Staupasteinn

Þá er að líða að lokum þessa veðursæla nóvembermánaðar og komið að hinni sívinsælu sjónvarpsnostalgíu. Staupasteinn hétu þættir sem óþarft er að kynna, eða Cheers eins og þeir hétu uppá amerísku. Þýðingin á heiti þáttana er annars ágætt dæmi um hvernig hægt er að þýða nöfn á erlendu sjónvarpsefni - eða var allavega hægt einu sinni. Hinn eini og sanni Staupasteinn er reyndar sérstæður lítill klettur í Hvalfirði sem líkist steðja í laginu eða staupi og stendur í brekku nálægt Hvammsvík.

CheersEn þá að þáttunum. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þeir fóru fyrst í loftið hér á landi en þeir voru framleiddir á árunum 1982-1993. Ég man þó að einhverjum fjölmiðlarýninum þótti ekki mikið til koma eftir sýningu fyrsta þáttarins en svona gamanþáttaseríur eru svo sem ekki hátt skrifaðar sem andlegt fóður. Þeir hefðu allavega ekki verið hátt skrifaðir hjá sálfræðingnum Dr. Fraser Crane sem var einn af fastagestum Staupasteins. Föstustu fastagestir Staupasteins voru hinsvegar tveir menn, hinn alvitri og íhuguli póstburðarmaður Cliff og orðheppni bjórþambandi endurskoðandinn Norm. Hvorugur þeirra átti við mikla lífslukku að stríða frekar en aðrir þarna á staðnum en þeir nutu sín þó hvívetna á Staupasteini og bættu hvorn annan upp.

Í sýnishorninu sem hér fylgir má sjá áðurnefndar þrjár persónur. Þetta myndbrot hefur djúpan undirtón og upp kemur spurningin: Hefur fágaður smekkur menntamannsins hamlandi áhrif á möguleika hans til að njóta þess sem er einfalt og auðskilið og er kjánaskapur eingöngu fyrir kjána sem skilja ekki hina háleitu og vitsmunalegu fegurð?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lauja

Þetta voru snilldarþættir.  Afhverju er ekki hægt að endursýna þá..... þeir standa svo sannarlega ennþá fyrir sínu.

Lauja, 2.12.2009 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband