25.2.2012 | 11:53
Um hæstu hæðir Danmerkur
Þótt Danmörk sé fræg fyrir sitt fjallaleysi er ekki hægt að segja að landið sé marflatt enda einkennist það víða af ávölum hæðum. Eins og í öðrum löndum þá vilja menn vita fyrir víst hver sé hæsti punktur landsins, jafnvel þótt hæð þess hæsta punkts þætti ekki frásögum færandi víðsvegar annarstaðar. Það hefur verið dálítið á reiki hvaða hæð sé sú hæsta í Danmörku og heimildum ber ekki alveg saman. En eftir að hafa lagst í dálitla rannóknarbloggmennsku þá hef ég komist að hinu sanna í málinu.Þekktasta hæðin hefur löngum verið Himmelbjerget (147 m.) á Jótlandi og standa sumir í þeirri meiningu að það sé hæsta fjall Danmerkur. Nafnið Himmelbjerget þykir okkur Íslendingum frekar spaugilegt enda virkar það sem öfugnefni og hlýtur að skýra frægð hæðarinnar að hluta. Þetta er þó alls ekki hæsta hæð Danmerkur en vissulega í hópi þeirra hæstu. Himmelbjerget er reyndar hin reisulegasta hæð á Danskan mælikvarða og var talin hæsti punktur landsins fram til ársins 1847 þegar nánari mælingar sýndu annað. Sjálfsagt hefur sú landmæling valdið einhverjum vonbrigðum en breytti því þó ekki að þarna reis 25 metra hár útsýnisturn til heiðurs Friðriki VII fyrir að færa landsmönnum stjórnarskrá árið 1849.
Hinar raunverulegu hæstu hæðir Danmerkur eru hinsvegar ekki langt undan því um um 10-15 kílómetrum suðaustur af Himmelbjerget liggur landið heldur hærra þótt ekki sé um að ræða tilkomumikil björg sem takmarka útsýn til himins. Frekar mætti tala um einskonar hálendi sem bungast mishátt upp á við. Tvær hæðir þarna eru þekktastar og hafa báðar gert tilkall til titilsins hæsti punktur Danmerkur: Yding Skovhøj og Ejer Baunehøj. Til að komast endanlega að því hvor þeirra er hærri var árið 2005 ráðist í nákvæmar mælingar á svæðinu í heild þar sem sentimetrar skáru úr um niðurstöðu.
Yding Skovhøj er eins og nafnið bendir til skógi vaxin hæð og mældist hæsti náttúrulegi punkturinn þar vera 170,77 metrar. Sé hinsvegar forn víkingahaugur ofan á hæðinni tekinn með í reikninginn er hæðin 172,54 metrar. Sá haugur er í rauninni það samgróinn náttúrunni að vel mætti telja hann hluta af hæðinni og sé svo, er þetta hæsta hæð Danmerkur eins og sumstaðar kemur fram. Eðlilega vilja menn þó vera strangir á skilgreiningunni, hæsti náttúrulegi punktur landsins.
Ejer Baunehøj (eða Bavnehøj) er um tvo kílómetra frá Yding Skovhoj og var lengi talinn hæsti náttúrulegi punktur Danmerkur 171m. Nýju mælingarnar segja hæðina hinsvegar vera 170,35 m og er hún því óumdeilanlega lægri en Yding Skovhoj. Árið 1920 var 13 metra hár turn reistur á þarna og með honum er hæðin samtals 183 metrar sem telst auðvitað ekki gilt.
Møllehøj. Með hinum nýju nákvæmu mælingum árið 2005 kom hið sanna í ljós sem er að hæsti náttúrulegi punktur í Danmörku er rétt um 200 metrum frá Ejer Baunehøj. Sú hæð er kölluð Møllehøj og mælist 170,86 metrar eða 9 sentímetrum hærri en Yding Skovhøj er frá náttúrunnar hendi. Hvort þetta er sjálfstæð hæð eða ekki er matsatriði, en samkvæmt nýjustu yfirlitum þá er þetta heitið á hæstu hæð Danmerkur. Møllehøj lætur ekki mikið yfir sér frekar en aðrar mishæðir á þessum slóðum. Þarna var mylla áður og til minjar um hana stendur gamli myllusteinninn stoltur og getur verið það eftir þá stöðuhækkun að marka hæsta punkt landsins.
Á kortinu má sjá aðalhluta þess svæðis sem kalla mætti Danska hálendið og er það greinilega heldur grænna en það Íslenska. Hæstu punkta landsins er þarna að finna eins og ég hef merkt inn.
Til samanburðar má nefna að samkvæmt lauslegri athugun minni ná hæstu byggðir á höfuðborgarsvæðinu okkar upp í rúmlega 100 metra hæð. Í næsta nágrenni við byggðina er Vífilstaðahlíð 152 m. og Vatnsendahæð 153 m. Skammt þaðan er hæð á landamörkum Garðabæjar og Kópavogs er nefnist Arnarbæli og er hún 174 metrar.
18.2.2012 | 20:48
Um örnefni á skögum og jöklum
Örnefni eiga sér mislanga sögu. Sum þeirra eru jafn gömul byggðinni í landinu á meðan önnur eru nýtilkomin. Eins og orðið örnefni vísar til þá snúast örnefni oft um heiti á hinum smærri einingum í landslagi enda var og er nauðsynlegt að kalla hlutina einhverju lýsandi nafni svo menn fari ekki villu vegar og ekki síður til að ljóst væri hver ætti hvað. Firðir og fjöll fengu að sjálfsögðu líka sína nöfn en þegar kom að hinum stærri þáttum í landslagi svo sem stórum skögum, kjálkum og jöklum virðast örnefni ekki alltaf eiga sér langa sögu og eru jafnvel ekki til. Lítið var um landakort í gamla daga, hvað þá loftljósmyndir eða gervitunglamyndir og því eðlilegt að menn hafi ekki mikið pælt í hinum stærri einingum þegar kom að nafngiftum.
Stóru skagarnir fyrir norðan
Á hinu eina sanna norðurlandi eru þrír meginskagar. Sá vestasti er sá eini sem hefur heitið eitthvað í gegnum tíðina og ber einfaldlega nafnið Skagi sem fjörðurinn þar fyrir austan er nefndur eftir. Heitið Tröllaskagi er hins vegar nýtilkomið því lengst af var hann nafnlaus. Þar hefur mönnum kannski fundist alveg nóg að vera annað hvort staddir í Eyjafirði eða Skagafirði, en þar á milli var bara eitthvert ógurlegt fjalllendi með mörgum djúpum nafnkenndum dölum og fjallsrönum. Austasti skaginn á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda hefur hinsvegar varla fengið nafn en það mun þó verið að vinna í því og tillögur komnar fram en gallinn er bara sá að Eyfirðingar vilja ekki kenna hann við örnefni Skjálfandamegin, og Skjálfandamenn vilja ekki kenna hann við Eyfirskt örnefni. Það segir sína sögu eins og ég kem að hér síðar. Mestar líkur eru á því skaginn verði nefndur Flateyjarskagi sem Eyfirðingar eru lítt hrifnir af og hafa haldið á lofti heitinu Gjögurskagi.
Vatnajökull
Nafnasaga þessa mikla jökuls virðist vera talsvert snúin og ýmsar skýringar til. Fyrsta Íslandskortið sem sýndi Vatnajökul sem alvöru jökul var teiknað árið 1794 af Sveini Pálssyni lækni og náttúrufræðingi þeim er kleif Öræfajökul fyrstur manna. Á korti hans voru tvö nöfn látin gilda fyrir jökulinn og hann merktur sem Klofa- eða Vatnajökull. Ekki veit ég hvort heitið er eldra en allavega virðast fleiri en ein skýring á þeim báðum. Klofajökulsnafnið hefur stundum verið túlkað sem svo að jökullinn hafi áður fyrr verið klofin í tvennt að sumu eða öllu leyti enda vitað að Norðlendingar og Austfirðingar stunduðu ferðir suður yfir jökulinn. En þótt vitað sé að jökullinn hafi verið umtalsvert minni en í dag þá er samt varasamt að líta svo á að Klofajökulsnafnið sé lýsandi fyrir heildina og að jökullinn hafi beinlínis verið klofinn. En hvað sögðu menn á 18. öld:
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna 1772 má lesa þetta um Klofajökul: Klofajökull er nafn á tveimur geysimiklum jökulálmum, sem skapa skarð eða bug á milli sín, en úr jökulkrók þessum koma þrjár stórár, Skjálfandafljót, Jökulsá í Axarfirði og Jökulsá í Múlasýslu. Þarna virðist átt við skarð í jökulinn að norðanverðu sem virðist hafa verið nógu vítt til að geta af sér þessar þrjár stóru jökulár sem í dag eiga upptök sín á þremur aðskildum stöðum við jökulbrúnina. Klofajökull gæti því hafa verið notað um Vatnajökul að norðanverðu en ekki endilega jökulinn í heild. Kannski vísar nafnið í kverkina sem Kverkfjöll eru kennd við nema skýringin sé sú að Kverkfjöllin beinlínis kljúfa jökulinn að norðanverðu séð.
Sveinn Pálsson ritaði hinsvegar árið 1794:
heitir hann Klofajökull vegna hinna fjölmörgu rana sem út frá honum kvíslast í ýmsar áttir, og allmarga fjallgarða, er skerast upp í hann. Hann er einnig nefndur Vatnajökull vegna hinna hart nær óteljandi elfa, sem eiga upptök sín í honum Ég get ekki séð að Sveinn sé endilega á sama máli og Eggert og Bjarni varðandi Klofajökul því hinir allmörgu fjallgarðar sem skerast inn í hann er nefnilega ágætis lýsing á sunnanverðum jöklinum. Hinar óteljandi elfur sem eiga upptök sín í honum er einnig nothæf skýring á nafninu Vatnajökull að sunnanverðu þar sem jökulárnar hafa lengi flæmst um hina sístækkandi sanda.
Hvað er rétt í þessu er ómögulegt að segja til um en sjálfum finnst mér ekki ólíklegt að Klofajökull hafi verið lýsandi heiti á jöklinum að norðanverðu en Vatnajökull að sunnanverðu og hafi þessi tvö heiti því getað verið notuð samtímis eftir því hvaðan var horft. Önnur skýring á Vatnajökulsnafninu vísar til Grímsvatna enda virðist hann stundum hafa verið nefndur Grímsvatnajökull. En hvort menn hafi þekkt nógu vel til Grímsvatna til að nefna jökulinn eftir þeim veit ég ekki en hitt er víst að menn hafa þekkt hlaupin miklu sem þaðan komu. Heitið Grímsvatnajökull þarf þó ekki að hafa verið notað um jökulinn í heild frekar en önnur nöfn á þessu jökulflæmi. Það giltir því kannski það sama með jökulinn og Tröllaskaga á sínum tíma að menn gáfu landinu nöfn í samræmi við það sem menn bjuggu við á hverjum stað án þess að hafa yfirsýn á heildina.
- - - - -
Tilvitnanir eru fengnar úr bókinn Íslenskir jöklar, eftir Helga Björnsson.
Vísindi og fræði | Breytt 23.2.2012 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2012 | 12:08
Óvenju kalt í Evrópu - óvenju hlýtt í Norðurhöfum
Það er gjarnan þannig að þegar kólnar mikið á einum stað þá hlýnar á öðrum. Hæðin mikla sem sem kom sér fyrir í Evrópu á dögunum er óþægilega staðsett fyrir flesta Evrópubúa þar sem hún dælir Síberísku vetrarlofti yfir álfuna. Þessi kuldalega staða veðrakerfana er vel þekkt og íbúar álfunnar vita af Síberíukuldanum sem alltaf býður eftir tækifæri til vestursóknar.
Á sama tíma, hinu megin við hæðina, er allt aðra sögu segja að segja enda snýst vindur réttsælis í kringum hæðir. Sunnanáttirnar hafa verið eindregnar milli Íslands og meginlandsins og náð lengst norður í höf með óvenju miklum hlýindum. Á Longerbyen á Svalbarða mældist t.d. fyrir stuttu, hæsti hiti sem mælst hefur á eyjunum í febrúar, ein 7 stig.
Annars eru það hafískortin sem eru einna athyglisverðust í dag. Eins og sjá má kortinu hér vinstra megin þá er engan hafís að finna í Barentshafinu og íslaust svæði teygir sig austur fyrir Rússnesku eyjarnar Novaya Zemlya sem hlýtur að vera mjög óvenjulegt. Mjög lítill ís er einnig við Svalbarða og er norðurströndin þar íslaus, en íslaust svæði teygir langleiðina til smáeyjaklasans, Franz Josefslands. Það má því segja að það sé sumarástand á hafísútbreiðslunni þarna. Það er þó enn vetur og nóg eftir af honum á norðurslóðum. Ástandið getur auðveldlega breyst og mun örugglega gera það fyrr en varir. Þessi mikli skammtur af hlýindum þarna norðurfrá hlýtur þó að hafa sín áhrif á framhaldið og getur haft sitt að segja þegar kemur að sumarbráðnunnni.
- - - -
Hafískortið sem er hluti af mynd frá Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni (NSIDC), sýnir hafísútbreiðsluna þann 10. febrúar 2012, miðað við meðallag áranna 1979-2000.
Veðurkortið er af Wetterzentralnum og er einnig hluti af stærri mynd sem sýnir hita í 2ja metra hæð 11. febrúar, samkvæmt spá.
9.2.2012 | 20:55
Veðurbókarhiti í Reykjavík
Undanfarið hafa veður- og loftslagspekingar hér á blogginu rætt um meðalhitann í Reykjavík og vafasamar leiðréttingar sem gerðar hafa verið á honum af erlendum aðilum. Ég ætla ekki að velta mér upp því máli, en ætla þó að líta í eigin barm því sjálfur hef haldið uppi mínum eigin veðurskráningum frá árinum 1986. Þær athuganir eru aðallega ætlaðar mér sjálfum og hafa væntanlega ekki mikil áhrif á þær tölur sem notaðar eru til að túlka þróun hitafars á hnattræna vísu. Þessi bloggfærsla á því kannski ekki mikið erindi við aðra en sjálfan mig en tilgangurinn færslunnar er annars sá að athuga hvernig mínar skráningar standa sig við hlið hinna opinberu talna frá Veðurstofunni.
Þegar ég upphaflega hóf skráningar þá var tvennt haft í huga. Skráningin átti að sýna hið dæmigerða veður dagsins og vera það einföld að ég þyrfti ekki að vera háður því að fylgjast með veðurfréttum á hverjum degi. Þetta gilti einnig um hitann sem ég skilgreindi einfaldlega þannig að annaðhvort voru dagar heitir, kaldir eða í meðallagi. Reyndin varð þó sú að ég fylgdist nógu vel með hitanum til að geta skráð hinn dæmigerða hita dagsins sem ég hef einmitt gert frá árinu 1991.
Sú tala sem ég kalla hinn dæmigerða hita dagsins var lengi vel fengin með því að sjóða saman hitanum klukkan 18 í Reykjavík og hámarkshita dagsins samkvæmt veðurfregnum í útvarpi í bland við eigin upplifun og stopulan lestur af heimilislegum gluggahitamæli. Eftir tilkomu netsins og heimasíðu Veðurstofunnar breyttist aðferðin og byggist nú að miklu leyti á sjónrænu mati á línuritum frá sjálfvikum athugunum. Ég nota ekkert útreiknað meðaltal, bara þá tölu sem mér finnst vera skynsamlegust og eðlilegust fyrir hvern dag. Það getur þó stundum verið erfitt að fá eina góða hitatölu (án aukastafa) vegna mikilla hitasveiflna sem oft eru óháðar dægursveiflum. Ég horfi ekkert á kvöld eða næturhita enda hefur Veðurbókin bara áhuga á veðrinu yfir daginn.
Eftir hvern mánuð geri ég smá samantekt og reikna út meðalhita mánaðarins samkvæmt mínum tölum og síðan árshita í lok hvers árs. En þar sem ég skrái bara hitann fyrir daginn er auðvitað munur á mínum tölum og tölum Veðurstofunnar. Mínar tölur eru á milli hins eiginlega meðalhita og meðalhámarkshitans sem er eðlilegt útfrá forsendum. Það má benda á að ég skrái árið 2010 hlýrra en metárið 2003. Það þarf þó ekki að vera óeðlilegt í ljósi þess að árið 2010 var metár þegar kemur að meðalhámarkshita samkvæmt Veðurstofu. Í heildina verður ekki betur séð en að Veðurbókartölur mínar séu nokkuð samstíga opinberum tölum þegar kemur að einstökum árum og fyrir tímabilið í heild þrátt fyrir misjafnar skráningaraðferðir. Það er því ekki nokkur ástæða fyrir mig að ráðast í stórfelldar leiðréttingar og endurskoðanir á mínum gögnum.
- - - -
Þess má geta í lokin að nú standa veðurskráningarnar frammi fyrir þeim vanda að gormaðar A5 rúðurstrikaðar bækur frá Kassagerðinni með hvíta fuglinum framaná eru ekki lengur fáanlegar í verslunum og ég er á síðustu blaðsíðunni í bókinni sem ég skrái í núna. Fyrir næsta mánuð verð ég því að kaupa aðra tegund. Nú eru bara til útlenskar reiknibækur sem eru ekki eins hentugar. En hvernig sem þetta bókarmál leysist þá munu skráningar halda áfram með óbreyttum hætti.
Vísindi og fræði | Breytt 10.2.2012 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2012 | 21:57
Hvað er verið að gera við Lögreglustöðina?
Nú hafa viðgerðarflokkar hafist handa við stórfellda endurnýjun á ytra byrði Lögreglustöðvarinnar við Hlemm. Samkvæmt frétt sem ég sá einhverstaðar munu gulu flísarnar, sem gefið hafa lægri byggingunni sinn sérstaka karakter ekki sjást meir. Þær verða huldar einangrunarefni og húsið klætt hvítum álplötum sem einnig munu hylja hvíta múrverkið sem rammar inn flísarnar. Hvort hærri aðalbyggingin hljóti sömu örlög veit ég ekki en það kæmi mér ekki á óvart. Sjálfsagt hefur verkfræðingum þótt þetta góð lausn og ég efast ekki um að þessi málmhjúpur verji bygginguna ágætlega fyrir veðrum og vindum. En er þetta samt bara sjálfsagt mál?
Mikið gert af því að vernda útlit bygginga séu þær nógu gamlar. Sjálfsagt þykir að færa hin elstu hús í upprunalegt útlit eða jafnvel að endurbyggja þau frá grunni. Annað virðist gilda um hálfgömul hús eða þau sem eru ekki nógu gömul, eins og tilfellið er með Lögreglustöðina við Hlemm. Sú bygging er reist á þeim tímum þegar Reykjavík var að breytast úr bæ í borg en þá risu mikil skrifstofuhús í nútímastíl þess tíma. Sennilega hafa ekki margir velt fyrir sér þeim möguleika að Lögreglustöðin við Hlemm sé merkileg bygging últitslega séð. Húsið var teiknað af Gísla Halldórssyni sem annars er þekktur fyrir merkisbyggingar eins og Hótel Loftleiði, Tollhúsið o.fl. Þessar byggingar voru margar metnaðarfullar og gáfu borginni nútímalegt yfirbragð, þótt vissulega hafi allskonar útlitslegir árekstrar stundum átt sér stað, aðallega í kvosinni.
Þegar vinnupallar við Lögreglustöðina hafa verið teknir niður mun blasa við ný ásjóna hússins sem væntanlega verður mun karakterlausara en áður. Kannski munu einhverjir fagna því en ég er ekki alveg sáttur
en hvað skal gera í þessu veit ég ekki. Það þýðir kannski lítið að hringja í lögguna.
Byggingar | Breytt 4.2.2012 kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)