20.4.2017 | 01:00
Veðrið á sumardaginn fyrsta 1987-2017
Ég hef tekið hér saman létt yfirlit yfir veðrið sumardaginn fyrsta í Reykjavík allt frá árinu 1987 sem byggist á mínum eigin skráningum og á að lýsa einkennisveðrinu yfir daginn. Sumardagurinn fyrsti er alltaf á fimmtudegi á tímabilinu 19.-25. apríl þegar enn er allra veðra von, eins og við höfum reynslu af, en sérstaklega er það hitastigið sem gjarnan á erfitt með að ákveða hvaða árstíð það vill tilheyra. Eins og sést á töflunni er þó yfirleitt nokkuð sólríkt á þessum árstíðaskiptum og að sama skapi þurrt. Köldustu dagarnir dóla sér nálægt frostmarkinu og þeir hlýjustu vippa sér yfir 10 stigin eins og ekkert sé. Engin regla er í vindafarinu fremur en endranær en það má nefna að hægviðrasamir dagar eru þarna táknaðir með hlykkjóttri pílu úr viðkomandi vindátt og tvöföld píla er vindur af tvíefldum styrk. Síðasti dálkurinn er einkunn dagsins á skalanum 0-8, fengin með ákveðnu kerfi sem ég nenni ekki að útskýra nema ef einhver spyr. Eini sumardagurinn fyrsti sem fær fullt hús stiga er árið 2004 og gerir það með miklum glans. Ekki þurfti þó að kvarta árin 1996, 2001 og 2007 þótt sá síðastnefndi hafi verið í svalara lagi. Það stefnir reyndar ekki í mikið sumarveður að þessu sinni á þessum annars ágæta degi. Hefðbundin veðurbókarskráning mun fara fram í lok dags, en ég er þó að hugsa um að bæta við skráningu dagsins eftir kvöldmat.
Skráning dagsins er nú komin inn og óhætt að segja að veðrið hafi verið afar fjölbreytt. Bjart var með köflum og stöku él. Hitinn fór í 4 stig í sólinni en kólnaði á meðan élin gengu yfir. Vindur nokkuð sterkur úr vestri fyrri partinn en lægði heldur er leið á daginn. Veðureinkunn dagsins er 3 stig, þar af tvö stig fyrir veðurþáttinn og eitt stig fyrir hitann. Ekkert fyrir vindinn.
Veður | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2017 | 13:28
Herðubreiðareldar?
Öðru hvoru erum við áminnt um möguleg eldgos í hinum og þessum eldstöðvum en allur gangur er þó á því hvort eitthvað gerist. Aðdragandi eldgosa er afar mislangur og fer það eftir eldstöðvum. Hekla gýs nánast fyrirvaralaust á meðan aðrar eldstöðvar þurfa vinna í sínum málum árum eða áratugum saman áður en það brestur á með gosi. Biðin eftir gosi í Kötlu virðist engan enda ætla að taka og þótt hún hafi lengi verið talin einn líklegasti kandídatinn fyrir næsta gos þá skjótast sífellt aðrar eldstöðvar fram fyrir með sprækum gosum. Í takt við það þá hefur talsverður óstöðugleiki verið á litlu svæði rétt við Herðubreið undanfarna daga og náði hrinan vissu hámarki nú í morgun 18. mars með skjálfta upp á nálægt þremur á Righter.
Við vitum auðvitað ekkert hvort þessir skjálftar þarna við Herðubreið þýði að gos sé yfirvofandi á næstunni eða ekki. Raunar hafa verið skjálftar á þessum slóðum árum saman með mislöngum hléum. Sennilega má tengja þetta við mikla smáskjálftavirkni sem hófst við Upptyppingar lítið eitt austar fyrir nálægt 20 árum. Sú virkni átti eftir að færast að Álftanesdyngju og aftur til baka en virðist nú hafa fundið sér góðan afmarkaðan stað rétt suðaustan við Herðubreið. Svona virkni þykir vera til merkis um að einhver kvika sé á ferðinni þarna í undirheimunum en hafi ekki fundið sér leið til yfirborðs. Fyrirstaða virðist vera til staðar í jarðskorpunni á um 3-4 kílómetra dýpi en flestallir skjálftarnir eiga stað þar fyrir neðan og niður á allt að 10 km dýpi.
Eins og jarðfræðingar benda stundum á, þá nær bara takmarkaður hluti kviku til yfirborðs yfirleitt, en megnið af kvikunni storknar undir yfirborði án nokkurra frekari atburða. Það gæti vissulega átt við þarna við Herðubreið. En ef við erum áhugasöm fyrir sakleysislegu hálendisgosi, jafnvel túristagosi, þá gæti þetta alveg verið staðurinn. Líklegast er að um dyngjugos yrði að ræða og þá myndi myndast svokölluð dyngja eins og algengt er á þessum slóðum. Slík gos einkennast af hægu þunnu hraunrennsli á afmörkuðum stað (kannski þó sprungugos í upphafi) og getur staðið langtímum saman samanber gosið endalausa á Hawaii. Þetta væri því ekki kröftugt sprungugos eins og það sem kom upp í Holuhrauni en kvikan þar var ættuð úr kvikuþró hinnar miklu megineldstöðvar Bárðarbungu. Tengsl gætu þó verið þarna á milli, t.d vegna gliðnunar sem átti sér stað vegna Bárðarbungu. Undir Herðubreið er hinsvegar engin kvikuþró. Kvikan sem þar er undir kemur fersk beint úr iðrum jarðar án þess að hafa þróast í kvikuhólfi. Lengd gossins fer þá eftir því hversu gott jafnvægi er til staðar í því sem berst djúpt að neðan og upp til yfirborðs.
Annars borgar sig að segja sem minnst um óorðna atburði sem ekki er einu sinni víst að séu yfirvofandi. Hitt er þó víst að þarna mun gjósa að lokum. Kvika mun halda áfram að leita upp þarna vegna nálægðar við heita reitinn og landið mun halda áfram að gliðna vegna flekahreyfinga. Þar sem þetta tvennt fer saman verða óhjákvæmilega eldgos öðru hvoru því kvikan mun alltaf finna sér leið að lokum um þær sprungur og veikleika sem gliðnunin skapar. Meðfylgjandi myndir eru skjáskot af vef Veðurstofunnar.
4.3.2017 | 01:38
Þunnildislegur hafís í Norðurhöfum
Miðað við hversu hlýtt hefur verið í vetur á norðurslóðum, má velta fyrir sér hvort komið sé að tímamótum og hvort nýr áfangi sé framundan í hnignandi hafísbreiðunni í Norður-Íshafinu. Sennilega er þó ekki tímabært að skapa einhverjar væntingar eða örvæntingar í þessum málum, en nú sem aldrei fyrr, finnst mér full ástæða til að fylgjast vel með afkomu hafíssins þegar sumarbráðnunin hefst.
Ég ætla að byrja hér á samsettri mynd frá hafísdeild Dönsku Veðurstofunnar sem sýnir hvernig hitinn norðan 80°N hefur verið (rauð lína) miðað við meðalhita (græn lína) allt aftur til ársbyrjunar 2016. Frostmarkið er sýnt sem blá lína og eins og sést þá skríður hitinn þar rétt yfir um sumarið en annars er kvarðinn til vinstri í Kelvin. Í allan vetur hefur hitinn á svæðinu verið hátt yfir meðallaginu og var það reyndar lengst af í fyrravetur einnig. Topparnir í vetur hafa hinsvegar verið afgerandi nema reyndar smá kuldakast fyrir nokkrum dögum þegar fimbulfrostið fór niður í það vera bara venjulegt á þessum slóðum.
Þegar frostið er ekki meira en þetta, gerist það náttúrulega að þykknun hafíssins verður minni en venjulega yfir vetrartímann og þess er farið gæta í mælingum og í tölvuútreikningum sem áætla þykkt íssins. Sjálfsagt spilar fleira en lofthitinn inn í. Með hlýjum lægðum úr suðri berst líka hlýr og saltur sjór norður í íshafið.
Kortin hér að neðan sýna þykkt íssins og eru unnin útfrá tölvulíkönum, sem við gerum ráð fyrir að séu ekki mjög fjarri sanni. Kvarðinn lengst til hægri er í metrum. Bæði kortin gilda 2. mars, 2016 er til vinstri en 2017 til hægri og eru þau frá Bandaríska sjóhernum.
Breytingin milli ára er nokkuð greinileg. Samkvæmt 2017-kortinu hægra megin er nú mun minna af ís sem er yfir 3 metrum á þykkt. Slíkan ís hefur venjulega verið að finna í Beaufort-hafi norður af Kanada og Alaska en sá þykki ís beið reyndar mikið afhroð síðasta sumar. Ísinn er einnig mjög þunnur norður af Beringssundi milli Alaska og Síberíu. Ekki er ástandið betra inn af Barentshafinu þar sem margar hlýjar lægðir hafa gert usla í vetur. Þungamiðja ísbreiðunnar er hinsvegar að þessu sinni norður af Grænlandi og Svalbarða og þaðan er stutt í Fram-sundið þar sem ísinn lekur í gegn samkvæmt venju og berst síðan suður með austur-Grænlandi. Ekki er þó mikið um hafís hér við land núna. Allt lítur þetta frekar illa út fyrir hafísinn, hvað sem okkur finnst um það.
Það má líka taka annað samanburðarár. Hér að neðan eru borin saman með sama hætti árin 2012 og 2017. Myndin til vinstri sýnir, sem sagt, ástand íssins í marsbyrjun 2012, en sumarið þar á eftir er frægt fyrir mestu bráðnun sem orðið hefur á ísnum yfir sumartímann og skilaði af sér lágmarksmeti í útbreiðslu sem stendur óhaggað enn. Miðað við ástandið í dag er varla hægt að segja annað en að það lágmarksmet geti farið að vara sig í sumar. Segi ekki meir í bili.
- - -
Reyndar eitt til viðbótar, kl 15:30: Línuritið hér að neðan, sem unnið er úr nýuppfærðum gögnum frá Piomas, sýnir stöðuna á rúmmáli íssins miðað við síðustu ár. Rauða línan sýnir að árið 2017 er þarna vel undir öðrum árum sem eru til viðmiðunar og hefur verið þannig það sem af er ári. Ef sama neikvæða frávikið helst næstu mánuði má velta fyrir sér hversu mikið verður yfirleitt eftir af ísnum í lok september. En best að hafa alla fyrirvara þar á. Ýmislegt gæti gerst í millitíðinni
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2017 | 22:22
Sérkennilegur hraunfoss á Hawaii
Öðru hvoru fáum við stuttar fréttir af hinu lífseiga dyngjugosi sem staðið hefur frá árinu 1983 á austustu eyju Hawaii-eyjaklasans sem oftast er nefnd Big Island. Þetta er lang-eldvirkasta eyjan á Hawaii og um leið yngsta eyjan í klasanum. Þar er einnig að finna hina stóru elddyngju Mauna Loa þar sem allt er með kyrrum kjörum nú. Allt frá því gosið hófst hefur þunnfljótandi helluhraunið aðallega lekið í rólegheitum suðaustur til sjávar frá gígnum Puu Oo sem tilheyrir Kilauea eldstöðinni. Á öllum þessum árum hafa myndarlegar hraunbreiður breitt úr sér í hlíðunum niður að sjónum og hafa fjölmörg hús, vegir og önnur mannvirki orðið undir í þeirri baráttu.
Hraunrennslið hefur annars verið með ýmsum tilbrigðum og sjálfsagt ekki alltaf mjög tilkomumikið. Það á ekki við nú eins og einhverjir hafa kannski séð í fréttum. Undanfarnar vikur hefur nefnilega mjög óvenjuleg hraunbuna streymt beint út úr hraunveggnum við ströndina og fallið rauðglóandi ofan í sjóinn með tilheyrandi gassagangi. Þetta er auðvitað alveg bráðskemmtilegt sjónarspil fyrir túrista sem geta fylgst með frá bátum í hæfilegri fjarlægð. Fara þarf þó að öllu með gát því hraunveggurinn er óstöðugur og aðeins nokkrir dagar síðan stórt stykki féll úr klettunum og niður í sjó. Myndin hér að neðan er frá Hawaiian Volcano Observatory.
Öllu tilkomumeira er auðvitað að sjá lifandi myndir af þessu sjónaspili með því að kíkja á myndskeiðið sem kemur hér á eftir:
Eins og með önnur fyrirbæri tengd eldgosum þá er ómögulegt að segja til um hversu lengi þessi hraunfoss á eftir að lifa. Hraunrennslið á það til að skipta um farveg og þá ekki endilega í átt til sjávar. Síðla árs 2014 bar svo við að hraunrennslið fann sér nýja leið um sprungukerfi talsverða vegalengd til norðausturs og ógnaði þá þorpi í um 20 km fjarlægð frá upptökum. Ég fylgdist spenntur með og skrifaði tvær bloggfærslur um málið: Hraun ógnar byggð á Hawaii og Hraunfoss við sorpflokkunarstöð. Mun betur fór en óttast var og slapp byggðin að mestu. Sorpflokkunarstöðin meira að segja líka. Árið 2013 skrifaði ég svo um lífseigan óbrynnishólma þar sem síðasti ábúandinn í húsaþyrpingu þurfti að yfirgefa heimili sitt eftir að hafa sloppið furðu vel fram að því.
Svona rétt á meðan allt er með kyrrum kjörum hér á okkar eldfjallaeyju þá getur verið áhugavert að fylgjast með framvindu mála þarna á Hawaii. Eldfjallamiðstöð eyjaskeggja er á þessari slóð: https://hvo.wr.usgs.gov/ En hver veit annars nema eitthvað sé alveg að fara að gerast hér hjá okkur? Ýmislegt að sagt vera á boðstólnum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2017 | 23:06
Gengið á Heklu með Albert Engström sumarið 1911
Þá er komið að seinni hluta frásagnarinnar um ferðalag hins sænska Albert Engström og félaga um Ísland en þessi skrif eru byggð á bók hans Til Heklu sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1943, eins og getið var um í fyrri hlutanum sem ég birti fyrir viku. Ég skildi við þá síðast er þeir voru á leið að Gullfossi eftir dvöl að Geysi, þar áður á Þingvöllum og í Reykjavík. Sömu túristastaðir og í dag þótt hugtakið Gullni hringurinn hafi ekki verið fundið upp þá. Stefnan var tekin að Galtarlæk, þaðan sem þeir ætluðu að leggja á Heklutind. Þeir riðu fimm saman, Albert Engström, sænskur ferðafélagi hans Thorild Wulff, Englendingurinn Mr. Lawson sem hafði slegist í för með þeim og svo tveir íslenskir fylgdarmenn, útlendingunum til halds og trausts, þótt þeir væru ekkert sérlega heimavanir á þessum slóðum. Á þessum árum var hesturinn ennþá aðalsamgöngutækið og allar leiðir miðuðu við þann fararskjóta. Bitahagar komu í stað bensínsjoppa og farið var yfir óbrúuð fljót þar sem hestum var treyst til að vaða eða synda yfir. Sennilega hefur einn bíll verið til á öllu landinu árið 1911. Það var hinn svokallaði Grundarbíll, heilmikill þýskur trukkur sem fluttur var til landsins í einhveri bjartsýni, til flutninga norður í Eyjafjörð fjórum árum fyrr og var bíll númer tvö hér á landi, á eftir Thomsen bílnum. Þetta sumar gerði Grundarbíllin þó ekkert annað en að ryðga í túnfætinum við Grund í Eyjafirði. En það er útúrdúr.
Ferðin um sunnlenskar sveitir gekk ágætlega og virðast þeir hafa verið einstaklega heppnir með veður þessa síðsumardaga í ágúst. Líka þegar þeir voru á Norðurlandi fyrr í reisunni. Mesti farartálminn á leiðinni var Þjórsá sem var útbólgin eftir mikla jökulbráðnun í sumarhitunum. Þeir komu að kláfferju við bæinn Þjórsárholt en það apparat nýttist bara mannfólkinu. Koffort voru ferjuð yfir beljandann af ferjumanni með árabát. Hestunum leist hinsvegar ekkert á að þurfa að synda yfir og snéru ávallt til baka. Íslenska aðferðin við því vandamáli var að grýta hestana til hlýðni og út í strauminn en Svíunum blöskruðu mjög þær aðfarir og kynntu til sögunnar sænsku leiðina, sem var að binda hestana saman í halarófu á eftir árabátnum. Sú aðferð lukkaðist og fylgir sögunni að Íslendingarnir hafi "orðið hálf-hvumsa við". Þetta gæti verið enn ein sönnun þess hve Svíar hafa löngum verið öðrum þjóðum framar að flestu tilliti og lengra komnir á þróunarbrautinni. Sígilt umkvörtunarefni Engströms hér landi voru annars hin stuttu rúm sem veittu litla hvíld fyrir langa sænska fætur, auk þess sem honum þóttu dúnsængurnar hér á landi allt of hlýjar í sumarmollunni. Ferðalangarnir gistu að Galtarlæk en ábúandinn þar, Ingjaldur að nafni, hafði það aukastarf að fylgja göngumönnum upp á Heklutind þegar svo bar við. Ingjaldur þessi er með "mikið skegg og mikið af neftóbaki í því" eins og Engström segir sjálfur frá og teikning hans sýnir. Leist honum ekki heldur á "yglibrún" Ingjaldar en þeir Engström gátu þó sameinast í tóbaksnautn sinni í göngunni, ekki síst vegna sænska gæðatóbaksins sem auðvitað var öllu betra en nokkur íslenskur sveitamaður hafði áður kynnst.
En nú verð ég að fara að beina frásögninni að Heklu. Sumarið 1911 hafði Hekla ekki gosið í 66 ár og 36 ár voru í næsta gos ef við skiljum útundan tvö hraungos í nágrenni fjallsins. Allt frá því Eggert og Bjarni gengu á Heklu fyrstir manna árið 1750 lá leiðin ávallt upp eftir suðvestur-hryggnum og fóru okkar menn þá leið einnig. Sú leið varð hinsvegar illfær eftir gosið 1947 en samkvæmt Árbók Ferðafélagsins var minna um skipulagðar Heklugöngur í kjölfar þess. Það var svo ekki fyrr en eftir Skjólkvíagosið 1970 sem farið var að ganga á Heklu norðanmegin, þ.e. eftir norðausturhryggnum og það var einmitt sú leið sem ég fór á sínum tíma með Ferðafélaginu, sumarið 1990, grunlaus um að aðeins hálfu ári síðar átti Hekla eftir að gjósa.Ferðin frá Galtarlæk að Heklu var farin á hestum og þurfti meðal annars að fara á vaði yfir Ytri-Rangá sem var allt annað en auðvelt, en Ingjaldur kom þeim slysalaust yfir. Þaðan lá leiðin í skógi vaxinn Hraunteig og framhjá Næfurholti og þaðan hækkaði landið smám saman. Samkvæmt venju þess tíma voru hestarnir skildir eftir í dálítilli lægð (í 960 metra hæð samkvæmt árbók FÍ). Þá tók við mikið brölt um úfin hraun og allskyns torfærur uns komið var að langri og brattri fönn sem lá upp fjallið og að rauðgulum gíg þar sem nú nefnist Axlargígur. Þaðan var farið yfir meiri fannir meðfram hryggnum uns ekki var hærra komist. Toppnum var náð og við blasti hálft Ísland í heiðríkjunni og hið stóra op helvítis. Að vísu fullt af snjó. Albert Engström lýsir upplifun sinni með hástemmdum hætti:
"Þetta er æfintýraland, og í sannleika, á Heklu hefir guð aðsetur sitt, enda þótt stundum hafi virst svo, sem kvein fordæmdra sálna heyrðust innan úr dýpstu fylgsnum hennar. Hér urðum við Wulff að taka upp þá fáu konjaksdropa, er við höfðum geymt til þessa, og skála fyrir fegurðinni í fullkomleika sínum. Aldrei hefur himinhvolfið verið svo fagurt yfir fögrum hluta jarðarinnar
[Hið góða skyggni] kvað vera mjög sjaldgæft. Þeir fá höfundar, sem nent hafa upp á efsta tindinn og ég hefi lesið frásagnir eftir, kvarta allir um þoku, storma og önnur eða svo eða svo mikil óþægindi."
Grasafræðingurinn Thorild Wolff, hinn sænski félagi Engströms, lét sér þó ekki nægja að dást að dýrðinni, heldur þaut skyndilega niður brúnina til að komast í snjóskafl og fylgdi Englendingurinn Mr. Lawson hið snarasta á eftir til að vera með. Á fönninni afklæddist Svíinn og velti sér allsberum í snjónum. Ingjaldur gamli með sitt neftóbak upp á augabrúnir hafði ýmsu kynnst í háttsemi útlendinga en hafði þetta að segja um athæfið: "Hvað er eiginlega við það sem mentun heitir, þegar doktor getur tekið upp á þessum fábjánaháttum?" Tóku þeir Ingjaldur og Engström síðan í nefið og kinkuðu kolli hvor til annars. Það kemur ekki skýrt fram í bókinni hvaða dag nákvæmlega þeir félagar stóðu upp á Heklutindi en það hefur sennilega verið upp úr miðjum ágúst. Þeir héldu til Reykjavíkur daginn eftir Heklugönguna og ferðuðust þá sunnar, eða þar sem Þjórsá er brúuð á sömu slóðum og í dag. Einnig fóru þeir yfir brúaða Ölfusá við Selfoss þar sem var gist. Daginn eftir voru þeir komnir í bæinn. Þann 25. ágúst, nokkrum dögum síðar héldu þeir svo með Botníu til Svíþjóðar.
Íslandsferð þeirra Engströms og Wulffs var svo sem engin tímamótaheimsókn en hin myndskreytta bók Engströms, Til Häclefjäll, sem kom út í Svíþjóð tveimur árum síðar, vakti athygli í heimalandi hans og sagt að hún hafi mótað sýn Svía á Ísland, lengi á eftir. Kvikmyndir Wolffs fóru einnig víða. Þar má nefna sérstaklega, lifandi myndir sem hann tók í Reykjavík af íslenskri glímu, stuttu áður en heim var haldið. Þær myndir áttu sinni þátt í að glíman varð sýningargrein á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi sumarið 1912. Smá klausa er meira að segja um það í Öldinni okkar. Í lokin má líka minnast á grein í Morgunblaðinu þann 2. júní 1995, bls 22, þar sem sagt er frá sýningu í Norræna húsinu með myndum, teikningum og ýmsu öðru sem tengist Íslandsferð þeirra Alberts Engström og Thorild Wolff. Reyndar var þriðji Svíinn upphaflega einnig með í för, Carl Danielson, sem þurfti að snúa aftur heim eftir að hafa dottið af hestbaki norður á Siglufirði. Íslandsferðin var þó hin besta í alla staði fyrir Albert Engström og það fegursta sem fyrir hann hefur komið eins og hann nefnir á lokasíðum bókarinnar og hann fagnar því að "reikistjarnan okkar skuli eiga svo fagran blett á yfirborði sínu". Vér Íslendingar nútímans vonum að svo sé enn og verði áfram.
- - - -
Heimildir auk sjálfrar bókarinnar:
Árbók Ferðafélags Íslands 1995
Bifreiðir á Íslandi 1904-1930 I.
Öldin okkar, 1901-1930.
Morgunblaðið 2. júní 1995.
Bækur | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.1.2017 | 00:40
Áleiðis Til Heklu með Albert Engström sumarið 1911
Erlendir túristar eru ekkert nútímafyrirbæri hér á landi enda hefur Ísland löngum þótt vera dularfullt og spennandi land í augum þeirra útlendinga sem á annað borð hafa vitað að það sé til. Svíinn Albert Engström var einn hinna ævintýragjörnu Íslandsvina en sumarið 1911 heimsótti hann landið ásamt félaga sínum, Thorild Wulff, jurtafræðingi og landkönnuði og var lokatakmark ferðarinnar að ganga á sjálfa Heklu sem frá fornu fari var helst þekkt í augum útlendinga fyrir að vera inngangur að sjálfu helvíti. Albert Engström var frá Lönneberga í Smálöndum og hefur því verið sveitungi nafna míns, sem við höfum kennt við Kattholt. Engström var annars sæmilega þekktur í Svíþjóð sem útgefandi grínblaðs og var sjálfur hinn ágætasti skopmyndateiknari og gamansagnahöfundur.
Að leiðangri loknum tók hann saman ferðasöguna frá Íslandi og gaf út í vinsælli bók í sínu heimalandi og kallaði ritið: Til Häclefjäll, en titillinn var í aðra röndina létt tilvísun í að fara til helvítis. Bókin átti eftir að móta sýn Svía á Íslandi lengi á eftir og þó frekar á jákvæðan hátt heldur en hitt enda var Engström yfirleitt dolfallin yfir fegurð hinnar hrjúfu og skrítnu náttúru landsins. Árið 1943 kom bókin út í Íslenskri þýðingu Ársæls Árnasonar og hét auðvitað bara TIL HEKLU og prýddi forsíðan teiknaðri sjálfsmynd höfundar. Sjálfsagt hefur bókin gert það ágætt hér eins og í Svíþjóð, þó ég viti það ekki með vissu. Hitt veit ég að eintak af bókinni hefur lengi verið til í fjölskyldu minni enda er það merkt Hannesi Guðlaugssyni, fósturafa föður míns. Sjálfur lét ég þó ekki verða að því að kynna mér innihald hennar fyrr en núna fyrir stuttu og óhætt að segja að það voru góð kynni. Að vísu er bókin farin að láta á sjá og hangir bókstaflega saman á einum bláþræði.
Af ferð þeirra Engström og Wulff er annars að segja að þeir lögðu frá landi í Svíþjóð með millilandaskipinu Emmy 16. júlí 1911. Komu þeir fyrst hér að landi á Siglufirði og upplifðu þar ekta síldarstemningu, eða öllu heldur síldaræði eins og það kom þeim fyrir sjónir. Þaðan var siglt inn Eyjafjörðinn og kusu félagarnir að hoppa frá borði við Hjalteyri og fara þaðan á hestbaki til Akureyrar. Ferðuðust þeir svo til Mývatns og könnuðu meðal annars hverasvæðin við Námaskarð. Áfram var siglt vestur fyrir land með viðkomu á Ísafirði og Stykkishólmi. Loks var stigið á land í Reykjavík og hafinn undirbúningur að leiðangrinum mikla austur um sveitir og að Heklu. Sænski konsúllin var þeim innan handar og sá þeim fyrir hestum og tveimur leiðsögumönnum sem áttu að fylgja þeim um þetta erfiða land. Það kom sér þó vel að talsverðar samgöngubætur höfðu átt sér stað vegna konungskomunnar fjórum árum fyrr og á Þingvöllum var hægt að fá hótelgistingu í sjálfri Valhöll. Helst voru það breskir ferðalangar af fínna taginu sem mest bar á. Frá Þingvöllum var haldið að Laugarvatni og með Konungsveginum áfram að Geysi þar sem heimafólk var þegar farið að hafa það gott út úr túristabransanum. Þeir Engström og Wulff voru við öllu búnir og höfðu tekið með sér 50 kíló af sápu til að framkalla gos og tókst það með ágætum með hjálp kunnugra.
Við Laugarvatn og Geysi kynntust þeir ensku ferðafólki af fínna taginu sem einmitt var að koma úr Heklureisu. Gangan á Heklu hjá þeim ensku hafði að vísu mistekist og ástæðan sögð sú að konurnar í hópnum hefðu guggnað í miðjum hlíðum eldfjallsins og hreinlega ekki nennt þessu príli þegar til kom, karlmönnunum í hópnum til lítillar ánægju. Ágætlega fór þó á með öllum þessum ferðalöngum við Geysi. Thorild Wulff var vel búinn ljósmynda- og kvikmyndatólum og kemur fram í bókinni að hann hafi þarna fyrstur manna kvikmyndað Geysisgos. Ýmislegt fleira skemmtilegt var kvikmyndað eins og lýst er bókinni:
um sólseturbil tók Wulff kvikmynd af öllum hópnum, okkur og Englendingunum, þeysandi eftir reiðgötunum fyrir neðan hverina, ég í broddi fylkingar og kvenfólkið hið næsta mér auðvitað mál með blaktandi blæjur, örar og yndislegar, og veslings mennirnir í humátt á eftir, sem urðu að hætta við að ganga á Heklu vegna þess að þeir höfðu bundist svo brothættu glingri.
Þetta innskot í textanum " auðvitað mál " er væntanlega skírskotun í kunnuglegt vandamál sem enn í dag plagar margan ferðalanginn á Íslandi, nefnilega takmörkuð eða léleg salernisaðstaða. Gefum bókarhöfundi aftur orðið:
"Ég vorkenni kvenfólkinu sem þarna er. Milli gistihússins og Geysis er lítið, en mjög mikilvægt skýli hvers vegna einmitt þarna á alfaraleið? Hurð var þar engin og dyrnar snéru út að hverunum. Þetta er skýrt dæmi um tómlæti Íslendinga og framtaksleysi, slóðaskapinn gagnvart útlendingum, sem þeir vilja fúslega að heimsæki sig, þó að þeir kæri sig kollótta um öll þægindi handa þeim. Hugsið ykkur t.d. hvað Þjóðverjum yrði úr gistihúsinu því arna!"Áfram var haldið og stefnan tekin á Gullfoss og þaðan á Hekluslóðir. Einn Englendinganna, Mr. Lawson, ákvað að slást í för með Svíunum enda kvenmannslaus í þessari reisu og ætlaði ekki að láta draum sinn um að standa á Heklutindi fara forgörðum. Svíarnir tóku þessum nýja ferðafélaga reyndar ekki mjög fagnandi í fyrstu en hann átti þó eftir að skreyta ferðalagið með ýmsum dyntum sínum. Mr. Lawson var ákaflega enskur í öllum háttum og sérstakur í augum Svíanna (sérstaklega þó skopmyndateiknarans Alberts Engström) en stóð þó nær nútímanum að því leyti að hann var með spánýja, handhæga Kodak-myndavél og átti það til að smella af í gríð og erg án þess að kunna undirstöðuatriði ljósmyndunar svo sem að stilla ljósop og fókus.
Það var ekki beinlínis greið og auðveld leið sem beið félaganna áleiðis að Heklu þessa sumardaga árið 1911 þótt veðrið hafi leikið við þá. Um framhald ferðarinnar og glímuna við Heklu mun ég fjalla um í seinni hluta þessarar frásagnar sem ég stefni á að birta um næstu helgi hafi heimurinn ekki farist í millitíðinni.
7.1.2017 | 22:45
25 fjölmennustu ríki jarðar
Mannfjöldi jarðar telur nú 7,5 milljarða og fólki fjölgar enn. Í meðfylgjandi töflu má sjá hvaða 25 þjóðir eru fjölmennastar nú í byrjun árs 2017. Til að sýna hvernig þróunin hefur verið hin síðustu ár eru árin 1998, 2004 og 2011 höfð til samanburðar en þannig sést ágætlega hvaða þjóðum fjölgar mest og hverjar að dragast aftur úr. Til þæginda er ég með litaskiptingu eftir heimsálfum. Allra fjölmennustu þjóðirnar sitja fastar í sínum sætum enda ber þar meira á milli. Það mun þó eitthvað breytast á næstu áratugum og þess ekki langt að bíða að Indverjar taki forystuna af Kínverjum. Talað um að það gæti jafnvel gerst árið 2022. Almennt er staðan sú að hinum ríku og þróuðu þjóðum fjölgar lítið eða ekkert á meðan fátækustu þjóðunum fjölgar mest. Þannig fjölgar sífellt Afríkuþjóðum á þessum lista og ef flóttamannastraumar verða ekki þeim mun meiri er hætt við að einhver af gömlu Evrópustórveldunum falli af listanum í næstu útgáfu myndarinnar sem kannski verður birt að 6-7 árum liðnum.
- - - -
Tölurnar í þessari töflu fyrir árin 2010 og 2017 eru fengnar af netinu. Þær nýjustu eru af vefsíðunni worldometers. Tölur fyrir 1998 og 2004 voru hinsvegar reiknaðar á sínum tíma út frá gögnum í Almanaki Háskóla Íslands.
2.1.2017 | 18:08
Þannig var meðalhiti mánaðana í Reykjavík
Enn eitt árið að baki og allskonar yfirlit líta dagsins ljós. Hér kemur eitt þeirra en það er hitafarsyfirlit sem byggir á línuriti sem ég hef sett saman til að sýna meðalhita hvers mánaðar 2016 í Reykjavík samkvæmt tölum Veðurstofunnar. Til samanburðar eru rauðu súlurnar sem sýna meðalhita 10 áranna þar á undan og bláu súlurnar sem sýna 30 ára viðmiðunartímabilið sem enn er í gildi og uppnefnist hér "kalda meðaltalið" vegna þess hversu kalt þar var í raun. Til hægri eru að auki árshitasúlur sömu tímabila.
Eins og sjá má þá létu hlýindi á sér standa tvo fyrstu mánuðina og var febrúar undir kalda meðaltalinu. Fátt benti því til þess framan af að mjög hlýtt ár væri í uppsiglingu. Frá og með mars fór hitinn að ná sér á strik og voru átta af þeim tíu mánuðum sem eftir voru hlýrri en meðalhiti 10 áranna þar á undan. Mest afgerandi voru hlýindin í október sem var sá hlýjasti í rétt rúm 100 ár eða síðan í október 1915 en þá var örlítið hlýrra og er merkilegt í ljósi þess að almennt var nokkuð kaldara fyrir 100 árum. Þetta sýnir þó að óvenjuleg hlýindi, eða kuldar, geta komið upp burt séð frá ríkjandi ástandi hverju sinni. Frávik desembermánaðar miðað við meðaltöl var jafnvel enn meira en þau hlýindi voru þó ekki alveg eins óvenjuleg því einhver tilfelli eru um desembermánuði sem hafa náð 4 stigum en metið á desember 2002 (4,5 stig).
Hlýjasta árið í Reykjavík er 2003 þegar meðalhitinn var 6,1 stig. Árið 2016 endaði örlítið lægra eða í 6,0 stigum. Svo vill til að meðalhitinn árið 2014 var einnig 6,0 stig og eru þessi tvö ár, 2016 og 2014, í öðru til þriðja sæti yfir hlýjustu árin hér í borg. Fast á eftir þeim fylgjir árið 2010 og tvö ár frá hlýindaskeiðinu á síðustu öld 1939 og 1941 og var meðalhiti þeirra 5,9 stig. Samanburður milli þessara tímabila mun þó vera háður óvissu og því gæti dugað að tala um þessi sex ár: 1939, 1941, 2003, 2010, 2014 og 2016, sem hlýjustu árin í Reykjavík síðan farið var að mæla.
Það þýðir víst lítið fyrir mig að spá fyrir um meðalhitann á þessu nýbyrjaða ári enda er ég enginn veðurfræðingur og jafnvel þótt svo væri, væri sjálfsagt fátt um svör. Líklegra þykir mér þó að meðalhitinn verði lægri á þessu ári og þá aðallega vegna þess að erfitt er að toppa svona hlýtt ár. Miðað við fjölda 6-stiga ára undanfarið, þá má kannski alveg velta fyrir sér möguleikum á stórbætingu í meðalhita á næstu árum, þ.e. ef almenn hlýindi halda áfram. Slíkt gæti til dæmis oltið á því hvað gerist með þróun sjávarhita hér í kring og hvernig hafísmálum verður háttað í norðri. Þar hefur mikið verið að gerast undanfarið ár og blæs ekki byrlega fyrir hafísinn sem gæti rambað á barmi algers hruns á komandi sumri miðað við skortinn á eðlilegum fimbulkuldum þar undanfarið. Ýmislegt er allavega í boði til að fylgjast með í náttúrunni, tala nú ekki um þegar Katla fer að loksins gjósa, sem auðvitað er alveg borðleggjandi að gerist á þessu ári - eða þannig.
![]() |
Hlýtt ár að baki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veður | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2016 | 22:45
Óheppilegir nágrannar á tónleikum
Í þessari lokabloggfærslu ársins er mál til komið að tuða svolítið sem er nokkuð sem ég geri alltof lítið af á þessum vettvangi. Ég er ekki mikill spekingur á klassíska tónlistarsviðinu en fer öðru hvoru á slíka tónleika til að hlusta á uppáhaldsverkin og sjá þau flutt milliliðalaust við bestu aðstæður. Til að ná hinu hárfína sambandi við æðri tónlist þá gildir auðvitað að tónleikagestir hafi hljótt um sig og sitji sem prúðastir í sínum sætum, sem þeir gera langflestir en ekki allir. Ég veit ekki hvort ég sé óvenju óheppinn eða óvenju viðkvæmur fyrir öðru fólki á tónleikum en allavega hef ég furðu oft á síðari tímum lent við hliðina á, eða nálægt fólki, sem hefur dregið að sér athygli mína í meira mæli en góði hófi gegnir og frá því sem ég kom til að fylgjast með og njóta. Hér mun ég telja upp helstu slík atvik sem ég man eftir.
Fyrst skal minnast tónleika fyrir þó nokkrum árum þegar Háskólabíói var ennþá aðaltónleikahúsið. Þangað var ég kominn til að hlýða á hina miklu og löngu 5. sinfóníu Gustavs Mahlers, sem ég hef dálæti á. Eftirvænting mín var mikil, en á undan sjálfu verkinu var leikið stutt verk sem ég man ekki hvað var en athygli mín fór mest í óheppilega neföndun mannsins sem ég lenti við hliðina á. Sessunautur minn átti sem sagt við einhver þrengsli í nefi að stríða sem komu út sem regluleg blísturshljóð við útöndun. Ég sá fram á að þurfa að búa við þennan aukaflautuleik við hlið mér alla tónleikana en til allrar hamingju var gert hlé strax eftir stutt upphafsatriðið og þar sem ekki var alveg uppselt gat ég komið mér fyrir annarsstaðar í salnum eftir hlé, fjarri nefflautuleikaranum og gat notið verksins sem ég var kominn til að hlýða á, sem betur fer!
Víkur þá sögunni að tónleikum í Hörpu þar sem ég var mættur, aðallega til að fylgjast með 5. píanókonsert Beethovens leikinn af Víkingi Heiðari. Önnur tónverk voru einnig á efnisskránni. Allt gott og blessað nema hvað í sætaröðinni beint fyrir framan mig sat ungt par og var maðurinn öllu áhugasamari en konan sem greinilega vildi helst vera stödd einhversstaðar allt annars staðar. Hún hefði líka mín vegna alveg mátt vera allt annarstaðar en athygli mín fór mikið í að fylgjast með aumingjans konunni horfa í kring um sig, blaða skipulagslaust í prógramminu, líta á klukkuna eða gjóa augunum á manninn/kærastann sem sjálfur leit ekki af sviðinu. Á einhverjum tímapunkti stóðst hún ekki freistinguna og fór að athuga í símtækinu sínu, hvort eitthvað meira spennandi væri að gerast í mannheimum.
Næsta tilfelli var á tónleikum í Norðurljósasal Hörpu þar sem fram fór ýmis tónlistarflutningur, meðal annars ljóðasöngur með Kristni Sigmundssyni. Fyrir aftan mig sat maður sem kominn var til ára sinna og virtist eiga í einhverjum öndunarörðugleikum. Allavega átti hann það til að anda ótt og títt með önghljóðum en tók sér góð öndunarhlé þess á milli. Hann hrökk þó alltaf í gang að lokum, gaf ekki upp öndina og lifði af þessa tónleika. Það gerði ég einnig.
Þá er komið að klassískri ballettsýningu en slíka sýningu sá ég í fyrsta sinn fyrir tveimur árum þegar Rússneskur balletthópur tróð upp með Svanavatnið af miklum glans og fínheitum. Kannski voru viss mistök gerð að velja sýningu sem fram fór um miðjan dag en ekki að kvöldi til því talsvert var af börnum á sýningunni. Mest ungum stelpum með ballerínudrauma. Reyndar voru stelpurnar prúðar og stilltar og trufluðu mig ekki. Aðra sögu er að segja af strák nokkrum sem sat fyrir aftan mig, sennilega með afa sínum. Strákurinn vissi greinilega ekkert hvað hann var að fara að sjá og spurði afa sinn eftir að sýningin og dansinn hófst: "Hvenær byrjar þetta?" Fleiri spurningar fylgdu í kjölfarið sem snérust aðallega um framvindu verksins, hver væri vondi karlinn og þess háttar. Á einhverjum tímapunkti eftir hlé spurði strákurinn hvenær þetta yrði búið.
Síðasta vetur fór ég á sinfóníutónleika í Hörpu þar sem Ashkenazy var við stjórnvölin. Fyrir framan mig sat maður sem með atferli sínu virtist ekki vera tíður gestur á svona tónleikum. Hann var allur á iði, leit mikið í kringum sig og átti erfitt með að ákveða hvort hann ætti að halla sér fram eða aftur í sætinu. Og þegar hann ákvað að betra væri að halla sér aftur þá hlammaði hann sér á sætisbakið af fullu afli. Þegar kom að hléi sá ég að þessi maður var einn af helstu tónlistarspekúlöntum landsins og því aldeilis ekki að mæta á sinfóníutónleika í fyrsta skipti auk þess sem ég man vel eftir honum frá menntaskólaárunum. Það róaði mig nokkuð eftir hlé að vita hver þetta væri og ég held að hann hafi eitthvað róast líka. Allavega náði ég að upplifa eftir hlé hið hálistræna algleymi undir tónum sveitasinfóníu Beethovens enda er hún meðal allra fínustu tónverka sem til eru. Spekúlantinn fyrir framan mig var þó ekki alveg jafn alsæll með flutninginn ef marka má hans eigin dóm.
Að lokum skal minnst á síðustu heimsókn mína í Eldborgarsal Hörpu fyrr í vetur og aftur var það ballettsýning, með Rússneskum listamönnum. Sjálfur Hnotubrjóturinn eftir Tchaikovsky og af fyrri reynslu var ákveðið að fara á kvöldsýningu. Fyrir sýningu velti ég fyrir mér í hverju ég skildi nú lenda og kom það fljótlega í ljós eftir að sýningin hófst en sessunautur minn reyndist vera líkamsmikill maður í fylgd með konu sinni. Af nógu er að taka þegar lýsa skal nærveru hans en kannski var grunnurinn sá að maðurinn var of stór fyrir sætið sem hann sat í og lítið pláss fyrir stóra fætur. Maðurinn þurfti hvað eftir að annað skipta um stellingu og æ oftar eftir því sem á sýninguna leið. Þar að auki gat hann ekki andað hljóðalaust og gaf öðru hvoru frá sér þung útöndunarhljóð gegnum nefið (oftast kallað að dæs). Þegar líða fór á sýninguna var honum sífellt oftar litið á klukkuna þrátt fyrir að það væri ekki auðvelt fyrir hann að sjá á hana. Eftir eitt af dansatriðunum seint í sýningunni tók hann mikið undir þegar klappað var í salnum. Sennilega hefur hann þá haldið að sýningin væri búin en var þó ekki að ósk sinni fyrr en nokkru síðar og var þá fljótur að standa upp að lokaklappi loknu.
Eins og ég sagði hér áður þá er ég kannski óvenju viðkvæmur fyrir öðru fólki á tónleikum en mér finnst samt að gestir á klassískum tónleikum eigi að sýna öðrum vissa virðingu, þekkja sín líkamlegu takmörk og ekki auglýsa það of fyrir öðrum ef því finnst viðveran á tónleikunum óbærileg á einhvern hátt. Ég ætla mér þó ekki að gefast upp á að sækja svona viðburði enda trúi ég að ég hafi bara verið óvenju óheppin með nágranna undanfarið og því hlýtur að fara að linna.
Menning og listir | Breytt 2.1.2017 kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2016 | 00:24
Mestu hitasveiflur milla ára í Reykjavík
Við fáum sennilega ekki árshitamet hér í Reykjavík í ár en þó má alltaf finna eitthvað til, vilji maður veðurmetast. Það er alvanalegt að meðalhiti sveiflist mikið milli tveggja ára og ekki alltaf frásögum færandi. Núna hinsvegar er dálítið sérstök staða uppi hvað varðar árshitasveiflur í Reykjavík. Eftir óvenju mikla dýfu í meðalhita ársins í fyrra á bendir allt til þess að uppsveiflan núna í ár verði í svipuðum stíl og jafnvel meiri en áður hefur orðið ef við miðum við tímabilið eftir 1900.
Munurinn á meðalhita hins mjög svo hlýja árs 2014 (6,0°C) og ársins 2015 (4,5°C) er -1,5 stig og hefur aðeins einu sinni kólnað jafn mikið milli tveggja ára, en það var þegar hið ofursvala ár 1979 (2,9°C) tók við af mun skaplegra ári 1978 (4,4°C). Í seinna skiptið vorum við því að fara úr mjög hlýju ástandi niður í eitthvað venjulegra, en í fyrra skiptið hins vegar úr venjulegu ástandi þess tíma, niður í sérlega kalt ástand.
Hin köldu ár hafa þó þann kost að eftir því sem þau eru kaldari þeim mun líklegra er að það hlýni aftur og það minnir á það sem ég sagði einhvern tíma í fyrra að eftir því sem árið þá, 2015, yrði kaldara, þeim mun líklegra væri að nýtt hlýnunarmet yrði sett í kjölfarið, þ.e árið 2016, án þess að ég hafi haft einhverja sérstaka trú á því þá. Nema hvað. Nú stefnir allt í að árið 2016 verði meðal allra hlýjustu ára hér í Reykjavík. Ársmeðalhitinn verður væntanlega 5,9-6,0 stig sem þýðir að hlýnunin milli ára verður 1,4 eða 1,5 stig.
Þá má aftur rifja upp kuldaárið 1979 en í kjölfar þess kom árið 1980 (4,3°C) sem var 1,4 stigum hlýrra en fyrra ár, sem er mesta hlýnun milli tveggja ára á tímabilinu frá 1900. Þessar tvær hitasveiflur eru því alveg sambærilegar að öðru leyti en því að dýfurnar eiga á sér stað úr mjög mismikilli hæð. Þegar þetta er skrifað á núverandi hitauppsveifla þó ágætis möguleika á að verða sú mesta hingað til, en þá þarf ársmeðalhitinn að ná 6,0 stigum, sem ágætis líkur eru á. Við förum varla fram á það úr þessu að meðalhitinn nái 6,1 stigi sem væri jöfnun á árshitametinu 2003. Eitthvað er nefnilega verið að spá frostakafla núna um og eftir jólin, hvað svo sem er að marka það.
Árið 2017 er svo handan við hornið en í ljósi þessi hversu hlýtt hefur verið núna í ár, þá má áætla að næsta ár verði kaldara. Það þarf þó ekki að vera, en miðað við það sem ég hef þegar sagt þá hljóta líkur á kólnunarmeti að vera mun meiri á næsta ári heldur en líkurnar á endurbættu hlýnunarmeti.
Veður | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2016 | 21:04
Lýðveldisbörnin komin út á bók
Þær hafa verið nokkrar stórhátíðirnar sem haldnar hafa verið á Þingvöllum. Gjarnan er þá verið að minnast sögulegra atburða svo sem kristnitökunnar, stofnunar alþingis, stofnunar lýðveldisins og jafnvel landnámsins sjálfs. Þann 17. júní 1944 þegar þjóðin kom saman á Þingvöllum var hins vegar ekki verið að minnast eins eða neins heldur var þar um að ræða atburð sem markaði þáttaskil í sögu þjóðarinnar, nefnilega stofnun sjálfs lýðveldisins. Þetta var því sannkallaður gleðidagur hjá þjóðinni sem loksins stóð á eigin fótum og gat horft bjartsýn fram á við, eða að minnsta kosti vonað það besta í viðsjárverðum heimi. Auðvitað voru svo einhverjar mismunandi skoðanir á því hvernig staðið var að aðskilnaðinum við Dani sem bjuggu þarna enn við þýskt hernám og höfðu því lítið um okkar mál að segja.Og þjóðin mætti á Þingvöll, eða að minnsta kosti stór hluti hennar, ungir sem aldnir, á öllum þeim fararskjótum sem völ var á og átti þar blautan en ógleymanlegan dag í frægustu rigningu Íslandssögunnar. Margir hinna yngri, sem þarna voru, eru enn til frásagnar eins og lesa má í bókinni Lýðveldisbörnin sem nú er komin út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Veðurfræðingurinn Þór Jakobsson er eitt þessara lýðveldisbarna og átti hann frumkvæðið að því að safna saman minningum alls 86 manna og kvenna frá hátíðinni með bókaútgáfu í huga. Til liðs við sig í verkið fékk hann sagnfræðinginn Örnu Björk Stefánsdóttur en mér sjálfum hlotnaðist sá heiður að sjá um útlit og uppsetningu bókarinnar og klára fyrir prent. Það hefur verið ánægjulegt að koma að þessu verki sem ég held að hafi bara tekist nokkuð vel.
Annars er fróðlegt að lesa lýsingar unga fólksins af lýðveldishátíðinni. Sumir eru stuttorðir og muna lítið annað en sjálfa bílferðina og rigninguna. Aðrir hafa frá mörgu að segja og bæta við hugleiðingum um tíðarandann og sjálfstæðishugsjónina fyrr og nú. Eitthvað er um misminni sem er ekki óeðlilegt eftir allan þennan tíma og minnast jafnvel einhverjir atriða eins og glímukeppni sem þó fór ekki fram vegna úrhellis og bleytu. Rigningin kom þó ekki í veg fyrir að lýðveldisstofnun var fagnað og því fylgdu mikil ræðuhöld, upplestur á ættjarðarljóðum að ógleymdum lúðrahljómum, öllum söngnum og árnaðaróskum frá erlendum sendifulltrúum. Mest um vert þótti heillaóskaskeytið sem kom frá sjálfum kónginum sem frá og með þessum degi var ekki lengur kóngurinn okkar. Einhverjir felldu regnvot tár og hugsuðu um blessaðan kónginn sem ekki ætlaði að gera veður úr þessu upphlaupi okkar. En það birti aftur til og brast á með góðviðri og þurrki daginn eftir þegar mikill mannfjöldi safnaðist saman í miðbæ Reykjavíkur til að hlusta á fleiri ræður. Já, þetta hljóta að hafa verið skemmtilegir dagar.
Hátíðarhöld í Reykjavík 18. júní 1944.
Myndina tók Vigfús Sigurgeirsson og er hún ein fjölmargra ljósmynda í bókinni
Nánar um bókina hér: http://hib.is/vara/lydveldisbornin/
Bækur | Breytt 4.12.2016 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.11.2016 | 23:20
Kötluskjálftar
Eldstöðin Katla minnir á sig öðru hvoru með skjálftum eða stöku hlaupum án þess að almennileg umbrot eigi sér stað, en miðað við fyrri hegðun þá ætti Katla að hafa gosið fyrir nokkrum áratugum. Á síðustu 15-20 árum hefur margt þótt benda til að loksins gæti eitthvað alveg farið að gerast. Meira segja að hafa völvuspár tekið undir það þótt slíkir spádómar hafi verið orðaðir á sífellt varfærnari hátt með tímanum.
Fyrirboðar eldgosa eru nokkrir en mesta athygli fá jarðskjálftarnir enda benda þeir iðulega til óstöðugleika í jarðskorpunni. Forleikur Kötlugosa er svo sem ekki mikið þekktur en eldstöðin er annars nokkuð skjálftavæn að öllu jöfnu og því ekki óeðlilegt að ætla að skjálftum fjölgi mánuðina eða vikurnar fyrir gos - enda eru menn sífellt á nálum þegar slíkar hrynur ganga yfir.
Að þessu sögðu kemur hér línurit sem ég hef teiknað upp eftir skjálftagröfum sem finna má á vef Veðurstofunnar. Myndin sýnir fjölda skjálfta í Mýrdalsjökulsöskjunni og Goðabungu sem eru hluti af Kötlueldstöðinni en einnig sést fjöldi skjálfta í nágrannaeldstöðinni Eyjafjallajökli. Hver punktur á línuritinu sýnir uppsafnaðan fjölda á 12 mánaða tímabili og þar skal haft í huga að skil milli tímabila er 1. maí ár hvert og því eru aðeins liðnir tæpir 7 mánuðir af þessu skjálftaári. Rauða brotalínan er því einskonar áætlun um hvert stefnir næsta vor í Mýrdalsjökulsöskjunni með sama áframhaldi.
Eins og sést þá voru skjálftar undir Goðabungu ansi tíðir á árunum 2002-2004 með tilheyrandi gosóróa meðal jarðfræðinga sem og almennings. Goðabunga er vestarlega í Mýrdalsjökli og eiginlega ekki hluti af Kötluöskjunni og því ljóst að þetta voru ekki alveg hefðbundnir atburðir sem aðdragandi venjulegs Kötlugoss. Hugmyndir um svokallaða gúlamyndun undir jöklinum komu fram eða jafnvel að þetta hafi bara verið jökulhreyfingar. Hvað sem þetta var þó gaus ekki upp úr jöklinum.
En svo kom gos, nema bara ekki í Kötlu. Eyjafjallajökull stal nefnilega senunni. Skjálftar þar jukust mjög í byrjun árs 2010 uns hið heimsfræga gos kom þar upp um vorið. Eins og við munum átti gosið í Eyjafjallajökli bara að vera forsmekkurinn að því sem koma skyldi því í ljósi sögunnar var Katla talin líkleg til eldgoss í strax kölfarið. You ain't seen nothing yet eins og einhver sagði.
Sumarið 2011 fjölgaði skjálftum mjög í Mýrdalsjökulsöskjunni og vísbendingar eru um að þá hafi gosið undir jökli. Ekkert var þó að sjá nema einhverja sigkatla og hlaup sem reyndar tók af brúna yfir Múlakvísl. Eitthvað gæti þó hafa breyst í Kötlu eftir gosið í Eyjafjallajökli. Þótt eitthvað hafi róast eftir óróleikann í Kötlu árið 2011 þá voru skjálftar áfram viðvarandi og á þessu ári hefur skjálftum farið mjög fjölgandi og þá sérstaklega með hrinunni um mánaðarmótin sept-okt.
Þegar þetta er skrifað hafa 1800 skjálftar mælst síðan 1. maí í vor og með sama áframhaldi gæti fjöldinn verið kominn upp í 3000 í lok skjálftaársins. Kannski eitthvað fari loksins að gerast þarna á næsta ári kannski? Best er reyndar að stilla væntingum í hóf, allavega er ágætt bíða og sjá til dæmis hvað Völva Vikunnar hefur að segja. Aldrei er þó að vita nema önnur eldfjöll troði sér fram fyrir í röðinni, eina ferðina enn. Hekla er víst alltaf í startholunum líka.
- - - -
Heimildir: http://hraun.vedur.is/ja/myr/myr_num.html
Skjálftakortið efst er skjámynd tekin af Skelfir.is
Jarðfræði | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2016 | 21:31
Allskonar hitasveiflur
Allt stefnir í að 2016 verði hlýjasta árið á jörðinni frá upphafi beinna mælinga. Stór ástæða þessara hlýinda er mjög öflugt El Nino ástand á Kyrrahafinu sem náði hámarki síðasta vetur en vissulega leggjast hlýindin samfara því ofaná almenna hlýnun jarðar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum sem sér ekki fyrir endann á. Hvernig sem það fer allt saman þá er ekkert launungarmál að hitasveiflur hafa einkennt sögu jarðar frá upphafi en sú saga geymir bæði miklu hlýrri og kaldari tímabil en við búum við í dag.
Ýmsar langtíma- og skammtímaástæður eru fyrir því að hiti jarðar er ekki alltaf sá sami og koma þar við sögu allskonar náttúrulegar aðstæður og sveiflur af ýmsum toga. Það er einmitt það sem ég hef reynt að taka saman hér á eftir eftir minni bestu getu í stuttu máli og raðað eftir tímalengd.
Milljarðar ára. Aldurstengd virkni sólar sem nú er miðaldra sem sólstjarna. Orka sólar hefur aukist á æviskeiði hennar og verður svo áfram sem þýðir að jörðin á eftir að verða of heit til að halda uppi lífi. Óðaútþensla á sér stað eftir aðra 5 milljarða ára og mun hún þá gleypa innstu reikistjörnurnar. Eftir að sólin hefur lokið æviskeiði sínu fellur hún saman og verður að hvítum dverg. Heljarkuldi verður þá framvegs á jörðinni, lifi hún af umskipti sólarinnar.
Milljónir ára. Jarðsögulegar ástæður. Rek meginlanda veldur ýmsum breytingum ekki síst vegna áhrifa á hafstrauma. Þá skiptir einnig máli hvernig og hvort meginlöndin liggja að pólunum eða nálægt miðbaug. Síðasta stóra breytingin í þessa veru er tenging Norður- og Suður-Ameríku með Panamaeyðinu fyrir nokkrum milljónum ára en í kjölfar þess breyttust hafstraumar, jökulís fór að myndast á pólunum og í framhaldi af því, ísaldartíminn með vaxandi jökulskeiðum.
Þúsundir ára. Afstöðusveiflur jarðar gagnvart sólu eða hinar svokölluðu Milancovitch-sveiflur sem ganga yfir á tugþúsundum ára eða meir. Braut jarðar sveiflast á milli þess að vera regluleg eða sporöskjulaga á um 100 þúsund árum. Halli jarðar sveiflast til og frá á 41 þúsund árum og pólveltan er 21 þúsund ára skopparakringlusveifla sem ræður því hvort norður- eða suðurhvel er nær jörðu t.d. að sumarlagi. Samspil þessara sveiflna hafa skipt miklu máli á síðustu ármilljónum vegna þess hversu tæpt er að ísaldarástand ríki á norðurhveli eða ekki. Staðan er hagstæð núna enda erum við á hlýskeiði á milli jökulskeiða.
Áratugir/Aldir. Óreglulegur breytileiki í virkni sólar. Gæti útskýrt kuldaskeið á borð við litlu ísöld og ýmis hlýskeið á sögulegum tímum. Mannfólkið getur fundið fyrir slíkum breytingum á æviskeiði sínu. Sólin var með öflugara móti á síðustu öld en teikn eru á lofti um minni virkni á næstu áratugum. Breytileikinn í heildarvikni sólar er þó ekki nema eitthvað um 0,1%
Áratugir. Ýmsar sveiflur í virkni hafstrauma en alls óvíst er hversu reglulegar þær eru. Hér við land hefur verið talað um AMO sem er nú í hlýjum fasa en gæti snúist yfir í neikvæðan eftir einhver ár. Einnig eru uppi hugmyndir um slíkar áratugasveiflur í Kyrrahafinu og víðar.
10-13 ár. Reglulegar sveiflur í virkni sólar og tengjast sólblettahámörkum, oftast talað um 11 ára sveiflu. Um þessar mundir er niðursveifla og sólblettalágmark framundan sem gæti haft lítilsháttar áhrif til kólnunar.
1-7 ár. ENSO-sveiflurnar í Kyrrahafi, þ.e. El Nino og La Nina sem hafa víðtæk veðurfarsleg áhrif víða um heim. Ekki reglulegar sveiflur en búast má við að kalda eða hlýja ástandið komi allavega upp einu sinni á um það bil sjö ára tímabili. Mjög öflugt El Nino ástand er að baki sem á stóran þátt í því að meðalhiti jarðar hefur ekki mælst hærri en á þessu ári og jafnframt er nokkuð ljóst að meðalhiti næsta árs á jörðinni verður eitthvað lægri.
12 mánuðir. Árstíðasveiflan hin eina sanna og sú sveifla sem algerlega er hægt að stóla á. Orsakast af halla jarðar og göngu jarðar umhverfis sólu á rúmum 365 dögum.
Dagar. Óreiðuheimar veðursins koma hér við sögu en lúta þó sínum fjölmörgu lögmálum. Meðalhiti jarðar sveiflast þannig lítillega frá degi til dags eftir því hvernig vindar blása. Svæðisbundinn breytileiki er auðvitað mun meiri og gjarnan eru hlýindi á einu svæði ávísun á kulda annarstaðar.
24 klukkutímar. Þessi síðasti liður snýst um að jörðin snýst um sjálfa sig og sólin því ýmist ofan eða neðan sjóndeildarhrings á hverjum stað með tilheyrandi dægursveiflu. Þetta gildir þó ekki við pólana þar sem sólin er nánast jafn hátt á lofti innan hvers sólahrings.
Ofan á þessar sveiflur bætast við allskonar atburðir sem hafa áhrif til kólnunar eða hlýnunar til lengri eða skemmri tíma og má þar nefna eldgos og árekstra loftsteina. Sumir atburðir hafa verið örlagaríkir og leitt til varanlegra breytinga og fjöldaútdauða dýrategunda sem kunnugt er. Gróðurhúsaáhrif hafa alltaf verið mjög mismikil í gegnum tíðina og oft meiri en þau eru í dag. Breytingar á magni gróðurhúsalofttegunda hafa þó fram að þessu verið afleiðing breyttra aðstæðna af ýmsum fyrrnefndum ástæðum en ekki frumorsökin sjálf. Spurning er þá hvernig skal skilgreina nútímann. Lifnaðarhættir mannsins hér á jörðinni eru stundum skilgreindir sem ein af stóru náttúruhamförunum sem ekki sér fyrir endann á. Aukin gróðurhúsaáhrif fá þar mestu athygli enda er hinn mikli eldsneytisbruni nútímamanna atburður sem á sér ekki fordæmi og mun óhjákvæmilega leiða til hlýnunar jarðar næstu áratugi eða aldir. Sú hlýnun verður þó alltaf eitthvað trufluð eða mögnuð af þeim náttúrulegum atriðum sem hefðu átt séð stað hvort sem er.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2016 | 21:39
Mánaðarhitasúluritið að loknum október
Að loknum þessum afar hlýja októberbermánuði er varla hægt annað en að taka stöðuna á súlnaverkinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík. Ef þetta væru kosningaúrslit þá væri nýliðinn október ótvíræður sigurvegari hvað aukningu varðar og þá ekki bara í Reykjavíkurkjördæmi heldur einnig á landinu í heild. Annars sýna bláu súlurnar meðalhita mánaðanna samkvæmt opinbera viðmiðunartímabilinu 1961-1990, rauðu súlurnar sýna meðalhita síðustu 10 ára og þær fjólubláu standa fyrir árið í ár og eins og sjá má er októberhitinn í ár við það sem gengur og gerist í september. Meðalhitinn í Reykjavík að þessu sinni var 7,8 stig sem er þó ekki alveg met, því örlítið hlýrra var 1915, 7,9 stig. Hinsvegar var þetta metmánuður þegar kemur að úrkomu enda var hún mikil. Spurning er með vindinn, en samkvæmt óopinberum og ónákvæmum skráningum í eigin veðurdagbók, var þetta lang-vindasamasti október frá því eigin skráningar hófust árið 1986. Nánar um það í síðustu bloggfærslu.
Nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu eru línur farnar að skýrast varðandi ársmeðalhitann. Fjólubláu tónuðu súlurnar tvær lengst til hægri á myndinni eiga að sýna það. Sé framhaldið reiknað út frá kalda meðaltalinu 61-90 fæst ársmeðalhitinn 5,5 stig, en sé framhaldið reiknað út frá síðustu 10 árum má gera ráð fyrir 5,7 stiga meðalhita. Hvort tveggja telst vera mjög hlýtt. Árshitamet er þó varla líklegt. Hlýjasta árið í Reykjavík er 2003 (6,1°C) en mér reiknast svo til að meðalhitinn það sem eftir er þurfi að vera hátt í 4°C svo það náist. Hinsvegar er alveg öruggt að þetta ár verður mun hlýrra en árið í fyrra (4,5°C, græn súla). Það var reyndar kaldasta árið af þeim fáu sem liðin eru af öldinni eða það minnst hlýja, eftir því hvernig menn vilja orða það því hér hefur ekki komið kalt ár síðan 1995 (3,8°C).
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2016 | 00:30
Óvenjuleg veðurskráning og upphaf 30 ára kuldaskeiðsins
Í mínum 30 ára veðurskráningum hef ég fært til bókar ýmsar gerðir af veðurlagi enda má segja að hér á landi ríki fjölbreytnin ein með miklu úrvali af misvinsælum veðrum. Fjölbreytnin er þó mismikil og stundum vill veðrið festast í ákveðnum einstrengingshætti dögum eða vikum saman. Þessi fyrri partur októbermánaðar hefur einmitt verið þannig og fer veðurdagbókin ekki varhluta af því eins og sjá má hér á myndinni.
Ég geri annars ekki mikið að því að birta sýnishorn af veðurskráningum mínum en óvenjulegheitin undanfarið gefa þó tilefni til þess. Skráningin á að sýna einskonar meðalveður hvers dags samkvæmt dagsetningunni í fyrsta dálki. Eins og örvarnar sýna, aftan við veðurlýsingu, þá hefur vindur staðið af suðri eða suðaustri alla daga mánaðarins og oftar en ekki með strekkingi eins og tvöföldu örvarnar bera með sér. Þetta hafa verið hlýir og rakir vindar með hita upp á 8-12 stig sem út af fyrir sig er mjög gott á þessum árstíma. Sjálfur skilgreini ég daga sem ná 9 stigum, fyrri hluta október, sem hlýja og það skýrir hringina fyrir aftan hitatölurnar, sem síðan hefur áhrif á einkunn dagsins í aftasta dálki sem er á skalanum 0-8.
Það lýtur loksins út fyrir að lát verði á þessum sunnanáttastrekkingi, allavega í bili. Eitthvað mun því kólna þó ekki sé kuldatíð sjáanleg í spákortum. Með þessum hlýindum ætti meðalhiti mánaðarins í Reykjavík að enda vel fyrir ofan meðallag og gæti jafnvel blandað sér í baráttuna um efstu sætin. Spurning er einnig með vindinn sé á annað borð keppt í því. Sólarhringsmeðalhiti fyrstu 13 dagana er hátt í 10 stig hér í Reykjavík en til samanburðar er meðalhiti október síðustu 10 ára 4,8 stig, og er þá miðað við allan mánuðinn. Meðalhitinn í október í Reykjavík fer afar sjaldan yfir 7 stig. Furðuhlýtt var í október 1915, 7,9 stig, og svo var hann 7,7 stig árin 1946 og 1959. Meðalhitinn í október 1965 var 7,0 stig og hefur ekki farið hærra síðan.
Talandi um hinn hlýja október 1965 þá var Trausti okkar Jónsson að líkja veðurlagi þess mánaðar við það sem nú hefur ríkt, með háþrýstisvæði í austri sem beinir hingað sunnanhlýindum með strekkingsvindi og úrkomu. Sjálfur vil ég bæta við, fyrir kuldaáhugamenn, að veturinn sem fylgdi í kjölfarið var kaldur og með hæfilegri nákvæmni má segja að ekki hafi farið að hlýna aftur fyrr en 30 árum síðar. Októbermánuður 1965 markar samkvæmt þessu, lok hlýindaskeiðsins sem staðið hafði í nokkra áratugi og við tók vetur sem stendur ágætlega sem upphaf 30 ára kuldaskeiðsins. En auðvitað er ekkert þar sem sagt í þessu. Framtíðin er alveg jafn óljós sem fyrr, hvað veðrið varðar.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)