Reykjavíkurhitasúluritið

Nú eru sjö mánuðir liðnir af árinu og allt stefnir í að 2016 verði allnokkuð hlýrra hér í Reykjavík heldur en síðasta ár. Ekki þarf að vísu mikið til því árið 2015 var kaldasta árið það sem af er öldinni. Af þeim sjö mánuðum sem liðnir eru hafa 4 mánuðir verið hlýrri en meðaltal síðustu 10 ára. Janúar og maí voru undir þessu 10 ára meðaltali en þó fyrir ofan hið opinbera en kalda viðmiðunartímabil 1961-1990. Febrúar er hinsvegar kaldasti mánuðurinn það sem af er, bæði í raun og miðað við meðalhita, enda var hann kaldari en “kalda meðaltalið” segir til um.

Á glænýrri útgáfu af súluritinu hér að neðan sést hvernig þetta lítur út. Fjólubláu súlurnar standa fyrir þá mánuði sem liðnir eru, en til viðmiðunar er meðalhiti mánaðanna síðustu 10 ár (rauðar súlur) og kalda opinbera meðaltalið 1961-1990 (bláar súlur). Eins og sjá má getum við vel við unað og sumarið hefur staðið sig vel hvað hita varðar.

Reykjavíkurhiti 2016 - 7 mánuðir
Til hægri á myndinni eru fimm árshitasúlur. Bláa súlan þar er fyrir “kalda meðaltalið” þegar meðalhitinn í Reykjavík var einungis 4,3 stig en rauða súlan stendur fyrir síðustu 10 ár og er í 5,4 stigum. Tónuðu súlurnar tvær, sýna sem fyrr, áætlaðan árshita 2016 eftir því hvort framhaldið er reiknað út frá “kalda meðaltalinu” eða meðalhita síðustu 10 ára, samkvæmt mínum útreikningum. Kaldara framhaldið gefur okkur þannig 5,0 stiga árshita en verði framhaldið áfram í hlýrri kantinum verður meðalhitinn um 5,4 stig, sem einmitt er í takt við þau hlýindi sem við erum farin að venjast á þessari öld. Hvort heldur sem er þá stefnir árshitinn töluvert hærra en árið í fyrra (sem var 4,5 stig) en 2015 er sýnt þarna sem græn súla allra lengst til hægri. Hvað framhaldið varðar þá er auðvitað alltaf möguleiki á óvæntum öfgum í hitafari í aðra hvora áttina en burt séð frá því þá erum við í ágætis hitamálum nú um stundir og verðum vonandi áfram.


Af hafísbræðslumálum á Norður-Íshafinu

Um miðjan maí, þegar ég tók síðast stöðuna á ísnum á Norður-Íshafinu, þá velti ég upp þeim möguleika að minni hafís yrði þar nú í lok sumars en áður hefur sést á vorum dögum. Þetta var ekki sagt að ástæðulausu enda var hafísútbreiðslan síðastliðið vor, eftir hlýjan vetur, sú lægsta sem sést hefur og munaði talsverðu. Árið 2016 hafði því talsvert forskot á fyrri metár þegar kom að upphafi sjálfrar sumarbráðnunarinnar í Norður-Íshafinu. Til að grípa til samlíkingar þá var ástandið eitthvað svipað því að keppandi í 100 metra hlaupi fengi að starta nokkrum metrum framar en keppinautarnir. En þetta forskot fór þó fyrir lítið því segja má að bræðslusumrinu 2016 hafi hlekkst illa á í byrjun enda var forskotið orðið að engu um miðjan júní. Veðurfarslegar skýringar á þessu lélega starti var lægðargangur með óhagstæðum vindáttum og skýjahula sem hindraði sólbráð. Bræðslusumarið 2016 fékk því vindinn í fangið og sá vart til sólar til að byrja með. En sumarið 2016 náði sér loksins á strik þarna í norðri og síðan þá hefur bráðnun hafíssins haldið vel í við skæðustu keppinautana. Þetta má sjá á línuritinu yfir útbreiðsluþróun hafíssins þar sem árið 2016 er borið saman þau ár sem hafa náð lægstu útbreiðslu í lok sumars og þar er sumarið 2012 í sérflokki eins og sjá má á þessu Japans-ættaða línuriti.

JAXA línurit júlí 2016
Framhaldið er stór spurning eins og venjulega. Hefur sumarið 2016 það sem til þarf til að slá út metárið 2012 í lágmarkútbreiðslu? Á hafískortunum hér að neðan frá Bremen-háskóla eru þessu tvö ár borin saman í útbreiðslu og þéttleika á sömu dagsetningunni 19. júlí. Dreifing íssins er greinilega mismunandi milli þessara ára. Lægðargangurinn hefur vissulega haldið áfram í sumar en eftir því sem á líður þá skilar slíkur lægðarangur af sér tættari ísbreiðu sem verður sífellt viðkvæmari, þótt sjálf útbreiðslan dragist hægar saman. Gulgræni liturinn sýnir einmitt hversu gisin ísbreiðan er nú í sumar á stórum svæðum allt upp að sjálfum norðurpólnum, miðað við sumarið 2012. Þegar þarna var komið við sögu sumarið 2012, átti þó sjálf ofurlægðin eftir að herja á svæðið en sú lægð gerði eiginlega út af við þann hluta íssins sem lá norður af Alaska og Austur-Síberíu.

Hafískort 19. júlí 2012 og 2016

Til frekari glöggvunar kemur svo í lokin, önnur ísmynd í eðlilegri litum sem sýnir einnig stöðuna þann 19. júlí sl. en sjálfur hef ég bætt inn mörkum ísbreiðunnar í lok metsumarsins 2012. Greinilega þarf mikið að hverfa á næstu vikum ef eitthvað álíka á að gerast nú í ár.

Hafískort 19. júlí 2016 og lágmark 2012

Miðað við hvað ísinn er tættur og gisinn á stórum svæðum þá gætum við mögulega endað með tvískipta eða skellótta ísbreiðu í lok sumars, sem væri sérstakt. Freistandi finnst mér reyndar að segja að í ljósi bágs ástands ísbreiðunnar almennt, þá gæti bræðslusumarið 2016 mögulega átt óviðjafnanlegan endasprett og skapað ný viðmið þegar upp verður staðið, jafnvel opið hafssvæði á sjálfum Norðurpólnum, sem mér er stundum hugleikið.

Linkur á ýmis línurit og hafískort: https://sites.google.com/site/arcticseaicegraphs/


Lúpínuræða Fastagests

Ég hef áður vitnað í skáldsöguna Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson en það er góð bók að mínu mati, mjög sérstök en vissulega ekki við allra hæfi. Bókin er kraftmikill óður til Öræfasveitarinnar og náttúrunnar sem slíkrar en ekki síður fjallar bókin um samskipti mannsins við landið og náttúruöflin og er þar komið víða við. Ein höfuðpersóna bókarinnar nefnist Fastagestur og eru ófáar blaðsíður lagðar undir einræður hans enda skilst mér að hann sé einskonar samviska höfundar, eða sá sem talar máli höfundar bókarinnar. Fastagestur er yfirleitt ekkert að skafa utan af hlutunum og ekki heldur þegar kemur að blessaðri lúpínunni sem sífelldur styr stendur um. Ég ætla að leyfa mér að birta hér lúpínuræðu Fastagests í Öræfabókinni en þótt að hlutirnir séu hér málaðir sterkum litum þá get ég ekki annað en verið bara nokkuð sammála í aðalatriðum. Vonandi sjá sem flestir ljósið einnig.

„ … við skulum ekki tala um lúpínuna, Bernharður minn, sagði Fastagestur við gluggann, hún er plága, tapað stríð sem við háðum gegn sjálfum okkur, ég verð svo óendanlega sorgmæddur þegar ég sé lúpínu eða heyri á hana minnst, lúpínan er blá sorg, tákn fyrir sjálfshatur okkar, dapurlega sjálfsmynd, lúpínan er svo fögur planta og mögnuð, en misnotuð í eyðileggingarskyni eins og skógræktin gegn móanum og mýrinni og gervallri náttúrunni, það var Skógræktarstjóri ríkisins sem kom með lúpínuna í Öræfin fyrir 50 árum, við förum ekki í grafgötur um það, lúpínan hefur þegar eyðilagt margfalt stærri svæði en hörmungargosið 1362, en hún gerir það hljóðlega, lúpínan hegðar sér nákvæmlega eins og vírus, krabbamein, nákvæmlega eins og maðurinn, smeygir sér inn og eyðileggur allt innan frá og milljónfaldast; reynt var að fela grjótið þegar brúin var opnuð 1974, fela jökulöldurnar sem eru minnisvarðar um hvert jökullinn hefur teygt tungur sínar, fela sandinn, fela móana og fela melana, fela þessa minnisvarða um tímann og kraft náttúrunnar, skítugu börnin, öldurnar eru óþekkjanlegar og ófærar fyrir lúpínu, það er ekki lengur hægt að fá sér göngutúr um öldur og sker og skoða grjótið eins og maður gerði í gamla daga, sagði Fastagestur við gluggann, Tvískerjabræður hafa reynt ýmsar aðferðir til að uppræta þessa skæðu plöntu og endurheimta gömlu móana en án árangurs, fræin geymast að minnsta kosti í hálfa öld í jörðu eins og viðlegubúnaður í jökli, svo sprettur lúpínan upp óvænt hvar sem er og dreifir úr sér á ógnarhraða og kæfir og eyðileggur allt sem fyrir er, bæði gróður og auðn, eins og gusthlaup sýnt hægt … Allt sem heitir rækt … rækt er á móti náttúrunni, á móti lífinu, á móti Guði, hvort sem það er skógrækt eða sauðfjárrækt eða vaxtarrækt, ég er fyrst og fremst á móti allri rækt, sagði Fastagestur við gluggann á hótelinu í Freysnesi, ég er allur með Guði og náttúrunni, mönnum, dýrum, plöntum og grjóti og jökli og vindinum; ég er allur fyrir öræfin.“ (Öræfi, bls. 318-320)

 

Morsá

Lúpína á Skeiðarásandi komin yfir það litla vatn sem rennur þar sem Skeiðará breiddi úr sér áður. Eftir að Skeiðará hvarf á þessum slóðum er ekkert sem hindrar lengur landnám lúpínunnar vestur eftir gjörvöllum Skeiðarársandi. (Ljósmynd: EHV)

 


Til Vesúvíusar og Pompeii

Lengi hefur það verið á óskalista mínum að heimsækja vettvang atburðanna þegar borgirnar Pompeii og Herculaneum grófust undir ösku og eimyrju af völdum hamfaraeldgossins í Vesúvíusi árið 79 e.Kr. Þessi för varð að veruleika föstudaginn 24. júní í tengslum við Rómarferð en þangað hafði ég heldur ekki komið áður og var kominn tími á að bæta úr því. Farin var skipulögð dagsferð í rútu frá Róm með fararstjórum þar sem boðið var upp á skoðun á rústasvæði Pompeii og ferð upp á Vesúvíus en það getur verið nokkuð snúið að ná því hvoru tveggja á eigin vegum á einum degi. Þarna er mikið ferðamannakraðak, sérstaklega við túristamiðstöðina við Pompeii og þurftu fararstjórar hinna ýmsu hópa að hafa sig alla við að týna ekki sinni hjörð og halda hópnum saman.

Pompei og Vesúvíus
Rústasvæðið er auðvitað allt hið merkilegasta  en þegar þangað var komið ákváðum við skötuhjúin að rölta frekar um svæðið á eigin forsendum í staðin fyrir að halda hópinn, með góðfúslegu leyfi fararstjóra. Við urðum sjálfsagt af einhverjum fróðleik sem leiðsögukona útvarpaði í heyrnartól hvers og eins, en það er kannski þannig með okkur Íslendingana að við erum ekki eins miklar hópsálir og aðrir - nema kannski þegar kemur að fótbolta. Er við höfðum sameinast hópnum á ný á tilsettum tíma á réttum stað, var boðið upp á pizzuveislu (hvað annað?) áður en haldið var áfram með rútunni upp að Vesúvíusi þar sem ekið var eftir þröngum hlykkjóttum vegi langleiðina upp fjallið. Þar við bílastæðið var auðvitað veitinga- og minjagripasala og fullt af klósettum fyrir þá sem voru í spreng.

Vesúvíus - GígurUm 200 metra hækkun er frá bílastæði og upp að gígbrún í um 1200 metra hæð en þangað liggur góður göngustígur. Þótt Vesúvíus láti ekki mikið yfir sér þá er  toppgígurinn sjálfur nokkuð hrikalegur og djúpur að innanverðu með þverhníptum veggjum nær allan hringinn. Hægt var að ganga meðfram hálfum gígbarminum eftir göngustíg en hinn hlutinn er lokaður enda illfært klungur þar sem almenningur getur farið sér að voða. Talsvert var af ferðafólki þarna uppi og meira að segja hægt að kaupa minjagripi og smáveitingar á þremur stöðum við sjálfa gígbrúnina.

Sígild spurning varðandi eldfjöll snýst um hvenær næsta gos verður í fjallinu. Í ljósi sögunnar og aðstæðna flokkast Vesúvíus sem eitt af hættulegustu eldfjöllum jarðar. Kvikuþró fjallsins er mjög stór og mikil sprengivirkni og öskufall einkennir stærstu gosin. Hættulegust eru þó gusthlaupin sem verða þegar gosmökkurinn hrynur niður og eyðir öllu sem fyrir verður samanber það sem gerðist þarna árið 79. Gostíðni Vesúvíusar er hinsvegar mjög óregluleg og almennt eru gosin stærri eftir því sem goshléið á undan er lengra. Síðast gaus í fjallinu árið 1944 en þá rann dálítið af hrauni niður í byggð en fjallið náði þó að framkalla eina sæmilega sprengingu sem sendi ösku yfir nærliggjandi svæði. Það var fjórða gosið frá aldamótunum 1900 en tíð gos höfðu þá verið í fjallinu allt frá stóru og mannskæðu gosi árið 1630 sem einmitt kom eftir meira en tveggja alda hvíld. Fyrir stórgosið árið 79 hafði Vesúvíus ekki gosið í um 300 ár svo vitað sé og mun lengra var í verulegt gos.

Fyrir gosið árið 79 var Vesúvíus vaxið þéttum gróðri upp á topp og fjallið talið hættulast með öllu. Fólk var einnig alveg grunlaust um að hamfaragos væri í vændum þrátt fyrir ýmsa fyrirboða sem gætu talist augljósir í dag, svo sem mikil jarðskjálftavirkni og aukin jarðhitavirkni sem þurrkaði upp vatnsuppsprettur. Gosið sjálft stóð aðeins yfir í 2 daga en mestu hamfarirnar riðu yfir snemma morguns daginn eftir að gosið hófst. Í gosinu hurfu bæirnir Pompeii og Herculaneum af yfirborði jarðar enda grafnir niður í nokkurra metra þykkt öskulag auk þess sem strandlínan færðist utar um nokkra kílómetra. Samanlögð íbúatala bæjanna gæti hafa verið allt að 20 þúsundum en mannfall er á reiki. Nú er talað um að 2.000 manns gætu hafa látist af völdum gossins sem er lægri tala en oft hefur sést áður sem þýðir að verulegur fjöldi hefur þrátt fyrir allt náð að koma sér undan áður en gosstrókurinn hrundi yfir byggðir.

Vesúvíus - Napólí
Nú á dögum er fólk meðvitað um hættuna sem þarna er ávallt til staðar. Þrátt fyrir það er talsverð byggð á svæðinu sem teygir sig upp í hlíðar Vesúvíusar. Gróðursælt er í hlíðum fjallsins enda jarðvegur frjósamur eins og gjarnan í nágrenni eldfjalla. Fólk treystir hinsvegar á náttúrulega fyrirboða og nákvæma vöktun jarðvísindamanna. Allt hefur verið með kyrrum kjörum síðustu ár og áratugi en líkur á að næsta gos verði stórt, aukast með hverjum áratug sem hvíldartíminn lengist. Miðað við fyrri hegðun er fjallið þó ekki tilbúið í hamfaragos en til þess þarf fjallið að safna kröftum í að minnsta kosti 100 ár til viðbótar ef eitthvað er annars að marka slíka útreikninga.

Áhyggjur manna snúast þó ekki bara að Vesúvíusi sjálfum. Svæðið í heild sinni í nágrenni Napólíflóa er raunar samfellt eldfjallasvæði sem lætur lítið yfir sér á yfirborðinu og hefur verið til friðs lengi. Þarna eru stórar öskjur og undir þeim fleiri kvikuþrær. Stærsta kerfið nefnist Campi Flegrei og nær að hluta inn í borgina Napólí. Í raun má segja að þetta sé ein allsherjar ofureldstöð sem sífelld ógn stafar af fyrir þær þrjár milljónir manna sem búa á svæðinu frá Napólí til hlíða Vesúvíusar og sé fyrirvarinn stuttur er alveg óvíst að hægt sé að rýma svæðið á tilsettum tíma. Fyrir stærstu gosin ætti forleikurinn samt að gefa íbúum ráðrúm til að hugsa sinn gang. Það má samt hafa í huga að allra stærstu gosin sem möguleg eru á svæðinu eru hamfarir sem snerta mun stærra svæði en Napólíflóann. Þar má til dæmis nefna gos fyrir tæpum 40 þúsund árum en þá er talið að aska hafi fallið yfir hálfa Evrópu. Þetta stórgos er jafnvel nefnt sem einn af þeim þáttum sem gerði út af við Neanderthalsmanninn í álfunni á sínum tíma. Vér nútímamenn förum vonandi eitthvað betur út úr slíkum hamagangi en eitt er víst að Ítalía yrði ekki söm og áður. Ég er þó allavega sloppinn aftur heim í öruggt skjól á okkar eldfjallaeyju.


Þá er það fótboltinn

Eitthvað verður maður að skrifa um fótboltann enda er hann mál málanna fyrir flestum öðrum en hörðustu antisportistum. Að vísu er forsetakosningar á dagskrá í þessum mánuði en spennan liggur ekki þar enda úrslitinn löngu ráðin, nema hvað svo virðist sem tvísýnt gæti verið um annað sætið þótt ekki sé keppt í því.

Í fótboltanum er málið það að Íslenska karlalandsliðið keppir nú í fyrsta skipti á stórmóti í knattspyrnu og merkilegheitin snúast ekki síst um að Ísland er fámennasta þjóðin sem keppt hefur á svona stóru móti. Eins og oft áður erum við litla þjóðin gagnvart hinum stóru og það eitt hefur vakið athygli erlendra á okkur. Þúsundaþjóðin á móti milljónaþjóðum. Fyrirfram ætti það því að vera hreint formsatriði að tapa öllum leikjunum af miklu öryggi. En það er ekki alveg þannig. Við eigum ágætis fótboltamenn sem spila með sæmilegum liðum í stóru löndunum og þegar á hólminn er komið kemur í ljós að við erum ekkert mikið lélegri í fótbolta en hinir. Bara svolítið lélegri. Reyndar er getumunurinn á milli flestra liðanna almennt ekki mjög mikill og því getur allt gerst í hverjum leik. Getumunur milli einstaka leikmanna er heldur ekki svo mikill. Ronaldó hinn víðfrægi er sennilega ekki nema um 10% betri í fótbolta en bestu leikmenn Íslands enda var hann ekkert að leika sér að íslensku varnarmönnunum, sólaði ekki fjóra í hverri sókn og komst varla í almennilegt skotfæri við markið. Portúgalska landsliðið er heldur ekkert ofurlið þótt þessi mikli markaskorari sé þar fremstur í flokki. Þeir voru samt talsvert betri en okkar lið í heildina og gátu alveg verið svektir með jafnteflið.

Þegar þetta er skrifað hefur Íslenska liðið leikið tvo leiki á Evrópumótinu. Liðið hefur skorað jafn mörg mörk og það hefur fengið á sig og báðir leikirnir endað með jafntefli. Möguleiki er enn til staðar að sigra riðilinn og einnig að lenda í neðsta sæti í riðlinum. Hvað varðar mínar væntingar til liðsins þá höfum við með þessum tveimur jafnteflum nú þegar átt ágætis mót. Jafntefli er svo miklu skárra heldur en tap svo ekki sé talað um stórtap með margra marka mun. Tvö lið milljónaþjóða hafa til þessa tapað sínum leikjum með þremur mörkum gegn engu þannig að við getum vel við unað. Þessum jafnteflum okkar hefur verið náð með góðum og skipulögðum varnarleik fyrst og fremst. Miðjuspilið hefur verið öllu lakara þar sem sendingar hafa verið tilviljanakenndar og ratað álíka oft til andstæðingsins og til samherja. Það hefur þó sýnt sig að við getum skorað mörk af öllu tagi enda eigum við gott úrval af skæðum sóknar- og skotmönnum.

Það er þó einn leikur eftir í riðlinum en það er leikurinn á móti Austurríki. Þar ræðst hvort við komumst áfram í í 16 liða úrslit sem væri frábær staða en mögulega þurfum við til þess ekki að gera meira en að knýja fram enn eitt jafnteflið. Þriðja sætið í okkar riðli gæti komið okkur áfram í 16-liða úrslit. Betra er þó að lenda ofar í riðlinum. Þriðjusætisliðin fjögur sem munu komst áfram munu keppa við sigurlið úr öðrum riðlum þannig að best er alltaf að vinna riðilinn til að fá léttari andstæðinga. Austurríkisleikurinn er sem sagt lykileikurinn úr því sem komið er. Fyrst og fremt vonar maður að hann tapist ekki með mjög mörgum mörkum. Vægt tap er miklu skárra og allt fyrir ofan það er miklu betra. Tala nú ekki um að komast áfram á einhvern hátt í 16 liða úrslitin. Þá værum við allavega ekki neðar en í 16 sæti á þessu móti sem hlýtur að vera göfugt markmið.


Smáræði um forsetamálin

Það má slá því föstu að eftir nokkrar vikur verðum við komin með nýjan forseta að Bessastöðum. Hver það verður mun koma í ljós en vissulega verður einn frambjóðendanna að teljast sigurstranglegri en hinir. Framboðsmálin hafa verið nokkuð sérstök, allavega miðað við það sem áður tíðkaðist. Talað hefur verið um offramboð af frambjóðendum enda virðist ekkert tiltökumál fyrir suma að bjóða sig fram til forseta, jafnvel þótt fáir eða engir hafi skorað á þá. Auðvitað má fólk bjóða sig fram ef því sýnist en fæstir þeirra virðast þó gera sér grein fyrir því að vænlegustu forsetaefnin eru kölluð fram af almenningi en ekki frambjóðendunum sjálfum. „Fólkið velur forsetann“ eins og Ólafur Ragnar sagði að Ásgeir Ásgeirsson hafi sagt, en þá er auðvitað ekki verið að tala um gjörvallan almenning, heldur bara nógu stóran hluta hans.

Það var nokkuð ljóst í vetur að þrátt fyrir fjölda frambjóðenda þá vantaði alltaf raunverulegan valkost fyrir þennan almenning. Stungið var upp á ýmsum og alltaf einhverjir að stinga upp á sjálfum sér. Það vantaði samt eitthvað. „Ég get þá svo sem verið eitt tímabil í viðbót úr því að enginn almennilegur kemur fram“ gæti Ólafur hafa hugsað þegar hann lét til leiðast að vera áfram, þó hann hafi örugglega hugsað eitthvað annað líka. Merkilegt annars með hann Ólaf hvernig fylgjendahópur hans breyttist frá því hann var kosinn fyrst. Við þekkjum nokkuð vel hvernig það gerðist, en alltaf hefur hann verið umdeildur. Mig rámar í að einhverjir hafi talað um að flytja úr landi á sínum tíma ef svo færi að hann yrði forseti. Fæstir þeirra hafa látið verða af því og eru sjálfsagt hinir ánægðustu með forsetatíð hans þegar upp er staðið. Margir aðrir eru á allt öðru máli.

Svo maður nefni loksins núverandi frambjóðendur þá hefur maður heyrt álíka tal um búferlaflutninga ef svo færi að annaðhvort Andri Snær eða Davíð setjast á Bessastaði. Það er þó auðvitað sitthvort fólkið sem talar svona en báðir þessir frambjóðendur eiga sér einlæga stuðningsmenn og líka einlæga andstæðinga. Þeir eru andstæðir pólar og eiga nokkuð í land með að njóta stuðning fjöldans. Aldrei þó að vita hvernig mál þróast. Af þeim tveimur á Davíð sennilega meiri möguleika. Hann er sjóaður í pólitíkinni og vill sjálfsagt ljúka störfum fyrir hið opinbera með öðrum hætti en að hafa verið hrakinn úr Seðlabankanum af einhverjum óþekkum krökkum sem fljótlega gætu einmitt tekið völdin til að umbreyta öllu, eins og að skipta um stjórnarskrá, skipta um gjaldmiðil, svo ekki sé nú talað um kippa fótunum undan kvótakóngum. Nei, þá munu menn komast að því hvar Davíð keypti ölið. Reyndar verð ég að segja að þegar kemur að stjórnarskránni þá er ég nú dálítið á íhaldslínunni sjálfur. Að skipta um stjórnarskrá finnst mér ekki óskylt því að skipta um þjóðfána og þjóðsöng. Þjóðir gera ekki svoleiðis af gamni sínu en kosturinn við stjórnarskrár er að þó sá að alltaf má breyta þeim og bæta, séu menn sammála um það.

En svo er það Guðni Th.  – maðurinn sem kom, sá … en hefur ekki alveg sigrað enn. Hann er eiginlega þessi góði gæi sem gat eiginlega ekki annað en boðið sig fram eftir áskoranir hins stóra almennings, eða allavega nógu stórs hluta hans, eftir góða leiksigra í Sjónvörpum landsmanna. Kannski var það gott plott sem virkaði, en hafa verður í huga að ýmsir aðrir hafa birst á skjánum án þess að slá í gegn sem efni í forseta. Það þarf enginn að efast um að Guðni veit svona nokkurnveginn í hverju starfið er fólgið og væntanlega eru fáir sem hóta sjálfskipaðri útlegð fari svo að hann setjist á forsetastólinn. En annars mun þetta fara eins og þetta fer og auðvitað eru allir frambjóðendurnir hver öðrum hæfari á einhvern hátt.

 


Allt til reiðu fyrir sumabræðsluna miklu í Norður-Íshafinu

Sumarið er framundan á norðurslóðum með tilheyrandi bráðnun á ísbreiðunni. Við vitum ekki hvernig það mun nákvæmlega ganga fyrir sig en miðað við hvernig liðinn vetur hefur verið þá er alveg óhætt að gæla við þann möguleika að minni hafís verði þar í lok sumars en áður hefur sést á vorum dögum. Allt mun það þó ráðast af veðuraðstæðum næstu mánuði þannig að best er að fullyrða sem minnst.

Það sem skiptir hins vegar máli nú er að nýliðinn vetur var óvenju hlýr þarna upp frá sem þýðir að hafísinn náði ekki að þykkna eins mikið og hann gerir venjulega yfir vetrartímann. Sjálf útbreiðsla hafíssins hefur einnig verið með allra lægsta móti í allan vetur og í samræmi við það var árlegt vetrarhámark hafíssins það lægsta sem mælst hefur. Vorið hefur líka farið snemma af stað og allt sem bendir til þess að útbreiðslan nú um stundir sé sú lægsta miðað við sama tíma hin fyrri ár - allavega síðan 1979 er farið var að mæla með nákvæmum hætti með gervitunglum. Að vísu hefur eitthvað bilunarvesen í gervihnattarbúnaði verið að hrjá eftirlitsaðila, aðallega Bandaríska, en það sem virkar bendir þó allt til óvenju lítillar útbreiðslu hafíssins nú í upphafi bræðsluvertíðar. Þetta má til dæmis sjá á þessu línuriti sem byggir á gögnum frá JAXA-stofnuninni japönsku. Rauða línan stendur, eins og sjá má, fyrir það sem liðið er af árinu 2016. Gula línan er árið 2012 þegar sumarbráðnunin sló öll fyrri met.

JAXA linurit mai 2016

Til frekari glöggvunar er auðvitað bráðnauðsynlegt að líta á hafískort og hér koma því tvö samanburðarkort frá NSIDC. Kortið til vinstri sýnir útbreiðslu og þéttleika íssins þann 12. maí 2012 sem var einmitt vorið fyrir metbráðnunarsumarið mikla það ár. Til hægri er svo staðan þann 12. maí, árið 2016.

Iskort 12 mai 2012 og 2016

Í fljótu bragði er kannski enginn ógurlegur munur á þessum kortum. Norður-Íshafið er auðvitað þakið ís á þeim báðum en þarna eru þó atriði sem skipta máli. Á 2016-kortinu er til dæmis ísinn að mestu horfinn á Beringshafi milli Alaska og Síberíu og ísinn orðinn lélegur inn af Beringssundinu sjálfu. Merkilegt er svo hið myndarlega íslausa svæði norður af nyrstu ströndum Kanada við Beaufort-haf en það bendir til þess að ísinn sé kominn á hreyfingu og farinn að brotna upp mun fyrr en venjulega sem gæti skipt máli fyrir framhaldið.

Þetta íslausa svæði við Beaufort-haf er þó ekki endilega tilkomið vegna hlýinda þar undanfarið heldur frekar vegna mjög staðfastrar hæðar sem ríkti þar nálægt, mestallan aprílmánuð. Vindar umhverfis hæðina náðu sem sagt að koma ísnum af stað, og viðhalda réttsælis snúningi á stórum hluta ísbreiðunnar. Um leið stuðluðu vindar að færslu íssins að sundinu milli Svalbarða og Grænlands þar sem mikið af sleppur út úr prísundinni svipað og sjá má á myndinni hér að neðan sem sýnir hreyfingu íssins einn dæmigerðan dag seint í apríl.

Ísrek 28. apríl 2016

Þetta mikla uppbrot og tilfærsla á hafísnum má greinilega sjá á gervitunglamyndum. Svona mikið opið haf þarna norður af Kanada og Alaska er óvenjulegt þetta snemma árs en tilfærsla íssins á þessum slóðum er annars vel þekkt fyrirbæri, nema hvað að á veturna frjósa allar vakir næstum jafnóðum. Þessi opnun gerist þó á viðkvæmum tíma núna, ofaná allt annað. Myndin hér er að neðan er frá NASA og sýnir hið íslausa haf við Beaufort-haf en Ísland er þarna með til að sýna stærðarhlutföll.

NASA Beauforthaf maí 2016

Svo er bara að sjá til hvert framhaldið verður. Lágmarksmetið frá 2012 gæti alveg verið í hættu í lok sumars miðað við aðstæður nú. Það þykir vænlegt til ísbráðnunar að sólin skíni sem mest á þessum slóðum á meðan hún er sem hæst á lofti. Hlýtt loft úr suðri þarf svo að hafa góðan aðgang að Norður-Íshafinu til að hjálpa til við bráðnunina. Reyndar er einmitt hlýtt loft á ferðinni þessa dagana eins og svo oft í vetur. Síðasta myndin er kort sem sýnir áætluð hlýindi miðað við meðallag, þann 13. maí. Ef þannig hlýindagusur halda áfram í sumar er útlitið ekki bjart fyrir hafísinn.

Norðurslóðir Hitaspá 13 maí 2016

 


Stóra snjódagamyndin, 1986-2016

Enn einn veturinn er nú endanlega að baki og grundirnar fara senn að gróa - hér í Reykjavík að minnsta kosti. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta nýja útgáfu af stóru snjódagamyndinni sem á að sýna hvenær snjór hefur verið yfir jörðu í borginni. Myndin er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum á ýmsum veðurþáttum sem hófust á miðju ári 1986 og er þetta því 30. veturinn sem hefur verið færður til bókar. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna samanlagðan fjölda hvítra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki en sé ég í vafa þá miða ég við 50% snjóhulu í mínum garði undir miðnætti hvers dags. Nánari útlistanir eru undir myndinni.

Snjódagar 1986-2016

Eins og sést á tölunum hægra megin þá voru flestir hvítir dagar veturinn 1994-95 en fæstir voru þeir veturinn 2012-13. Undanfarnir tveir vetur voru af hvítara taginu með upp undir 100 hvíta daga og eru því meira í ætt við veturna fyrir aldamótin. Liðinn vetur var dálítið sérstakur að því leyti að fyrsti hvíti dagurinn kom ekki fyrr en 26. nóvember og hefur ekki komið síðar á skráningartímanum. En þegar snjórinn kom þá munaði um það því snjóþyngslin voru strax með þeim mestu sem mælst höfðu í Reykjavík í nóvember. Enn bætti í snjóinn og snemma í desember var snjódýptin 44 cm í Reykjavík og hefur ekki mælst meiri í þeim mánuði í borginni. Eftir alhvítan desembermánuð náði snjórinn að hverfa í tvígang í janúar en síðan tók við alhvítur febrúar. Það var þó ekki hægt að tala um snjóþyngsli í febrúar en þrálátur var hann. Eftir að snjórinn hvarf, snemma í mars, hefur aðeins einu sinni hvítnað og apríl hefur verið laus allra mála. Ef við fáum ekki síðbúna snjókomu í maí þá getum við reyndar sagt að snjótímabilið hafi ekki verið styttra á því tímabili sem myndin nær yfir, allavega miðað við þessar skráningar. Það var þó ansi hvítt meðan á því stóð.

Garður 1. des 2015

Snjóþyngsli í garðinum heima, að kvöldi 1. desember 2015.


Orustuflugvélin í Grænlandsjökli

Fyrir nokkru sá ég þessa skopteikningu í netheimum þar sem komið er inn á áhugaverða sögu bandarískrar orustuflugvélar á stríðsárunum sem þurfti að nauðlenda á Grænlandsjökli þar sem hún átti eftir að hverfa í jökulinn uns hún fannst aftur áratugum síðar. Skopið í myndinni felst í að benda á það sem mörgum kann að þykja ankannalegt að á sama tíma og Grænlandsjökull er sagður vera að bráðna vegna hnattrænnar hlýnunar, þá skuli flugvél sem lendir á jöklinum og skilin þar eftir, geta grafist niður ein 268 fet í jöklinum. "Damn this Global Warming!!" eins og pirraður gröfumaðurinn, segir í myndatexta.
Skopmynd 268fet
Misskilningurinn og það sem í raun er skoplegt við þessa mynd er þó að í henni endurspeglast viss fáfræði í grundvallaratriðum jöklafræða. Það er þó kannski ekki endilega við teiknarann að sakast. Skopmyndir eru auðvitað meira upp á grínið frekar en raunveruleikann. Það er þó ekki víst að allir þeir sem kunna að meta húmorinn, átti sig á vitleysunni og telja myndina ágætis innlegg sem gagnrýni á meinta hnattræna hlýnun af mannavöldum.

Málið með jökla er að allt sem skilið er eftir á hábungu þeirra, grefst niður með tímanum, jafnvel þótt jökullinn fari minnkandi. Á efri hluta jökla er safnsvæði þeirra og þar hleðst hvert snjólagið ofan á annað með hverjum vetri. Jökullinn hækkar þó ekkert endilega og getur jafnvel lækkað en það fer eftir hversu mikið bráðnar á móti á leysingarsvæðunum sem liggja nær jökuljaðrinum og er þá talað um jákvæðan eða neikvæðan jöklabúskap. Flugvélin sem þarna lenti á sínum tíma ofan á hábungu Grænlandsjökuls gat því ekki annað en grafist niður og borist áfram með jöklinum sem skríður undan eigin fargi og hefði birst að löngum tíma liðnum á leysingarsvæðinu einhversstaðar í skriðjökli, illa kramin auðvitað. En það átti reyndar ekki við um þessa flugvél. Henni var nefnilega bjargað og flogið á ný!

Saga flugvélarinnar, sem hlotið hefur nafnið Glacier Girl og er að gerðinni Lockheed P-38 Lightning, er annars sú að árið 1942 var ákveðið að ferja mikinn fjölda Bandarískra stríðsflugvéla til Bretlands og var það liður í innrásarplönum bandamanna í Frakkland á þeim tíma (sem átti eftir að frestast um tvö ár). Alls voru 920 flugvélar sendar yfir hafið í þessari aðgerð og lá leiðin yfir Grænland og með viðkomu á Reykjavíkurflugvelli að sjálfsögðu. Ekki voru allar af hinum smærri vélum gerðar til slíks ferðalags en það þótt nokkuð gott að alls skiluðu sér 882 flugvélar á leiðarenda. Mestu afföllin voru reyndar um miðjan júlí '42 þegar alls átta flugvélar, sem flugu saman í hóp, þurftu að nauðlenda á Grænlandsjökli vegna eldsneytisskorts eftir að hafa snúið við vegna veðurs áður en þær náðu til Reykjavíkur. Í hópnum voru sex P-38 vélar og þar á meðal vélin sem fjallað er um hér. Auk þeirra voru tvær stærri B-17 vélar sem margir kannast við undir viðurnefninu Fljúgandi virki (Flying Fortress) en þær voru betur búnar siglingatækjum og fóru því fyrir fluginu. Öllum flugmönnum var að lokum bjargað eftir mikinn barning á jöklinum.

Eftir því sem leið frá stríðslokum fór áhugi manna á gömlum flugvélum frá stríðsárunum að aukast enda eftirspurnin meiri en framboðið. Þá var smám saman farið að huga að vélunum átta sem nauðlent höfðu og skildar voru eftir á Grænlandsjökli sumarið 1942. Fyrstu leitartilraunir voru gerðar árið 1977 en það var ekki fyrr en árið 1988 sem vísbendingar um flugvélarnar fundust með aðstoð íssjár og reyndust vélarnar liggja dýpra í jöklinum en menn höfðu áætlað og auk þess um tveimur kílómetrum frá upphaflegum lendingarstað enda jökullinn á stöðugri hreyfingu. Árið 1990 var gerður út leiðangur og boruð hola niður að því sem fundist hafði og reyndist það vera önnur B-17 vélanna en hún reyndist þegar til kom of illa farin til að reyna að ná henni upp.

GlacierG undir ísnumTveimur sumrum seinna, árið 1992 eða 50 árum eftir nauðlendinguna, var gerð önnur tilraun og þá komu menn niður á nokkuð heillega P-38 vélina á 268 feta dýpi (82 metra) og skemmst frá því að segja að vélinni var náð upp með því að flytja hana upp í bútum og flutt þannig til Bandaríkjanna þar sem vélin var gerð upp og komið í flughæft ástand með miklum glans. Til að auka veg flugvélarinnar enn meir var árið 2007 gerð tilraun til að fljúga henni þá leið til Bretlands sem upphaflega var áætluð árið 1942. Það gekk þó ekki betur en svo að vélin þurfti að nauðlenda á flugvelli á Labradorskaga vegna vélarbilunar og ferðinni að lokum aflýst. Samkvæmt heimildum er henni haldið í flughæfu ástandi og treður gjarnan upp á flugsýningum í Bandaríkjunum við góðan fögnuð viðstaddra.

Þegar til kom varðveitti jökullinn flugvélina sem aldrei náði leiðarenda. Hinar flugvélarnar sjö sem einnig lentu á jöklinum halda væntanlega áfram að grafast dýpra niður í Grænlandsjökul og leifar þeirra munu skila sér úr jöklinum í fyllingu tímans, alveg óháð því hvernig Grænlandsjökull mun spjara sig í hlýnandi heimi, hversu skoplegt sem það nú er.

P-38 á flugi

Uppgerða orustuflugvélin Lockheed P-38 Lightning "Glacier Girl" á flugi.

- - -

Heimildir og ljósmyndir:
http://www.damninteresting.com/exhuming-the-glacier-girl
https://en.wikipedia.org/wiki/Glacier_Girl

 


Ákvörðun forsetans gæti styrkt stöðu Andra Snæs

Sú ákvörðun Ólafs Ragnars að bjóða sig fram enn á ný er athyglisverð, svo ekki sé meira sagt og breytir auðvitað landslaginu framboðsmálunum. Svo maður bollaleggi aðeins um þetta þá var staðan sú, áður en forsetinn tilkynnti ákvörðun sína, að Andri Snær Magnason var eini frambjóðandinn sem naut fylgis að einhverju ráði. Hann er að vísu umdeildur, reyndar eins og Ólafur hefur alltaf verið sjálfur. En Andri Snær var þrátt fyrir allt ekki líklegur til að vinna kosningarnar. Hann var ekki á leiðinni á Bessastaði, vegna þess að annar vænlegur frambjóðandi, Guðni Th, var í startholunum. Það annálaða prúðmenni lá ekki bara ylvolgt undir feldi, heldur var orðinn alveg sjóðheitur og bara tímaspursmál hvenær hann tilkynnti um sitt framboð. Já, það átti bara að gerast í vikunni. Guðni hefði unnið kosningarnar. Hann hefði fengið megnið af fylgi Ólafs Ragnars og gott betur, því Andri Snær höfðar ekki til allra og alls ekki heldur til allra þeirra sem hugnast ekki að kjósa herra Ólaf.

En úr því að Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig fram enn á ný, þvert á fyrri yfirlýsingar, gerist það að í stað þess að baráttan standi á milli Andra Snæs og Guðna Th, þá stendur baráttan allt í einu á milli Andra Snæs og Ólafs Ragnars. Sú staða er að mínu mati betri fyrir Andra Snæ því hann á meiri möguleika í þeim slag heldur en í slagnum gegn Guðna Th. sem væntanlega hættir við af sinni áðurnefndri prúðmennsku enda kann hann ekki við að heyja kosningabaráttu gegn sitjandi forseta.

Það er þó ekki þar með sagt að Andri Snær hefði það gegn Ólafi, sjálfum forsetanum, en það gæti orðið mjög tvísýnt. Þótt Ólafur njóti góðs fylgis eru einnig afskaplega margir sem vilja alls ekki sjá hann sitja áfram og sjá þann kost vænstan að velja Andra Snæ, hvort sem þeir eru einlægir aðdáendur hans eða ekki, enda alveg ljóst að hann er sá eini sem á einhvern möguleika í sitjandi forseta.

Þó er kannski ekki alveg útséð með Guðna Th. og ef hann færi fram þá gæti þetta orðið enn tvísýnna. Eiginlega myndi ég giska á að hver um sig, þeir Ólafur, Andri og Guðni Th. gætu allir náð eitthvað um 30% atkvæða og ómögulegt að segja hver þeirra hefði það. Restin fengi þá um 10% samanlagt, svo framarlega að ekki komi fram enn eitt þungavigtarframboðið, sem er svo sem ekkert mjög líklegt.

En svona er kosningakerfið okkar. Sá sem fær mest, hann vinnur og verður forseti. Jafnvel þótt hið mesta sé ekki svo mikið. Sumir vilja hræra í þessum einfalda kerfi. Gallalaust kosningakerfi er reyndar ekki til. Tvær umferðir til að tryggja meirihluta er svolítið rausnarlegt fyrir embætti sem er í raun aðallega heiðursembætti. Það mætti þó kannski íhuga slíka reglu ef sigurvegarinn nær ekki 30% greiddra atkvæða, en það getur aðeins gerst ef frambjóðendur eru fjórir eða fleiri (eða er það ekki annars?).

Steinn

Mynd: Steinhissa steinn á vestfirskri heiði. (EHV)


Hvernig kemur Esjan undan vetri? Myndasyrpa

Esjan kemur misjafnlega undan vetri milli ára rétt eins og stjórnmálamenn. Mánudaginn 4. apríl skartaði fjallið sínu fegursta og sólargeislarnir gerðu sitt til að vinna á snjósköflum liðins vetrar. Þetta var líka kjörinn dagur til að taka hina árlegu samanburðarmynd af Esjunni fyrstu vikuna í apríl. Fyrsta myndin var tekin í aprílbyrjun 2006 og eru myndirnar því orðnar 11 talsins og koma þær allar hér á eftir í öfugri tímaröð, ásamt upplýsingum hvort og þá hvenær allur snjór hefur horfið úr Esjuhlíðum. Það má sjá greinilegan mun á milli ára. Til dæmis var Esjan alhvít um þetta leyti í fyrra í kuldalegri tíð en öllu minni var snjórinn árið 2010 enda hvarf snjórinn óvenju snemma það sumar.

Undanfarin þrjú sumur hefur Esjan ekki náð að hreinsa af sér alla snjóskafla frá borginni séð og var reyndar nokkuð fjarri því í fyrra. Það út af fyrir sig minnkar líkurnar á að Esjan nái að verða alveg snjólaus í ár því undir snjóalögum þessa vetrar lúra enn skaflar sem sem urðu eftir síðasta sumar. Núverandi skaflar eru auk þess sæmilega massífir að sjá þannig að nú reynir á sumarið ef allur snjór á að hverfa fyrir næsta vetur. En þá eru það myndirnar.

Esja april 2016

Esja april 2015

Esja april 2014

Esja 3. apríl 2013

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006

 


Vetrarhitamósaík

Veturinn sem nú er að baki var ekkert sérlega hlýr í borginni og reyndar bara frekar kaldur miðað við flesta vetur þessarar aldar. Þó var það þannig að almennilegar frosthörkur gerðu lítið vart við sig, að minnsta kosti hér í Reykjavík og vegna skorts á hlýindaköflum að auki var þetta frekar flatneskjulegur vetur í hitafari miðað við það sem oft gerist. Þetta má sjá mósaíkmyndinni sem byggð er á eigin skráningum og sýnir hitafar yfir vetrarmánuðina nóvember-mars í Reykjavík allt aftur til ársins 1989. Myndin er einfölduð þannig að í stað stakra daga er meðalhitinn tekinn saman nokkra daga í senn. Að venju miða ég við dæmigerðan hita yfir daginn en tölurnar lengst til hægri er hinsvegar reiknaðar út frá opinberum mánaðarhitatölum Veðurstofunnar. Ég veit að almennt telst nóvember ekki til vetrarmánaða en finnst þó sjálfum betra að hafa hann með.
Vetrarhitarmósaík 1989-2016
Í heildina þá sést ágætlega hvernig veturnir fóru að verða hlýrri upp úr aldamótum með áberandi fleiri hlýindaköflum um hávetur og að sama skapi færri kuldaköstum. Veturinn 2002-2003 er afgerandi hlýjastur (3,2 stig) en kaldast var veturinn 1994-1995 (-1,0 stig). Síðustu tveir vetur eru frekar svipaðir upp á hitafar að gera en greinilegt er að hlýindaköflum um hávetur hefur fækkað miðað við það sem var fyrir nokkrum árum. Við fengum þó ágætan vikuskammt af hlýindum núna í mars sem gerði alveg út af við snjó og klaka í borginni.
Best finnst mér að segja sem minnst um hvort hlýindi síðustu ára séu að baki. Þau hlýindi voru óvenjuleg hvað sem öðru líður og því ekkert óeðlilegt að það kólni eitthvað hér hjá okkur. Það er þó dálítið sérstakt að við höfum alveg farið á mis við þau miklu hlýindi sem einmitt hafa einkennt norðurhluta jarðar þennan vetur. En það getur alltaf breyst.

- - - -
Það má annars velta sér upp úr tíðarfarinu og bera saman við fyrri ár á ýmsan hátt. Í næstu færslu verður það einnig gert. Þar er um að ræða einn fastasta árlega fastalið þessarar síðu. Föstustu lesendur vita kannski hvað átt er við.

 


Heimsmet í hafísleysi

Nú er sá tími ársins sem hafísinn í norðurhöfum ætti að vera í sínu árlega hámarki og því tilvalið að skella í smá stöðuyfirlit. Áður en komið er að sjálfum hafísnum er þó ágætt að kíkja á hitafarið sem hefur lengst af í vetur einkennst af talsverðum hlýindum yfir Norður-Íshafinu eins og sjá má á kortinu sem sýnir frávik frá meðalhita síðustu 90 daga. Þrátt fyrir rauða litinn er samt hörkufrost þarna uppfrá. Munurinn er þó sá að hörkufrostið er öllu mildara en venjulega og Norður-Íshafið er eftir sem áður algerlega hulið hafís. Vegna "hlýindanna" ætti ísinn hinsvegar að þykkna eitthvað minna þennan vetur sem gæti haft sitt að segja þegar kemur að sumarbráðnuninni.

Heimshiti 90 dagar

Útbreiðslu íssins um þessar mundir má sjá hér á kortinu. Það sem helst einkennir stöðuna núna er mjög lítill ís umhverfis Svalbarða og norður af Barentshafi en þar spila inn í hin miklu hlýindi sem verið hafa á norðurslóðum í vetur. Hafís 18.mars2016Reyndar hefur ísinn varla náð að norðurströndum Svalbarða í vetur sem er eiginlega mjög spes. Ísinn hefur einnig haldið sig víðsfjarri Íslandsströndum í vetur. Vindáttir í Grænlandssundi hafa verið okkur hagstæðar en almennt er þó ekki mikill liðssafnaður af hafís til staðar til að herja á okkur og liðsauka ekki að vænta miðað við vígstöðuna norðar. Hinsvegar vill svo til að hafísinn hefur náð sæmilegri útbreiðslu miðað við meðallag á svæðum sem eru fjærst Norðurpólnum. Þar á ég við hafssvæðin vestur af Nýfundnalandi og einnig alveg hinumegin, við Okhotskhaf sem liggur á milli Kamtsjatkaskaga og Japanseyja, en það er reyndar sá staður á norðurhveli sem kaldastur hefur verið í vetur, miðað við meðallag. Ástandið á sjálfu Norður-Ísahafinu skiptir þó mestu máli þegar bræðsluvertíðin að sumarlagi hefst enda mun flestallt annað bráðna fljótt örugglega fyrri part sumars.

Samanlagt hefur útbreiðsla hafíssins á Norðurhveli verið með minnsta móti allt frá áramótum og stundum sú lægsta miðað við síðustu 10 ár, eins og sést á línuritinu frá NSIDC. Brúna línan stendur fyrir árið 2016 en meðalútbreiðsla áranna 1981-2010 er sýnd með grárri línu. Lægsta hámarksútbreiðsla sem mælt hefur var reyndar í fyrra en það er ekki alveg útséð með hámarkið í ár þegar þetta er skrifað. Enn er þó möguleiki að hámarkið verði lægra í ár. Það er þó tæpt vegna norðanátta við Svalbarða þessa dagana en þær hafa reyndar verið sjaldgæfar í vetur.

Hafísshámark 2016
Reyndar eru til ýmsir mælikvarðar í sambandi við hafísinn og það mætti lengja þessa bloggfærslu með því að tala um þykktarmælingar og flatarmálsmælingar sem reyndar segja svipaða sögu og útbreiðslan. Það má þó nefna eitt met sem klárlega var sett í vetur en það var í febrúar þegar samanlagt flatarmál hafíssins á suður- og norðurhveli mældist það minnsta frá upphafi nákvæmra gervitunglamælinga 1979. Slíkt met er eiginlega bara hægt að setja í febrúar þegar hásumar er á suðurhveli og hafísinn þar er minnstur. Að þessu sinni fór það svo að sumarísinn á suðurhveli var með minna móti eftir nokkurra ára hlé og þegar það fór saman við óvenjulitla febrúarútbreiðslu á norðurhveli var metinu náð. Það má kannski kalla þetta "heimsmet í hafísleysi" en ég viðurkenni að það er heldur mikil æsifréttamennska að setja það í fyrirsögn. Línuritið er hluti af stærra línuriti af síðunni Cryosphere Today og nær þar alveg aftur til 1979, sem breytir þó ekki metinu.

Heimsmet í hafíssleysi

Myndir og heimildir:
http://www.esrl.noaa.gov/psd/map/images/rnl/sfctmpmer_90b.rnl.html
http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/
http://nsidc.org/arcticseaicenews/

 


Svakalega hlýtt yfir jörðinni í febrúar

Ég minntist eitthvað á það í lok janúar að fróðlegt yrði að sjá hvernig gervitunglamælingar á hita jarðar myndu bregðast við El-Nino ástandinu í Kyrrahafinu. Nú eru tölur fyrir febrúarmánuð komnar í hús og niðurstaðan er skýr: Stórt stökk upp á við og svo mikið reyndar að enginn mánuður, frá upphafi gervitunglamælinga árið 1979, mælist með meira frávik frá meðalhita. Þetta má sjá á línuritinu sem sýnir þróun hitans í neðri hluta lofthjúps en samkvæmt gervitunglamælingum UAH (University of Alabama in Huntsville) mældist febrúar 0,83°C yfir meðallagi. UAH er annar tveggja aðila sem framkvæmir svona gervitunglamælingar. Hinir aðilarnir koma frá Kaliforníu og skammstafast í daglegu tali RSS (Remote Sensing System). Þeir hafa einnig birt sínar febrúartölur og er þær reyndar enn hærri eða +0,97°C.

UAH febrúar 2016

Fram að þessu höfðu hlýindi fyrri hluta árs 1998 borið höfuð og herðar yfir aðrar uppsveiflur og gnæft yfir allt annað eins og illsigranlegur hraundrangi sem minnir útlitslega á þann sem finna má í Öxnadal. Nú er hins vegar kominn annar toppur, enn hærri. Spurning er síðan hvort toppnum sé náð í ljósi þess að það var aprílmánuður sem toppaði árið 1998. Það er þó vel mögulegt að toppnum sé náð núna en óvenjumikil hlýindi á norðurslóðum eiga sinn þátt að hlýindum að þessu sinni og hefur hafísinn einmitt fengið að kenna á því. Sumir binda þó vonir við komandi La Nina ástand sem óhjákvæmilega tekur við næsta vetur og ljóst að hitaferillinn skilar sér þá aftur niður – jafnvel niður fyrir núllið.

Nú er það svo að vantrúarmönnum um hlýnun jarðar af mannavöldum, hefur verið tíðrætt um að ekkert hafi hlýnað á jörðinni í einhver 18 ár. Sú fullyrðing hefur einmitt verið rökstudd útfrá niðurstöðum gervitunglaathugana á vegum UAH og RSS sem ber nokkuð vel saman nú um stundir. Það eru einmitt 18 ár síðan síðasta stóra uppsveifla var í hitagögnum þessara aðila og eins og nú kom sú mikla uppsveifla í kjölfar mjög öflugs El Nino ástands í Kyrrahafinu. Hitatoppurinn núna kemur því ekki á óvart. Það má segja að fastlega hafi verið búist honum enda búið að vera öflugt El Nino ástand undanfarið og vitað að hiti í neðri hluta lofthjúps er mjög næmur fyrir þessum El Nino/LaNina sveiflum í Kyrrahafinu. 18 ára pásunni í þessum gagnaröðum er allavega lokið, hvað sem síðar verður.

Um áreiðanlega gervitunglagagna umfram hefðbundnar mælingar á jörðu niðri má alltaf deila enda er eitthvað gert af því. Þær gagnaraðir sem byggja á mælingum á jörðu niðri sýna heldur meiri hlýnun eftir 1998 og samkvæmt þeim var árið 2015 afgerandi hlýjasta árið. Gervitungl mæla ekki hitann við yfirborð jarðar en leggja í stað þess áherslu hitann í 1 til 8 km hæð. Þetta er því alls ekki sama loftið sem er verið að mæla. Báðar aðferðirnar segja þó sína sögu en eiga vissulega báðar við sín vandamál að stríða, þurfa leiðréttinga við og eru sífellt í endurskoðun. UAH gagnaröðin sem nú er í notkun heitir t.d. Version 6,0 beta5. Það má koma fram að umsjónarmenn hennar eru þekktir sem vel volgir efasemdamenn um hlýnun jarðar af mannavöldum og eru því í mismiklum metum eftir því hver dæmir. Síðasta stóra endurskoðunin kom fram í fyrra og er ennþá í prufukeyrslu. Í þeirri endurskoðun var hiti síðustu ára lækkaður dálítið þannig að hlýnunin eftir 1998 varð nánast engin. UAH gagnaröðin varð þar með líkari RSS gagnaröðinni sem einmitt sýndi litla eða enga hlýnun eftir 1998. Teikn eru þó á lofti um að RSS-menn séu að uppfæra sína gagnaröð í átt til meiri hlýnunar eftir 1998 og þá meira í áttina að athugunum á jörðu niðri. Þeir sem taka saman gögn um þróun hita yfirborðs jarðar hafa einnig gengið í gegnum sínar endurskoðanir og þá gjarnan í átt til meiri hlýnunar, eins og tilfellið var á síðasta ári (t.d. NASA-Giss, NOAA og HadCrud). Sjálfsagt hafa menn sínar ástæður fyrir þessum endurskoðunum. Í tilfelli gervitunglamælinga eru menn til dæmis að glíma við misgömul og misáreiðanleg gervitungl í þessum nákvæmisvísindum (sbr. greinargerð frá Roy Spencer hjá UAH: Version 6.0 of the UAH Temperature Dataset Released og þessi tilkynning frá RSS: Release of RSS V4.0 TMT and TTT Air Temperature Data)


En flækjum þetta ekki meira. Hlýjasti mánuður í sögu gervitunglamælinga er nýliðinn febrúar – og úr því að þeir hjá UAH segja það þá hlýtur það að vera rétt. Niðurstöður athugana á jörðu niðri liggja fyrir síðar í mánuðinum.

Best að enda þetta á myndinni hér að neðan frá honum Bob Tisdale þar sem borin er saman hitaþróun jarðar frá 1979 til janúar 2016 samkvæmt athugunum gervitungla og yfirborðsmælinga. (Ath. hér er febrúar 2016 ekki kominn inn)

Graf Bob Tisdale


Þyngdarbylgjur og stórir framtíðaratburðir

Fréttir af hinum dularfullu þyngdarbylgjum hafa verið nokkuð áberandi í kjölfar þess að vísindamönnum tókst í fyrsta skipti að greina slík fyrirbæri með þar til gerðum hátæknibúnaði og staðfesta þar með kenningar Einsteins um tilvist þeirra. Best er að segja sem minnst sjálfur hvers konar fyrirbæri þessar þyngdarbylgjur eru. Það er þó ljóst að þær myndast þegar tvö massamikil fyrirbæri að snúast um hvort annað eða sameinast þannig að gárur myndast á þyngdarsviðinu og þar með einnig á tímarúmið. Áhrif þyngdarbylgja sem skella á okkur eru samt varla nokkur, nema hvað tíminn ætti ýmist að hraða eða hægja á sér rétt á meðan bylgjurnar ganga yfir, en þó alveg án þess þó að við tökum eftir því.

Þyngdarbylgjur

Upphaflegi atburðurinn sem olli umræddum þyngdarbylgjum eru ekkert nýskeður. Þar var líklegast um að ræða tvö svarthol sem snúist hafa um hvort annað þar til þau sameinuðust en sá lokasamruni framkallaði einmitt mesta útsláttinn á þyngdarsviðinu. Þetta mun hafa gerst víðsfjarri í okkar eigin Vetrarbraut fyrir um 1.300 milljörðum ára, sem er nálægt einum tíunda af aldri alheimsins. Til samanburðar má líka hafa í huga að aldur sólkerfisins og jarðarinnar er um 4.600 milljarðar ára. Samruni svartholana er örugglega hin merkilegasti atburður en þó sennilega nokkuð hversdagslegur á alheimsvísu. Svartholin hafa væntanlega bæði orðið til þegar mjög massamiklar sólstjörnur féllu saman í fyrndinni. Okkar sól mun á sama hátt einnig falla saman í fjarlægri framtíð en hún er þó ekki nógu stór til að mynda svarthol. Hún dugar þó í þéttan hvítan dverg sem getur orðið afar langlífur, svo fremi að hann verði ekki einhverju svartholinu að bráð á ævi sinni.

Öllu stærri atburðir í framtíðinni
Næstum allt sem við sjáum með góðu móti á stjörnuhimninum tilheyrir okkar stjörnuþoku – Vetrarbrautinni, eða því sem upp á ensku er kallað "the Milky Way". Vetrarbrautin er í raun okkar heimur og inniheldur nokkur hundruð milljarða sólstjarna sem snúast allar um eina miðju og það tekur sinn tíma. Umferðartími sólar er til dæmis um 240 milljón ár. Það sem heldur öllu saman í Vetrarbrautinni og allt snýst um, er gríðarstórt svarthol sem staðsett er í miðjunni og heldur öllu kerfinu saman, svipað og sólin gerir í okkar sólkerfi í smærri skala. Sama gildir líka um þær ótal stjörnuþokur sem til eru af ýmsum gerðum í hinum ofurstóra alheimi - þær innihalda líka risasvarthol, eftir því sem best er vitað.


Andrometa

Okkar stjörnuþoka á nágranna sem er Andromeda. Hún er heldur stærri en Vetrarbrautin en þó í sama stærðarflokki og í miðju hennar er einnig svarthol. Mjög stórt svarthol, auðvitað. Þvermál Vetrarbrautarinnar er um 180 þúsund ljósár en þvermál Andromedu er um 220 þúsund ljósár. Fjarlægðin á milli þeirra er um 2.500 þúsund ljósár (2,5 milljón) sem þýðir að fjarlægðin til Andromedu er rúmlega fjórtánfalt þvermál Vetrarbrautarinnar. Málið er hinsvegar að bilið milli þessara tveggja stjörnuþoka er stöðugt að minnka. Andromeda er sem sagt á leið til okkar á hraða sem nemur 110 kílómetrum á sekúndu og það stefnir í árekstur!

Við getum þó verið róleg. Árekstur Vetrarbrautarinnar og Andromedu mun ekki eiga sér stað á meðan við lifum því það verður ekki fyrr en eftir 3.750 milljón ár sem talið er að Andromeda verði komin upp að Vetrarbrautinni. Hér má aftur rifja upp að sólkerfið okkar um 4.600 milljón ára. Áreksturinn verður þó ekkert sérlega snöggur og það fyrsta sem gerist er að stjörnuþokurnar tvær fara eiginlega í gegnum hvor aðra á milljónum ára og fjarlægast svo á ný. Við þetta riðlast algerlega öll uppbygging í báðum stjörnuþokunum þannig að sólstjörnurnar fara allar meira og minna á tvist og bast. En þetta er bara byrjunin, því þegar stjörnuþokurnar hafa náð áttum eftir fyrsta stefnumótið fara þær aftur að dragast hvor að annarri uns þær ná endanlega að rugla saman reitum og gjörvallur stjörnuskarinn fer að snúast um miðju sem samanstendur að tveimur risasvartholum sem snarsnúast hvort um annað, nokkur þúsund milljónum ára eftir fyrsta stefnumótið.

Ekki er talin hætta á að sólin og sólkerfið verði fyrir nokkru hnjaski af þessum völdum enda óralangt á milli sólstjarna. Hitt er þó verra fyrir Jörðina að eftir 5000 milljón ár, meðan á sameiningarferli Andromedu og Vetrarbrautarinnar stendur, verður Sólin stödd á því þroskaskeiði að hún fer að þenjast út. 

Red_Giant_Earth_warm

Jörðin er þá fyrir allnokkru orðin algerlega líflaus pláneta og svipuð og Venus er nú, en lífvænlegur hluti sólkerfisins hefur flust til ytri pláneta sólkerfisins eða fylgitungla þeirra. Það er alveg öruggt að Merkúr og Venus verða gleyptir og bræddir upp af Sólinni þegar hún hefur þanist út.Mjög líklegt þykir að Jörðin hljóti sömu örlög og mögulega einnig Mars þegar Sólin hefur náð sinni hámarksstærð sem rauður risi eftir svona 8000 milljón ár. Eftir það snarfellur hún saman aftur og endar sem hvítur dvergur, helmingi massaminni en hún er í dag og jafnvel minni en Jörðin okkar. Smám saman kólnar svo þessi hvíti dvergur og breytist í svartan kaldan dverg á óralöngum tíma.

En aftur að sameiningu Vetrarbrautarinnar og Andromedu. Svartholin gríðarstóru sem tilheyrðu hvorri stjörnuþoku verða æ nærgöngulli hvort við annað í sínum óða hringdansi og svo fer að lokum að þau fallast í faðma og sameinast í eitt ennþá stærra risasvarthol. Sameiningin er þá fullkomnuð. Ómögulegt að vita hvort eitthvað meiriháttar sjónarspil verður þessu samfara, enda eru svarthol ekki mikið fyrir að láta bera á sér, enda eru þau líka svarthol. Þyngdarbylgjurnar sem verða til við þennan lokasamruma er hins vegar annað mál. Maður getur rétt ímyndað sér að þær verði á allt öðrum skala en þyngdarbylgjur þær sem menn voru að mæla nú á dögunum, með hárfínustu nákvæmni. Þær þyngdarbylgjur urðu til vegna sameiningar tveggja vesælla svarthola fyrrum sólstjarna sem varla er orðum á gerandi miðað við þau ógnarstóru svarthol sem munu sameinast þegar Vetrarbrautin og Andromeda rugla saman reitum. Kannski munu einhverjar viti bornar verur í fjarlægri framtíð ná að mæla eitthvað af þeim og taka saman um það lærðar skýrslur.

Fyrirhugaðan árekstur og sameiningu Vetrarbrautarinnar og Andromedu má sjá hér í lifandi mynd:

 
Meðal heimilda má nefna athyglisverðu síðu af Wikipediunni þar sem farið er yfir það helsta sem mun gerast í heiminum í langri framtíð:
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband