Benny Hill

Þegar kemur að húmor hef ég mjög einfaldan smekk: því vitlausara – því fyndnara. Sá vitlausasti af öllum vitleysingum og þar með sá fyndnasti er Benny Hill eins hann og birtist í sjónvarpsþáttunum The Benny Hill Show. Vitleysan náði hæstum hæðum í þöglu, hröðu atriðunum með léttklædda kvenfólkinu. Um þau atriði þarf heldur ekkert að hafa mörg orð, enda verða þau ekki fleiri.  

Nema hvað, þetta er að sjálfsögðu sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu, eins og alltaf í lok hvers mánaðar.

 


Flosi Ólafsson, kommúnisminn og hinir mörgu fletir

Flosi Ólafsson sem nýlega kvaddi heiminn svo óvænt, lét út úr sér margt spakmælið í gegnum tíðina. Tvennt sem hann sagði einhvern tíma í viðtölum hefur mér persónulega þótt minnisstæðara en annað en í báðum tilfellum var Flosi að vitna í orð annarra. Sjálfsagt man ég þetta sem hann sagði ekki alveg orðrétt en hef vonandi skilið hugsunina. Í fyrra atriðinu var Flosi að tala um kommúnisma og hvað mörgum þótti sjálfgefið að kommúnistar væru vondir. Þá sagði Flosi og vitnaði í ömmu sína: „Kommúnistar er ekki kommúnistar vegna þess að þeir eru svo vondir, heldur vegna þessa að þeir eru svo góðir“. Þetta finnst mér að mætti hafa í huga í allri söguskoðun.
Þó ég hafi sennilega aldrei verið almennilegur kommúnisti, hafði ég oft samúð með kommúnismanum og varði hann stundum á meðan hann var sem mest fordæmdur og í dag hef ég jafnvel samúð með föllnum útrásarvíkingum. Svo hef líka oft bjargað flugum úr lífsháska.
En þá er það hitt spakmælið frá Flosa. Þar vitnaði hann að mig minnir í lögreglumann, sem sagði eitthvað á þá leið að það eru ýmsar hliðar á hverju máli og á hverri hlið eru oft margir fletir. Þetta mættu menn líka  hafa í huga í umræðunni.

Nýjar myndir úr miðbænum - Breski herinn er mættur!

Maður heyrir það gjarnan þessa dagana að fólk sé búið að fá leið á þessu ICESAVE máli og öllum þeim skotgrafarhernaði sem viðgengst í umræðunni um það mál. Að vísu hefur ICESAVE málið aldrei verið hugsað sem eitthvert afþreyingarefni fólki til skemmtunar sem er hægt að fá leið á. En nú er runninn upp tími ákvarðanna og þolinmæði Breta og Hollendinga senn á þrotum, því auðvitað vilja þeir sjá til þess að við berum þá ábyrgð sem okkur ber, á þeim fjármunum sem við fluttum hingað til lands á kostnað grandvaralausra ICESAVE reikningshafa.
Það kom mér því ekkert sérstaklega á óvart þegar ég átti leið um bæinn í dag, að sjá innheimtuaðgerðir í undirbúningi þar sem erlent herlið er búið að hreiðra um sig á hernaðarlega mikilvægum stöðum í miðbænum. Því til staðfestingar koma hér nokkrar myndir:

Her Grjótaþorp

Þessi mynd er úr Grjótaþorpinu, en þar sá ég þessa vígalegu hermenn í skriðdreka á spjalli við liðsforingja sinn. Allt var þó með kyrrum kjörum enda hafði útgöngubanni verið komið á í hverfinu.
- - - - - 

Her Austurvöllur

Fyrir utan Dómkirkjuna mátti sjá harðsnúinn flokk Breskra og Hollenskra sérsveitarmanna. Þeir kváðust nýkomnir frá Afganistan þar sem þeir eltust við meinta hryðjuverkamenn. Liðsmenn Indefence-samtakanna hafa tekið sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið.
- - - - - -

Prins

Þennan dáta hitti ég svo niðri við pulsuvagn. Ég tók hann tali og kvaðst hann vera prins og þótti pylsan góð. Ekki virtist hann vera með á hreinu í hvaða erindagjörðum hann var sendur hingað, en var að hugsa um að skella sér á öldurhús um kvöldið ásamt félögum sínum.

- - - - - -
Í framhaldi af þessu skulum við vona að þetta verði gott og vinsamlegt stríð og umfram allt - laust við skotgrafarhernað. Það mun þó ekki viðra nema svona rétt sæmilega til loftárása á næstunni.


Hvar verður næsta eldgos á Íslandi?

Nú eru liðin næstum 5 ár síðan síðast kom upp eldgos á Íslandi en það var í Grímsvötnum 1. nóvember 2004. Þó að þetta sé ekkert sérstaklega langt goshlé, gætu örugglega margir vel hugsað sér dálítið eldgos svona til að hrista upp í tilverunni á þessum síðustu og verstu tímum. Og nú ætla ég að spá í eldgos, eins og ég gerði hér á blogginu fyrir ári síðan og líka árið þar áður. Þetta er nefnilega ein af þessum árlegu uppfæranlegu bloggfærslum mínum sem svo þægilegt er að eiga.

Ég get ekki sagt fyrir um hvenær næsta eldgos verður en hinsvegar ætla ég að leggja mitt mat á það hvar næsta eldgos verður. Þetta er sett fram án allrar ábyrgðar enda er ég ekki jarðfræðingur og því síður bý ég yfir yfirnáttúrulegum spádómshæfileikum, ég er bara einn einn af þessum bloggurum sem halda að þeir hafi vit á hlutunum. En upplýsingar og fróðleik hef ég úr ýmsum fréttum og öðrum heimildum sem ég hef séð. Að þessu sögðu kemur hér mitt mat í prósentum á því hvar næsta eldgos verður á Íslandi. Þau líklegust eru nefnd fyrst.

Hekla 1991

37% Síðustu áratugi hefur HEKLA gosið á nánast 10 ára fresti eða árin 1970, 1980, 1991 og 2000 (auk smáskvettu árið 1981). Þessi reglulega goshegðun hlýtur að vera einstök meðal eldfjalla og ef hún heldur þessu áfram ætti að bresta á með Heklugosi á næsta ári eða snemma á því þarnæsta. Gosið 1991 varð um miðjan janúar þannig að ekki skeikaði miklu á áratugareglunni. Talið er að Hekla sé núna nánast tilbúin fyrir gos og gæti hún samkvæmt því alveg eins gosið á morgun enda gera gosin nánast engin boð á undan sér. Annars er það þannig með náttúruna að þegar við sjáum einhverja reglu í henni þá á hún það til að skipta um ham og því ekki alveg ráðlegt að stóla á þessa 10 ára reglu en í gegnum tíðina hafa Heklugos átt sér stað einu sinni til tvisvar á öld.

20%  Virkasta eldstöðin á Íslandi eru Grímsvötn. Hugmyndir eru uppi um að eldvirkni þar er sé að einhverju leiti lotubundin nokkra áratugi í senn og í takt við það er nú meiri virkni í Grímsvötnum og nágrenni en á seinni hluta 20. aldar. Ef gosið á sér stað undir vötnunum sjálfum eins og algengast er veldur það ekki jökulbráðnun og hlaupi. Ef hinsvegar gýs utan vatnanna undir jöklinum veldur það hlaupi eins og átti sér stað í Gjálpargosinu 1996. Það má síðan minna á að Skaftáreldar áttu upptök sín úr megineldstöðinni við Grímsvötn án þess að ég sé nokkuð að boða slíka atburði.

13%  Það hefur lengi verið beðið eftir Kötlugosi enda liðið 91 ár frá síðasta gosi sem er eitt lengsta goshlé í Kötlu eftir landnám. Gosið 1918 flokkast sem stórt Kötlugos en stærð gossins þá er nú talin ein ástæðan fyrir þessari löngu hvíld. Hinsvegar er ekki endilega talið að löng goshlé séu fyrirboði stórs eldgoss. Það hefur eitthvað róast yfir eldstöðinni frá því fyrir nokkrum árum þegar talið var að eldgos væri nánast yfirvofandi. Eitthvað hefur þó verið talað um að skjálftarnir í Goðabungu hafi átt sýnar skýringar í jökulhreyfingum. Það hefur lítið frést að skjálftum eða öðru í Kötlu undanfarið en það má alveg bóka þarna gos í nánustu framtíð. Þolinmæði er þó ráðlögð.

10%  Yfirvofandi eldgos við Upptyppinga eða Álftadalsdyngju er ekki eins líklegt nú og var í fyrra þegar fjöldi jarðskjálfta mældust. Á þessu ári hefur meiri ró færst yfir svæðið en þó er talið að einhver kvika geti verið þarna á ferðinni. Ef þarna gýs er helst talað um rólegheitar dyngjugos sem staðið geti lengi með þunnfljótandi hraunrennsli, en dyngjugos verða þegar kvikan kemur djúpt úr jörðu án þess að þróast í kvikuþró megineldstöðvar. Annars er óvissan mikil og erfitt að spá í framhaldið.

4%  Eyjafjallajökull var eitthvað að minna á sig í sumar með jarðskjálftum svipað og var árin 1994 og 1999 og því fær hann að vera með í þessari upptalningu. Aðeins er vitað um tvö eldgos í Eyjafjallajökli frá landnámi, bæði minniháttar, það síðara var árin 1821-1822 og kjölfar þess varð Kötlugos árið 1823. Gos í Eyfjallajökli getur auðvitað fylgt hlaup en þá skiptir máli hvar í fjallinu eldsuppkoman verður.

4%  Askja verður að fá að vera hérna með enda er Öskjukerfið eitt mesta eldstöðvakerfi landsins og í fullu fjöri. Í Öskju gaus síðast 1961, nokkur smágos urðu á þriðja áratugnum og svo stóra gjóskugosið 1875, en Öskjuvatn myndaðist í framhaldi af því.

4%  Bárðarbunga er megineldstöð sem á sér mikla gossögu en þar hefur ekki gosið í um 150 ár. Þarna getur gosið í jöklinum með tilheyrandi jökulhlaupum en einnig utan hans. Bárðarbungukerfið í heild sinni er annars mjög stórt og til þessa kerfis er hægt að rekja feiknamikil eldgos í stíl við Skaftárelda. Þjórsárhraunið sem rann alla leið í sjó fram við Stokkseyri fyrir um 8 þúsund árum er talið eitt mesta hraungos á jörðinni á nútíma. Það kom upp á langri sprungu nálægt Þórisvatni.

8% Aðrir staðir. Þrátt fyrir mikið úrval annarra eldstöðva hef ég ekki mikla trú á að nein þeirra sé líkleg til að knýja næsta gos. Það má þó alveg nefna Kverkfjöllin, Torfajökulssvæðið og jafnvel Vestmannaeyjar. Reykjanesskaginn og vestara gosbeltið er í sínum langa dvala en á sennilega eftir að vakna á næstu öldum. Snæfellsnesið er svo í enn lengri svefni. Öræfajökull hefur gosið tvisvar eftir landnám en þar er allt með kyrrum kjörum.

 - - - - - - -

Og þannig lýtur þetta þá út á kökuriti: 

Næsta eldgos

- - - - - - - - 

Hér var meðal annars notast við þessar Mbl-fréttir: Engin teikn um stórann skjálfta og Kvikuinnskot gæti vakið Kötlu og bókina Íslandseldar eftir Ara Trausta. Ljósmyndin er frá síðustu dögum Heklugossins 1991 (Ljósm.EHV)


Nokkur súlurit yfir hitaþróun á Íslandi

Það þarf enginn að efast um það að síðustu ár hafa verið afar hlý hér á landi. Hinsvegar má velta ýmsu fyrir sér hvað sé hér á ferðinni. Eru þetta meiri hlýindi en voru þegar heitast var á síðustu öld? Er hlýnunin sú sama um allt land eða eru borgaráhrif að magna upp hitann hér í Reykjavík? Er þetta hluti af hnattrænni hlýnun sem er komin til að vera? Munu hlýindin aukast eða kannski ganga til baka?

Ég veit auðvitað ekki hvað mun gerast í framtíðinni. Aftur á móti er hægt að rýna í það sem gerst hefur, en það er það sem ég er búinn að gera með því að liggja yfir meðaltalstölum, stunda útreikninga af kappi og teikna súlurit.

Myndirnar sýna hvernig hitinn hefur þróast á landinu á 5 mismunandi stöðum hver í sínum landshluta samkvæmt tölum sem ég nálgaðist á Veðurstofuvefnum. Lengstu hitaraðir aftur í tímann eru frá Reykjavík, Stykkishólmi og Teigarhorni á Austfjörðum en ég sýni þær aftur til ársins 1901. Að auki er ég með Hæl í Hreppum á Suðurlandi og Akureyri, en þær hitaraðir er aðeins hægt að nálgast aftur til ársins 1931. Ég sýni hitaþróunina sem súlurit þar sem hver súla táknar einn áratug, en með áratug á ég við þá tíu áratugi sem öldin skiptist í. Af fyrsta áratug þessarar aldar eru bara liðin 8 heil ár en það eru einmitt árin sem hafa verið svo hlý. Hægra megin eru svo tvær súlur þar sem ég ber saman meðalhita síðustu 10 ára (1999-2008) og hlýjasta 10 ára tímabilið á síðustu öld (1932-1941), plús talan þar fyrir ofan sýnir hlýnun milli þessara tveggja tímabila.

Hér er svo afraksturinn (undir myndunum koma svo stuttaralegar niðurstöður):


C° Reykjavík 1901-2008

 

C° Stykkishólmur 1901-2008

 

C° Teigarhorn 1901-2008

 

C° Akureyri 1931-2008

 

C° Hæll 1931-2008

 

Stuttaralegar niðurstöður:

Greinilegt er að sama hitaþróun hefur verið um allt land. Áratugirnir þrír frá 1931-1960 voru talsvert hlýrri en næstu þrír þar á eftir 1960-1990, eins og reyndar er vel þekkt. Kólnunin sjálf átti sér þó stað eftir 1965. Fjórði áratugurinn 1931-40 var yfirleitt sá hlýjasti á síðustu öld nema á Teigarhorni þar sem sjötti áratugurinn 1951-60 var örlítið hlýrri. Síðasti áratugur 20. aldar 1991-2000 var miðlungshlýr og heldur hlýrri en sá þriðji 1921-30.

Það sem af er þessum áratug er hitinn allstaðar nálægt 0,4 gráðum fyrir ofan hlýjasta áratug síðustu aldar. Í Reykjavík er munurinn 0,45 gráður þannig að ef um einhverja auka borgarhlýnun er að ræða er hún samkvæmt þessu ekki nema um 0,05 gráður sem er eiginlega innan skekkjumarka, en veðurathuganir hafa ekki verið gerðar á sama stað í Reykjavík á tímabilinu.

Miklu minni hitamunur fæst með því að bera saman 10 síðustu ár 1999-2008 og hlýjasta tímabil 20. aldar sem mér reiknast til að hafi verið á árunum 1932-1941 og er munurinn þarna mjög svipaður milli staða. Síðustu tvö ár 20. aldar voru enda ekkert sérstaklega hlý og því er talsverður munur á meðalhita síðustu 10 og 8 ára. 

Hitinn síðustu 8 ár á sér ekki hliðstæðu því ekki er hægt að finna sambærilegt 8 ára tímabil á síðustu öld með því að rýna í tölur. Öll árin hafa verið hlý en mestu munar um árið 2003 sem er að meðaltali það hlýjasta sem mælst hefur á landinu. Næsthlýjustu ár þar á eftir eru sennilega 1933 og 1939 en þrátt fyrir mörg hlý ár á 4. 5. og 6. áratugnum komu alltaf nokkuð svöl ár inn á milli ólíkt því sem hefur verið á okkar tímum.

- - - -

Spurningin um hvort þessi núverandi hlýindi munu halda áfram er auðvitað mjög heit. Það er freistandi að segja að við séum á einhverskonar náttúrulegu hlýindaskeiði svipuðu því sem var 1930-60 og eigum enn eftir um tuttugu ár þangað til náttúrulegt kólnunarskeið taki við, svipað og var árin 1960-1990, en vitað er að náttúrulegar áratugasveiflur eiga sér stað í hafinu. Það er líka freistandi að segja að þetta hlýindaskeið stefni í að verða eitthvað hlýrra en það síðasta vegna hnattrænnar hlýnunar.

Annars er það að frétta, að það sem liðið er af þessu ári 2009 í Reykjavík, virðist hitinn ætla að stefna í eitthvað svipað og síðustu ár, kannski mun ég skoða það betur eftir næstu mánaðarmót. Einnig er tilvalið og sjálfsagt að uppfæra allar þessar tölur eftir áramót þegar uppgjör ársins liggja fyrir. 

(Að sjálfsögðu geta leynst einhverjar villur í þessum útreikningum, vonandi eru þær þó sem allra smávægilegastar)

 


Vatnatilgátan um uppruna mannsins

Á dögunum fengum við fréttir af því að fundist höfðu í Eþíópíu steingerð bein af 4,4 milljón ára frummanni sem gekk uppréttur og gæti því verið einn af forfeðrum nútímamannsins. Þetta eru ein allra elstu steingerðu bein frummanns sem fundist hafa, um milljón árum eldri en hin fræga Lucy-beinagrind sem fannst árið 1974 sem þýðir að hér er komið langt aftur að þeim tíma þegar forfeður mannsins skildu við okkar nánustu ættingja, simpansa og górillur sem á að hafa gerst fyrir um 5-8 milljón árum.
Þegar ég heyri af svona beinafundum verður mér hugsað til „hinnar kenningarinnar“ um uppruna mannsins sem er minna viðurkennd og er eiginlega bara nefnd sem tilgáta. Þetta er hin svokallaða vatnatilgáta um uppruna mannsins (the aquatic ape hypothesis) sem gengur út á að forfeður okkar hafi upphaflega skilið sig frá öðrum öpum og lifað einhverskonar vatnalífi og öðlast þannig marga þá eiginleika sem einkenna okkur sem dýrategund. Ekki er þó verið að tala um að frummaðurinn hafi þróast í að vera beinlínis sjávar eða vatnadýr, heldur hafi líf í vatni verið stór þáttur í tilverunni, jafnvel um milljóna ára skeið.

vatnaapi

Mynd úr bók Davids Attenborough: The Life of Mammals

Hin viðurkennda kenning um uppruna mannsins gerir ráð fyrir því að vegna minnkandi skóglendis í Afríku hafi forfeður okkar neyðst til að taka upp gresjulifnað og fljótlega tekið upp á því að ganga á tveimur fótum sem er að mörgu leyti hentugt. Hinsvegar er með vatnatilgátunni tekið með í reikninginn að votlendi eða jafnvel innhaf gæti hafa myndast í Afar-svæðinu í Eþíópíu, þar sem áðurnefnd Lucy fannst ásamt hinum nýfundna frummanni, en sjávarborð í heiminum var fyrir um 7 milljón árum hærra en það er í dag. Það eru þó aðallega hin ýmsu líkamlegu einkenni nútímamannsins sem urðu til þess að hugmyndir um vatnaapann komu fram á sjónarsviðið á síðustu öld.

Þau atriði sem helst eru nefnd til stuðning vatnatilgátunni eru þessi:

  1. Uppréttur gangur, sem vel getur hafa þróast þegar vaðað er í vatni.
  2. Hárleysi að mestu, nema á höfði
  3. Meira fitulag undir húð en á öpum. Þetta á ekki síst við um smábörn.
  4. Nef og nasir manna eru til þess fallin að hindra innstreymi vatns.
  5. Stærri heili getur hafa myndast vegna aukinnar neyslu sjávarfangs. (Fiskát gerir okkur gáfuð)
  6. Við höfum góða stjórn á öndun og getum auðveldlega kafað í vatni.
  7. Ungabörn geta synt í vatni og jafnvel fæðst í vatni.
  8. Vísir af sundfitum eru á milli fingranna, en ekki á þeim öpum sem eru okkur skyldastir.
  9. Sviti og sölt tár. Svona saltlosun er sjaldgæf meðal dýra sem lifa alfarið á landi.
  10. Talmál gæti hafa þróast sem samskiptamál í vatni þegar sem höfuðið stendur eitt uppúr.

VatnabarnFleiri atriði hafa verið týnd til, þessari kenningu til stuðnings. Ekkert þessara atriða sannar þó beinlínis vatnatilgátuna og mörg atriðin hafa verið skýrð með öðrum hætti en með vatnalífi. Það sem helst vantar uppá til að ljá kenningunni brautargengi eru þó steingervingar frá réttum stöðum og á réttum aldri. Týndi hlekkurinn milli tvífætts manns og fjórfætts apa er ennþá ófundinn, en eftir því sem eldri steingerð bein af tvífættum frumönnum finnast, því hraðar hlýtur sú þróun hafa orðið á sínum tíma. Ég ætla mér sjálfur ekki mikið að fullyrða hversu mikið er til í þessari vatnatilgátu, en hún er alltaf jafn forvitnileg og allavega nógu óvenjuleg til að skýra tilkomu þessa óvenjulega furðudýrs sem maðurinn er.

Árið 1960 birtist grein um þessa kenningu eftir sjávarlíffræðinginn Sir Alister Hardy í New Scientist sem vakti nokkra athygli án þess að hljóta almennilegan hljómgrunn meðal vísindamanna. Í frægri bók eftir Desmond Morris, Nakti apinn, var svo þessi hugmynd um vatnaapann tekin upp auk þess hefur Sir Richard Attenborough einnig gefið þessari tilgátu tækifæri. Aðaltalsmaður tilgátunnar í gegnum tíðina hefur verið rithöfundurinn Elaine Morgan en hún hefur gefið út allnokkrar bækur um efnið. Vatnatilgátan virðast þó enn í dag vera hálfgerð utanveltutilgáta sem vísindasamfélagið tekur hæfilega alvarlega.

- - - -
Helstu heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Aquatic_ape_hypothesis
http://www.primitivism.com/aquatic-ape.htm


Veðurfréttatími endurvakinn á Rás1

Fyrir um mánuði síðan kvartaði ég yfir því að ekki væri lengur útvarpað veðurfréttum fyrir kvöldfréttir útvarps eins og var gert hér áður fyrr. Þá var ég að tala um veðurfréttir frá Veðurstofu íslands með veðurlýsingu frá ýmsum stöðum frá því klukkan 18, ásamt upplýsingum um hámarkshita og úrkomu ásamt veðurspá fyrir einstaka spásvæði. Ég er reyndar ekki vanur því að kvarta yfir nokkrum sköpuðum hlut hér á blogginu enda er það ekki tilgangurinn. En viti menn! Nokkrum vikum síðar, eða þann 28. september, gerðist það eftir margra ára hlé, að þessi veðurfréttatími var endurvakinn á Rás1, alla daga klukkan 18.50 á eftir Spegilsþættinum. Að vísu virðist eitthvað á reiki hvort lesa eigi veðurlýsingu frá einstökum stöðum, en núna allra síðustu daga hefur því verið sleppt, kannski vegna tímaskorts en tíminn sem þessum veðurfregnum er úthlutað er mjög knappur. En allavega þá er fengur í því að fá upplýsingar um hámarkshita og úrkomu í Reykjavík og á landinu, auk veðurspárinnar. 

Spurningin sem hlýtur að vakna er sú, hvort það sem ég skrifaði um daginn (sjá hér) hafi haft þessi áhrif eða ekki. Kannski var þetta ákveðið fyrir löngu síðan. Freistandi er þó að standa í þeirri trú að Ríkisútvarpið og/eða Veðurstofan hafi séð að sér og snúið frá villu síns vegar eftir að hafa lesið pistilinn minn. Ef svo er ætti maður kannski að gera meira af því að kvarta og kveina til að beina þjóðfélaginu í rétta átt svo allt endi ekki í tómu tjóni. Þess vegna vil ég nefna það hér og nú og leggja það til, að við samþykkjum ICESAVE, hættum að byggja fleiri álver, hættum við að sækja um ESB og notum alltaf stefnuljós á hringtorgum!


Snjódagar í Reykjavík

Nú þegar veturinn er skollinn á og allra vetrarveðra er von, ætla ég aðbirta hér snjómyndina miklu sem sýnir hvenær jörð hefur verið hvít íReykjavík alla daga aftur til vetrarins 1986-87. Þessa mynd hef ég birtí upphafi síðustu vetra og uppfært í vetrarlok. Allt er þetta unnið útfrá mínum eigin skráningum enviðmiðunin er hvít jörð á miðnætti sem getur ýmist verið nýfallin snjóföl eða flekkótt jörð af gömlum sköflum. Hver lárétt lína táknar einn vetur. Annars á myndin að skýra sig sjálf.

snjór 86-09

Það má ýmislegt sjá út úr svona mynd. Fyrstu snjódagar vetrarins eru gjarnan seinni partinn í október og stundum ekki fyrr en í nóvember. Dæmi eru síðan um vetur sem eru alauðir að mestu fram yfir áramót (1987-'88 og 2002-'03). Í fyrra snjóaði strax þann 2. október og lifði sá snjór næstu tvo daga enda var þá mjög kalt í veðri svipað og nú. Snemmkominn snjór segir þó lítið um veturinn sem á eftir kemur.

Tölurnar til hægri sýna fjölda snjódaga. Flestir voru þeir veturinn 1994-'95 en það var nú eiginlega síðasti virkilega harði veturinn sem hefur komið á landinu. Lengsti samfelldi snjókaflinn í Reykjavík á þessu tímabili eru 96 dagar frá janúar til apríl 1989 þegar mikið fannfergi gerði nokkrum sinnum í Reykjavík með tilheyrandi vandræðum fyrir fótgangandi og akandi enda þrálátir snjóruðningar meðfram flestum götum. Sá allra snjóléttasti síðastliðin ár er veturinn2002-'03 með aðeins 32 snjódaga. Sá vetur var líka einstaklega hlýrá öllu landinu og varla hægt að kalla hann vetur. Síðustu tveir vetur hafa hinsvegar staðið nokkurn vegin undir nafni þótt þeir hafi ekki verið mjög kaldir. Báðir voru þeir með 74 hvíta daga en meðaltalið fyrir tímabilið eru 78 dagar.

- - - - -

Viðbót. Fyrsti snjór vetrarins féll í Reykjavík mánudagskvöldið 5. október. Annað árið í röð nær því jörð að verða hvít um miðnætti fyrstu vikuna í október.

 


Það snjóaði 2. október í fyrra

Veturinn virðist ætla að skella á okkur með fullum þunga núna í októberbyrjun. Þetta er ekki ósvipað og gerðist í fyrra þegar algert hrun varð í hitafari landsins með tilheyrandi snjókomu og ófærð á vegum víða um land. Að kvöldi fimmtudagsins 2. október í fyrra, snjóaði á götum Reykjavíkur þannig að talsverð hálka myndaðist, ökumönnum á sumardekkjum til mikillar hrellingar. Þetta var mjög óvenjulegt og þurfti að fara áratugi aftur í tímann til að finna annað eins, en venjulega gerir fyrstu snjókomur í Reykjavík í lok mánaðarins eða jafnvel í nóvember. (Nánar um það í næstu færslu).

Nú verður bara að koma í ljós hvort eitthvað svipað endurtaki sig, en hvort sem það snjóar eða ekki er ljóst að það verða ekkert nema kuldar á landinu á næstu dögum. Harðindaveturinn mikli ætlar að fara vel af stað.

Frétt mbl.is 2. október 2008:

2.október2008-2


mbl.is Víða hálka á vegum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband