6.11.2009 | 18:01
Um Kelta, papa og brjóst
Í vikunni bárust okkur fréttir af því að með hátæknilegum aldursgreiningar-aðferðum væri hægt að sýna fram á að landnám Íslands hafi átt sér stað mun fyrr en áður hefur verið talið. Ekki er þó hægt að fullyrða hvaða fólk þetta var, hugsanlega átti landnám norrænna manna sér stað eitthvað fyrr en kemur fram á Íslendingabók Ara Fróða, eða þá að hér hafi verið fólk fyrir þegar norrænu frjálsræðishetjurnar komu hingað á flótta undan ofríki Haralds hárfagra. Keltneskt landnám fyrir landnám er stundum nefnt til sögunnar svo ekki sé talað um papana sem minnst er á í áðurnefndri Íslendingabók og víðar. Hið dularfulla og forna Ultima Thule gæti líka vel hafa átt við Ísland sem bendir um leið til þess að landið okkar hafi verið þekkt aftur í grárri forneskju.
Ef Keltar hafa hugsanlega komið hingað á undan Ingólfi Arnarsyni og félögum má alveg velta upp þeim möguleika að Landnáma og síðar Íslendingabók Ara fróða hafi verið skrifaðar til að réttlæta eignarhald Norrænna manna á landinu. Um þetta er svo sem ekkert vitað en óneitanlega er það mjög flott að geta nefnt fyrsta landnámsmanninn á nafn og vita að hann hafi einmitt tekið sér bólfestu þar sem hjarta höfuðborgarinnar er nú. En af hverju byggði hann sér ekki ból á Suðurlandi?
Í bókinni Þúsund ára sveitaþorp eftir Árna Óla, er fjallað um langa sögu Þykkvabæjar og Þjórsárholta þar sem finna má manngerða hella sem taldir eru bera vitni um byggð af keltneskum uppruna. Einnig er minnst á í bókinni að keltar hafi sett ferju á Þjórsá, Sandhólaferju, sem hafi verið getið um á landnámsöld og haldist þar í rúm 1000 ár. Árni Óla spyr í framhaldi af þessu:
Hvernig stendur á því að Þjórsárholtin byggðust eingöngu keltneskum mönnum? Komu þeir hingað í hóp á sínum eigin skipum og náðu að nema þetta land, áður en norrænir landnámsmenn sölsuðu það undir sig? Eða völdu þeir sér bústaði þarna vegna þess, að þar voru Papar fyrir? Eða var þarna þegar Keltnesk byggð, áður en landnámsmenn komu, og hún látin í friði? Það er því undarlegt, hver litlar sögur fara af Þjórsárholtum í fornöld. Var það vegna þess, að þarna byggðist önnur þjóð sem ekki var af norrænum kynstofni
Hvað þýðir orðið Papi?
Svo maður minnist aftur á Íslendingabók þá segir þar eins og frægt er: Í þann tíð var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru. Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðan á braut, af því að þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir sig írskar bjöllur ok baggla; af því mátti skilja, að þeir voru menn írskir.
Almenna skýringin á papa-örnefnum er sú að þar hafi verið byggð írskra einsetumunka eins og til dæmis í Papey og sama gildir um ýmis örnefni á Bretlandseyjum. Hinsvegar er það svo að í norrænum málum þýðir orðið pappe brjóst, speni eða geirvarta og það sama gildir um enska orðið pap sem er talið forn-norrænt að uppruna. Það eru ýmis dæmi um að fjöll eða önnur kennileiti á Norðurlöndum og Bretlandseyjum sem kenna sig við pap, séu um margt lík konubrjóstum eða geirvörtum. Eitt helsta einkenni Papeyjar eru sérstakar klettaborgir sem standa uppúr og sjást víða að og ekki ólíklegt að þær hafi verið ástæðan fyrir nafngift eyjarinnar enda er það mjög algengt að örnefni sé dregin líkamshlutum fólks eins og öxl, enni, nes (nef) og háls. Ávalar hæðir hér á landi hafa stundum verið kenndar við bringur en erlendis hefur hefur slíkt einnig verið kennt við pap. Hinsvegar er á þessum stöðum engin sérstök merki um búsetu papa en vel getur verið að sagnir um papa á þessum stöðum hafi orðið til sem eftiráskýringar þar sem merkingin getur einnig átt við klerka (Papa=faðir). Engar minjar eru til á Íslandi af borghlöðnum einsetumannakofum eins og finnast á eyjunum í kringum Skotland en slíkir kofar eru einmitt mjög pap-legir í útliti og því hefur kannski ekkert verið sjálfsagðara fyrir Norræna aðkomumenn en að kalla þá sem þar búa papa.
Um þessa nafnagiftarkenningu las ég á sínum tíma í grein sem heitir: Papar og brjóst - papaörnefni í nýju ljósi sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 22. janúar 2005. Höfundur er ekki skráður en er titlaður doktor í norrænum fræðum. Þessu til stuðning eru svo hér nokkrar myndir af pap-landslagi, en eins og sjá má minnir þetta á eitthvað. Kannski eru sagnir af írskum einsetumunkum hér á landi eitthvað orðum auknar en í þeirra stað hafi kannski búið hér venjulegt kristið fólk af keltneskum uppruna nokkru fyrir hið opinbera landnám seint á 9. öld. Allavega þurfa papaörnefni ekkert að benda til þess að þar hafi endilega búið papar.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Mér skilst að fornleifarannsóknir hafi aldrei fundið neitt sem bendir til dvöl Papa í landinu. Og svo má spyrja: Á hverju lifðu einsetumenn, örfáir, sem áttu að hafa verið hér? Þurftu þeir ekki að vera með búpening og brjóta land? Eða fór þeir bara út í næsta Bónus? Það hlýtur að hafa orðið eitthvað rask af þeim sem ætti að geta fundist í jörðu. En kannski voru þessir einsetumenn hér bara að sumri til en þeir hafa þá líka þurft að lifa á einhverju. Getgátur Árna Óla, þess mæta manns, um keltneska byggð á Íslandi sem hafi m.a. gert þessa hella á suðurlandi eru vægast sagt ekki sannfærandi. Hafi keltnesk byggð verið mikil á suðurlandi fyrir landnám norrænna manna og kannski lengi staðið ættu nú að finnast einhverjar fornleifar um hana.
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.11.2009 kl. 18:50
Brjóstakenningin er skemmtileg og óneitanlega minna þessi örnefni á þau.
Það er frekar fornt- óljóst
þeir fyrstu í landnáminu.
En prýði þykja papabrjóst
sem punt í landslaginu.
Höskuldur Búi Jónsson, 6.11.2009 kl. 20:06
Nú það er bara kveðskapur og allt! Þessi staka á örugglega eftir að lifa með þjóðinni svo lengi sem land byggist.
En ætli við verðum ekki að halda okkur við norskt landnám að minnsta kosti þar til annað kemur í ljós. Keltar eða papar hljóta að hafa gengið afar vel um landið ef þeir hafa verið hérna og skilið við það eins og þeir vildu að aðrir kæmu að því. Ég fellst alveg á að keltnesk byggði í stórum stíl er ekki líkleg. En kannski var einhver reitingur.
Emil Hannes Valgeirsson, 6.11.2009 kl. 21:10
Takk, Lára Hanna fyrir ábendinguna og Emil, barmstilgátan er skemmtileg. Og væri þá ekkert einsdæmi. Manchester merkir til dæmis Brjóstaborg.
Gunnar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 6.11.2009 kl. 22:11
þetta er skemmtileg kenning og mjög svo trúverðug...
Óskar Þorkelsson, 6.11.2009 kl. 22:46
Eitt sinn brjóstabína,
bjó með tveimur pöpum,
kóngur vildi krýna,
komnir þeir af öpum.
Þorsteinn Briem, 7.11.2009 kl. 11:35
Er ekki höfundur papa/brjóst greinarinnar í mbl. Marteinn H. Sigurðsson M.Phil. í miðaldasögu frá háskólanum í St. Andrews á Skotlandi (1996) og doktorí norrænum fræðum frá háskólanum í Cambridge á Englandi (2002). ?
En hver sem kom með kenninguna - mér finnst hún athyglisverð og jafnvel sennileg. Allaveg ber að gefa þessu gaum og huga nánar að.
Hún fellur þá inní Náttúrunafnakenningu Þórhalls Vilmundarsonar sem gengur útá það, í stuttu máli, að ísl. örnefni (flest) dragi heiti sitt af útliti landslagsins.
Voru þó nokkrar deilur á sínum tíma, því umrædd kenning varpar þá augljóslega rýrð á gildi fornra rita þar sem sagt er að hinn og þessi bærinn eða kennileitin séu kennd við hinn eða þennan landnámsmanninn eða afkomendur hans.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.11.2009 kl. 15:26
Ég þekki ekki til Marteinn H Sigurðssonar en hann er meðal annars titlaður norrænufræðingur og hefur fjallaði t.d. um Papa og Papaörnefni í Vestur Evrópu á Söguhelgi á Suðurausturlandi í Þorbergsetri. skv. þessu hér
Dæmi um nafnarugling getur líka verið nafnið Esja sem þýðir flögusteinn eða eldstæði í norænum málum, en tengt nafninu er síðan saga af keltneskri konu frá landnámsöld sem á að hafa heitið Esja og búið á Esjubergi.
Emil Hannes Valgeirsson, 7.11.2009 kl. 18:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.