Staupasteinn

Þá er að líða að lokum þessa veðursæla nóvembermánaðar og komið að hinni sívinsælu sjónvarpsnostalgíu. Staupasteinn hétu þættir sem óþarft er að kynna, eða Cheers eins og þeir hétu uppá amerísku. Þýðingin á heiti þáttana er annars ágætt dæmi um hvernig hægt er að þýða nöfn á erlendu sjónvarpsefni - eða var allavega hægt einu sinni. Hinn eini og sanni Staupasteinn er reyndar sérstæður lítill klettur í Hvalfirði sem líkist steðja í laginu eða staupi og stendur í brekku nálægt Hvammsvík.

CheersEn þá að þáttunum. Ég man ekki nákvæmlega hvenær þeir fóru fyrst í loftið hér á landi en þeir voru framleiddir á árunum 1982-1993. Ég man þó að einhverjum fjölmiðlarýninum þótti ekki mikið til koma eftir sýningu fyrsta þáttarins en svona gamanþáttaseríur eru svo sem ekki hátt skrifaðar sem andlegt fóður. Þeir hefðu allavega ekki verið hátt skrifaðir hjá sálfræðingnum Dr. Fraser Crane sem var einn af fastagestum Staupasteins. Föstustu fastagestir Staupasteins voru hinsvegar tveir menn, hinn alvitri og íhuguli póstburðarmaður Cliff og orðheppni bjórþambandi endurskoðandinn Norm. Hvorugur þeirra átti við mikla lífslukku að stríða frekar en aðrir þarna á staðnum en þeir nutu sín þó hvívetna á Staupasteini og bættu hvorn annan upp.

Í sýnishorninu sem hér fylgir má sjá áðurnefndar þrjár persónur. Þetta myndbrot hefur djúpan undirtón og upp kemur spurningin: Hefur fágaður smekkur menntamannsins hamlandi áhrif á möguleika hans til að njóta þess sem er einfalt og auðskilið og er kjánaskapur eingöngu fyrir kjána sem skilja ekki hina háleitu og vitsmunalegu fegurð?

 


80 ára gömul veðurtíðindi utan úr Evrópu

Nú hefur borist inn á heimili mitt heill innbundinn árgangur ársins 1929 af vikuritinu Fálkanum sem var gefið út allt til ársins 1966. Ég er búinn að fletta í gegnum öll blöðin en þar kennir ýmissa grasa. Auk ýmiss afþreyingarefnis og skrautlegra auglýsinga má finna í blöðunum allskonar fréttir, eins og af kóngafólki og framandi villimönnum, nýjustu framfarir í samgöngum eru tíundaðar, risastórir flugbátar og loftskip keppa um farþegana yfir Atlantshafið, háhýsi þjóta upp í Ameríku sem aldrei fyrr og í Reykjavík á að fara að reisa Þjóðleikhús, sundhöll og glæsihótel við Austurvöll. Þetta var góðæri, 10 ár liðin frá stríðinu mikla, og stórveldin voru að hefja vígbúnað ný með smíðum á ósigrandi herskipum. Flest virtist í lukkunnar velstandi og engin ástæða til að örvænta þótt einhverjir hafi farið flatt á fjármálahruni á Wall Street seint á árinu.

FIMBULVETUR Í EVRÓPU

Það sem helst var kvartað yfir á árinu 1929 voru vetrarhörkur í Evrópu og þær svo miklar að elstu menn mundu vart annað eins, eins og gjarnan er sagt. Forsíða Fálkans frá 9. mars var lögð undir þessi ósköp en þar má sjá skip á siglingu í gegnum þéttan hafís á dönsku sundunum.

Þetta var á sama tíma og einmuna vetrarhlýindi ríktu hér Íslandi og til marks um það þá hefur engin marsmánuður verið hlýrri í Reykjavík en einmitt þessi árið 1929 þegar meðalhitinn mældist 5,9 stig. Aðeins einu sinni er vitað til þess að meðalhitinn í Reykjavík í mars hafi farið yfir 5 stig en það var árið 1964 þegar hann var 5,7 stig.

- - - - - -
Fálkinn Fimbulvetur
Texti fréttarinnar er á þessa leið:

Í heilan mánuð hefir Ísland verið hlýjasta landið í norðanverðri Evrópu. Snjór hefir varla sjest sunnanlands og venjulega hiti um alt land á hverjum degi. En utan úr heimi berast nær daglega frjettir um meiri frosthörkur og bylji, en elstu menn muna. Suður í Grikklandi og Rúmeníu hefir fjöldi manns frosið í hel, sömuleiðis í Póllandi og Þýskalandi, og í Frakklandi og Spáni eru úlfar orðnir svo ágengir vegna harðindanna, að landplága er að. Samgöngur hafa víða tepst og matvælaflutningar til sumra stórborga rjenað svo, að þurð varð og varan stórhækkað í verði, svo að setja varð á hana hámarksverð. – Í Danmörku hafa kuldarnir verið svo miklir, að siglingar um sundin hafa verið háðar hinum mestu örðugleikum. Skipin urðu föst í ísnum og ísbrjótarnir dönsku gátu ekki losað sum þeirra. Eimferjurnar sem flytja járnbrautir yfir Stórabelti voru undir sömu sökina seldar, þær sátu fastar á miðri leið og urðu farþegarnir að yfirgefa þær og ganga á ís til lands. Voru allar samgöngur yfir sundið teptar í þrjá daga og varð þá að flytja allan póst með flugvjelum. Frá Kaupmannahöfn hefir verið reynt að halda opinni leið norður og suður; er skipunum safnað í hópa og ísbrjótur látinn ryðja þeim braut gegnum ísinn. Er myndin hér að ofan frá slíku ferðalagi.
- - - -
Þannig var það nú í den. Þessi misskipting á hita á milli Ísland og Evrópu er svo sem ekkert einsdæmi, en þarna árið 1929 hafa öfgarnar þó verið meira lagi. Væntanlega hefur öflugt hæðarsvæði yfir Bretlandseyjum beint suðlægum vindum til Íslands og fimbulkalt heimskautaloftið streymt suður til Evrópu. Þetta er þá eiginlega alveg öfugt ástand miðað við það sem við búum við þessi dægrin. En það getur hæglega breyst.

Veðurfræði í teiknimyndasögum

Á þessu ári er haldið upp á stórafmæli tveggja teiknimyndasöguhetja, hins áttræða unglings Tinna og hins fimmtuga Ástríks gallvaska. Það er því algerlega við hæfi að heiðra þá félaga og teiknimyndasögurnar sem maður ólst upp með, með þessum lauflétta pistli þar sem veðrið kemur að sjálfsögðu við sögu.

Ástríkur1

Það getur vissulega verið leiðinlegt að fá heimsóknir óskemmtilegra manna, ekki síst þegar menn eru  langþreyttir á sólarleysi og sífelldu landsynnings- slagviðri, eins og segir í upphafi bókarinnar Ástríkur skylmingakappi. Þegar myndin er teiknuð hefur suðaustan landsynningurinn þó greinilega gengið niður í bili og komið hið besta veður með sólskini, bólstraskýin benda þó til þess að loftið sé óstöðugt og kalt loft í háloftunum. Slíkt er ekkert óalgengt eftir landsynningsslagviðri, ekki síst þegar í kjölfarið fylgir suðvestan- útsynningur með skúraleiðingum.

Nokkrum blaðsíðum síðar erum við komin út í skóg og fylgjumst með þjóð- skáldinu Óðríki Algaula þar sem hann dásamar hinn tólf vindstiga innblástur sem þarna er að finna, algerlega grunlaus um hættuna sem að baki leynist. Gömlu vindstigin hafa nú vikið fyrir metrum á sekúndum þannig að í dag væri talað um innblástur upp á 33 metra á sekúndu, sem jafngildir fárviðri.

Ástríkur2Ástríkur3

Til að verjast söng skáldsins höfðu hermenn rómverska heimsveldisins komið sér upp eyrnatöppum úr fíflalaufum. Þó að aðgerðin hafi heppnast varð árásin ekki eins fjölmenn og til stóð. Tilgangur þessarar árásar var annars sá að fanga eitt eintak af hinum ósigrandi Gaulverjum sem Hnýsíus Glápíkus ætlaði að færa Júlíusi Sesari að gjöf. Bókin fjallaði svo í framhaldinu um frækilegan björgunar-leiðangur Ástríks og Steinríks til Rómar.

- - - - -

Þá eru það Ævintýri Tinna. Í bókinni Svarta gullið þurfti hann kljást við vafasama olíubraskara í miðausturlöndum. Hvassviðri og sandbylur í skrælþurri eyðimörkunni er ekkert grín og því fengu Tinni og Tobbi aldeilis að kynnast. Sem betur fer eru Skaftarnir aldrei langt undan en þeir voru einnig rammvilltir í eyðimörkinni. Að draga réttar ályktanir af hlutunum er ekki helsti styrkur þessara háleynilegu rannsóknarlögreglumanna.
Tinni5
Tinni2

Í sömu bók leiðir atburðarásin söguhetjurnar um borð í olíuskip. Enn sem fyrr kemur veðrið við sögu. „Kvess vegna kvessir?“ spyr skipverjinn. Það skal þó tekið fram að hann hafði fengið höfuðhögg, annars hefði hann kannski áttað sig á að vindur magnast upp vegna þrýstingsmunar og að loft streymir frá hærri þrýstingi í átt að lægri þrýstingi.

En þá að lokum að bókinni Sjö kraftmiklar kristals- kúlur sem gerist á heimaslóðum söguhetjanna. Á einum stað í bókinni fá þeir Tinni og Kolbeinn að kenna á óstöðugleika veðráttunnar þar sem þeir eru á ferðinni á opnum blæjubíl kafteinsins. Skin og skúrir er veðurlag sem fleiri þekkja en við íslendingar. Regnboginn er algengur fylgifiskur slíks veðurs en þá brotnar ljósið upp í vatnsdropunum og regnboginn verður sýnilegur í gagnstæðri átt við sól. Regnboginn rís hærra eftir því sem sólin er lægra á lofti.

Tinni3

- - - - - 

Í fréttinni sem hér fylgir er rædd við Úlfhildi Dagsdóttur um afmæli þessara teiknamyndasagna en þó aðallega um Ástríksbækurnar:


mbl.is Íslenskar myndasögur dýrmætar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt mál - heimsyfirráð eða dauði!

Nú er íslenskudagurinn og þá skal spáð í íslenskuna. Spáðu í mig, söng Megas á sínum tíma eins og frægt er og fyrir löngu orðið klassískt. Hversu sjálfsagt er það annars að syngja á íslensku? Hefði þessi söngur orðið eins sígildur ef hann hefði verið fluttur á ensku Think of me, then I will think of you? Hvað með Braggablús Magnúsar Eiríkssonar (Barrack blues) eða Stál og hníf Bubba Mortheins, (Steele and knive)?

Vinsælasta lagið á Rás2 um þessar mundir heitir Stay by You og er flutt af íslenskri hljómsveit sem heitir Hjaltalín. Þetta er svo sem ágætislag með ágætishljómsveit. Nafnið Hjaltalín minnir á þá tíma þegar fínar fjölskyldur tóku upp ættarnöfn til að hljóma meira „international“. Stay by you er líka mjög international nafn á lagi, þykir kannski ekki eins lummulegt eins og Stattu með þér upp á íslensku. Ansi er ég þó hræddur um að þetta lag muni fljótt gleymast og jafnvel hljómsveitin sjálf eins og hún leggur sig. Reyndar er lag Páls Óskars, Þú komst við hjartað í mér langvinsælasta lagið sem hljómsveitin Hjaltalín hefur flutt og það lag þeirra sem líklegast er til að lifa inn í framtíðina. Íslensk dægurlög sem flutt eru á ensku eiga nefnilega það til að gleymast fljótt og vel. Hver man til dæmis eftir lögunum með Change eða Rikshaw?

Það er svo sem ekkert óeðlilegt að hljómsveitir og söngvarar sem starfa aðallega erlendis syngi á einhverri erlensku. En þá eru þeir heldur ekkert að syngja fyrir okkur. Samt er það svo að þekktasta íslenska hljómsveitin erlendis, Sigurrós, hefur alltaf sungið heilmikið á íslensku og virðist það ekkert há þeim og ef eitthvað er þá skapar íslenskan þeim sérstöðu. Í mér syngur vitleysingur er eitt af þeirra nýjustu lögum. Stundum syngja þeir líka á sinni eigin „vonlensku“ sem enginn skilur.

Svo er bara að minnast á Sykurmolana en þau tóku upp slagorðið heimsyfirráð eða dauði sem er auðvitað í góðum íslenskum útrásaranda. Það má alveg minnast á að lögin sem þau upphaflega sigruðu heiminn með voru meira og minna fyrst samin á íslensku. Þar á meðal þeirra allra frægasta lag Afmæli sem hér fylgir á „Þú-túpunni“. Algerlega magnað lag og texti, og er vel við hæfi núna enda er þetta jú afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar. 

 

 

Hún á heima í húsinu þarna / Hún á heim fyrir utan / Grabblar í mold með fingrunum / og munninum, hún er fimm ára
Þræðir orma upp á bönd / Hefur köngulær í vasanum / Safnar fluguvængjum í krús / Skrúbbar hrossaflugur / og klemmir þær á snúru
Ahhh...
Hún á einn vin, hann býr á móti / þau hlusta á veðrið / Hann veit hve margar freknur hún er með / Hún klórar í skeggið hans
Hún málar þungar bækur / og límir þær saman / Þau sáu stóran krumma / Hann seig niður himininn / Hún snerti hann!
Ahhh...
Í dag er afmæli  / þau sjúga vindla / Hann ber blómakeðju / og hann saumar fugl / í nærbuxurnar hennar
Ahhh...
Þau sjúga vindla... / Þau liggja í baðkarinu... / Í dag er afmælisdagur ...
Tam, tam, tam-a-tam-a-tam...


Snjódýpt á hálendinu - línurit

Setur kortSkammt suður af Hofsjökli, lengst upp á hálendi í 693 metra hæð, er fjallaskáli í eigu jeppaklúbbsins 4x4 sem nefnist Setur. Þó ég hafi ekki komið þangað sjálfur þá heimsæki ég staðinn reglulega í gegnum heimasíðu Veðurstofunnar, til þess eins að taka stöðuna á snjódýptinni sem mæld er þarna með sjálfvirkum hætti ásamt öðrum veðurþáttum. En til að fullnægja skráningarþörf minni til hins ýtrasta hef ég fært upplýsingarnar um snjódýptina hálfsmánaðarlega inn á þetta línurit sem ég hef komið mér upp og sést það hér að neðan:

Snjódýpt - SETUR

Á þeim vetrum sem ég hef fylgst með snjódýptinni þarna uppi á Setri hefur þróunin verið með nokkuð svipuðu sniði þótt snjóþyngslin hafi verið mismikil eftir árum. Snjórinn nær sér á strik fyrir alvöru um og eftir miðjan október og nær hámarki um miðjan apríl, en þegar komið er fram í maí á hann sér ekki viðreisnar von og er horfinn um miðjan júní. Ég hef ekki skráð það sérstaklega hvenær snjórinn hverfur í júní en öll þessi ár hefur hann verið horfinn fyrri hluta mánaðarins, nema árið 2005 þegar hann hvarf örfáum dögum síðar. Eins og sést þá voru tveir síðustu vetur nokkuð snjóþungir miðað við hina fyrri en það endurspeglar ágætlega þessa vetur almennt á landinu. Reyndar vantaði upplýsingar fyrri part vetrar í fyrra þar sem upplýsingar bárust ekki af einhverjum ástæðum.

Í þessu samhengi sést vel hvernig veturinn sem nú er hafinn, ætlar að fara allt öðru vísi af stað en hinir fyrri. Strax í byrjun október var kominn talsverður snjór þarna upp á hálendi enda varð landið nánast alhvítt þarna á fyrstu dögunum í október. Síðan þá hefur veturinn varla náð sér á strik og það sem af er nóvember hefur verið auð jörð á Setri og virðist ekki ætla að verða mikil breyting á næstu daga, hvað þá að það snjói hér á láglendi suðvestanlands.

Eins og sést á þessari snemmkomnu snjókomu núna í október er erfitt að spá í framhaldið út frá ástandinu hverju sinni. Það verður því bara að ráðast hvernig veturinn á eftir að verða.

Setur

Slóðin á sjálfvirkar athuganir á Setri er hér á eldri vef Veðurstofunnar: http://andvari.vedur.is/athuganir/sjalfvirkar/setur/ 


Um Kelta, papa og brjóst

Í vikunni bárust okkur fréttir af því að með hátæknilegum aldursgreiningar-aðferðum væri hægt að sýna fram á að landnám Íslands hafi átt sér stað mun fyrr en áður hefur verið talið. Ekki er þó hægt að fullyrða hvaða fólk þetta var, hugsanlega átti landnám norrænna manna sér stað eitthvað fyrr en kemur fram á Íslendingabók Ara Fróða, eða þá að hér hafi verið fólk fyrir þegar norrænu frjálsræðishetjurnar komu hingað á flótta undan ofríki Haralds hárfagra. Keltneskt landnám fyrir landnám er stundum nefnt til sögunnar svo ekki sé talað um papana sem minnst er á í áðurnefndri Íslendingabók og víðar. Hið dularfulla og forna Ultima Thule gæti líka vel hafa átt við Ísland sem bendir um leið til þess að landið okkar hafi verið þekkt aftur í grárri forneskju.

Ef Keltar hafa hugsanlega komið hingað á undan Ingólfi Arnarsyni og félögum má alveg velta upp þeim möguleika að Landnáma og síðar Íslendingabók Ara fróða hafi verið skrifaðar til að réttlæta eignarhald Norrænna manna á landinu. Um þetta er svo sem ekkert vitað en óneitanlega er það mjög flott að geta nefnt fyrsta landnámsmanninn á nafn og vita að hann hafi einmitt tekið sér bólfestu þar sem hjarta höfuðborgarinnar er nú. En af hverju byggði hann sér ekki ból á Suðurlandi?

Í bókinni Þúsund ára sveitaþorp eftir Árna Óla, er fjallað um langa sögu Þykkvabæjar og Þjórsárholta þar sem finna má manngerða hella sem taldir eru bera vitni um byggð af keltneskum uppruna. Einnig er minnst á í bókinni að keltar hafi sett ferju á Þjórsá, Sandhólaferju, sem hafi verið getið um á landnámsöld og haldist þar í rúm 1000 ár. Árni Óla spyr í framhaldi af þessu:

„Hvernig stendur á því að Þjórsárholtin byggðust eingöngu keltneskum mönnum? Komu þeir hingað í hóp á sínum eigin skipum og náðu að nema þetta land, áður en norrænir landnámsmenn sölsuðu það undir sig? Eða völdu þeir sér bústaði þarna vegna þess, að þar voru Papar fyrir? Eða var þarna þegar Keltnesk byggð, áður en landnámsmenn komu, og hún látin í friði? … Það er því undarlegt, hver litlar sögur fara af Þjórsárholtum í fornöld. Var það vegna þess, að þarna byggðist önnur „þjóð“ sem ekki var af norrænum kynstofni“

Hvað þýðir orðið Papi?

Svo maður minnist aftur á Íslendingabók þá segir þar eins og frægt er: „Í þann tíð var Ísland viði vaxið á milli fjalls og fjöru. Þá voru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla papa, en þeir fóru síðan á braut, af því að þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, og létu eftir sig írskar bjöllur ok baggla; af því mátti skilja, að þeir voru menn írskir.“ 

einsetumannakofiAlmenna skýringin á papa-örnefnum er sú að þar hafi verið byggð írskra einsetumunka eins og til dæmis í Papey og sama gildir um ýmis örnefni á Bretlandseyjum. Hinsvegar er það svo að í norrænum málum þýðir orðið pappebrjóst, speni eða geirvarta“ og það sama gildir um enska orðið pap sem er talið forn-norrænt að uppruna. Það eru ýmis dæmi um að fjöll eða önnur kennileiti á Norðurlöndum og Bretlandseyjum sem kenna sig við pap, séu um margt lík konubrjóstum eða geirvörtum. Eitt helsta einkenni Papeyjar eru sérstakar klettaborgir sem standa uppúr og sjást víða að og ekki ólíklegt að þær hafi verið ástæðan fyrir nafngift eyjarinnar enda er það mjög algengt að örnefni sé dregin líkamshlutum fólks eins og öxl, enni, nes (nef) og háls. Ávalar hæðir hér á landi hafa stundum verið kenndar við bringur en erlendis hefur hefur slíkt einnig verið kennt við pap. Hinsvegar er á þessum stöðum engin sérstök merki um búsetu papa en vel getur verið að sagnir um papa á þessum stöðum hafi orðið til sem eftiráskýringar þar sem merkingin getur einnig átt við klerka (Papa=faðir). Engar minjar eru til á Íslandi af borghlöðnum einsetumannakofum eins og finnast á eyjunum í kringum Skotland en slíkir kofar eru einmitt mjög pap-legir í útliti og því hefur kannski ekkert verið sjálfsagðara fyrir Norræna aðkomumenn en að kalla þá sem þar búa papa

Um þessa nafnagiftarkenningu las ég á sínum tíma í grein sem heitir: Papar og brjóst - papaörnefni í nýju ljósi sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 22. janúar 2005. Höfundur er ekki skráður en er titlaður doktor í norrænum fræðum. Þessu til stuðning eru svo hér nokkrar myndir af pap-landslagi, en eins og sjá má minnir þetta á eitthvað. Kannski eru sagnir af írskum einsetumunkum hér á landi eitthvað orðum auknar en í þeirra stað hafi kannski búið hér venjulegt kristið fólk af keltneskum uppruna nokkru fyrir hið opinbera landnám seint á 9. öld. Allavega þurfa papaörnefni ekkert að benda til þess að þar hafi endilega búið papar.

Papaörnefni

 

 


Í hvað stefnir árshitinn í Reykjavík?

Nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af þessu ári ætla ég aðeins að spá í hvert stefnir varðandi meðalhitann í Reykjavík. Opinber meðalhiti í Reykjavík er ekki nema 4,3°C, en þá er miðað við árin 1961-1990 sem var frekar kalt tímabil, en á 30 ára viðmiðunartímabilinu þar á undan var meðalhitinn 4,9°C. Síðustu 8 ár eða öll ár þessarar aldar hefur meðalhitinn hinsvegar alltaf verið yfir 5 gráðum – að meðaltali 5,4 gráður. Hlýjast var árið 2003 þegar meðalhitinn náði 6,1°C sem um leið er hlýjasta árið sem mælst hefur í Reykjavík. Að þessum orðum sögðum upphefst tölfræðin:

- - - - -

Ef hitinn í nóvember og desember verður …

… í meðallagi m.v. árin 1961-1990 (0,45°C) verður meðalhiti ársins = 5,3°C

… í meðallagi m.v. síðustu 10 ár (1,8°C) verður meðalhiti ársins = 5,5°C
 

Til að fá árshita undir 5,0 gráðum má meðalhitinn í nóvember og desember ekki vera yfir -1,4 gráðum. Það eru litlar líkur á að svo verði en gerðist þó síðast árið 1996 og þá sérstaklega vegna þess hve nóvember var kaldur það ár. Meðalhiti mánaðarins var -1,9 stig og var þetta kaldasti nóvember á liðinni öld.

Til að fá árshita yfir 6,0 gráðum þarf meðalhitinn í nóvember og desember að vera yfir 4,6 gráðum. Það væru mjög mikil hlýindi en þó ekki útilokuð því árið 2002 var meðalhiti þessa tveggja mánaða einmitt 4,6 gráður, en aldrei áður hafa þessir tveir mánuðir mælst svo hlýir samanlagt á sama ári.

Það má segja að líklegasta niðurstaðan fyrir árið 2009 sé meðalhiti upp á 5,3°-5,6° nema eitthvað óvænt gerist í aðra hvora áttina en hið óvænta er reyndar ekkert svo óvanalegt þegar kemur að veðri.

- - - - - 

Til frekari glöggvunar kemur svo hér línurit yfir meðalhitann í Reykjavík frá 1931. Græna línan sýnir hver meðalhitinn hefur verið á tímabilinu (4,7°). Bleika sporaskjan lengst til hægri á svo að tákna hvar meðalhitinn 2009 mun líklegast enda. Þarna sést ágætlega hversu mikið hefur hlýnað síðustu 30 ár en þó ekki eins mikið og ef farið er 50-60 ár aftur í tímann þegar hlýjast var á síðustu öld. Það er þó hlýrra nú en þegar hlýjast var á síðustu öld og munar þá helst um hversu stöðug hlýindin eru nú, enda orðið alllangt síðan komið hefur ár sem ekki nær meðalhita tímabilsins í heild.

Hitalínurit 1931-2009 Reykjavík


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband