27.2.2015 | 21:47
Holuhraunsgosið vefmyndavélað
Í síðustu bloggfærslu fór ég stuttlega yfir aðdraganda eldgossins í Holuhrauni og lofaði jafnframt framhaldi með skjámyndum af vefmyndavél Mílu sem staðið hefur vaktina allan gostímann, okkur sem heima sitjum til mikils gagns og gleði. Myndavélin er staðsett á Vaðöldu skammt suðaustur af Öskju og er í um 20 km fjarlægð frá gosstöðvunum. Af síðustu fréttum að dæma er nú lítið eftir af gosinu og gæti það allt eins verið búið. Það bauð þó oft upp á fínt sjónarspil í haust og í vetur og eitthvað af því hefur maður náð að fanga með skjámyndatöku. Hefjum þá sýninguna:
Myndasýningin hefst þar sem ég endaði síðast, en aðfaranótt 29. ágúst hófst loksins gosið sem beðið hafði verið eftir. Það var reyndar svo lítilfjörlegt að það var eiginlega búið þegar þjóðin frétti fyrst af því. Myndin er tekinn umræddan laugardagsmorgun en þá voru bara gufubólstrar sjáanlegir og gosið í raun búið. En þetta var bara forleikurinn.
Aðfaranótt 31. ágúst hófst hið eiginlega gos. Á vefmyndavélum mátti sjá talsverða gufubólstra en þegar fór að skyggja um kvöldið komu eldarnir betur í ljós og þá mátti sjá þunnfljótandi hraunið vella frá eldsprungunni. Myndin er tekin með þrengra sjónarhorni en þær sem á eftir koma.
Að kvöldi hins 5. september sést hvar hraunstraumurinn stefnir ákveðið í átt að Vaðöldu í fjólublárri birtu. Hraunkanturinn myndar fallegan boga í framlínunni en þarna hefur hraunið náð að renna um 10 kílómetra frá upptökum.
Helvíti flott er kannski það sem lýsir þessu best þar sem eldarnir lýsa upp skýin og gufubólstrana. Hraunstrauminn hefur þarna fundið sér nýja leið sunnan við fyrstu framrásina. Radartækið sem sumir nefndu eftir stjörnstríðsþjarkanum R2-D2 blikkar sínu ljósi til samlætis.
Lítið sést hér til gossins en síðdegisbirtan slær gullnum ljóma yfir gasmóðuna. Við sjáum votta fyrir gufubólstrum af hrauninu sem þarna hefur náð að jökulsánni. Glansandi R2-D2 stendur vörðinn sem fyrr.
Tveimur dögum síðar eru allt annað upp á teningnum. Það mætti halda að þetta væri dökkgrátt öskuský en svo er ekki. Þessar miklu birtuandstæður myndast þegar þéttur gufumökkurinn birgir fyrir sólskinið á móti og myndar dramatískan skugga yfir Vaðöldu.
Þessi er öllu klassískari en þarna í svartamyrkrinu er það gosið sjálft og glóandi hraunið sem lýsa upp gufubólstrana. Hraunið var á þessum tíma sífellt að finna sér nýjar leiðir meðfram suðurkanti hraunsins, sem þar með breiddi stöðugt úr sér í stað þess að lengjast.
Fullt tungl eftir miðnætti og snævi þakin jörð ná hér að setja sinn svip á sjónarspilið. Hraunglóð má nú víða sjá við norðanverðan hraunkantinn. Ekki er þó um að ræða samstillt rennsli enda var hraunið aðallega að þykkna frekar en að sækja fram að einhverju ráði.
Vel sést hér yfir víðfeðma hraunbreiðuna í skammdegisbirtunni. Talsverður mökkur en annars heiður himinn.
Eftir áramót var lítið um skjámyndatökur enda farið að draga úr goskraftinum og gjarnan þokusælt á hálendinu. Nokkuð ákveðið dró síðan úr gosinu nú í febrúar og þann 21. var ekki annað að sjá en smá týru upp úr holunni. Þannig leggst myrkrið yfir á ný þarna á hálendinu. Hvort eða hvenær annar kafli hefst í þessari sögu veit enginn. Ýmsir möguleikar eru vissulega í stöðunni en þeir bíða síns tíma.
21.2.2015 | 10:15
Fjörið að fjara út í Bárðarbungu
Nú er um hálft ár liðið frá því atburðarásin hófst í Bárðarbungu sem leiddi til eldgossins mikla í Holuhrauni. Mjög hefur dregið úr allri virkni upp á síðkastið og spurning hvort umbrotunum fari að ljúka hvað úr hveru. Minnkandi virkni má meðal annars sjá á jarðskjálftakortum Veðurstofunnar en þar hefur allt frá því í ágúst mátt sjá stjörnumerkta jarðskjálfta yfir þremur á stærð á hverju korti og oftast marga slíka með upptök í Bárðarbungu. Nú er þessum stjörnuskjálftum farið að fækka mjög á kortunum en hvert þeirra sýnir skjálftavirkni tvo sólarhringa aftur í tímann, eða 48 tíma. Nú í morgun varð sá tímamótaatburður að enginn slíkur skjálfti var merktur inn, bara minniháttar punktaskjálftar undir þremur að stærð. Væntanlega dettur þó einhver inn fyrr en síðar, en það líður greinilega lengra á milli þeirr en áður.
- - - -
Svo við rifjum aðeins upp upphaf atburðanna í fyrra þá hófst fjörið á fögrum sumarmorgni, sem var laugardagurinn 16. ágúst. Þá mátti sjá óvenjuþétta smáskjálftavirkni í Bárðarbungu og augljóst að eitthvað var að gerast eða allavega eitthvað kannski að fara að gerast.
Skálftunum fjölgaði og dreifðu sér um stærri svæði og nokkrum dögum síðar voru kortin orðin æði skrautlegt, samanber þetta hér að neðan frá 20. ágúst. Auk virkni í Bárðarbungu var skjálftavirkni farin að færast í norðaustur og ljóst að kvika var á hraðferð. Skildi hún koma upp og þá hvar? Dyngjujökull lá undir grun, eða jafnvel sandarnir þar norður af.
Þjóðin fylgdist spennt með. Á Vaðöldu norðaustur af söndunum var gott útsýni yfir vettvanginn og þar var Míla búin að snara upp vefmyndavél og þann 23. ágúst kom frá henni þessi mynd sem sýnir ókunnan hálendiskappa með rjúkandi foksand í baksýn, en ekkert gos.
Sama dag og þessi mynd var tekin var haldin menningarnótt í Reykjavík og komu þá misvísandi fréttir af mögulegu gosi undir jökli sem kannski var ekki gos. Einhverjar sprungur sáust nokkru síðar í jöklinum. Ekki var ljóst hvort eitthvað væri að gerast og ekki alveg vitað um ástæðu þess sem ekki var vitað hvort að væri að gerast.
Að morgni hins 29. ágúst hófst svo loksins gos í Holuhrauni en það stóð engan vegin undir væntingum eftir allan þennan forleik og lognaðist í raun út af fyrir hádegi.
Var þetta allt og sumt? Nei reyndar ekki. Síðdegis sama dag og fyrsta haustlægðin herjaði á okkur með stormi og úrhelli, þann 31. ágúst, hófst svo hið eiginlega gos. Það stendur enn eftir því sem síðast fréttist. Ég á allnokkrar Mílu-skjámyndir af því en þær munu bíða birtingar þar til í næstu bloggfærslu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2015 | 00:30
Um Öræfin og þegar höfundur landrekskenningarinnar kom til Íslands
Já ég las Öræfin eftir hann Ófeig og það sem meira er, ég komst léttilega í gegnum hana og hafði gaman af. Ekki nóg með það, að lestri loknum var ég á því að þetta væri einhver besta bók sem ég hafði lesið. Tíminn mun þó leiða í ljós hvort um stundarhrifningu hafi verið að ræða. Þetta er allavega hin merkasta bók sem og allt í kringum hana og gæti verið uppspretta að ýmsum bloggfærslum hjá mér. Eitt af því sem ég staldraði við og fannst merkilegt í Öræfabókinni er þar sem fjallað er um Alfred Wegener, veðurfræðing og höfund flekakenningarinnar, þar sem hann á að hafa verið staddur á Þingvöllum ásamt landmælingamanninum Kafteini Koch. Ef satt er hefur sú stund hefur verið örlagarík fyrir Wegener og vísindin, eða eins og segir orðrétt í bókinni á bls 88:
Wegener uppgötvaði jarðflekana þegar hann stóð á Þingvöllum á snakki með Koch og horfði í Almannagjá, þeir voru að ræða kristnitökuna árið 1000 sem þarna fór fram, og aðskilnaðinn á milli heiðinna og kristinna manna, þá blöstu flekaskilin við Wegener og hugmyndin um flekakenninguna vaknaði í huga hans.
Eins og gengur og gerist í skáldsögunum þá veit maður ekki alltaf hvað satt er og hvað er skáldað. Öræfabókin er orðmörg bók og full af útúrdúrum um ýmislegt sem tengist misvel sjálfri sögunni. En skildi það vera satt að gjárnar á Þingvöllum hafi gefið dr. Wegener hugmyndina að sjálfri flekakenningunni, eða er þetta bara saklaust skáldaleyfi?
Það er reyndar vitað að Dr. Wegener kom til Íslands árið 1912, ári eftir að hann kynnti landrekskenningu sína. Hann var þá hér staddur að undirbúa leiðangur yfir Grænlandsjökul ásamt áðurnefndum félaga sínum Koch og fleirum. Í Grænlandsleiðangrinum sem farinn var 1912-1913 notuðu þeir íslenska hesta og var það ferðalag mikil þrekraun fyrir alla. Fyrir Grænlandsleiðangurinn var farin æfingaferð á Vatnajökul og munu þeir Kogh og Wegener hafa farið þangað yfir hálendið norður frá Akureyri þar sem leiðangursskip þeirra beið. Kogh þessi er reyndar stórt nafn í landmælingasögu Öræfasveitar og skipar stóran sess í Öræfabókinni. Er eiginlega einn af miðpunktum sögunnar og örlagavaldur. Hann hafði verið skipaður af danska herforingjaráðinu 10 árum áður til að mæla upp og kanna Öræfin vegna kortagerðaverkefnisins sem þeir dönsku stóðu fyrir. Hann hafði þá einmitt notað hesta til jöklaferða og á þeim ferðum urðu til örnefni eins og Hermannaskarð og Tjaldskarð. Ferðir kafteins Koghs eru síðan fyrirmynd söguhetjunnar í Öræfabókinni sem hélt til Íslands og á jökulinn með hesta og koffort mikið sem innihélt allan búnað og bækur auk þess að vera hans íverustaður.En aftur að Wegener. Hann fór sem sagt í æfingaferð suður yfir Norðurhálendið og upp á Vatnajökul árið 1912. Það var ári eftir að hann setti fram landrekskenningu sína sem enginn tók mark á, enda vantaði í hana öll áþreifanleg sönnunargögn önnur en þau að strandlengjur landanna sitt hvoru megin við Atlantshafið pössuðu furðu vel saman á landakortum. Allir hugsanlegir rekhryggir voru faldir neðansjávar en þar fyrir utan þótti alveg óhugsandi að heilu meginlöndin gætu færst til sundur og saman. Þau gátu hinsvegar risið eða sokkið í sæ, eins og menn trúðu langt fram eftir 20. öld og kennt var í skólum fram undir 1980 samkvæmt minni eigin reynslu.
En þá að annarri bók sem er Hálendið eftir Guðmund Pál Ólafsson. Þar er einmitt sagt frá því á bls. 358 þegar Dr. Wegener og félagar fóru yfir hin eldbrunnu svæði Norðurhálendisins áleiðis að Vatnajökli. Þar hefði mátt halda að Wegener hefði einmitt átt að finna sönnunargögn sem styddu hans umdeildu flekakenningu. En svo fór ekki, því samviskusamur leiðsögumaður þeirra íslenskur, var einmitt svo gjörkunnugur landinu að hann gat vísað þeim leið án nokkurra farartálma í formi gliðnunarsprungna sem töfðu gátu för að jöklinum. Í bókin Hálendið segir:
Í Ódáðahrauni var þessi snillingur staddur á slíkum rekhrygg en allt of góðir leiðsögumenn hafa eflaust valið bestu leiðina um hraunið. Hann sá aldrei sprungukerfi Ódáðahrauns og áttaði sig ekki á að hann var staddur á eina hryggjastykki Norður-Atlantshafs ofansjávar sem flekakenning hans byggðist á. Að öllu líkindum hefði saga jarðfræðinnar verið önnur ef Wegener hefði fetað hina fornu Biskupaleið eða lent í ógöngum Veggjastykkis. Þá hefði kenning hans líklega aldrei verið kaffærð í hartnær hálfa öld.
Í Hálendisbók Guðmundar Páls er hinsvegar ekkert talað um upplifum Dr. Wegeners á Þingvöllum áður en hann setti fram flekakenningu sína árið 1911, hvað þá að hann hafi fengið hugmyndina að henni hér á landi eins og kemur fram í skáldsögu Ófeigs og ekkert yfirleitt um að hann hafi komið til Íslands fyrr en árið 1912. Maður veit þó ekki hvað er satt og rétt. Annað hvort var Ísland einmitt kveikjan að flekakenningunni eða þá að hann hafi í Íslandsferð sinni einmitt farið á mis við það sem vantaði til að styðja kenningar hans, sem voru langt á undan sinni samtíð. Báðar útgáfur sögunnar eru góðar en ég hallast þó frekar að því að í skáldsögu Ófeigs sé sannleikanum aðeins hnikað til í þágu skáldskaparins.
29.1.2015 | 16:33
Snjórúllur á þaki
Út um gluggann í vinnunni í dag í Brautarholtinu mátti sjá þessar myndarlegu snjórúllur á þaki Þjóðskjalasafnsins, en fyrirbærið hefur líka verið kallað vindsnúnir snjóboltar. Þetta mun vera frekar sjaldgæft fyrirbæri sem myndast einungis við mjög ákveðnar aðstæður. Vindurinn er náttúrulega drifkrafturinn í þessu en svo þarf snjórinn og hitinn að vera við einhverjar kjöraðstæður. Dálítill halli í landslagi hjálpar einnig til við myndunina og sama gildir þá um létt hallandi húsþök. Hver snjórúlla myndast líklega mjög hratt í snöggri vindhviðu. Allavega miðað við það sem ég var eitt sinn vitni að.
Á Veðurstofuvefnum er annars ágætur fróðleiksmoli um þetta fyrirbæri. Þar kemur meðal annars fram að fyrirbærið hafi verið kallað Skotta og þótt ills viti veðurfarslega og hafi boðað frekari stórviðri. Sjá hér: Vindur býr til snjóbolta
Allur gangur hlýtur að vera á því hvort eitthvað sé að marka þjóðtrúr en kannski er veturinn rétt að byrja. Köldu norðanáttinni fylgir þó gjarnan bjartviðri hér syðra eins og á þessum degi. Á nýreistum glerhýsum borgarinnar speglast svo vetrarsólin úr óvæntum áttum. Og enn er verið að byggja og enn rísa ný hótel.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2015 | 21:35
Spáð í því
Ég tel mig ekki vera neinn sérstakan íslenskuspeking en tel mig þó vita að fyrirsögnin á þessari bloggfærslu er ekki upp á marga fiska, er reyndar beinlínis vitlaus og hin argasta þágufallssýki. Réttara er að spá í það en ekki því. Þessi vitleysa er þó mjög útbreidd í dag og liggur við að maður hitti varla manneskju öðruvísi en hún sé sífellt að spá í því eða þessu. Kannski er þó svo komið að þetta telst bara vera rétt úr því að allir segja það, fyrir utan helstu íslenskuséní, gamalmenni, afdalafólk og mig sjálfan enn sem komið er.
En hvaðan kemur þetta? Ég held að vitleysuna megi rekja til þess að fyrir nokkrum áratugum komst í tísku að pæla (pæl-íði / pæld-íði / pæl-íessu). Sögnin að pæla tekur með sér þágufall og eftir að fattaðist að þetta er gamalt gott íslenskt orð hafa hinir mestu hugsuðir pælt mikið og þótt það smart. Á þessari öld gerðist það svo að pælingarþágufallið yfirfærðist á sögnina að spá. Þess vegna eru nú allir að spá í því en ekki að spá í það eins og sagt var áður. Fyrst voru það aðallega unglingar sem tóku upp á þessu en nú hefur fólk á besta aldri bæst í hópinn. Ástandið er þó ekki orðið það slæmt að fólk sé farið að spá í mér og þér, þökk sé Megasi er hann raulaði spáðu í mig.
En svo má líka spá í tískuna (ekki tískunni). Nú eru helstu fyrirtæki farin að vera stoltir styrktaraðilar allskonar góðra málefna. Stoltur styrktaraðili hljómar vel, enda vel stuðlað og jákvætt. Allt þetta stolt getur þó verið full mikið af hinu góða. Það mætti því gjarnan draga aðeins úr stoltinu eða finna eitthvað nýtt viðskeyti við styrktargleðina. Auglýsingamál getur annars verið uppspretta af ýmsu góðu. Hver man ekki eftir útvarpsauglýsingum á Gufunni þegar Ný dönsk blöð voru auglýst? Væntanlega hefur það verið uppspretta að nafni hljómsveitarinnar sem kallaði sig Nýdönsk. Aðeins minna þekkt hljómsveit á níunda áratugnum en ekki síðri, kallaði sig Oxsmá. Mín prívatkenning er sú nafngiftin hafi komið úr sjónvarpsþáttum sem voru vinsælir á sama tíma: Dýrin mín stór og smá, en ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það.
Annað dæmi um áhrif Sjónvarps. Um jól og áramót þegar allir óska öllum gleði og gæfu er gjarnan sagt: Óskum þér og þínum gleðilegra jóla og svo framvegis. Þetta þér og þínum hefur verið í tísku um árabil en var miklu minna notað áður. Hér kem ég með þá kenningu að uppruninn sé frá hinum merka manni Ragnari Reykás sem átti það til að segja setningar eins og Það er alltaf sama sagan með þig og þína fjölskyldu
eða Ég og mín fjölskylda á mínum fjallabíl
það er ekki spurningin. Það er heldur ekki spurning að tilvalið er að enda þetta á Ragnari sjálfum. Það YouTube-myndband sem fannst og rökstyður mál mitt best, fannst mér ekki hið allra fyndnasta (Sjá: Ragnar Reykás og Rússarnir https://www.youtube.com/watch?v=DvOLTMSsCgU) þannig að í staðinn set ég í loftið stílhreinan og alveg týpískan Ragnar Reykás þar sem Erlendur hefur gómað kappann á sínum fjallabíl.
Athugið að ekkert hljóð er á myndinni fyrstu 12 sekúndurnar en það mun vera hluti af gríninu.
Menning og listir | Breytt 23.1.2015 kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2015 | 21:30
Heimshiti og Reykjavíkurhiti
Það getur verið forvitnilegt að bera saman hitaþróun á einstökum stað eins og Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línurit á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa þar sem árið 2014 er komið inn. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum en taka má fram að Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita á meðan heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Sjálfur hef ég stillt ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita. Út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.
Bollaleggingar: Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut.
Það vill svo til að Reykjavíkurhitinn og heimshitinn var með hæsta móti árið 2014. Í Reykjavík var þetta næst hlýjasta árið en á heimsvísu náði árið að vera það hlýjasta frá upphafi beinna veðurathugana. Auðvitað er þó alltaf einhver óvissa í svona niðurstöðum t.d. þegar borin eru saman hlýjustu árin. Á heimsvísu gætu einhver af síðustu árum mögulega hafa verið hlýrri en flestar ef ekki allar stofnanir sem taka saman heimshita byggðan á athugunum á jörðu niðri setja nýliðið ár í fyrsta sæti.
Í heildina hafa báðir ferlarnir legið upp á við. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist þróuninin hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar og tímabilið eftir 2000 er það hlýjasta bæði hér og á jörðinni í heild. Hitinn hefur þó sveiflast mjög hér hjá okkur, bæði milli ára og einnig á áratugaskala. Hlýju tímabilin á okkar slóðum eru þó staðbundin hlýindi að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfirskot að sama skapi og líta má á þau köldu sem tímabundin undirskot miðað við heimshitann.
Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál. Sumir treysta sér til að segja að það sé að kólna og hafa sagt það lengi á meðan aðrir segja að það haldi áfram að hlýna, eins og reyndar hefur verið að gerast í heildina þegar litið er til baka. Ef við spáum þó bara í þetta nýbyrjaða ár, þá er frekar ólíklegt að árið 2015 verði hlýrra hér í Reykjavík í ljósi þeirra miklu sveiflna sem eru á milli ára. Hinsvegar trúi ég heimshitanum til alls um þessar mundir og tel að 2015 gæti hæglega gert enn betur en 2014, ef enn betur skildi kalla.
![]() |
Jörðin hlýnar áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.1.2015 | 20:48
Rýnt í gömul og ný mánaðarmeðaltöl
Nú mun ég halda áfram þeirri súlna- og talnaleikfimi sem ég stundaði á síðasta ári en að þessu sinni ætla ég að skoða mánaðarmeðalhita í Reykjavík síðustu 10 ára og bera saman við tvö fyrri 30 ára viðmiðunartímabil. Hið fyrra eru gömlu hlýindin 1931-1960 og hið síðara er kalda meðaltalið 1961-1990 sem um leið er núverandi opinbert viðmiðunartímabil. Rauðu súlurnar standa fyrir síðustu 10 ár.
Til hægri eru fjórar súlur sem standa fyrir ársmeðalhita tímabilanna. Það er farið að styttast í að næsta 30 ára viðmiðunartímabil taki gildi en það mun taka mið af árunum 1991-2020. Græna súlan allra lengst til hægri sem segir til um hvernig staðan á því er nú, þegar 24 ár eru liðin af því tímabili.
En þá er að skoða myndina. Þar má sjá að meðalhiti síðustu 10 ára er um 0,5 stigum hærri en meðalhiti hlýja 30 ára tímabilsins og 1,2 stigum hærri en meðalhiti kalda tímabilsins. En það leggst þó mismunandi á mánuðina. Mestu munar um hlýnunina fyrstu tvo mánuði ársins en auk þess er þá lítill munur er á hlýju og köldu 30 ára meðaltölunum. Síðustu 10 ár hafa svo áfram vinningin allt fram í ágúst en mjög litlu munar reyndar í maí. Kalda meðaltalið 1961-1990 er auðvitað oftast kaldast en hefur þó betur í febrúar gagnvart gömlu hlýindunum. Síðustu fjóra mánuði ársins er lítill munur á gömlu og núverandi hlýindunum, en munurinn sem þó er, er nútímanum í óhag. Greinilega hefur ekki verið mikið um hlýindi í október síðustu ár. Mætti kannski tala um sóknarfæri þar?
Nú mætti spyrja hvers vegna síðasti þriðjungur ársins (berjamánuðirnir) hafi ekki hlýnað umfram gömlu hlýindin. Ég kann ekki svarið við því, né heldur á því hvers vegna fyrstu tveir mánuðir ársins eru svona hlýir nú, miðað við gömlu hlýindin. Miðvetrarhlákur hafa oft gert vart við sig á síðustu árum en að sama skapi hefur oft haustað snemma með köldum norðanáttum undanfarin ár. Annars verður að hafa í huga að 10 ár er ekki mjög langt tímabil til viðmiðunar. Næstu 10 ár verða örugglega líka öðruvísi á einhvern hátt.
Það er heldur ekki alveg öruggt að næsta 30 ára viðmiðunartímabil (1991-2020) verði hlýrra en gamla hlýindatímabilið (1931-1960) þótt það sé á góðri leið. Næsta 30 ára tímabil verður allavega ekki eins hreint hlýindatímabil og það fyrra enda munar talsvert um árin 1992-1995 þegar árshitinn var að burðast við 4 gráðurnar. Árið 1995 var reyndar síðasta kalda árið í Reykjavík en þá var meðalhitinn ekki nema 3,8 stig.
- - - -
Þetta er auðvitað birt með fyrirvara um að rétt sé reiknað (sem ég reikna með að sé) en tölurnar til grundvallar eru af vef Veðurstofunnar.
8.1.2015 | 21:59
Fín mynd af Holuhrauni á Nasa-vefnum
Mynd dagsins á vefnum NASA Earth Observatory er loftmynd af Holuhrauni tekin 3. janúar 2015 ásamt umfjöllun. Myndin er ekki alveg í raunlitum, en þó samt nokkuð eðlileg að sjá. Glóandi hraunelfur sjást vel næst gígnum en einnig er greinilegt að hraun streymir enn að jöðrum hraunbreiðunnar lengst í austri og norðri. Að hluta má gera ráð fyrir að hraunið flæði þangað undir storknuðu yfirborði. Kannski aldrei að vita nema við fáum þarna nýja og almennilega hraunhella eins og Surtshelli í Hallmundarhrauni. Til þess þarf þó hraunhrásin að tæmast að gosi loknu sem er ekki víst að gerist.
Í texta sem fylgir myndinni á NASA-vefnum eru upplýsingar fengnar frá Jarðvísindastofnun Háskólans, en margt af því hefur þegar komið fram hér í fjölmiðlum. Talað er um að flatarmálið sé 84 ferkílómetrar. Þykkt hraunsins er áætluð að meðaltali 14 metrar á vesturhluta hraunsins en um 10 metrar á austurhlutanum en alls er rúmmálið 1,1 ferkílómetrar sem nægir til að skilgreiningar á hrauninu sem flæðibasalt og ekki á hverjum degi sem menn geta fylgst með slíkum atburði.
Einnig er talað um minnkandi virkni í gosinu eða hægfara rénun. Rénunin fari þó minnkandi eftir því sem virknin minnkar þannig að gosið gæti haldið áfram í nokkurn tíma þótt virknin minnki. Dregið hefur einnig úr sigi öskjunnar undir Bárðarbungu eins og við þekkjum. Sigið var 80 cm á dag á upphafsstigum en er nú komið niður í 25 cm á dag. Skjálftavikni hefur að sama skapi minnkað.
Lesa má um þetta nánar hér: http://earthobservatory.nasa.gov/IOTD/view.php?id=85031&eocn=home&eoci=iotd_readmore
Sé myndin skoðuð nánar og smellt á hana á vefnum framkallast mun stærri mynd í góðri upplausn og spannar snævi þakið hálendið allt um kring svo sem Öskjusvæðið, norðurhluta Vatnajökuls og allt að Hálslóni í austri. Myndin sem hér fylgir er heldur léttari en orginalinn sem finna má á slóðinni hér að neðan: (Ath. að vegna hárrar upplausnar gæti tekið smá tíma að kalla fram myndina) http://eoimages.gsfc.nasa.gov/images/imagerecords/85000/85031/holuhraun_oli_2015003_swir_lrg.jpg
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.1.2015 | 23:41
Veðrið í Reykjavík 2014
Það er við hæfi að hefja nýtt bloggár með veðuruppgjöri. Til að koma því til skila á sem einfaldasta hátt hef ég útbúið mynd sem sýnir hitafar, sólskin og úrkomu liðins árs í Reykjavík. Rauða línan sýnir hvernig meðalhiti hverrar viku þróaðist yfir árið og er unnin upp úr mínum eigin skráningum. Þar er um að ræða hitann yfir daginn en ekki meðalhita sólarhringsins. Granna svarta línan sýnir svo hvernig hitinn ætti að vera miðað við nokkurskonar meðalárferði.
Gulu sólskinssúlurnar eru teiknaðar útfrá gögnum Veðurstofunnar og sýna sólskin í mánuðinum hlutfallslega (%) miðað við meðalár. Þannig táknar súla nálægt gildinu 100 á kvarðanum hægra megin að sólskin hefur verið í meðallagi.
Úrkomusúlurnar eru einnig teiknaðar eftir gögnum Veðurstofunnar og sýna úrkomu hvers mánaðar í millimetrum miðað við skalann til hægri (eða í cm miðað við skalann til vinstri).
Svo maður fari aðeins yfir þetta þá var þetta í fyrsta lagi mjög hlýtt ár eða annað hlýjasta árið í Reykjavík með meðalhitann 6,0 stig. Mín tilfinning er að hlýindin hafi verið nokkuð lúmsk á árinu en allavega voru þau án mikilla stæla. Mestu munar þar um að hlýindi voru ekkert sérstök á heitasta tíma ársins og desember frekar kaldur. Hitinn var hinsvegar nokkuð jafnt og þétt ofan frostmarks fyrstu mánuðina og vorið reyndist mjög hlýtt. Meðalhitinn í júní var t.d. ekki nema 0,2 stigum frá metmánuðinum júní 2010. September var nokkuð hlýr en nóvember var langt yfir meðaltali og sá hlýjasti síðan 1945 og þar með ljóst að árið yrði með þeim allra hlýjustu í borginni, og um allt land, hvernig sem desember þróaðist.
Sólskinstundir í Reykjavík reyndust nokkuð undir meðallagi og munar þá mest um hvað sumarið reyndist þungbúið lengst af, enda mikið kvartað yfir því. Sólin skein hinsvegar óvenju mikið í febrúar sem um leið var sérlega þurr mánuður. Slíkir vetrarmánuðir eru venjulega kaldir hér suðvestanlands en ekki að þessu sinni því vindur blés aðallega úr austri á meðan köldu norðanáttirnar héldu sig til hlés. Reyndar var talað um að veðurfar síðasta vetur hafi oft verið fast í ákveðnum tilbreytingalausum fasa allt frá Norður-Ameríku til Evrópu eins og stundum vill verða. Það hélt því bara áfram að snjóa þar sem snjóaði og sólin hélt áfram að skína þar sem hún skein. Í tilbreytingaleysinu gátu borgarbúar þó kvartað yfir svellalögum sem aldrei ætluðu að bráðna.
Í samræmi við annað var úrkoman mjög ágeng í júnímánuði, gjarnan með talsverðum dembum sem hálffylltu úrkomumæla en þess á milli dropaði alltaf af og til. Niðurstaðan var blautasti júní sem mælst hefur í Reykjavík. Júlí var eitthvað skárri en dugði þó hvergi til að lægja óánægjuraddir. Þetta var sem sagt eitt af þeim sumrum sem borgarbúar horfa öfundaraugum til norður- og austurlands og vildu helst hverfa á brott med det samme. Þetta reddaðist þó fyrir horn í ágúst eftir Verslunarmannahelgi en þá segja reyndar margir að sumarið sé búið og er alveg sama um veðrið. Haustrigningar hófust svo í september sem reyndist vera úrkomusamasti mánuður ársins en úrkoman var þá tvöfalt meiri en í meðalári og gott betur. Það var því oft yfir ýmsu að kvarta á árinu og ekki minnkaði kvartið í desember þegar hver óveðurslægðin af annarri gekk yfir með snjókomum og spilliblotum en þó að lokum með mjög svo jólalegum jólasnjó um jólin.
Þrátt fyrir ýmis konar veðurkvein í fólki var þetta þrátt fyrir allt hið sæmilegasta veðurár. Veðureinkunnakerfið mitt segir það allavega og metur árið jafnvel í góðu meðallagi miðað við fjölmörg góð ár þessarar aldar. Svipað og með hitann þá voru veðurgæðin bara ekki upp á sitt besta akkúrat á þeim tíma þegar mesta eftirspurnin er. Margt meira má skrifa um veðrið á árinu en ýmsar merkilegar veðuruppákomur áttu sér svo stað á landsvísu og á einstökum stöðum. Þetta yfirlit nær hinsvegar aðeins til veðursins í Reykjavík, enda er það mitt heimapláss. Veðurstofan gera þessu auðvitað ágætis skil á sinni heimasíðu sem og aðrir veðurgeggjarar.
26.12.2014 | 15:18
Um hlýindin fyrir nokkur þúsund árum
Það þykir nokkuð ljóst að fyrir svona 6-9 þúsund árum, skömmu eftir síðasta jökulskeið, var loftslag mjög hlýtt á norðurhveli og reyndar á jörðinni í heild. Þá var enginn Vatnajökull hér hjá okkur og jöklar almennt ekki nema á hæstu fjöllum á Íslandi. Norður-Íshafið hefur þá væntanlega verið alveg íslaust að sumarlagi og Grænlandjökull eitthvað minni. Eftir því sem tíminn leið kólnaði í lofti og stækkuðu þá jöklarnir smám saman en með ýmsum sveiflum þó, norðurhjarinn varð að túndru og hafísinn jókst. Við landnám höfðu stóru jöklarnir hér á landi þegar myndast en voru þó smærri en í dag. Stærstir urðu jöklarnir hér skömmu fyrir aldamótin 1900 eftir að hafa aukist hratt á tímum litlu ísaldarinnar. Síðan þá hefur þróunin heldur betur snúist við, eins og við þekkjum.
En af hverju var svona hlýtt á fyrstu árþúsundunum eftir síðasta stóra jökulskeið? Ekki óku steinaldarmenn um á jeppum og engar voru reikspúandi verksmiðjurnar. Og stóra spurningin: Ef þessi fornu hlýindi voru af náttúrulegum völdum, geta núverandi hlýindi þá ekki verið það einnig?
Til að geta sagt eitthvað um það er alveg bráðnauðsynlegt að taka tillit til breytilegrar afstöðu jarðarinnar gagnvart sólu og þeim sveiflum sem þar eru í gangi. Fyrir það fyrsta þá sveiflast halli jarðar fram og til baka á um 40 þúsund árum frá því að vera mestur um 24,3° og í það að vera minnstur 22°. Nú um stundir er hallinn um 23,5° og fer hægt minnkandi með hverju árþúsundi sem þýðir að jörðin er enn að rétta úr sér. Þetta hefur áhrif á staðsetningu heimskautsbaugsins sem nú liggur um Grímsey. Þegar halli jarðar var meiri fyrir nokkur þúsund árum var heimskautsbaugurinn sunnar með þeim afleiðingum að sumrin voru bjartari hér á landi og skammdegið að sama skapi dimmara - árstíðarmunur þar með meiri. Annar mikilvægur þáttur er pólveltan (skopparakringluáhrif) sem sveiflast einn hring á um 26 þúsund árum og ræður því hvort það er norður- eða suðurhvel sem hallast að sólu þegar jörðin er næst henni. Nú um stundir er jörðin næst sólu um hávetur á norðurhveli og fjærst henni að sumarlagi. Fleiri sveiflur með enn lengri tíðni koma einnig til og flækja málið enn frekar. Þar á meðal 100 þúsund ára sveifla í lögun sporbrautar jarðar en sú tíðni fer nokkuð vel saman við tíðni jökulskeiða. Samanlagt ýmist vinna þessar afstöðusveiflur með eða á móti hverri annarri á langtímaskala með mismunandi sólgeislunaráhrifum á breiddargráður jarðar. (Svakalega ætlar þetta að vera snúið) Þetta leiðir okkur þá að því sem ég ætla að koma að.
Þróun á inngeislun sólar á mismundandi breiddargráðum jarðar
Myndin hér að ofan er fengin úr rannsókn Marcott et al., 2013. og sýnir hvernig inngeislun sólar hefur þróast á mismunandi breiddargráðum jarðar síðustu 11.500 ár. Efsta myndin sýnir þróunina í desembermánuði og virðist þá sólgeislun hafa fara vaxandi með tímanum við miðbaug og á suðurhveli.
Miðjumyndin hefur síðan heilmikið að segja fyrir okkur því greinilegt er að sólgeislun að sumri hefur farið minnkandi á síðustu 8 þúsund árum á norðurhveli. Fyrir 8-10 þúsund árum hefur sólin þá risið heldur hærra sumardögum en hún gerir í dag og næturnar verið enn bjartari - með víðtækum áhrifum á loftslag á norðurslóðum enda vann þessi mikla sumarsól gegn myndun jökla og hafíss sem aftur hafði víðtæk áhrif á loftslag jarðar í heild.
Samanlögð áhrif fyrir jörðina í heild fyrir allt árið eru svo sýnd á neðstu myndinni og þá kemur fram enn eitt mynstrið. Bæði pólasvæðin njóta greinilega talsvert minni sólgeislunar eftir því sem líður á tímabilið en lítilsháttar aukning á sólgeislun er nærri miðbaug með tímanum. Þróunin þar er þó ekki nærri eins afdrifarík og hún er á hæstu og lægstu breiddargráðum.
Það er nokkuð góð sátt meðal vísindamanna um að þessi mikla og aukna inngeislun á norðurhveli að sumarlagi og aukin inngeislun yfir árið í heild á báðum pólum fyrir allt árið, hafi á sínum nægt til að binda enda á síðasta jökulskeið. Mestu ræður að þá fóru nokkuð vel saman, hámarkshalli jarðar og sólnánd að sumarlagi á norðurhveli. Sólgeislunin var raunar það öflug á norðurhveli að sumarlagi fyrir um 10 þúsund árum að ísaldarjöklar hurfu að mestu, fyrir utan Grænlandsjökul. Þróunin hefur síðan þá verið sumarsólinni í óhag á Norðurslóðum. Sú langtímaþróun hefur ekki snúist við og ekkert í henni sem gefur tilefni til þeirrar hnatthlýnunar sem átt hefur sér stað á síðustu 100 árum. Skýringar á þeirri hlýnun þarf því að leita annarstaðar enda um mun styttra tímabil að ræða en þessar þúsunda ára sveiflur gefa tilefni til.
Megin tilgangur rannsóknar Marcotts og félaga sem minnst var á hér að ofan var annars sá að að rannsaka hitaþróun jarðar 11 þúsund ár aftur í tímann, en það er tímabilið frá lokum síðasta jökulskeiðs og kallast Holocene (eða bara nútími). Þetta var gert út frá fjölda gagna og gagnaraða sem fyrir hendi eru, allt frá ískjörnum á hájöklum og niður í setlög regindjúpanna ásamt allskonar lífrænum gögnum. Út úr því kemur blái ferillinn á línuritinu hér að neðan sem sýnir nokkuð samfellda kólnun síðustu 5000 ár, þar til snögghlýnar á ný sem endar á rauðu striki upp í hæstu hitahæðir, en þá hafa beinar hitaskráningar tekið við.
Samkvæmt þessum niðurstöðum og línuritinu er meðalhiti jarðar nú um stundir hærri en hann hefur áður verið frá lokum síðasta jökulskeiðs þrátt fyrir neikvæða langtímaþróun í afstöðu jarðar gagnvart sólu. Það tekur sinn tíma fyrir ís, jökla, sjávarhæð og fleira að bregðast við þessum auknum hlýindum. Jöklar hér á landi eru til dæmis bara rétt farnir að láta á sjá en eiga varla séns til lengri tíma við óbreytt hitastig. Séu þessi núverandi hlýindi að mestu af mannavöldum eru litlar líkur á að þetta snúist við á næstunni, heldur þvert móti, hlýnunin gæti bætt öðru eins við sig og jafnvel gott betur á komandi tímum. Menn geta þó alltaf gert sér vonir um að náttúran sjálf sé eitthvað að leggja til í þessa hlýnun en framhaldið ræðst vissulega af þeirri hlutdeild.
Sjá umfjöllun um þessa rannsókn á Real Climate (The end of Holocene): http://www.realclimate.org/index.php/archives/2013/09/paleoclimate-the-end-of-the-holocene/
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.12.2014 | 20:25
Kuldi og ekki hlýjasta árið
Jæja. Það fer þá þannig. Kuldatíðin nú í desember kemur í veg fyrir að árið 2014 nái titlinum: Hlýjasta árið í Reykjavík, sem góðar líkur voru á að gæti gerst. Til að slá út ársmetið hefði meðalhitinn nú í desember þurft að ná sirka 1,2 stigum sem er ekkert mjög óvenjulegt hin síðari ár. Meðalhitinn í desember árið 2012 var til dæmis 1,2 stig. Árin 2005, 2006 og 2007 voru öll fyrir ofan þessa tölu og desember 2002 var metmánuður þegar meðalhitinn var 4,5 stig.
Desemberhlýindi eru kannski eitthvað að gefa eftir miðað við fyrsta áratug þessarar aldar. Árið 2011 var meðalhitinn -2,0 stig og hafði mánuðurinn þá ekki verið svona kaldur frá 1981 (-2,2 stig). Nú er hins vegar spurning hvort núverandi desember slái jafnvel út báða þessa mánuði og verði sá kaldasti síðan 1973 þegar meðalhitinn var -3,7 stig. Við förum þó varla að ógna þeim mánuði hvað kulda varðar.
Þó ég sé nú alltaf dálítið spenntur fyrir almennilegum snjóþyngslum og frosthörkum þá veldur þessi kuldalega frammistaða mánaðarins mér vissum vonbrigðum, enda finnst mér, sem einlægum veðuráhugamanni, alltaf áhugavert að fá góð met. Ekki síst árshitamet. Frammistaða þessa lokamánaðar ársins er reyndar dálítið dæmigerð og minnir jafnvel á frammistöðu íslenskra boltalandsliða á ögurstundu þegar allar varnir vilja bresta í lokin. Árið 2014 hafði með öflugum varnarleik fram að þessu náð að halda köldum norðanáttum vel í skefjum nánast allt árið, þar til nú í lokin að allt opnast upp á gátt fyrir ísköldu heimskautalofti trekk í trekk. En hvað um það. Árið 2014 verður samt í flokki hlýjustu ára. Meðalhitinn í Reykjavík gæti orðið um 5,8 stig þótt almennilegir kuldar haldi áfram. Aðeins fjögur ár eru skráð hlýrri. Meðalhiti áranna 1939, 1941 og 2010 var 5,9 stig og vel líklegt að 2014 bætist í þann flokk og gæti jafnvel náð 6 stigum ef frostin linast að ráði. Þá er bara eftir árið 2003 með sinn meðalhita upp á 6,1 stig og verður eitt um það met eitthvað áfram að minnsta kosti. Þetta má sjá á myndinni hér til hliðar þar sem hlýjustu árin í Reykjavík eru útlistuð.
Hvernig árið verður svo túlkað þegar kemur að uppgjöri fer svo að venju eftir því hvar menn eru staddir á pólitíska barómetinu í loftslagsmálum. Hitamet, eða ekki hitamet, á Íslandi vegur reyndar ósköp létt á heimsmælikvarða. Þeim mælikvarða er þó vel fylgst með um þessar mundir því meðalhiti jarðar er við það allra hæsta sem mælst hefur. Heimsmeistaratitill gæti því hlotnast árinu 2014 nema það glutri því niður á lokasprettinum eins og hér heima.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.12.2014 | 19:53
Stjörnumótíf við Kirkjufellsfoss
Þetta fyrsta orð í fyrirsögninni er ekki gott orð og hefur kannski ekki verið notað áður. En hvað um það? Íslensk náttúra þykir einstaklega myndræn og framandi og hefur vakið sífellt meiri athygli á undanförnum árum. Landið hefur verið nefnt draumaland ljósmyndara þar sem tiltölulega auðvelt er að nálgast ljósmyndamótíf sem eru engu öðru lík á heimsvísu. Það er ekki bara aukin dreifing ljósmynda í gegnum netheima sem hjálpar þarna til því á sama tíma hefur stafrænni ljósmyndatækni fleygt mjög fram að ógleymdri eftirvinnslu í myndvinnsluforritum sem getur gert hinar grámuskulegustu myndir að útópískum listaverkum. Atvinnuljósmyndarinn hefur í leiðinni fengið harða samkeppni frá vel græjuðum amatörum með gott auga fyrir myndbyggingu, litum og góðum mótífum.
Sum myndefnin koma þó fram oftar en önnur eins og verða vill og nýir staðir sem áður voru lítt þekktir slá í gegn. Óhætt er að segja að Kirkjufellsfoss sé einn slíkra staða. Kirkjufellsfoss í Kirkjufellsá er lítill foss rétt neðan við smábrú á vegarslóða sem liggur upp frá þjóðveginum á norðanverðu Snæfellsnesi. Fossinn og áin eru auðvitað kennd við Kirkjufellið sem rís þarna upp á sinn sérstaka hátt, í senn vinalegt og óárennilegt til uppgöngu.
Myndefnið býður líka upp á góða möguleika á ýmsum stælum, ekki síst eftir að dagsbirtu er tekið að bregða, en langur lýsingartími gerir fossinn þá að mjúkri hvítri slæðu. Gott virðist að nota gleiðlinsu til að fá sem víðasta sjónarhorn og ekki er þá verra ef norðurljósin fá að leika um himininn eða regnboginn eins og hann leggur sig. Þessu hafa ljósmyndarar gert góð skil á undanförnum árum og Kirkjufellið með Kirkjufellsfoss í forgrunni, hefur þannig orðið eitt af skærustu stjörnumótífum hér á landi meðal innlendra og erlendra ljósmyndara og hefur hróður þess borist víða.
Þær fínu myndir sem teknar hafa verið á þessum stað hafa átt sinn þátt í að koma Kirkjufellinu á heimskort alnetsins þar sem gjarnan eru teknir saman TOP10-listar yfir hitt og þetta. Þar má til dæmis nefna lista eins og: 10 Most Beautiful mountains in the world 10 Spectacular hidden paradise locations from around the world 10 most beautiful Places around the world.
- - - -
Sjálfur hef ég ekki komið akkúrat að þessum stað og notast því við myndir héðan og þaðan. Stóra myndin er tekin af g.hennings eins og hún kallar sig á Flyckr.com
Höfundar og uppruni annarra mynda eru: CoolbieRe / Tony Power / Piriya (Pete) / Conor McNeill / Peter Rolf Hammer
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2014 | 21:47
Mánaðarhitasúluritið að loknum nóvember
Það er varla hægt annað en að birta nýjustu uppfærslu á súlnaverkinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík eins og það lítur út nú að loknum þessum afar hlýja nóvembermánuði. Sem fyrr sýna bláu súlurnar meðalhita mánaðanna samkvæmt opinbera viðmiðunartímabilinu 1961-1990, rauðu súlurnar sýna meðalhita síðustu 10 ára og þær fjólubláu standa fyrir árið í ár. Nýliðinn nóvember var eins og þarna sést langt fyrir ofan meðaltöl mánaðarins og að auki nokkuð hlýrri en meðaltöl októbermánaðar. Það má segja að þessi nóvembersúla riðli þeirri fínu simmetríu sem komin var í myndina enda var þetta næst hlýjasti nóvember frá upphafi mælinga í Reykjavík (5,5°C), á eftir hinum ofurhlýja nóvember 1945 (6,1°C).
Staðan í árshitamálum fyrir Reykjavík er orðin athyglisverð og víkur þá sögunni að súlunum lengst til hægri sem standa fyrir árshita. Ef desember verður bara í kalda meðaltalinu (-0,2°C) þá endar meðalhiti ársins í 6,0 stigum og árið það næst hlýjasta frá upphafi. Ef desember hinsvegar hangir í 10 ára meðaltalinu (0,7 C°) þá endar meðalhitinn í 6,1 stigi sem er jafn hlýtt metárinu 2003, sem táknað er með grænni súlu. Stutt er þó í að árið verði það hlýjasta frá upphafi en samkvæmt mínum útreikningum þarf meðalhitinn nú í desember að ná 1,2°C til að svo megi verða.
Miðað við veðurspár er ekki mikilla hlýinda að vænta næstu daga þannig að best er að stilla öllum væntingum í hóf - hafi menn þá yfirleitt einhverjar væntingar. Sjálft meðalhitametið fyrir desember er varla í hættu en það er 4,5 °C frá árinu 2002. Hvað sem því líður er þó engin hætta á öðru en að árið 2014 verði eitt af allra hlýjustu árunum í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu, að ógleymdu heimsmeðaltalinu því ársmeðalhitinn 2014 er við það allra hæsta á heimsvísu, hafi einhver áhuga á að vita það.
29.11.2014 | 21:56
Karamella á þúsundkall
Verðbólgan er vissulega ekki að sliga okkur þessa dagana. En það hefur ekki alltaf verið þannig. Ég man að eitt sinn á mínum ungdómsárum á áttunda áratugnum vorum við strákarnir að velta fyrir okkur verðlagi á nauðsynjavörum í verðbólginni framtíð. Spurt var: Gæti verið að ein karamella ætti eftir að kosta þúsund krónur í framtíðinni? Okkur fannst það fráleit tilhugsun og eiginlega bara fyndið. Á þessum tíma minnir mig að ein lítil karamella hafi kostað eina krónu og þá á ég við þessar venjulegu Töggur frá Nóa. Lítill brjóstsykur kostaði sennilega líka eina krónu en þeir stærri af Haltukjafti-gerð kostuðu tvær krónur. En gamla krónan hélt svo sannarlega ekki verðgildi sínu í óðaverðbólgu áranna á eftir. Hún breyttist í létta flotkrónu. Henni var myntbreitt hundraðfalt sem ýtti undir enn meiri verðbólgu. Síðar var nýkrónan sett á flott og sökk enn dýpra. Hvað ætli ein lítil karamella kosti þá í dag um 40 árum síðar? Jú, þær kosta um 20-30 krónur stykkið samkvæmt innanheimilisheimildum. Þá á eftir að bæta við tveimur núllum vegna myntbreytingar sem gera tvö til þrjú þúsund krónur gamlar, takk fyrir. Þetta sýnir auðvitað hvað allt krónugildi er afstætt þegar kemur að framtíðinni. Hvað fæst þá fyrir þúsund krónur eftir 40 ár? Skyldi karamellan þá kosta þúsundkall? Hver veit? Verður hún kannski verðlögð í Evrum, Dollurum eða Norskum krónum?
Ég fór nú eiginlega að spá í þetta um daginn þegar EFTA-dómurinn féll um verðtryggðu lánin. Samkvæmt honum er það með öllu óviðeigandi að gera ekki ráð fyrir verðbótum ofan á vexti þegar greiðsluáætlun fram í tímann er gefin út. Svindl og prettir lánastofnanna kom í huga margra þegar um var rætt. En er endilega rétt í ljósi karamelluhagfræðinnar að það eigi alltaf að gera ráð fyrir verðbótum í greiðsluáætlunum? Það þarf kannski ekki að vera. Þegar til dæmis verðbætur 40 ára láns eru reiknaðar inn í áætlanir og eftirstöðvar skoðaðar eins og þær verða eftir 20 ár kemur sennilega fram að upphæðin hefur hækkað í krónum talið þrátt fyrir þrotlausar síhækkandi afborganir. Svo gæti því virst sem lánið gerði ekki annað en að hækka að raungildi um langa framtíð þegar raunin er sú að lánið lækkar. Þó maður skuldi sífellt fleiri krónur er ekki þar með sagt að maður skuldi fleiri karamellur.
Sjálfum finnst mér verðtygging í raun ekkert óeðlileg því hún tryggir að afborganir og eftirstöðvar séu í samræmi við almenna verðlagsþróun. Það mætti hinsvegar frekar herja á sjálfa vextina enda eru raunvextir um 5% æði mikið á 40 ára láni. En það sem máli skiptir í öllu svona er að þeir sem taka lán, stutt eða löng, geri sér grein fyrir því í hverju það felst til framtíðar og að sá sem tekur lán og sá sem veitir lán séu á sömu blaðsíðu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.11.2014 | 11:40
Moggarifrildi frá 1967
Ýmis blöð berast með hlýjum vindum og safnast fyrir á svalagólfinu. Ekki eru það allt laufblöð. Í morgun mátti sjá rifrildi af sjálfu Morgunblaðinu sem við nánari athugun reyndist vera frá 13. september 1967. Meðal efnis var húseign til sölu í Blesugróf með lóðaréttindum, útborgun 275.000 þúsund. Á bakhliðinni var minning um mann sem varð ungur skáti og var alltaf boðinn og búinn til að veita aðstoð og hjálp, hvar og hvenær sem til hans var leitað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)