst vatnajökull líklegastur en á þó alveg eins von á að Hekla, Upptyppingar eða Katla gjósi.

Við þurfum bara alvöru túristagos eða meinlitla flugeldasýningu sem kallar á heimsathygli, blaðamenn og gjaldeyri.

Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 10:52

4 identicon

Þú þarft nú ekki að biðja neinn velvirðingar á þínu bloggum um náttúruna. að mínu mati er flest ef ekki allt sem þú skrifar byggt á þekkingu og þú er greinilega víðlesinn og fjölfróður. Málefnaleg og skynsamleg skrif eru alltaf þakkarverð í þessum forarpytti, sem bloggið vill stundum verða. En hvað um það. Ég átti fyrir nokkrum árum samtal við jarðfræðing, sem sagði mér að nágrenni Kötluöskjunnar og Eyjafjallajökuls hefði eina hlið, sem vert væri að hafa í huga. Eldstöðin undir Mýrdalsjökli væri miklu yngri jarðsögulega og minna þróuð en Eyjafjallajökulseldstöðin. Undir Eyjafjallajökli mætti ætla að í kvikuþrónni hefði með tímanum orðið hlutbráðnun, sem leitt hefði til þess að þyngri og basískari efni með hærra bræðslumark hefðu fallið niður, en súrari bergtegundir flytu ofan á eins og rjómi á trogi. Ef kvikuinnskot frá Kötlueldstöðvarkerfinu kæmist það nærri þessum súra hluta kvikuþróarinnar undir Eyjafjallajökli, gæti það skapað hvellsuðu og leitt af sér gjóskuhlaup. Slík fyrirbrigði sagði hann vera einhver geigvænlegustu fyrirbrigði eldgosa. Ekki veit ég, ómenntaður maðurinn, hversu mikil líkindi eru fyrir þessu.

Bonzo (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 14:53

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir þennan viðbótarfróðleik, Bonzo. Við sem erum uppi núna höfum auðvitað ekki upplifað alvöru eldgos eins og þau geta orðið mest. Stóru eldfjöllin geta í raun verið stórhættuleg eins og þetta atriði með Kötlu sýnir. Menn virðast svo ekki alveg vita hvað er að gerast með Heklu í sambandi við þennan 10 ára fasa. Hekla og Katla geta sprungið með látum eða hrunið þó að ég þori ekki að spá einhverju svoleiðis. Það yrðu líka heilmiklir atburður og vandræði ef við fáum risa-sprungugos á Suðurlandshálendinu sem má rekja til megineldstöðvanna í Kötlu, Grímsvötnum og Bárðarbungu eins og hafa orðið hér eftir landnám.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.10.2009 kl. 16:42

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég var einmitt að hugsa um hvort ekki geti komið, án mikils fyrirvra, risa-sprungugos á suðurlandi eins og komið hafa.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.10.2009 kl. 20:22

7 identicon

Fínn og fróðlegur pistill, eins og þín er von og vísa.

En það er orðinn afskaplega pirrandi siður þegar menn kommentera á bloggfærslur, að tengja einhvernveginn yfir í IceSave og/eða Hrunið - Sama hversu óskylt efni færslunnar er!

Núna ætla ég í fyrsta og eina sinn að gera mig sekan um þetta :) Málið er, að eldfjöllin okkar hafa "brugðist" undanfarið ár. Með því á ég við, að oft þegar einhver leiðindamál eru öllum fréttatímum og umræðum að tröllríða, þó allir hafi löngu fengið upp í kok af þeim; hafa stundum Hekla eða Grímsvötn gripið í taumana ef svo má segja, og rutt leiðindavaðlinum niður í "aðra frétt".

En það er kannski enn von um að eldfjöllin fari að gera eitthvað. Að sjálfsögðu er ég ekki að vonast til að þau valdi skaða á fólki eða verðmætum, bara að þau geri eitthvað nógu "spektakúlar" til að setja bölvaðan kreppuvaðalinn í annað sætið, þó ekki yrði nema í örfáar vikur :)

Eysteinn Kristjánsson (IP-tala skráð) 22.10.2009 kl. 20:41

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þegar ég var í sveit í Skaftártungunum á 9. áratug síðustu aldar, var oft minnst á Kötlugos með mikilli lotningu og í minningunni er eins og beðið hafi verið eftir gosi þá líkt og nú. Líklega er það því rétt ályktað hjá þér að ráðleggja þolinmæði varðandi hana.

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.10.2009 kl. 20:56

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég hef líka heyrt að dr. Sigurður Þórarinsson hafi varla þorað til útlanda af ótta við að missa af yfirvofandi Kötlugosi.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.10.2009 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband